Veggjakrot eða valdhömlur?

FyrirsögnÞegar á níunda áratug síðustu aldar var einu sinni sem oftar rætt af miklum móði á Alþingi um, hvað gera mætti fyrir þjóðina, hallaði Geir Gunnarsson, þingmaður Alþýðubandalagsins, sér að sessunaut sínum og sagði í lágum hljóðum: „Er ekki líka rétt að biðja um sérstaka veðurstofu, sem spáir aðeins góðu veðri?“ Þetta atvik rifjaðist upp fyrir mér, þegar ég sá í miðborginni sóðalegt veggjakrot eftir ákafafólk, sem hafna vill lýðveldisstjórnarskránni frá 1944.

Lýðveldisstjórnarskráin var eins og lög gera ráð fyrir samin af Alþingi, en borin undir þjóðina í atkvæðagreiðslu hinn 23. maí 1944. Kjörsókn var 98%, og greiddu 98,3% atkvæði með stjórnarskránni, en hún átti uppruna sinn í stjórnarskrá þeirri, sem Kristján IX. færði Íslendingum á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar 1874. Sú stjórnarskrá var ein hin frjálslegasta í Norðurálfunni, enda Norðurlönd þá sem nú að mörgu leyti til fyrirmyndar um stjórnarfar. Stendur réttarríkið óvíða traustari fótum. Til samanburðar má nefna, að kjörsókn var svo dræm 2012 um uppkast veggjakrotaranna að stjórnarskrá, að aðeins mælti um þriðjungur atkvæðisbærra kjósenda með því, að Alþingi hefði það til hliðsjónar, ef og þegar það endurskoðaði stjórnarskrána.

En til hvers eru stjórnarskrár? Þeir fræðimenn, sem dýpst hafa hugsað um það mál, svara: Það er til að skilgreina, hvaða mál þykja svo mikilvæg, að reglum um þau verði ekki breytt í venjulegum atkvæðagreiðslum. Dæmi er málfrelsið. Meiri hlutinn gæti komist í tímabundna geðshræringu og viljað svipta óvinsælan minnihlutahóp málfrelsi, en stjórnarskráin bannar það. Annað dæmi er friðhelgi eignarréttarins.

Stjórnarskrár eru fáorðar, gagnorðar og skýrar yfirlýsingar um, hvernig fara skuli með valdið, svo að hugsanleg misnotkun þess bitni sem minnst á einstaklingum. Eins og skip eru smíðuð til að standast vond veður, eru stjórnarskrá samdar til að standast misjafna valdhafa. Við höfum ekkert að gera við veðurstofu, sem spáir aðeins góðu veðri, og því síður höfum við not fyrir stjórnarskrá, sem er ekkert annað en óskalisti um, hvað ríkið eigi að gera fyrir borgarana, eins og veggjakrotararnir í miðborginni krefjast. Nær væri að hafa áhyggjur af því, hvað ríkið getur gert borgurunum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. október 2020.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband