7.2.2021 | 13:12
Rannsóknarskýrsla mín fyrir 2020
Við háskólakennarar þurfum árlega að skila skýrslu um rannsóknir okkar. Hér er mín fyrir 2020.
Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers, Part 1. Brussels: New Direction, 2020. 350 pp.
Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers, Part II. Brussels: New Direction, 2020. 534 pp.
Greinar í tímaritum:
U. S. Election Results: Could Have Been Worse. The Conservative (online) 11 November 2020.
U. S. Elections: The Misconception of the Popular Vote, The Conservative (online) 12 November 2020.
Nozick and the Experience Machine, The Conservative (online) 16 November 2020.
The Real Thatcher: Not in The Crown, The Conservative (online) 29 November 2020.
Churchill in Iceland, The Conservative (online) 30 November 2020.
The Folly of the Common Fisheries Policy, The Conservative (online) 10 December 2020.
Erindi á alþjóðlegri ráðstefnu
The Politics of Pandemics. Online lecture at a virtual conference organised by the Austrian Economics Centre (Vienna) 8 May 2020.
Ritdómar
Vaknað af draumi. Ritdómur um Drauma og veruleika eftir Kjartan Ólafsson. Morgunblaðið 10. desember 2020.
Blaðagreinar
Til varnar Halldóri Laxness. Morgunblaðið 28. nóvember 2020.
Orð Hayeks staðfest. Stundin 4. desember 2020.
Erlendur Haraldsson. Morgunblaðið 9. desember 2020.
Kapítalisminn er fyrir almenning. Svar við greinum Einars Más Jónssonar og Stefáns Snævarrs. Stundin 9. desember 2020.
Útvarpsviðtöl
Viðtal um veirufaraldur. Viðtal við Frosta Logason og Mána Pétursson á Harmageddon 31. mars 2020.
Svona er þetta. Viðtal við Þröst Helgason á Ríkisútvarpinu 6. desember 2020.
Fróðleiksmolar í Morgunblaðinu
Heimur batnandi fer. Morgunblaðið 4. janúar 2020.
Adam Smith á Íslandi. Morgunblaðið 11. janúar 2020.
Kínversk ekki-speki. Morgunblaðið 18. janúar 2020.
Hvers vegna varð byltingin? Morgunblaðið 25. janúar 2020.
Fleira skilur en Ermarsund. Morgunblaðið 1. febrúar 2020.
Frá Íslandi til Auschwitz. Morgunblaðið 8. febrúar 2020.
Bastiat og brotna rúðan. Morgunblaðið 15. febrúar 2020.
Bastiat og brotni askurinn. Morgunblaðið 22. febrúar 2020.
Bænarskrá kertasteyparanna. Morgunblaðið 29. febrúar 2020.
Róbinson Krúsó og viðarborðið. Morgunblaðið 7. mars 2020.
Lögmál eiginhagsmunanna. Morgunblaðið 14. mars 2020.
Spádómsgáfa Tocquevilles. Morgunblaðið 21. mars 2020.
Hrollvekja Tocquevilles. Morgunblaðið 28. mars 2020.
Áhrif Snorra. Morgunblaðið 4. apríl 2020.
Farsóttir og samábyrgð. Morgunblaðið 11. apríl 2020.
Farsóttir og frelsi. Morgunblaðið 18. apríl 2020.
Farsóttir og einkaframtak. Morgunblaðið 25. apríl 2020.
Vörn gegn veiru. Morgunblaðið 9. maí 2020.
Þveræingar og Nefjólfssynir. Morgunblaðið 16. maí 2020.
Gleymdi maðurinn. Morgunblaðið 23. maí 2020.
Þriðji frumburðurinn. Morgunblaðið 30. maí 2020.
Mældu rétt! Mæltu rétt! Morgunblaðið 6. júní 2020.
Þrælahald í sögu og samtíð. Morgunblaðið 13. júní 2020.
Stofnanaklíkur. Morgunblaðið 20. júní 2020.
Frelsi Loka ekki síður en Þórs. Morgunblaðið 27. júní 2020.
Ný aðför að Snorra Sturlusyni. Morgunblaðið 4. júlí 2020.
Hljótt um tvö verk Bjarna. Morgunblaðið 11. júlí 2020.
Gömul mynd. Morgunblaðið 18. júlí 2020.
Stalín er hér enn. Morgunblaðið 25. júlí 2020.
Barn eða óvinur? Morgunblaðið 1. ágúst 2020.
Hin hliðin á sigrinum. Morgunblaðið 7. ágúst 2020.
Fyrra Samherjamálið: Hliðstæður. Morgunblaðið 15. ágúst 2020.
Popper og Ísland. Morgunblaðið 22. ágúst 2020.
Hvað skýrir rithöfundarferil Snorra? Morgunblaðið 29. ágúst 2020.
Selurinn Snorri. Morgunblaðið 5. september 2020.
Kaldar kveðjur. Morgunblaðið 12. september 2020.
Stórlæti að fornu og nýju. Morgunblaðið 19. september 2020.
Ljónið í Luzern. Morgunblaðið 26. september 2020.
Gyðingahatur og Íslendingaandúð. Morgunblaðið 3. október 2020.
Minningar um Milton. Morgunblaðið 10. október 2020.
Veggjakrot eða valdhömlur? Morgunblaðið 17. október 2020.
Stjórnarskrárhagfræði. Morgunblaðið 24. október 2020.
Kjörbúðir eða kjörklefar? Morgunblaðið 31. október 2020.
Dreifstýrð Bandaríki. Morgunblaðið 7. nóvember 2020.
Ánægjuvél Nozicks. Morgunblaðið 14. nóvember 2020.
Nozick og íþróttakappinn. Morgunblaðið 21. nóvember 2020.
Nýr Birkiland? Morgunblaðið 28. nóvember 2020.
Upprifjun um Atómstöðina. Morgunblaðið 5. desember 2020.
Ólíkt höfðust prófessorarnir að. Morgunblaðið 12. desember 2020.
Afturköllunarfárið. Morgunblaðið 19. desember 2020.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.3.2021 kl. 10:23 | Slóð | Facebook
6.2.2021 | 10:43
Nýfrjálshyggjan og lánsfjárkreppan
Í Morgunblaðinu 27. janúar 2021 kennir Ólafur Sigurðsson, fyrrverandi fréttamaður, nýfrjálshyggju um flest það, sem aflaga hefur farið í heiminum síðustu fimmtíu árin. Hann segir meðal annars, að hún hafi valdið lánsfjárkreppunni 20072009, en hún náði hámarki sínu haustið 2008 og hafði sem kunnugt er óskaplegar afleiðingar hér á Íslandi. Þetta er mikill misskilningur. Orsakir kreppunnar voru aðallega tvær. Í fyrsta lagi höfðu seðlabankar um heim allan stuðlað að lánsfjárþenslu með lágum vöxtum, og jafnframt hafði bandaríska ríkið hvatt og jafnvel neytt lánastofnanir til að veita húsnæðislán umfram greiðslugetu margra viðtakenda. Í öðru lagi hafði ný fjármálatækni, sem átti að auðvelda mat á áhættu, haft þveröfugar afleiðingar. Erfiðara varð að meta áhættu af fjárfestingum og útlánum. Þegar þetta varð ljóst haustið 2007, varð uppnám á fjármálamörkuðum og lausafjárþurrð.
Lánsfjárkreppan 20072009 var dæmigerð hagsveifla eins og Friedrich von Hayek hafði lýst í ritum sínum. Óeðlileg peningaþensla árin á undan (lágir vextir og óhófleg húsnæðislán) olli óeðlilegri bjartsýni og offjárfestingum, sem síðan varð að leiðrétta í niðursveiflunni. Það er hins vegar fróðlegt, að stjórnvöld gripu ekki til þeirra úrræða, sem John Maynard Keynes hafði lagt á ráðin um í heimskreppunni, víðtækra opinberra framkvæmda. Þess í stað bættu seðlabankar úr lausafjárþurrð lánastofnana með beinni og óbeinni peningaprentun, ekki síst verðbréfakaupum. Milton Friedman hafði í tímamótaverkum sínum einmitt leitt rök að því, að niðursveiflan í atvinnulífinu eftir 1929 hefði breyst í alvarlega heimskreppu, vegna þess að seðlabankar hefðu þá brugðist því hlutverki sínu að sjá lánastofnunum fyrir nægu lausafé.
Lánsfjárkreppan alþjóðlega 20072009 átti sér því orsakir, sem Hayek hafði greint, og viðbrögðin við henni voru þau, sem Friedman hafði lagt til. Annað mál er það, að ein ástæðan til þess, að lánastofnanir fara geyst, er, að þær þurfa oft ekki að taka afleiðingum óvarfærni sinnar. Þegar vel gengur, hirða þær gróðann. Þegar illa gengur, bjarga seðlabankar þeim. Þetta er ekki skynsamleg regla, og við Íslendingar sýndu þar raunar 2008, að heimurinn ferst ekki, þótt lánastofnunum sé ekki alltaf bjargað.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. febrúar 2021.)
4.2.2021 | 05:52
Píslarsaga Jóns hin síðari: Ritdómur
Í upphafi Málsvarnar Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem Einar Kárason rithöfundur færði í letur og kom út í janúar 2021, líkir hann málum gegn honum við Dreyfusarmálið franska, þegar franskur liðsforingi af gyðingaættum var hafður fyrir rangri sök um njósnir, jafnvel þótt yfirvöld vissu eða hefðu rökstuddan grun um, hver væri sekur. Þessi líking er fráleit. Saga Jóns Ásgeirs á sér hins vegar tvær hliðstæður í íslenskum bókmenntum. Önnur er helgisaga Jóns biskups Ögmundarsonar, sem Gunnlaugur Leifsson munkur skráði í því skyni að fá biskup tekinn í heilagra manna tölu. Bera þar samtíðarmenn Jóns vitni um manngæsku hans. Sams konar vitnisburði vina og samstarfsmanna Jóns Ásgeirs getur að líta í bók þeirra Einars: Hann sé stilltur, fámáll, talnaglöggur, umtalsfrómur, duglegur, þolinmóður, örlátur og raungóður. Hin hliðstæðan er Píslarsaga Jóns Magnússonar (Jóns þumlungs), þar sem hinn vestfirski klerkur lýsir af mergjaðri mælsku göldrum gegn sér. Galdrakindurnar eru nú ekki Jón Jónsson og börn hans Jón og Þuríður, eins og í dæmi Jóns þumlungs, heldur Davíð Oddsson, forsætisráðherra 19912004 og seðlabankastjóri 20052009.
Afreksmaður verður píslarvottur
Ég efast ekki um, að Jón Ásgeir hafi flesta þá mannkosti til að bera, sem vinir hans og samstarfsmenn vitna um. Sjálfur kann ég vel við hann og hef átt ánægjuleg samtöl við hann, eins og hann minnist á, og er allt rétt, sem þeir Einar segja um mig. Í fyrsta hluta bókarinnar greinir frá því afreki Jóns Ásgeirs og föður hans, Jóhannesar Jónssonar í Bónus, að hefja verslunarrekstur árið 1989 með tvær hendur tómar, leggja áherslu á lítinn tilkostnað og lágt vöruverð almenningi til hagsbóta. Er sú saga hin ævintýralegasta og besti hluti bókarinnar. Undir forystu Davíðs Oddssonar var að renna upp á Íslandi ný öld, þar sem lánsfé var ekki skammtað eftir flokksskírteinum, heldur mati fjármálastofnana á endurgreiðslugetu lántakenda (og vonum þeirra um þóknanir). Jafnframt voru fjármagnshöft í erlendum viðskiptum afnumin. Þeir feðgar nutu útsjónarsemi sinnar og dugnaðar og urðu brátt ríkir á íslenskan mælikvarða. Ég var einn þeirra, sem dáðist að þeim. En mikið vill meira. Þegar ríkið seldi helminginn í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins árið 1999, hóf Jón Ásgeir samstarf um kaup á honum við hinn umdeilda fjármálamann Jón Ólafsson, sem Davíð hafði litlar mætur á, ekki síst eftir að hann studdi R-listann fjárhagslega í Reykjavík 1994 og reyndi að fá vinstri flokkana til að mynda stjórn undir forystu Halldórs Ásgrímssonar 1999. Davíð er eins og dýrið í söngleiknum franska. Það er ægilega grimmt: það ver sig, ef á það er ráðist.
Jafnframt því sem Jón Ásgeir hóf að fjárfesta í fyrirtækjum óskyldum smásöluverslun, jókst hlutdeild Bónusfeðga, sem nú kenndu sig við Baug, í smásöluverslun. Í krafti auðæfa sinna og lánstrausts keyptu þeir upp hvert fyrirtækið af öðru. Jóhannes í Bónus hafði sagt, að ekkert fyrirtæki á smásölumarkaði ætti helst að ráða meira en 10 hundraðshlutföllum af markaðnum, en Baugur réð miklu meira. Víða lá við, að þeir næðu einokunaraðstöðu. Davíð taldi þá beita þessari aðstöðu til að halda vöruverði hærra en eðlilegt mætti teljast. Kvað hann hugsanlegt að skipta slíku fyrirtæki upp, eins og gert var í Bandaríkjunum á öndverðri tuttugustu öld. Furðu sætir, þegar Einar segir frá þeirri yfirlýsingu (bls. 187), að hann þegir um, að hún var í svari við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni, þá formanni Samfylkingarinnar, á þingi í janúar 2002 um, til hvaða ráða væri rétt að grípa til að afstýra hringamyndun í smásöluverslun.
Jón Ásgeir hafði tekið illa andstöðu Davíðs árið 1999 við kaup þeirra Jóns Ólafssonar á banka. Jón Ásgeir tók enn verr varnaðarorðum Davíðs á þingi árið 2002 um fákeppni og hringamyndun. Davíð fékk síðan fregnir af því, að Jón Ásgeir hefði velt því fyrir sér, hvort ekki mætti bera fé á sig. Sjálfur sagði Jón Ásgeir mér í spjalli okkar 23. mars 2003, að mútumálið væri mjög orðum aukið. Hann hefði setið eitt kvöldið með tveimur samstarfsmönnum sínum, sem hann nafngreindi. Talið hefði borist að andstöðu Davíðs við Baug. Þá hefði þetta verið orðað í gamni í sambandi við orðróm um, að Decode hefði mútað Davíð. Ég sagði Jóni Ásgeiri, að sumt ætti ekki einu sinni að nefna í gamni, og forsætisráðherra hefði tekið þetta óstinnt upp. Allir, sem þekktu Davíð, vissu, hversu fáránlegt þetta væri.
Upphaf Baugsmálsins
Þá hugmynd Jóns Ásgeirs, að Davíð ofsækti sig, má því rekja til sölu helmingshlutar í FBA 1999 og umræðna um hringamyndun og fákeppni í smásöluverslun að frumkvæði Össurar Skarphéðinssonar 2002. En nú var Ísland orðið of lítið fyrir Jón Ásgeir. Hann naut hér nær ótakmarkaðs lánstrausts. Íslenskir bankamenn höfðu ofurtrú á honum. Jón Ásgeir is a winner, sagði Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri hróðugur við mig. Jón Ásgeir taldi sig koma auga á góð viðskiptatækifæri í smásöluverslun erlendis, og hann var að undirbúa kaup á breska stórfyrirtækinu Arcadia sumarið 2002, þegar efnahagsbrotadeild lögreglunnar gerði 28. ágúst húsleit hjá Baugi, en það varð til þess, að kaupin á Arcadia fóru út um þúfur, þótt Jón Ásgeir græddi síðan morð fjár á sölu hlutabréfa sinna í fyrirtækinu. (Hann virðist hafa haft rétt fyrir sér um, að á þeim tíma væri hagstætt að kaupa í Arcadia.) Jón Ásgeir taldi Davíð hafa sigað lögreglunni á sig, og hófst nú sú píslarsaga, sem hann segir af sjálfum sér.
Þótt Einar endurtaki í bókinni þessar ásakanir Jóns Ásgeirs, eru þær með öllu tilhæfulausar. Davíð var vissulega oft gagnrýninn á Baug og sparaði þá ekki alltaf stóru orðin í einkasamtölum, en það var vegna þess, að hann hafði (eins og Össur þá) þungar áhyggjur af hringamyndun og fákeppni. Var eðlilegt, að forsætisráðherra landsins léti sig þetta varða. En Davíð hafði hlotið góða menntun sem lögfræðingur og gætti þess vandlega sem forsætisráðherra að virða lögmætisregluna, en hún er, að hverju valdi er afmarkað svið, sem ekki má fara yfir. Til er miklu einfaldari skýring á húsleit lögreglunnar í ágúst 2002. Baugsfeðgar höfðu aflað sér tveggja hatrammra andstæðinga. Jón Gerald Sullenberger, sem annaðist viðskipti fyrir Baug í Bandaríkjunum, taldi Jón Ásgeir hafa gerst nærgöngulan við konu sína, og er ekki ofmælt, að hann réð sér ekki fyrir reiði. Jónína Benediktsdóttir hafði verið í sambandi við Jóhannes, föður Jóns Ásgeirs, en upp úr því hafði slitnað, og taldi Jónína Baugsfeðga bera ábyrgð á gjaldþroti hennar. Var henni líka heitt í hamsi og sagði hverjum sem er (þar á meðal mér) ófagrar sögur um viðskiptahætti feðganna. Jónína reyndi hvað eftir annað að ná tali af Davíð til að rekja raunir sínar, en Davíð kærði sig ekki um að hafa nein afskipti af þessu máli og hitti hana því aldrei.
Jón Gerald lagði sumarið 2002 fram kæru á Jón Ásgeir fyrir að hafa látið sig útbúa háan reikning, 62 milljónir, sem var tekjufærður hjá Baugi, þótt hann hefði ekki verið greiddur. Var bókhald fyrirtækisins þannig fegrað. Kvaðst hann hafa grun um, að margt fleira væri athugavert við rekstur fyrirtækisins, og vakti það áhuga efnahagsbrotadeildar lögreglunnar. Það styrkti eflaust málstað Jóns Geralds í augum lögreglumanna, að hann hafði útvegað sér einn öflugasta lögfræðing landsins, Jón Steinar Gunnlaugsson, en hann hafði raunar varað Jón Gerald við því, að hann hefði ekki síður en Jón Ásgeir brotið bókhaldslög með því að útbúa þennan reikning. Höfðu sambærilegar húsrannsóknir verið gerðar áður hjá ýmsum íslenskum stórfyrirtækjum.
Baugsmálinu lauk með því, að þeir Jón Ásgeir og Jón Gerald fengu báðir skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir að hafa útbúið og tekjufært þennan reikning upp á 62 milljónir, sem upphaflega var kært fyrir, og þannig fegrað bókhald Baugs. Í rannsókn málsins varð líka uppvíst, að Jón Ásgeir hafði látið fjölskyldufyrirtæki sitt, Gaum, kaupa á laun fyrirtækið Vöruveltuna og ári síðar selt það miklu dýrar Baugi, sem þá var almenningshlutafélag. (Munurinn var rösklega 300 milljónir að teknu tiiliti til eignasölu, á meðan fyrirtækið var í eigu Gaums.) Ég hef aldrei skilið þá niðurstöðu dómstóla, að það hafi aðeins verið venjuleg viðskipti.
Einkennilegar sögur
Ég held, að Jón Ásgeir sé þrátt fyrir marga góða kosti ekki sá sakleysingi, sem Einar Kárason vill vera láta í þessari bók. Það er frekar Einar sjálfur, sem er sakleysinginn. Sumt í frásögn hans gengur ekki upp. Hann skráir til dæmis samviskusamlega eftir lögfræðingi Jóns Ásgeirs (bls. 270), að lán Glitnis til Baugs hafi snarhækkað, eftir að Jón Ásgeir tók stjórnina í bankanum vorið 2007, af því að gengi krónunnar hafi fallið, og við það hafi allar upphæðir hækkað. En hefðu lán til annarra aðila þá ekki átt að hækka að sama skapi? Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kom einmitt fram, að hlutfall lána Glitnis til Baugs af heildarútlánum jókst verulega, eftir að Jón Ásgeir náði yfirhöndinni í bankanum. Af einhverjum ástæðum birti rannsóknarnefndin ekki neitt samanburðarlínurit um þróun lána bankanna til stærstu viðskiptahópanna. Ég gerði hins vegar slíkt línurit eftir tölum nefndarinnar, og af því sést, að sú niðurstaða hennar er rétt, að Jón Ásgeir var í sérflokki um skuldasöfnun við bankana. Einar gengur eins og rannsóknarnefnd Alþingis fram hjá mikilvægri spurningu: Hvernig í ósköpunum gat einn aðili safnað skuldum upp á mörg hundruð milljarða króna í íslensku bönkunum? Raunar skín í tilgang Jóns Ásgeirs með bankakaupum, þegar hann segir um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins (bls. 45): Menn sáu að ef þessi banki lenti inni í gömlu klíkunum yrði lítið fé að hafa til framkvæmda fyrir aðra.
Einar skráir af sömu stöku samviskuseminni sögu eftir Kristínu Þorsteinsdóttur. Hún hafi verið kunnug norska lögfræðingnum Evu Joly, á meðan báðar bjuggu í Noregi. Þess vegna hafi hún verið boðin í kvöldverð í norska sendiráðinu með Evu, þegar hún kom hingað til lands vorið 2009 í því skyni að veita lögregluyfirvöldum ráðgjöf um rannsókn efnahagsbrota. Þar hafi margir frammámenn lögreglunnar verið staddir, þar á meðal ríkislögreglustjóri og ríkissaksóknari. Umræður undir borðum hafi aðallega snúist um, hvernig koma mætti Baugsmönnum í fangelsi. Kristín hafi loks verið spurð um starf sitt, og þegar hún sagðist vera í vinnu fyrir Baug, hafi veislugestir snarlega þagnað og hraðað sér burt (bls. 358359). En getur verið, að íslenskir lögreglumenn, sem voru að rannsaka Baugsmálið, hafi ekki vitað, að Kristín vann fyrir Baug? Og hefðu þeir notað kvöldverðarboð hjá Norðmönnum til að ráða ráðum sínum? Og hefði sendiráð erlends ríkis verið réttur vettvangur umræðna um lögreglurannsókn?
Hér er augljóslega eitthvað málum blandið. Annaðhvort hafa hinir norsku stjórnarerindrekar eða íslensku lögreglumennirnir farið í samtölum langt út fyrir það, sem eðlilegt gat talist, nema Kristínu misminni hrapallega. Það er hins vegar rétt, eins og Einar nefnir og vísar um til skýrslu minnar um bankahrunið, að norsk yfirvöld reyndust Íslendingum illa eftir bankahrunið. Þótt banki Glitnis í Noregi væri traust eign, neitaði norski seðlabankinn að veita honum lausafjárfyrirgreiðslu, og skilastjórn Glitnis var neydd til að selja hann hópi norskra lífeyrissjóða fyrir brot af eigin fé, og stórgræddu kaupendur á viðskiptunum. Svipað var að segja um blómlegt verðbréfafyrirtæki Glitnis í Noregi.
Trúnaðarbrot?
Sumt af því, sem þeir Jón Ásgeir og Einar segja í bókinni, virðist fela í sér trúnaðarbrot heimildarmanna þeirra. Einn þeirra er Ólafur R. Grímsson forseti, sem kveður Davíð hafa sagt honum undir fjögur augu vorið 2004, að forsvarsmenn Baugs ættu eftir að enda í fangelsi (bls. 237). Reglulegir fundir þeirra Ólafs og Davíðs, forseta og forsætisráðherra, voru bundnir ströngum trúnaði, og hefur Davíð aldrei sagt mér neitt um það, sem þeim fór í milli. Mér datt þess vegna ekki í hug að leita til hans um þetta. Annar heimildarmaður þeirra Einars er Jóhann R. Benediktsson, sem var um skeið sýslumaður á Keflavíkurflugvelli. Hann segir Harald Johannessen ríkislögreglustjóra hafa tilkynnt Davíð að sér viðstöddum í forsætisráðherrabústaðnum á Þingvöllum snemma sumars 2002, að nú ætti að láta til skarar skríða gegn Baugi (bls. 173). Davíð hafi fyrst við og sussað á Harald. Ég spurði Davíð um þetta, og tók hann því víðs fjarri. Þetta væri fullkominn uppspuni. Hófið á Þingvöllum var haldið til að þakka lögreglunni fyrir hennar þátt í að vernda forseta Kína, sem kom við nokkurt andóf í opinbera heimsókn til Íslands í júní 2002. Var samkvæmið fjörugt og fjölmennt og hentaði lítt il launmála.
Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli kemur við sögu á öðrum stað í bókinni. Segist Jóhann hafa fengið beiðni um það frá efnahagsbrotadeild lögreglunnar, eftir að gerð var húsleit hjá Baugi 28. ágúst 2002, að færa Jón Ásgeir, sem væntanlegur var með flugi frá Lundúnum daginn eftir, til yfirheyrslu. Hafi hann neitað að verða við þeirri beiðni, og einn samstarfsmaður sinn hafi látið Jón Ásgeir vita af fyrirætlun efnahagsbrotadeildarinnar (bls. 66). Eftir að Jón Ásgeir fékk þessar upplýsingar, brá hann á það ráð að afpanta ekki flugmiða sinn, en leigja einkaþotu, sem lenti á Reykjavíkurflugvelli, og þaðan hélt hann að eigin frumkvæði í yfirheyrslu hjá lögreglunni. Það blasir við, hver samstarfsmaðurinn var. En Jóhann skýrir líka frá því að sögn Einars, að fréttamenn Sjónvarpsins hafi haft samband við sig og beðið leyfis til að mynda, þegar Jón Ásgeir yrði gómaður við heimkomuna. Sé þetta rétt, þá hefur þetta verið brot lögreglunnar á trúnaði og mjög ámælisvert af hennar hálfu. Hitt er annað mál, hvort embættismanni eins og Jóhanni hafi verið stætt á að neita beiðni efnahagsbrotadeildarinnar.
Vinnubrögð í efnahagsbrotamálum
Jón Ásgeir á auðvitað heimtingu á réttlátri málsmeðferð eins og allir aðrir borgarar. Ég staldra við eina sögu bókarinnar. Guðjón Steinar Marteinsson héraðsdómari á að hafa hringt í Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, áður en svokallað Aurum-mál gegn Jóni Ásgeiri var tekið fyrir og skýrt honum frá því, að meðdómari yrði Sverrir Ólafsson, sem væri bróðir Ólafs Ólafssonar fjármálamanns (þótt Ólafur væri raunar hvergi viðriðinn Aurum-málið). En eftir að Jón Ásgeir var sýknaður, kvaðst sérstakur saksóknari ekki hafa vitað um tengsl Sverris og Ólafs. Sverrir reiddist þessu og lét frá sér fara óheppileg ummæli um saksóknarann, svo að sýknudómurinn var ógiltur í Hæstarétti, en eftir aðra meðferð málsins var aftur sýknað í því (bls. 374375). Stendur hér orð gegn orði, og er óneitanlega vandséð, hvað dómaranum ætti að ganga til með því að segja ósatt um samtal sitt við saksóknarann. Hér þarf Ólafur Þór að gera hreint fyrir sínum dyrum.
Setjum svo rökræðunnar vegna, að Jón Ásgeir hafi sætt óþarflega harðri meðferð lögreglu og ákæruvalds. Það væri þá ekkert einsdæmi. Í Bandaríkjunum þykir saksóknurum fátt eftrsóknarverðara en taka auðmenn fasta og setja í handjárn fyrir framan suðandi sjónvarpsmyndavélar. Þeir vita sem er, að það er vel til vinsælda fallið, þótt oft séu fórnarlömb þeirra síðan sýknuð, eftir að þau hafa fært fram varnir sínar. Rudy Giuliani varð til dæmis borgarstjóri í New York fyrir slíka framgöngu. Eftir reynslu sína í Frakklandi ráðlagði Eva Joly sérstökum saksóknara feimnislaust að gera íslenskum auðmönnum eins erfitt fyrir og hægt væri um að verja sig, til dæmis með því að kyrrsetja eignir þeirra, afla nýrra og óvæntra gagna með húsrannsóknum hjá þeim og niðurlægja þá fyrir framan alþjóð. Mér finnst þetta ekki til fyrirmyndar, en hér skiptir höfuðmáli, að það þarf engan Davíð til að skýra slíka tilhneigingu lögreglumanna.
Afskipti Jóns Ásgeirs af fjölmiðlum
Menn skynja heiminn á ólíka vegu. Ég efast ekki um, að Jón Ásgeir hafi talið sig ofsóttan. Sannfæring hans um sök Davíðs í því efni virðist vera eins bjargföst og Jóns þumlungs forðum um galdra þeirra Jóns Jónssonar og tveggja barna hans. Það er eins og Jón Ásgeir geti ekki horfst í augu við þá staðreynd, að kvennamál þeirra feðga höfðu aflað þeim skæðra andstæðinga, sem lögðu nótt við dag í baráttunni við þá og töldu sig hafa engu að tapa. Eftir húsleitina í Baugi þyrptust að Jóni Ásgeiri eiturtungur, sem eygðu fjárvon með því að hvísla óhróðri í eyru hans, en æpa uppspuna eftir pöntun út í bæ. Þar var fyrirferðarmestur Gunnar Smári Egilsson blaðamaður, sem átti að baki langa þrotasögu. Gerðist hann eins konar áróðursstjóri Jóns Ásgeirs, sem keypti upp nær alla íslensku einkamiðlana, sjónvarpsstöð, dagblöð og tímarit. Brátt varð Ísland of lítið líka fyrir Gunnar Smára, og vorið 2006 hófu þeir Jón Ásgeir útgáfu dansks auglýsingablaðs, Nyhedsavisen. Ég hef orðið þess áþreifanlega var, að það fyrirtæki hleypti illu blóði í ráðamenn í dönsku viðskiptalífi og jók tortryggni í garð íslensku bankanna, enda gaf Danske Bank út skýrslu skömmu seinna um, að þeir væru sennilega ekki sjálfbærir. Sleit bankinn öllum viðskiptatengslum við íslensku bankana og tók stöður gegn þeim á alþjóðlegum mörkuðum. Einar hefði haft gott af því að lesa bók eftir tvo danska blaðamenn um þetta ævintýri, sem Jón Ásgeir tapaði að minnsta kosti sjö milljörðum króna á, Alt går efter planen. Sýndi jón Ásgeir þar ótrúlegt dómgreindarleysi. Menn, sem afhenda Gunnari Smára ávísanahefti, eiga skilið að tapa fé.
Jón Ásgeir sagði mér sjálfur, að viðskiptasjónarmið ein hefðu ráðið því, að hann keypti upp nær alla íslensku einkamiðlana. Hann hefði verið að lækka auglýsingakostnað hjá sér, og þessir fjölmiðlar hefðu borið sig. Ég hristi höfuðið og brosti. Í bókinni heldur Einar því blákalt fram, að Jón Ásgeir hafi aldrei skipt sér af ritstjórn fjölmiðla sinna. Það er ekki rétt. Auðvitað þurfti hann sjaldnast að beita hörðu, því að flestir starfsmenn vissu vel, hver eigandinn væri og hvað væri honum þóknanlegt. Eitt fyrsta dæmið um afskipti var raunar, áður en hann keypti upp fjölmiðlana. Þá hafði gljátímaritið Séð og heyrt birt myndir af snekkju, sem Jón Gerald hafði rekið fyrir feðgana á Florida. Var heftið með myndunum snarlega tekið úr sölu í öllum verslunum Baugs, en það olli útgefandanum verulegum búsifjum. Til er talsvert af tölvuskeytum, sem Jón Ásgeir sendi stjórnendum fjölmiðla sinna til að kvarta undan skrifum einstakra starfsmanna, og voru þeir sumir reknir. En hvert áttu þeir að fara? Ríkisútvarpið og Morgunblaðið voru einu alvöru fjölmiðlarnir auk Baugsmiðlanna. Segja má, að ástandið á fjölmiðlamarkaðnum íslenska hafi verið eins og það er nú á samfélagsmiðlum í Bandaríkjunum, þar sem örfáir menn ráða öllum flutningi frétta og gagna. Jón Ásgeir sýndi afl sitt, þegar hann fékk forseta Íslands sumarið 2004 til að synja samþykkis fjölmiðlafrumvarpi, þar sem gert var ráð fyrir hömlum við einokun. Var það í fyrsta sinn í sögunni, að forseti gekk gegn ákvörðun Alþingis, en besti vinur Ólafs R. Grímssonar og kosningastjóri í forsetakjöri, Sigurður G. Guðjónsson, var sjónvarpsstjóri Jóns Ásgeirs, og dóttir hans starfaði hjá Baugi. Mér er ljóst, að bók Einars er varnarrit fyrir Jón Ásgeir, og er ekkert að því, en var ekki óþarfi að afneita alkunnum staðreyndum?
Afskipti Jóns Ásgeirs af flokkum
Tangarhaldi Jóns Ásgeirs á íslenskum fjölmiðlum má líkja við það, ef Jón þumlungur hefði fengið að stjórna einu prentsmiðju landsins á sautjándu öld. Ef til vill skiptir ekki öllu máli, að Jón Ásgeir lét reka nokkra fréttamenn, af því að honum líkuðu ekki fréttir þeirra. Þetta gera allir eigendur blaða. En fyrir tvennar kosningar var fjölmiðlaveldi hans beitt gegn Sjálfstæðisflokknum með markvissum lekum. Í fyrra sinn var það í aðdraganda kosninganna 2003. Þá birti Fréttablaðið stóra frétt á forsíðu, sem sótt var í fundargerðir stjórnar Baugs, og átti hún að vera Davíð Oddssyni óhagstæð. Hann hefði vitað meira um deilur Jóns Geralds Sullenbergers við Jón Ásgeir en hann hefði sagst vita. Stjórnarmenn undu að vonum þessum leka illa, og sögðu tveir þeirra sig úr stjórninni. Jón Ásgeir birti yfirlýsingu um það, að lekinn væri ekki frá sér kominn. Áróðursstjóri hans, Gunnar Smári Egilsson, sagðist geta staðfest þetta. Reynir Traustason skrifaði fréttina upp úr fundargerðunum. En í bók Reynis, Afhjúpun, sem kom út 2014 og Einar styðst sums staðar við í bók sinni, kemur fram (bls. 97), að þessi yfirlýsing Jóns Ásgeirs hafi verið ósönn. Lekinn var frá honum kominn, eins og lá raunar í augum uppi. Af hverju lét Einar þess ekki getið?
Fyrir kosningarnar 2009 birti sjónvarpsstöð Jóns Ásgeirs frétt um það, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði fengið 30 milljónir króna í styrk frá FL-Group. Þessi uppljóstrun mæltist illa fyrir, enda var greiðslan há. Flýttu allir flokkar sér að upplýsa, hvað þeir hefðu þegið í styrki frá fyrirtækjum árið 2006, áður en takmarkanir voru settar á slíkar upphæðir. Sjálfstæðisflokkurinn sagðist hafa fengið 81 milljón í framlögum yfir milljón. Samfylkingin sagðist hafa fengið 36 milljónir í framlög yfir 500 þúsundum. Með þessa vitneskju fóru kjósendur inn í kjörklefann og refsuðu Sjálfstæðisflokknum. En í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í janúar 2010 kemur fram, að Sjálfstæðisflokkurinn fékk samtals 104 milljónir í framlög frá fyrirtækjum árið 2006, og er sú tala í góðu samræmi við fyrri upplýsingar, því að munurinn felst í framlögum lægri en milljón. Samfylkingin fékk hins vegar hvorki meira né minna en 102 milljónir í framlög frá fyrirtækjum þetta ár, og hefur aldrei fengist nein skýring á hinu hróplega misræmi á milli 36 og 102 milljóna. Hver skyldi síðan hafa lekið þessari frétt í sjónvarpsstöð Jóns Ásgeirs? Svarið er augljóst, ekki síst þegar bók Einars er lesin (bls. 272). Skýrsla Ríkisendurskoðunar sýnir líka, að Baugur og skyld fyrirtæki lögðu ekki jafnt til flokkanna, þótt Einar hafi eftir Jóni Ásgeiri, að sú hafi verið stefnan. Framlög til Samfylkingar og Framsóknarflokks voru verulegar, en til Sjálfstæðisflokksins óverulegar. Til dæmis lagði Baugur fram 5 milljónir til Samfylkingarinnar 2006, FL Group 8 milljónir og fjölmiðlafyrirtæki Jóns Ásgeirs, Dagsbrún, 5 milljónir, samtals 18 milljónir. Einar nefnir þetta ekki. En eins og Hallgrímur Helgason rithöfundur sagði í viðtali við DV 21. ágúst 2009: Fyrir um það bil ári hitti ég háttsettan Baugsmann sem gumaði af því að hann gæti notað sína miðla eins og hann vildi. Þetta var sorgleg uppgötvun og ég hugsaði með mér: Fjandinn hafi það, Davíð Oddsson hafði rétt fyrir sér. Þetta voru og eru Baugsmiðlar. Auðvitað getur Einar þess ekki.
Kaupin á Glitni
Jón Ásgeir reifar enn þá fráleitu samsæriskenningu, að helsta áhugamál Davíðs Oddssonar í bankahruninu hafi verið að svipta sig eignum. En hin alþjóðlega lausafjárkreppa, sem hófst haustið 2007 og náði hámarki ári síðar, átti sér tvær meginorsakir. Í fyrsta lagi höfðu seðlabankar skapað peningaþenslu árin á undan með of lágum vöxtum og allt of ríflegum heimildum til húsnæðislána. Í öðru lagi hafði ný fjármálatækni, sem átti að auðvelda mat á útlánaáhættu, haft þveröfugar afleiðingar. Þegar fjármálastofnunum varð þetta ljóst, kipptu þær að sér höndum. Afleiðingin varð alþjóðleg lausafjárþurrð. Íslendingar fengu hvergi lán erlendis. Seðlabankinn gat prentað krónur til að bæta úr lausafjárþurrð, en hann gat ekki prentað dali, pund eða evrur. Tilraunir hans til að gera gjaldeyrisskiptasamninga var alls staðar hafnað. Einn aðstoðarseðlabankastjóri Englandsbanka sagði mér, að ein ástæðan væri, að bankamönnum hefði ekki litist á stærstu viðskiptavini íslensku bankanna, sérstaklega Jón Ásgeir. Ég held þó, að það hafi ekki ráðið neinum úrslitum, heldur hitt, að með innlánasöfnun sinni á evrópska efnahagssvæðinu ollu íslensku bankarnir uppnámi á fjármálamörkuðum.
Þegar fyrsti bankinn til að biðja Seðlabankann um neyðarlán reyndist vera Glitnir, brá ríkisstjórnin að tillögu Seðlabankans á það ráð að leggja bankanum frekar til hlutafé og færa eignir núverandi hluthafa niður. Gylfi Magnússon prófessor sagði opinberlega, að þetta væri eftir bókinni, og það er rétt. Þetta var til dæmis gert í lausafjárkreppu í Svíþjóð 1992. Jón Ásgeir var þá í nánum tengslum við Björgvin G. Sigurðsson bankamálaráðherra og spyr í bók þeirra Einars (bls. 294): Hugsa sér, bankamálaráðherrann var ekki einu sinni látinn vita af því að þjóðnýta ætti einn af stærstu bönkum landsins. Er þetta eitthvað annað en valdarán? Ég er sammála Jóni Ásgeiri um, að þetta var óeðlilegt. En í skýrslu minni um bankahrunið er frásögn, sem þeir Davíð, Geir Haarde og Árni Mathiesen vottuðu allir. Davíð spurði, hvort ætti að halda Björgvini utan við ákvörðuna. Hann sagðist vilja heyra það af munni Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sjálfrar. Hún staðfesti það beint við Davíð, þegar Geir hringdi til hennar úr skrifstofu Árna. Ég held, að þetta hafi verið alvarlegasta brotið á stjórnsýslureglum í bankahruninu, og á því bar Ingibjörg Sólrún fulla og óskipta ábyrgð, en rannsóknarnefnd Alþingis gerði samt ekkert úr þessu. Auðvitað átti bankamálaráðherrann að koma að kaupum ríkisins á banka. Ég er hissa á Einari og Jóni Ásgeir að sleppa þessu.
Einar endurtekur líka gamla og tilhæfulausa slúðursögu um samskipti Tryggva Þórs Herbertssonar og Davíðs. Þegar kaupin á Glitni voru til umræðu, komu starfsmenn Seðlabankans að Tryggva Þór í salerni Seðlabankahússins að tala lágum hljóðum í síma við Jón Ásgeir og skýra honum frá þróun mála. Davíð reiddist og sagði Tryggva, að hann kæmi ekki aftur inn í þetta hús, ef hann héldi uppteknum hætti. Ég spurði Tryggva Þór eitt sinn, hvort það væri rétt, að hann hefði verið í símasambandi við Jón Ásgeir við þetta tækifæri, og umlaði eitthvað í honum, sem ég skildi sem viðurkenningu. Davíð sagði Tryggva Þór ekki, að hann fengi ekki að koma aftur til Íslands, enda hafði hann auðvitað ekkert vald til að banna það.
Orsakir bankahrunsins
Bankahrunið var vitanlega ekki Jóni Ásgeiri að kenna, en hóflaus skuldasöfnun hans árin á undan bætti ekki um. Það er hins vegar alveg rétt, sem hann leggur áherslu á, að á móti skuldunum stóðu oft góðar eignir, sérstaklega í Bretlandi. Þeir Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson leiða sterk rök að því í hinni ágætu bók sinni um bankahrunið, að eignasöfn íslensku bankanna hafi hvorki verið betri né verri að gæðum en eignasöfn banka víðast annars staðar. Menn fá skakka mynd af þessum eignasöfnum með því að einblína á brunaútsölurnar strax eftir hrun. Þar sem uppgjör fóru fram á skaplegan hátt, til dæmis á Heritable Bank og KSF í Bretlandi, reyndust bankarnir eiga vel fyrir skuldum ólíkt sumum öðrum bönkum, sem ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins bjargaði, til dæmis RBS, Royal Bank of Scotland. Hefðu RBS í Skotlandi, UBS í Sviss og Danske Bank í Danmörku ekki fengið þá lausafjárfyrirgreiðslu, sem Íslendingum var neitað um, þá hefðu þeir fallið.
Bankahrunið varð ekki vegna Glitniskaupanna, heldur vegna þess að innlánasöfnun íslensku bankanna á evrópska efnahagssvæðinu hafði mælst illa fyrir, jafnframt því sem ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins ákvað að bjarga öllum öðrum bönkum en þeim, sem voru í eigu Íslendinga. Hún hleypti þannig af stað atburðarás, sem lauk með falli þeirra allra þriggja. Skýringin á ákvörðun þeirra Gordons Browns forsætisráðherra og Alistairs Darlings fjármálaráðherra er nærtæk: Þeir vildu sýna skoskum kjósendum sínum, að sjálfstæði væri hættulegt, enda var dæmið af íslensku bönkunum óspart notað fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um sjálfstæði í Skotlandi 2014.
Saga um ofmetnað
Jón Ásgeir viðurkennir í bókinni, að hann og aðrir útrásarvíkingar hafi farið of geyst. Mér finnst saga hans ekki vera píslarsaga og því síður helgisaga, heldur um ofmetnað, sem Grikkir kölluðu hybris. Þessi geðslegi og prúði maður kunni ekki að setja sér mörk. Hann fór fram úr sjálfum sér. Hann blindaðist af velgengni sinni. Þegar hann kvartar undan ofsóknum gegn sér, er rétt að hafa í huga, að hann var um skeið einn auðugasti maður Íslands. Fórnarlömb þeysa venjulega ekki um í einkaþotum og lystisnekkjum. Og Jón Ásgeir hefur haft efni á að ráða sér bestu lögfræðinga og skrásetjara, sem völ er á. Einar leysir verkefni sitt af prýði, þótt hann vinni það sér til hægðarauka að taka alloft upp beina kafla úr ritum annarra. Hann leynir því ekki heldur, að þetta er ræða verjanda (eða eftir atvikum ákæranda) og ekki ígrundaður dómur, þar sem reynt er að komast að rökstuddri niðurstöðu með því að skoða öll málsgögn.
(Ritdómur í Morgunblaðinu 4. febrúar 2021. Neðri ljósmynd: Valdimar/Visir.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:12 | Slóð | Facebook
30.1.2021 | 05:04
Hvað er nýfrjálshyggja?
Í Morgunblaðinu 27. janúar 2021 kennir Ólafur Sigurðsson, fyrrverandi fréttamaður, nýfrjálshyggju um flest það, sem aflaga hefur farið í heiminum síðustu fimmtíu árin og ber fyrir því tvo kunna vinstri menn bandaríska, Joseph Stiglitz hagfræðing og Robert Kuttner fréttamann. En hvað er nýfrjálshyggja? Flestir geta verið sammála um, að hún sé sú skoðun, sem Friedrich von Hayek og Milton Friedman efldu að rökum og Margrét Thatcher og Ronald Reagan framkvæmdu upp úr 1975, að ríkið hefði vaxið um of og þrengt að frelsi og svigrúmi einstaklinganna. Mál væri að flytja verkefni frá skriffinnum til frumkvöðla og lækka skatta.
Það studdi nýfrjálshyggjuna, að ríkisafskiptastefnan, sem fylgt hafði verið frá stríðslokum, hafði gefist illa, en samkvæmt henni átti að tryggja fulla atvinnu með peningaþenslu. Þetta reyndist ekki gerlegt til langs tíma litið. Afleiðingin hafði orðið verðbólga með atvinnuleysi, ekki án þess. Þau Thatcher og Reagan náði góðum árangri, og leiðtogar annarra þjóða tóku upp stefnu þeirra, ekki síst stjórnmálaforingjar í hinum nýfrjálsu ríkjum, sem kommúnistar höfðu stjórnað í Mið- og Austur-Evrópu, Mart Laar, Václav Klaus og Leszek Balcerowicz. Undir forystu þeirra breyttust hagkerfi þessara ríkja undrafljótt og án blóðsúthellinga úr kommúnisma í kapítalisma, og þjóðir landanna tóku að lifa eðlilegu lífi. Þetta er eitt þögulla afreka mannkynssögunnar.
Frá hruni kommúnismans 1991 hefur verið ótrúlegt framfaraskeið á Vesturlöndum, eins og Matt Ridley og Johan Norberg rekja í bókum, sem komið hafa út á íslensku. Meginskýringin er auðsæ: aukin alþjóðaviðskipti, sem gera mönnum kleift að nýta sér kosti hinnar alþjóðlegu verkaskiptingar. Mörg hundruð milljón manna í Kína, Indlandi og öðrum suðrænum löndum hafa þrammað á sjömílnaskóm úr fátækt í bjargálnir, og á Vesturlöndum hafa almenn lífskjör batnað verulega í öllum tekjuhópum, þótt vitanlega hafi teygst á tekjukvarðanum upp á við, enda gerist það fyrirsjáanlega við aukið svigrúm einstaklinganna. Hinir ríku hafa orðið ríkari, og hinir fátæku hafa orðið ríkari.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. janúar 2021.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:11 | Slóð | Facebook
29.1.2021 | 22:06
Orðaskipti um skotárásir
Björn Ingi Hrafnsson skrifaði á Facebook:
Örsaga úr hversdeginum #107: Með skotárásum á starfsstöðvar stjórnmálaflokka og bifreið borgarstjóra og fjölskyldu hans er endanlega ljóst að við verðum öll að staldra nú við og taka okkur taki í opinberri umræðu og því hvernig við tölum um hvert annað. Þetta mun annars enda með ósköpum. Viðbjóðurinn sem vellur um skólpleiðslur kommentakerfanna, hrakyrðin og hótanirnar eru daglegt brauð. Við höfum séð í Bandaríkjunum hvernig fer þegar öfgafólk stendur upp frá lyklaborðinu og lætur verkin tala. Sem opinber persóna til margra ára, þekki ég vel hvernig það er í lenda í þessari hakkavél. Að fá nafnlausar hótanir og níðpósta. Lesa ógeðsleg ummæli frá einhverju fólki sem þekkir mann ekki neitt og veit ekkert hvað það er að tala um. Íslenskir stjórnmálamenn hafa mátt þola þetta, jafnvel umsátur um heimili sín án þess að nokkuð væri aðhafst. Ekkert okkar á að sætta sig við þetta og við eigum ekki að umbera þetta sem samfélag. Hingað og ekki lengra.
Ég er auðvitað sammála honum, en skrifaði athugasemd:
Þetta er ekkert nýtt. Menn fá nafnlaus níð- og hótunarbréf, og skotið er í rúður hjá þeim og jafnvel veist að þeim á almannafæri. Það, sem er nýtt, er að hlaupa með þetta í fjölmiðla, en á því nærast ofbeldisseggirnir. Það á í kyrrþey að kippa þeim úr umferð.
Þá skrifaði Egill Helgason:
Þetta er nú skrítið og svo eru einhverjir furðufuglar að læka þetta að eigi að þegja um það ef skotið er úr byssum á skrifstofur stjórnmálaflokka eða bifreiðar stjórnmálamanna? En ef skotið er á heimili þeirra - má þá segja frá því?
Ég svaraði:
Það er dálítið einkennilegt að sjá umræðustjóra Ríkisútvarpsins, sem kostað er af almannafé og menn geta ekki sagt upp áskrift að, afgreiða hér venjulegt fólk, kjósendur og skattgreiðendur, sem furðufugla. Hjá BBC í Bretlandi gilda strangar reglur um, hvað umræðustjórar á vegum þess mega segja opinberlega. Menn eiga ekki að geta dregið óhlutdrægni þeirra í efa. Tvö dæmi um hlutdrægnina í Sífri Egils: 1) Þeir tveir hagfræðingar íslenskir, sem hafa hlotið alþjóðlega viðurkenningu, Ragnar Árnason og Þráinn Eggertsson, eru aldrei boðnir í þáttinn, en þar er hins vegar Þorvaldur Gylfason (jaðarmaður, fékk 2,45% í kosningum) fastagestur, en hann lætur m. a. að því liggja, að þeir Nixon og Bush hafi ráðið Kennedy bana og að Bandaríkjamenn hafi sjálfir sprengt upp einn turninn í New York í september 2001. 2) Náungi, sem var slíkur aðdáandi Elvis Presleys, að hann tók upp nafn hans, fullur heiftar í garð Kaupþings, af því að hann var rekinn frá Singer & Friedlander í Lundúnum, var látinn bölsótast yfir Ármanni Þorvaldssyni í einum þættinum, en Ármann hefur aldrei fengið tækifæri til að svara fyrir sig. Hverjir eru furðufuglarnir?
Sverrir Herbertsson, sem ég þekki nú raunar ekki, gerði líka réttmæta athugasemd:
Er ekki verið að meina að ofbeldiseggirnir nærist á athyglinni sem þeir fá í fjölmiðlum.
Ég svaraði honum líka:
Jú, nákvæmlega. Lögreglan hefur alltaf ráðlagt mönnum, sem fyrir þessu verða (og ég er einn þeirra, meðal annars skotför í glugga), að hafa ekki hátt um það. Ástæðan til þess, að ég segi þetta núna og fer þannig ekki eftir þessum ráðleggingum, er, að ég er alls ekki lengur opinber persóna, heldur aðeins meinlaus grúskari á Þjóðarbókhlöðunni. En athyglin er það súrefni, sem þessir ofbeldisseggir nærast á.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook
23.1.2021 | 07:10
Rakhnífur Occams
Þegar ég stundaði forðum heimspekinám, var okkur kennt um rakhníf Occams. Vilhjálmur af Occam var enskur munkur af reglu heilags Frans frá Assisi, og var hann uppi frá 1285 til 1349. Rakhnífur Occams merkir þá reglu, að jafnan beri að velja einföldustu skýringuna, sem völ sé á. Þessi regla er oftast orðuð svo á latínu: Entia non sunt multiplicanda præter necessitatem. Það er á íslensku: Eigi ber að fjölga einingum umfram það, sem nauðsynlegt getur talist. Það er annað mál, að þessa reglu er hvergi að finna í þeim ritum Vilhjálms, sem kunn eru. Þar segir þó á einum stað: Pluralitas non est ponenda sine necessitate. Það er á íslensku: Ekki ber að nota fleira en nauðsynlegt er. Sjá Quodlibeta (um 1324), 5. kafla, 1. spurningu, 2. grein.
Mér datt rakhnífur Occams í hug, þegar ég horfði á viðtal Helga Seljans fréttamanns við Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi eiganda Baugs, í Kveik fimmtudagskvöldið 21. janúar 2021. Þar rakti Jón Ásgeir upphaf Baugsmálsins svonefnda, sem hófst sumarið 2002, til Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, sem hefði sigað lögreglunni á sig. En er einfaldasta skýringin á upphafi málsins ekki sú, sem liggur fyrir? Hún er, að gamall viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs, Jón Gerald Sullenberger, kærði hann þá um sumarið fyrir lögreglu. Kvað hann Jón Ásgeir hafa tekið þátt í því með sér að gera ólöglegt skjal. Aðrir kunna að hafa haft skoðanir á Jóni Ásgeiri og umsvifum hans, til dæmis forsætisráðherra, og jafnvel látið þær í ljós í einkasamtölum. En þarf að blanda þeim í málið, svo einföld og augljós skýring sem til er á upphafi þess? Eins og kom fram í dómsúrskurðum, bar Jón Gerald þungan hug til Jóns Ásgeirs og þurfti því enga hvatningu til kærunnar, og eftir mikið þóf urðu lyktir þær, að báðir voru þeir nafnar sakfelldir fyrir gerð skjalsins og dæmdir í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Hér hefði fréttamaðurinn mátt nota rakhníf Occams.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. janúar 2021.)
23.1.2021 | 06:50
Laxness: Lærisveinn Einars og Brynjólfs
Oft er með réttu talað um mikil áhrif Halldórs Laxness á hreyfingu íslenskra kommúnista og vinstri sósíalista. Minna hefur verið rætt um áhrif helstu íslensku stalínistanna á skáldið. Hér skal ég nefna tvö dæmi um bein áhrif Einars Olgeirssonar og Brynjólfs Bjarnasonar á Laxness.
Eftir að Laxness hafði gefið út Sölku Völku, birti Einar greiningu í Rétti 1932 á bókinni undir heitinu Skáld á leið til sósíalismans. Kvað hann Laxness ekki hafa náð fullum þroska sem öreigarithöfundur. Hann ætti til að skopast að verkalýðsbaráttu. Hann gæti lært margt af skáldverkum eins og Anna proletarka (Öreigastúlkunni Önnu) eftir tékkneska rithöfundinn Ivan Olbracht. Sú bók var til í bókasöfnum og bókabúðum hér á landi í þýskri og sænskri þýðingu. Laxness fór að ráði Einars, því að söguþráðurinn í Atómstöðinni er tekinn beint upp úr sögu Olbrachts. Alþýðustúlka kemur úr sveit, vinnur hjá efnaðri fjölskyldu og flækist inn í stjórnmálaátök, nema hvað í sögu Olbrachts svíkja jafnaðarmenn kommúnista eftir fyrra stríð, en í sögu Laxness er landið selt.
Upphafið að Gerska æfintýrinu, ferðabók Laxness frá Rússlandi, sem kom út haustið 1938, hefur löngum þótt meistaralegt. Þar segist Laxness í fyrsta sinn á ævinni geta skrifað bók, sem þýdd yrði á allar þjóðtungur Norðurálfu, og keypt sér fyrir ritlaunin bústað við Miðjarðarhaf og Rolls Royce bíl. Hann þyrfti ekki að gera annað en skrifa ádeilu á Rússland. Þess í stað ætlaði hann að skrifa um það sannleikann. Hugmyndin að þessu upphafi er bersýnilega tekin beint úr grein eftir Brynjólf Bjarnason í Þjóðviljanum 5. mars 1937. Hefði Laxness skrifað níð um stjórnarfar Stalíns, segir Brynjólfur þar, þá hefðu Morgunblaðið og Alþýðublaðið óðar gert hann að dýrlingi um allar aldir. Þá hefðu nú ekki verið sparaðir peningarnir úr ríkissjóði til vísinda og lista. Þá hefði Halldóri verið reist veglegt hús og voldugur minnisvarði í lifanda lífi.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. janúar 2021.)
17.1.2021 | 22:39
Afmælisgrein um Davíð
Davíð Oddsson er 73 ára í dag. Ég skrifaði af því tilefni grein um hann í The Conservative.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.1.2021 kl. 02:18 | Slóð | Facebook
17.1.2021 | 07:56
Fastur dálkahöfundur í The Conservative
Ég er orðinn fastur dálkahöfundur í The Conservative, sem íhalds- og umbótaflokkarnir í Evrópu gefa út á netinu. Ég skrifa þar að meðaltali tvisvar í viku um hin ýmsu mál, árásina á þinghúsið bandaríska, þöggunartilburði bandarísku netrisanna, boðskap Burkes til okkar, kenningar Actons um söguna, misráðna fiskveiðistefnu Evrópusambandsins, heimsókn Churchills til Íslands 1940, afskræminguna af Thatcher í framhaldsþættinum Krúnunni og ánægjuvél Nozicks. Hér má nálgast pistla mína.
11.1.2021 | 12:44
Svar við færslu Guðmundar Andra
Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingarinnar skrifar á Facebook:
Víða sér maður fólk dásama Ísraelsríki fyrir góða frammistöðu við að bólusetja sitt fólk. Sitt fólk. Bara sitt fólk. Palestínuþjóðin á herteknu svæðunum fær ekkert. Sjaldan hefur maður séð jafn svart á hvítu það ranglæti sem þetta ríki er reist á.
Ég svaraði:
Þessi færsla lýsir miklum misskilningi. Það er hlutverk ríkis að láta borgara sína hafa forgang um þau gæði, sem það getur úthlutað. Annars væri það tilgangslaust. Og Palestínumenn hafa sína stjórn, sem flýtur í gjafafé frá útlöndum, en því miður fer það mestallt í spillta stjórnmálamenn þar. Sú stjórn hefði átt að útvega Palestínumönnum bóluefni. Þetta er mælskubrella hjá þér til að leiða athyglina frá því, að heilbrigðisráðherra (gamall samherji þinn í Icesave-málinu) gætti hagsmuna Íslendinga ekki nógu vel og að í ljós er komið, að ESB, sem þú hefur ofurtrú á, hefur ekki ráð undir hverju rifi.