Kunnur vísindarithöfundur sækir Ísland heim

Official_portrait_of_Viscount_Ridley_crop_2Einn kunnasti vísindarithöfundur heims, Matt Ridley, er staddur á Íslandi og ætlar að rabba við áhugamenn um stjórnmál, heimspeki og vísindi miðvikudaginn 17. júlí kl. 16.30 í stofu 101 á Háskólatorgi, HT-101. Er fundurinn á vegum RSE, Rannsóknamiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál. Ridley hefur skrifað fjölda bóka, og kom ein þeirra út á íslensku árið 2014, Heimur batnandi fer (The Rational Optimist). Hann er einn frjóasti hugsuður, sem nú er uppi, fjörugur fyrirlesari og lipur rithöfundur.

Þróunarkenning um kynlíf


Matthew White Ridley fæddist árið 1958, og var langalangafi hans hinn kunni húsameistari Sir Edwin L. Lutyens. Ridley lauk doktorsprófi í dýrafræði frá Oxford-háskóla  árið 1983. Hann var vísindaritstjóri vikublaðsins Economist 1984–1987 og fréttaritari og síðan bandarískur ritstjóri blaðsins í Washington-borg 1987–1992. Eftir það hefur hann starfað sem sjálfstæður rithöfundur, en einnig haldið úti föstum dálki um vísindi í Wall Street Journal og The Times. Kona hans, Anya Hurlbert, er prófessor í taugalíffræði, og eiga þau tvö börn.

Árið 1993 gaf Ridley út bókina Rauðu drottninguna: kynlíf og þróun manneðlisins (The Red Queen: Sex and the Evolution of Human Nature). Nafnið vísar til rauðu drottningarinnar, sem kemur fyrir í bók Lewis Carrolls, Í gegnum spegilinn: og það sem Lísa fann þar(Through the Looking-Glass, and What Alice Found There), en sú bók er framhald Lísu í Undralandi og hefur komið út á íslensku. Rauða drottningin verður að hlaupa til þess að standa í stað. Í bókinni ræðir Ridley þá gátu, hvers vegna æxlun manna er tvíkynja, en ekki einkynja eins og margra annarra lífvera. Telur hann kynlíf með tveimur þátttakendum leiða til tiltölulega hagkvæmrar samsetningar erfðavísa. Jafnframt setur hann fram þá tilgátu, að í samkeppni einstaklinga um hylli hins kynsins hafi tilteknir hæfileikar valist úr, mannleg greind orðið til. Er bókin bráðskemmtileg aflestrar og full af hugvitsamlegum dæmum.

Þróunarkenning um dygðir


Árið 1996 gaf Ridley út bókina Uppsprettur dygðanna: Eðlisávísun mannsins og þróun samvinnu (The Origins of Virtue: Human Instincts and the Evolution of Cooperation). Þar heldur hann því fram, að maðurinn hafi í langri þróun öðlast sérstakan hæfileika til samskipta umfram önnur dýr, og þessi hæfileiki geri honum kleift að njóta ávaxta sjálfsprottinnar samvinnu. Maðurinn sé því ekki fæddur góður og spillist af því að búa með öðrum, eins og Rousseau og Marx kenndu, eða fæddur vondur og verði þess vegna að sæta hörðum aga, eins og Hobbes og Machiavelli trúðu, heldur verði hann smám saman góður á því að temja sér réttar reglur um samskipti, ekki síst frjáls viðskipti.

Næstu þrjár bækur Ridleys voru allar um mannlegar erfðir. Árið 1999 kom út Erfðamengi: Sjálfsævisaga tegundar í 23 köflum(Genome: The Autobiography of a Species in 23 Chapters), þar sem lýst er þeim litningum (chromosomes), sem ákveða erfðir mannsins. Árið 2003 kom út Eðli í krafti umhverfis: Erfðavísar: reynsla og það, sem gerir okkur mennsk (Nature via Nurture: Genes, Experience What Makes Us Human), þar sem lýst er samleik erfðavísa og umhverfis í þróun mannsins. Árið 2006 kom út Francis Crick: Maðurinn, sem réði táknmál erfðanna (Francis Crick: Discoverer of the Genetic Code), ævisaga hins heimskunna erfðafræðings. Hlaut Ridley verðlaun Vísindasögufélags Bandaríkjanna fyrir verkið. Í öllum þessum bókum naut sín hæfileiki Ridleys til að skrifa einfaldan texta um flókin mál.

Ritdeila við Bill Gates


Árið 2010 gaf Ridley út þá bók sína, sem til er á íslensku, Heimur batnandi fer. Ritdeila var háð um hana í Wall Street Journal í nóvember 2010. Í ritdómi sagðist auðjöfurinn Bill Gates sammála Ridley um, að auðlegð þjóða væri vegna viðskipta og verkaskiptingar. Þetta væri auðvitað ekkert nýtt, en Ridley tækist vegna þekkingar sinnar á dýrafræði að nefna mörg fróðleg dæmi. Gates kvaðst líka sammála Ridley um, að full ástæða væri til bjartsýni um framtíð mannkyns, væri rétt á málum haldið. Hins vegar væri hann ekki sami efasemdarmaður um þróunaraðstoð við Afríku og Ridley. Hann teldi einnig, að takmarka ætti mjög losun gróðurhúsalofttegunda. Í svari sínu kvaðst Ridley frekar treysta á tækniframfarir í krafti frelsis en framlög úr opinberum sjóðum, sem embættismenn ættu að ráðstafa. Frá 2010 hefur raunar orðið verulegur hagvöxtur í Afríku sunnan Sahara, en engum dettur í hug, að hann sé vegna þróunaraðstoðar. Erfiðlega hefur einnig gengið að ná samkomulagi um mikla takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda, enda með öllu óvíst, að neikvæðar afleiðingar hlýnunar séu meiri en hinar jákvæðu.

Árið 2015 gaf Ridley út bókina Þróun á öllum sviðum: Uppsprettur hugmynda (The Evolution of Everything: How Ideas Emerge). Þar útfærir hann þróunarkenningu Darwins: Sú regla, sem við sjáum í mannheimi og í dýraríkinu, er ekki sköpuð af neinum, heldur afleiðing náttúruvals, þar sem hæfustu tegundirnar, aðferðirnar og hugmyndirnar hafa haldið velli. Í mannheimi er þessi regla afleiðing víxlverkunar vitunda. Árið 2020 gaf Ridley út bókina Leið nýsköpunar og hvers vegna hún blómgast við frelsi (How Innovation Works: And Why It Flourishes in Freedom). Þar heldur hann því fram, að eitt helsta einkenni nútímans sé nýsköpun, en af henni hafi leitt stórkostlegar lífskjarabætur og margvíslegar róttækar breytingar mannlegs samlífs. En fáir skilji nýsköpun. Hún myndist aðallega að neðan og upp eftir í krafti frjálsra viðskipta, en ekki að ofan og niður eftir samkvæmt einhverjum áætlunum. Hún sé alltaf fólgin í mannlegum samskiptum, aðferð happa og glappa, tilrauna og mistaka. Hins vegar sé nýsköpun nú að minnka vegna opinberra afskipta og þunglamalegrar skriffinnsku.

Á slóð Leðurblökukonunnar


Ein nýjasta bók Ridleys hefur vakið mikla athygli, Faraldur: Leitin að upphafi kórónuveirunnar (Viral: The Search for the Origin of COVID-19) . Hann skrifar hana með dr. Alina Chan, sérfræðingi í Broad rannsóknarstofnuninni, sem Harvard-háskóli og Tækniháskólinn í Massachusetts, MIT, reka sameiginlega. Heimsfaraldurinn, sem kórónuveiran frá Kína olli, kostaði líklega um tuttugu milljónir mannslífa og var fimmti mannskæðasti faraldur mannkynssögunnar, á eftir Spánsku veikinni 1918–1920, Svartadauða hinum fyrri 541–549, eyðnifaraldrinum frá 1981, og Svartadauða hinum síðari 1346–1353. Jafnframt hafði faraldurinn margvísleg áhrif á líf flestra jarðarbúa, samgöngur stöðvuðust, skólum var lokað, fyrirtæki hættu rekstri, að kreppti í atvinnulífi. Það skiptir því miklu máli að finna upphaf kórónuveirunnar, sem olli þessum ósköpum, svo að sagan endurtaki sig ekki, og er tómlætið um það furðulegt.

Í upphafi töldu flestir, að kórónuveiran hefði stokkið yfir í menn úr dýrum á útimarkaði í Wuhan-borg. Mörg dæmi voru kunn um áþekkan feril smitsjúkdóma, og veiran er náskyld ýmsum öðrum veirum, sem hleypt hafa af stað farsóttum, en fyrstu hýslarnir eru oftast leðurblökur. En gallinn var sá, að ekki fannst neitt dýr, sem átti að hafa borið þessa veiru í menn. Kínverski kommúnistaflokkurinn neitaði líka allri samvinnu við erlenda vísindamenn um rækilega rannsókn á upphafi veirunnar. Í Wuhan starfar mikil rannsóknarstofnun í veirufræði. Vefur hennar um veirugreiningar var skyndilega tekinn niður. Skráning dauðsfalla var í upphafi ekki eðlileg (þeir einir voru skráðir dánir af völdum veirunnar, sem sannanlega höfðu verið á útimarkaðnum). Margt annað furðulegt gerðist. Til dæmis var fréttamönnum meinaður aðgangur að koparnámu í Yunnan, þar sem nokkrir starfsmenn höfðu greinst með svipaðan veirusjúkdóm árið 2012. Þar var allt fullt af leðurblökum, sem báru í sér veirur sömu ættar og kórónuveiran skæða, og hafði forstöðumaður rannsóknarstofnunarinnar í Wuhan, dr. Shi Zhengli, iðulega kölluð Leðurblökukonan, margoft gert sér ferð þangað til að safna sýnum. Kórónuveiran er óvenjusmitnæm, vegna þess að hún er með sérstakt grip, sem auðveldar henni leið inn í mannslíkamann. Annaðhvort myndaðist þetta grip náttúrlega eða var sett utan á hana. Leðurblökukonan og bandarískur samstarfsmaður hennar, dr. Peter Daszak, höfðu einmitt sótt árangurslaust um styrk árið 2018 til að rannsaka, hvernig setja mætti slíkt grip inn í veirur sömu ættar. Daszak samdi ávarp, sem birtist í hinu virta læknatímariti Lancet 19. febrúar 2020 og 27 vísindamenn skrifuðu undir, þar sem þeir vísuðu algerlega á bug tilgátunni um leka frá rannsóknarstofu. Daszak leyndi því eins lengi og hann gat, að hann var einn höfundur ávarpsins og að hann hafði margvísleg tengsl við rannsóknarstofuna í Wuhan.

Bresk stjórnmál


Sjálfur telur Matt Ridley sennilegt, en þó ósannað, að kórónuveiran hafi lekið út af rannsóknarstofunni í Wuhan. En hann hefur haft margt fleira fyrir stafni en bókaskrif. Hann var stjórnarformaður Northern Rock bankans 2004–2007, en sá banki var eitt fyrsta fórnarlamb lausafjárskortsins, sem myndaðist skyndilega á fjármálamörkuðum árið 2007 og kom hart niður á bönkum með innlán til skamms tíma og útlán til langs tíma. Ridley, sem er fimmti vísigreifi Ridley og býr á sveitasetri í Norður-Englandi, sat í lávarðadeildinni bresku fyrir Íhaldsflokkinn 2013–2021. Þar var hann eindreginn stuðningsmaður útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Hann hefur því frá nógu að segja og ekki aðeins almæltum tíðindum.

(Grein í Morgunblaðinu 16. júlí 2024.)


Úrslit kosninga

Tvennar kosningar voru nýlega háðar í Evrópulöndum, 30. júní og 7. júlí í Frakklandi og 4. júlí í Bretlandi. Af einhverjum ástæðum hafa vinstri menn á Íslandi rangtúlkað úrslitin sem sérstaka vinstri sigra.

Í Frakklandi sameinuðust vinstri flokkar í seinni umferð til að þrautnýta kosningafyrirkomulagið, en bandalag þeirra tapaði þrátt fyrir það 6%. Kjörsókn var talsvert meiri þá en í fyrri umferð. Miðflokkur Macrons tapaði 14% í seinni umferð, en miðflokkur gaullista 4%. Þjóðfylking Marine Le Pens bætti hins vegar við sig 20% í seinni umferð frá því í síðustu kosningum. Hún hlaut hins vegar ekki meiri hluta á franska þinginu eins og hún hafði vonað.

Í Bretlandi bætti Verkamannaflokkurinn við sig tæpum 2% og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn innan við 1%, þótt flokkarnir hefðu lengi verið í stjórnarandstöðu. Undir forystu Sir Keir Starmers hlaut Verkamannaflokkurinn lægra hlutfall en í síðustu kosningum. Íhaldsflokkurinn tapaði miklu fylgi, 20%, enda ráðvilltur og sjálfum sér sundurþykkur. Sigurvegari kosninganna var flokkur Nigel Farages, sem bætti við sig 12% og varð þriðji stærsti flokkurinn.

Í báðum löndum töpuðu mið- og hægri flokkar, sem hafa að engu vilja kjósenda um að stöðva hömlulausan straum hælisleitenda frá múslimalöndum og þróunina í átt til miðstýringar í Evrópusambandinu, fylgi til hægri flokka.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. júlí 2024.)


Cluj, júní 2024

shutterstock_1201674523Cluj (frb. Klúds) er næststærsta borg Rúmeníu, og hefur Transylvaníu löngum verið stjórnað þaðan. Á þýsku hét Transylvanía áður fyrr Siebenbürgen, Sjöborgaland, og var Cluj ein borganna sjö og hét þá Klausenburg. Þá var Sjöborgaland hluti Habsborgarveldisins, en var sameinað Rúmeníu eftir fyrri heimsstyrjöld. Cluj er notaleg og hreinleg borg, og prýða hana mörg falleg hús frá Habsborgartímanum. Þar er stærsti háskóli Rúmeníu, Babes-Bolyai, og talaði ég þar 30. júní 2024 á ráðstefnu.

Erindi mitt nefndist „Evrópusambandið eftir nýliðnar kosningar til Evrópuþingsins“. Ég kvað evrópska kjósendur afdráttarlaust hafna tveimur hugmyndum, sem skriffinnarnir í Brüssel reyna að troða upp á þá. Önnur er ótakmarkaður innflutningur fólks, sem vill ekki laga sig að siðum og venjum Evrópuþjóða. Hin er afnám þjóðríkisins og tilraun til að breyta Evrópusambandinu í stórveldi, sem keppt gæti við Bandaríkin.

Hvað er til ráða? Að efla nálægðarregluna, sem er í orði kveðnu leiðarstjarna ESB, en hún er, að ákvarðanir séu teknar sem næst þeim, sem þær varða. Í því sambandi reifaði ég ýmsar tillögur, til dæmis um stofnun sérstaks dómstóls, sem úrskurðaði um verkaskiptingu og valdsvið ESB og aðildarríkja þess í ljósi nálægðarreglunnar, og um að flytja löggjafarvaldið frá framkvæmdastjórn ESB til Evrópuþingsins, en breyta framkvæmdastjórninni í stjórnsýslustofnun. ESB er komið til að vera, en kjörorð þess ætti auk frjálsra viðskipta að vera valddreifing.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. júlí 2024.)


Ævisaga Miltons Friedmans

friedman.reaganJennifer Burns, sagnfræðingur í Stanford-háskóla, hefur gefið út ævisöguna Milton Friedman: The Last Conservative. Bókin er vönduð, sanngjörn og fróðleg. Í ritdómi í nettímaritinu The Conservative gerði ég þó þrjár efnislegar athugasemdir.

Höfundur bendir á hinn mikla stuðning, sem Friedman hlaut af tveimur konum, eiginkonu sinni Rose, sem aðstoðaði hann við mörg rit hans, og hagfræðingnum Önnu J. Schwartz, sem var meðhöfundur hans að Peningamálasögu Bandaríkjanna. En Friedman gerir alls ekki lítið úr þessari aðstoð.

Höfundur telur andstöðu Friedmans við lagasetningu árið 1964 um bann við mismunun eftir hörundslit eða kynferði varpa skugga á feril hans. Friedman var auðvitað andvígur slíkri mismunun. Hann taldi hins vegar heppilegast að auka tækifæri minnihlutahópa til að brjótast úr fátækt í bjargálnir á frjálsum markaði. Ef mismunun kostaði þann, sem mismunar, verulegar upphæðir, þá minnkaði mismunun af sjálfri sér. Hleypidómar hyrfu ekki, þegar sett væru lög gegn þeim, heldur þegar þeir reyndust of dýrir.

Höfundur telur, þótt hún láti það ekki beinlínis í ljós, að Friedman hefði ekki árið 1975 átt að veita umbótaáætlun Chicago-drengjanna svonefndu í Síle stuðning opinberlega, þótt hún bendi á, að hann átti þar engan annan hlut að máli. Hér ætlast hún til dygðaskreytingar (virtue signalling). En Friedman veitti öllum stjórnvöldum sömu ráð: um viðskiptafrelsi, valddreifingu og einkaeignarrétt. Þessi ráð þáðu jafnólíkir aðilar og herforingjastjórnin í Síle, stjórn íhaldsmanna í Bretlandi og stjórn jafnaðarmanna á Nýja Sjálandi. Sem betur fer.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. júní 2024.)


Danmörk til fyrirmyndar, um margt

Bandaríkjamönnum hefur orðið tíðrætt um Danmörku hin síðari ár. Öldungardeildarþingmaðurinn Bernie Sanders bendir á landið sem sérstaka fyrirmynd. Hagfræðingurinn Jeffrey Sachs telur, að dæmi Danmerkur og annarra Norðurlanda afsanni þá skoðun Friedrichs A. von Hayeks, að aukin ríkisafskipti skerði frelsi og leiði að lokum til lögregluríkis. Heimspekingurinn Francis Fukuyama heldur því á hinn bóginn fram, að í Danmörku hafi tekist að efla þá samkennd og almennu lýðmenntun, sem lýðræðinu sé nauðsynleg.

Eitt frjálsasta hagkerfi í heimi

Þegar að er gáð, sést, að Sanders og Sachs hafa rangt fyrir sér. Danmörk er síður en svo draumríki sósíalista. Samkvæmt alþjóðlegum mælingum Fraser stofnunarinnar í Kanada á atvinnufrelsi var danska hagkerfið árið 2021 hið 7. frjálsasta af 165 hagkerfum í heimi, á eftir hagkerfum Singapúr, Hong Kong, Sviss, Nýja Sjálands, Bandaríkjanna og Írlands. (Ófrjálsustu hagkerfin eru hins vegar í Venesúela, Simbabve, Sýrlandi, Súdan, Jemen, Íran og Líbíu. Hagkerfi Norður-Kóreu og Kúbu eru ekki mæld vegna skorts á áreiðanlegum upplýsingum. Íslenska hagkerfið var hið 22. frjálsasta árið 1990, hið 7. frjálsasta 2004 og hið 14. frjálsasta 2021.)
Fukuyama hefur hins vegar rétt fyrir sér. Danmörk er um margt til fyrirmyndar. Hann bendir líka á, að ein skýringin á því sé, hversu áhrifamikill hinn merki hugsuður, skáld, félagsmálafrömuður, prestur og stjórnmálamaður Nikolaj F. S. Grundtvig var. Hann er Íslendingum að góðu kunnur, því að hann þýddi Heimskringlu Snorra Sturlusonar úr íslensku á dönsku og setti fyrstur fram þá tilgátu, að Snorri hefði líka ritað Egils sögu. Grundtvig var fylgismaður þjóðlegrar frjálshyggju, sem hann sótti ekki síst í hinn auðuga norræna menningararf. Eitt meginstefið í ritum Snorra er til dæmis munurinn á góðum konungum og vondum: Góðu konungarnir virtu lög, héldu uppi friði og lögðu á hóflega skatta. Vondu konungarnir butu lög, háðu stríð og þyngdu skattbyrðina. Snorri lýsir því, hvernig þeir voru settir af, gengju þeir of langt að góðra manna yfirsýn.

Þjóðleg frjálshyggja

Jafnvel á einveldistímanum danska frá 1660 til 1849 virti Danakonungur í aðalatriðum meginreglur réttarríkisins, sem birtust í upphafi Jyske lov, Jótalaga, frá 1241: Með lögum skal land byggja. Undir lok átjándu aldar hafði Adam Smith líka veruleg áhrif í Danmörku, en vinir hans og lærisveinar beittu sér fyrir því, að Auðlegð þjóðanna var þýdd á dönsku fyrst erlendra mála. Einokunarverslunin við Ísland og Finnmörku var afnumin, vistarband fellt úr gildi, konungsjarðir seldar og jörðum gósseigenda skipt upp, svo að dönskum sjálfseignarbændum fjölgaði úr tíu af hundraði í tvo þriðju bænda. Árið 1797 voru tollar lækkaðir verulega. Árið 1848 krafðist danskur almenningur þess síðan, að einveldið viki. Konungur lét undan, og 5. júní 1849 tók ný og frjálsleg stjórnarskrá gildi. Grundtvig sat á stjórnlagaþinginu, en helsta áhyggjuefni hans var, þegar valdið færðist úr höndum konungs, að það lenti ekki í höndum lýðskrumara og upphlaupsmanna.

Lýðurinn varð að fara gætilega með það vald, sem konungurinn hafði áður. Grundtvig beitti sér þess vegna fyrir alþýðumenntun í lýðskólum. Hann taldi málfrelsið einhverja helstu stoð upplýsts lýðræðis og orti frægt kvæði (Nordisk mytologi) um, að þetta frelsi væri norræn hugsjón, sem næði ekki síður til Loka en Þórs. Jafnframt var Grundtvig þjóðernissinni, sem taldi Dani eiga að rækta sögulega arfleifð sína og tungu, vakna til vitundar um sjálfa sig sem eina þjóð. En hann var frábitinn allri ágengni. Til dæmis lagði hann það til í deilum um Slésvík, þar sem norðurhlutinn var dönskumælandi og suðurhlutinn þýskumælandi, að héraðinu yrði skipt samkvæmt vilja íbúanna sjálfra. Varð það úr löngu eftir daga hans, þegar íbúarnir fengu að greiða um þetta atkvæði. Í öðru frægu kvæði (Folkeligt skal alt nu være) sagði hann, að þjóð mynduðu þeir, sem vildu vera þjóð, tala eigið móðurmál og eiga eigið föðurland.

Hinn danski þjóðarandi

Danir töldu sig bíða mikinn hnekki, er þeir misstu fyrst Noreg í hendur Svía 1814 og síðan Slésvík og Holtsetaland í hendur Þjóðverja 1864. En það var ekki síst fyrir áhrif Grundtvigs, sem þeir sneru ósigri í sigur, virkjuðu jafnt einkaframtak og samtakamátt og gerðust ein helsta menningarþjóð Norðurálfunnar. Einkunnarorð þeirra urðu þau, sem annað skáld, Hans Peter Holst, orti: Hvað udad tabes, skal indad vindes, úti fyrir tapað, skal inni endurskapað. Matthías Jochumsson orti í orðastað iðnjöfursins C. F. Tietgens, þegar hann gaf ungum íslenskum athafnamanni ráð:

Ég býð ekki Íslandi ölmusunáð;

ég ætla að gefa ykkur heillaráð:

Sá blessaðist aldrei í heimi hér,

sem hafði’ekki trú á sjálfum sér.

Þið eigið sjálfir að leysa landið,

losa’ykkur sjálfir við okurbandið.

 

Tietgen var einmitt einn af lærisveinum Grundtvigs og kostaði af honum styttuna, sem stendur fyrir framan Marmarakirkjuna í miðborg Kaupmannahafnar og óteljandi Íslendingar hafa gengið fram hjá.

Hinn frjálslyndi danski þjóðarandi sýnir sig ekki aðeins í orði, heldur líka í verki, eins og nefna má um tvö dæmi. Nasistar höfðu hernumið Danmörku vorið 1940, og eftir að danska stjórnin hafði í ágúst 1943 lagt niður völd í mótmælaskyni við yfirgang þeirra, hugðust þeir handsama alla danska gyðinga. Þetta spurðist út, og tóku þá Danir, háir og lágir, þegjandi og hljóðalaust, saman höndum um að koma þúsundum danskra gyðinga yfir Eyrarsund til Svíþjóðar. Þegar nasistar brunuðu á hervögnum sínum um Danmörku í októberbyrjun 1943 í leit að gyðingum, gripu þeir víðast í tómt. Af 7.800 dönskum gyðingum sluppu 7.220 yfir sundið, en aðeins 464 gyðingar náðust og voru sendir í fangabúðir. Hitt dæmið þekkja Íslendingar. Þótt Danir hefðu ólíkt ýmsum öðrum þjóðum komist löglega yfir íslensk handrit, ákváðu þeir að skila þeim til Íslands. Bretar og Frakkar taka hins vegar ekki í mál að skila til heimalandanna dýrgripum, sem þeir rændu í Grikklandi, Egyptalandi og víðar.

Umbætur síðustu áratuga

Danski flokkurinn Venstre hefur einkum haldið minningu Grundtvigs á lofti, og margir forsvarsmenn hans hafa verið eindregnir frjálshyggjumenn í anda hans. Má sérstaklega nefna hinn sjálfmenntaða bónda Thomas Madsen-Mygdal, forsætisráðherra 1926–1929, og hagfræðinginn Anders Fogh-Rasmussen, forsætisráðherra 2001–2009 og síðar framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Fogh-Rasmussen birti árið 1993 fróðlega bók, Fra socialstat til minimalstat (Úr félagshyggjuríki í lágmarksríki), þar sem hann benti á ýmsar leiðir til auka atvinnufrelsi og hagsæld í Danmörku. Eftir að hann varð forsætisráðherra, fór hann þó varlegar en margir samherjar hans vildu, og varð frægt í sjónvarpskappræðum, þegar leiðtogi jafnaðarmanna reif úr bók hans margar blaðsíður, sem hann taldi úreltar. Að vísu tókst Fogh-Rasmussen að stöðva skattahækkanir og auka atvinnufrelsi nokkuð, og árið 2009 voru skattar lækkaðir talsvert í Danmörku. Danska hagkerfið fór úr því að vera hið 17. frjálsasta í heimi árið 1985 í að vera hið 7. frjálsasta árið 2021.

Nú er hagfræðingurinn Otto Brøns-Petersen, sem aðstoðaði Fogh-Rasmussen við að skrifa bókina, staddur á Íslandi og ætlar að tala um „Reforming the Welfare State: The Case of Denmark“ þriðjudaginn 25. júní kl. 16.30 í Sjálfstæðishúsinu gamla við Austurvöll (Nasa). Brøns-Petersen var deildarstjóri í efnahagsráðuneytinu 1993–1999 og skrifstofustjóri skattaráðuneytisins 1999–2013, svo að hann gjörþekkir innviði danska hagkerfisins. Hann er nú sérfræðingur og ráðgjafi rannsóknarstofnunarinnar CEPOS í Kaupmannahöfn. Hann hefur kennt við Kaupmannahafnarháskóla og Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, er höfundur nokkurra bóka og er félagi í Mont Pelerin samtökunum, alþjóðasamtökum frjálslyndra fræðimanna, sem Friedrich A. von Hayek stofnaði vorið 1947. Verður fróðlegt að heyra mat hans á því, hvað Dönum hefur tekist — og mistekist — í fjármálum og atvinnumálum síðustu áratugi.


Upp komast svik um síðir

Kommúnistar um heim allan, líka á Íslandi, treystu því, að skjalasöfn í Rússlandi myndu aldrei opnast, svo að þeir sóru og sárt við lögðu, að þeir hefðu aldrei þegið eyri frá Moskvu, þótt margir þeirra fengju þaðan Rússagull, eins og upp komst eftir hrun Ráðstjórnarríkjanna.

Annað dæmi er fróðlegt. Í aprílbyrjun árið 1979 dóu að minnsta kosti 68 manns úr blóðkýlasótt (anthrax) í borginni Sverdlovsk í Rússlandi, sem nú heitir Jekaterínbúrg. Í rússnesku útlagatímariti birtist frétt um, að orsökin væri leki frá rannsóknarstofu í sýklahernaði. Bandaríkjamenn og Bretar spurðust fyrir um málið. Yfirvöld harðneituðu þessu og kváðu blóðkýlasóttina hafa stafað af rangri meðferð matvæla. Þeir buðu kunnum bandarískum erfðafræðingi, Matthew Meselson frá Harvard-háskóla, til Moskvu, þar sem hann ræddi við embættismenn og komst að þeirri niðurstöðu, að skýring þeirra á slysinu stæðist, enda í samræmi við það, sem vitað væri um blóðkýlasótt. Breski örverufræðingurinn Vivian Wyatt studdi líka hina opinberu skýringu í grein í New Scientist.     

Eftir hrun Ráðstjórnarríkjanna kom hið sanna í ljós. Þvert á alþjóðasamninga var einmitt rekin stór rannsóknastofa í sýklahernaði í borginni. Eitt sinn gleymdist að búa tryggilega um sýkilinn, sem veldur blóðkýlasótt, og barst hann út í andrúmsloftið, sem betur fer vegna vindáttar í úthverfi, en ekki inn í borgina, en þá hefðu hundruð þúsunda látið lífið. Rússneska leyniþjónustan, KGB, hafði eytt öllum sjúkraskrám og öðrum gögnum, en þó tókst að rannsaka málið og skýra slysið. Allt það, sem stjórnvöld höfðu sagt um það, reyndist vera haugalygi. Skyldi eitthvað svipað vera að segja um kórónuveiruna kínversku, sem herjaði á heimsbyggðina í nokkur ár?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. júní 2019.)


Hjátrú og hjáfræði

Þegar ég var í barnaskóla, hristum við höfuðið yfir hjátrú í öðrum löndum og á öðrum tímum. Eitt dæmið var, að Hindúar skyldu telja kúna heilaga og ekki vilja eta hana. En nú taka sumir sömu afstöðu til hvala. Engin rök eru fyrir sérstöðu hvala í dýraríkinu og það, sem meira er: Nóg er til af þeim á Íslandsmiðum, og þeir éta frá fiskum næringu og minnka með því heildarafla. Annað dæmi var gyðingahatur á miðöldum. En nú hefur gyðingahatur blossað upp á ný, jafnvel í háskólum, eins og sést á hinni alræmdu stuðningsyfirlýsingu 13. nóvember 2023 við hryðjuverkasamtökin Hamas, sem Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar, Helga Kress og siðfræðingurinn og vandlætarinn Vilhjálmur Árnason skrifuðu undir.

Þegar ég var í háskóla, hristum við höfuðið yfir hjáfræði, þegar reynt var að gefa ranghugmyndum fræðilegan blæ. Þrjú dæmi voru gullgerðarlist, stjörnuspeki og mannkynbótafræði, en einnig marxismi og sálgreining. Marxisminn var hjáfræði, því að hann skýrði allt og þá um leið ekkert. Ef maður var marxisti, þá skildi hann lögmál sögunnar. Ef maður hafnaði marxisma, þá var hann á valdi annarlegra sjónarmiða. En hjáfræði lifir enn góðu lífi. Helga Kress rakti í fyrirlestri 10. október 1991 dæmi í fornbókmenntum um kúgun kvenna. Ég stóð upp og nefndi þaðan dæmi um, að konur færu illa með karla. „En þá er það textinn, sem kúgar,“ svaraði Helga. Ef textinn segir frá því, að karlar kúgi konur, þá á að taka hann bókstaflega. Ef textinn segir frá því, að konur kúgi karla, þá er hann aðeins dæmi um kúgun textahöfundanna! Tilgátan hefur alltaf rétt fyrir sér.
 
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. júní 2024.)

Forsetakjör 2024

Um það má deila, hvenær Ísland varð ríki. Ef skilgreining Webers er notuð, einkaréttur á valdbeitingu, þá var það ekki fyrr en árið 1918. Ég tel skilgreiningu Hegels skynsamlegri, að ríkið sé einingarafl, vettvangur sátta og samstarfs, og samkvæmt því var Þjóðveldið íslenska ríki. Síðan færðist ríkisvald úr landi, fyrst til Noregs, síðan Danmerkur, en færðist aftur inn í landið árið 1918. Lögsögumaður verður að teljast hinn eiginlegi þjóðhöfðingi Þjóðveldisins, en þegar íslenskt ríki var aftur stofnað árið 1918, samdist svo um, að konungur Danmerkur yrði einnig þjóðhöfðingi á Íslandi.

Þá var Danakonungur nánast orðinn valdalaus, þótt látið væri svo heita, að ráðherrar beittu valdi sínu í umboði hans. Þegar konungur var afhrópaður árið 1944 (en óvíst var, hvort það væri heimilt samkvæmt sambandslögunum), tók þjóðkjörinn forseti við hlutverki hans. Hann fékk þó ekki eiginlegt neitunarvald eins og Danakonungur hafði haft, heldur aðeins vald til að synja lagafrumvörpum samþykkis, og tóku þau þó gildi, en bera þurfti þau undir þjóðaratkvæði.

Ólafur Ragnar Grímsson var eini forsetinn, sem lét á þetta synjunarvald reyna. Þegar fram líða stundir, munu flestir eflaust telja, að fjölmiðlafrumvarpið 2004 hafi ekki verið þess eðlis, að hann hefði átt að beita synjunarvaldinu, ólíkt Icesave-samningunum tveimur, sem vörðuðu ríka þjóðarhagsmuni. En því segi ég þetta, að í aðdraganda forsetakjörs nú í ár töluðu sumir frambjóðendur eins og forseti hefði víðtækt vald. Kusu þeir að horfa fram hjá 11. grein stjórnarskrárinnar, að forseti væri ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum, og 13. greininni, að forsetinn léti ráðherra framkvæma vald sitt. Það var til dæmis fráleitt, eins og sagt var, að forseti gæti gengið gegn vilja meiri hluta Alþingis um, hverjir skyldu verða ráðherrar. Hitt er annað mál, að forseti getur haft mikil áhrif stöðu sinnar vegna. En völd og áhrif eru sitt hvað.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. júní 2024.)


Blagoevgrad, apríl 2024

HHG.Blagoevgrad.26.04.2024Mér var falið að ræða um hagnýtar lausnir frjálshyggjunnar á ráðstefnu Bandaríska háskólans í Blagoevgrad í Búlgaríu 26. apríl 2024. Í upphafi benti ég á, að frjálshyggja snerist ekki um neitt draumríki, heldur væru hinar góðu afleiðingar af viðskiptafrelsi, valddreifingu og einkaeignarrétti augljósar og áþreifanlegar: Bandaríkin á seinni hluta nítjándu aldar, Hong Kong á seinni hluta tuttugustu aldar og Sviss á okkar dögum.

Fræðimenn hafa talið sum gæði þess eðlis, að þau yrðu ekki verðlögð í frjálsum viðskiptum, svo að ríkið yrði að framleiða þau. Þau væru „samgæði“. Kennslubókardæmi var sú þjónusta, sem vitar veita skipum. En þegar að var gáð, kom í ljós, að þjónusta vita hafði einmitt verið verðlögð sem hluti af þjónustu, sem vitar og hafnir veita í sameiningu. Gjaldið fyrir þjónustu vitanna var innheimt í hafnargjöldum. Ég vakti síðan athygli á, að ríkið þyrfti ekki sjálft að framleiða ýmis gæði, þótt það gæti kostað þau. Svo væri um skólagöngu. Ríkið gæti sent foreldrum og nemendum ávísanir, sem þeir gætu notað til að greiða fyrir skólagöngu (jafnframt því sem þeir gætu bætt við úr eigin vasa). Þannig gætu skólar verið einkareknir, en notendur þjónustunnar ættu kost á að velja um þá.

Ég rifjaði upp, að á Íslandi var ríkiseinokun á útvarpsrekstri allt til 1986. Hún var afnumin, eftir að ég og félagar mínir rákum í mótmælaskyni útvarpsstöð í átta daga í október 1984, uns síminn miðaði hana út og lögreglan lokaði henni. Fyrir það hlaut ég minn fyrsta dóm.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. júní 2024.)


Skopje, apríl 2024

HHG.Skopje.25.04.2024Á ráðstefnu í laga- og hagfræðideild Háskólans í Skopje í Norður-Makedoníu 25. apríl 2024 var mér falið að ræða um hið frjálsa hagkerfi að lokinni fjölþáttakreppu (polycrisis), en það hugtak er notað um kreppur, sem raða sér saman og hver þáttur styrkir annan, eitt rekur annað, allt tvinnast saman.

Um heimsfaraldurinn 2020–2022 sagði ég, að engu yrði um hann breytt úr þessu. En vita þyrfti upptökin til að koma í veg fyrir, að eitthvað svipað gerðist aftur. Kínversk stjórnvöld vildu engar upplýsingar veita, sem benti til þess, að kórónaveiran hefði sloppið út af rannsóknarstofu í Wuhan.

Um Úkraínustríðið sagði ég, að Pútín hefði tvisvar fengið röng skilaboð. Hann hefði ráðist átölulaust á Georgíu árið 2008 og Úkraínu árið 2014. Þess vegna hefði hann talið sér óhætt að ráðast aftur á Úkraínu árið 2022.

Um lausafjárkreppuna 2007–2009 sagði ég, að aðrar þjóðir mættu læra af Íslendingum, sem hefðu takmarkað skuldbindingar ríkisins, en þess í stað gert innstæður að forgangskröfum í bú banka og þannig róað almenning. Um banka ætti að gilda eins og önnur fyrirtæki, að þeim yrði ekki alltaf bjargað, þegar þeim gengi illa.

Um aðförina að málfrelsi í háskólum og á netmiðlum sagði ég, að líklega væri þetta bylgja, sem ætti eftir að hjaðna, svipað og róttæknibylgjan í kringum 1968, sem lítið skildi eftir sig annað en nokkra síðhærða fíkniefnaneytendur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. maí 2024.)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband