Rakhnífur Occams

Þegar ég stundaði forðum heimspekinám, var okkur kennt um „rakhníf Occams“. Vilhjálmur af Occam var enskur munkur af reglu heilags Frans frá Assisi, og var hann uppi frá 1285 til 1349. Rakhnífur Occams merkir þá reglu, að jafnan beri að velja einföldustu skýringuna, sem völ sé á. Þessi regla er oftast orðuð svo á latínu: „Entia non sunt multiplicanda præter necessitatem.“ Það er á íslensku: „Eigi ber að fjölga einingum umfram það, sem nauðsynlegt getur talist.“ Það er annað mál, að þessa reglu er hvergi að finna í þeim ritum Vilhjálms, sem kunn eru. Þar segir þó á einum stað: „Pluralitas non est ponenda sine necessitate.“ Það er á íslensku: Ekki ber að nota fleira en nauðsynlegt er. Sjá Quodlibeta (um 1324), 5. kafla, 1. spurningu, 2. grein.

Mér datt rakhnífur Occams í hug, þegar ég horfði á viðtal Helga Seljans fréttamanns við Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi eiganda Baugs, í „Kveik“ fimmtudagskvöldið 21. janúar 2021. Þar rakti Jón Ásgeir upphaf Baugsmálsins svonefnda, sem hófst sumarið 2002, til Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, sem hefði sigað lögreglunni á sig. En er einfaldasta skýringin á upphafi málsins ekki sú, sem liggur fyrir? Hún er, að gamall viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs, Jón Gerald Sullenberger, kærði hann þá um sumarið fyrir lögreglu. Kvað hann Jón Ásgeir hafa tekið þátt í því með sér að gera ólöglegt skjal. Aðrir kunna að hafa haft skoðanir á Jóni Ásgeiri og umsvifum hans, til dæmis forsætisráðherra, og jafnvel látið þær í ljós í einkasamtölum. En þarf að blanda þeim í málið, svo einföld og augljós skýring sem til er á upphafi þess? Eins og kom fram í dómsúrskurðum, bar Jón Gerald þungan hug til Jóns Ásgeirs og þurfti því enga hvatningu til kærunnar, og eftir mikið þóf urðu lyktir þær, að báðir voru þeir nafnar sakfelldir fyrir gerð skjalsins og dæmdir í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Hér hefði fréttamaðurinn mátt nota rakhníf Occams.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. janúar 2021.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband