Adam Smith á Íslandi

6.1 Adam_Smith,_1723_-_1790._Political_economist_-_Google_Art_Project copyEinokunarverslunin danska var í raun innheimtustofnun fyrir auðlindaskatt, eins og Gísli Gunnarsson prófessor hefur sýnt fram á: Fé var með ýmsum opinberum aðgerðum fært úr sjávarútvegi til landbúnaðar, en snarminnkaði auðvitað á leiðinni, eins og títt er um slíkt umstang. Með henni voru Íslendingar hraktir inn í fátæktargildru, sem gekk svo nærri þjóðinni, að hún leið næstum því út af á átjándu öld. En hvers vegna ákvað Danastjórn að afnema einokunarverslunina 1787? Eflaust er helsta skýringin, að komið var í öngstræti. En ef til vill gegndu hugmyndir hlutverki líka.

Adam Smith hafði árið 1776 gefið út Auðlegð þjóðanna, öfluga málsvörn verslunarfrelsis. Ein fyrsta þýðing bókarinnar kom út á dönsku árin 1779–1780. Hún var að undirlagi vina Smiths í Danmörku og Noregi, bræðranna Peters og Carstens Ankers og Andreasar Holts. Þeir þrír höfðu í maí 1762 kynnst Smith í Glasgow og endurnýjað þau kynni í Toulouse í mars 1764. Holt var formaður landsnefndarinnar fyrri 1770–1772, sem lagði á ráðin um umbætur á Íslandi. Í október 1780 skrifaði Smith honum, þakkaði fyrir skemmtilegan ferðapistil um Ísland og lýsti yfir ánægju sinni með, að þýðingin skyldi vera komin út.

Þeir Holt og Carsten Anker gegndu báðir embættum í Rentukammerinu (fjármálaráðuneytinu) danska. Þýðandi bókarinnar, Frands Dræbye, starfaði þar einnig. Þegar einokunarverslunin var afnumin, var Holt látinn, en þeir Anker og Dræbye sinntu enn ýmsum verkefnum fyrir Rentukammerið. Þeir voru frjálslyndir umbótasinnar, en fóru gætilega, eins og Smith gerði jafnan sjálfur. Nærtækt er að álykta, að þeir hafi haft einhver áhrif á hina örlagaríku ákvörðun um að létta okinu af Íslendingum 1787. Í sömu mund var einokunarverslun við Finnmörku afnumin. Enn fremur hafði yfirmaður Rentukammersins, Ernst Schimmelmann, kynnst frelsisrökum Smiths á ferðum sínum um Norðurálfuna ungur. (Peter Anker kemur örlítið við Íslandssöguna líka, en í allt öðru máli.)

Vitanlega var afnám einokunarverslunarinnar aðeins skref í rétta átt, en samt mikilvægt. Þjóðin lifnaði við, og fullt verslunarfrelsi fékkst árið 1855. Ef til vill átti Adam Smith einhvern þátt í þessari þróun.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. janúar 2020.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband