Gömul mynd

17.11 Hayek.GeirHaarde.1980Fyrir tilviljun rakst ég á ljósmynd af okkur Geir H. Haarde að sýna Friedrich A. von Hayek Þingvelli í apríl 1980. Birti ég hana á Snjáldru (Facebook) og lét þess getið, að Geir hefði verið forsætisráðherra 2006–2009, en ranglega dreginn fyrir Landsdóm vegna bankahrunsins 2008. Gísli Tryggvason lögmaður andmælti mér með þeim orðum, að Landsdómur hefði fundið Geir brotlegan við ákvæði í stjórnarskrá (17. gr.) um, að halda skyldi ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Þetta varð tilefni til þess, að ég rifjaði upp dóminn.

Íslenska stjórnarskráin er sniðin eftir hinni dönsku, en þetta ákvæði er ekki í hinni dönsku. Það var sett inn í stjórnarskrá hins nýstofnaða íslenska konungsríkis 1920 af sérstakri ástæðu. Ríkisráðsfundir voru haldnir með konungi einu sinni eða tvisvar á ári, og bar þar ráðherra upp lög og önnur málefni. En frá 1917 höfðu ráðherrar verið fleiri en einn, þótt aðeins einn ráðherra færi venjulega á konungsfund. Tryggja þurfti, að aðrir ráðherrar hefðu komið að afgreiðslu þeirra mála, sem sá bar upp. Þetta ákvæði var ekki fellt út, þegar Ísland varð lýðveldi 1944, enda voru þá ekki gerðar aðrar efnisbreytingar á stjórnarskránni en þær, sem leiddu af lýðveldisstofnuninni.

Forsætisráðherra var því eftir lýðveldisstofnun ekki skylt að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni í sama skilningi og undir konungsstjórn, þegar vissa varð að vera um, að aðrir ráðherrar stæðu að málum, sem hann bar einn undir konung. Honum var aðeins skylt að verða við óskum annarra ráðherra um ráðherrafundi. Sakfelling meiri hluta Landsdóms var reist á næsta augljósri mistúlkun þessa ákvæðis, eins og minni hlutinn benti á í sératkvæði.

Það, sem meira er: Ég tel, að Geir sem forsætisráðherra hafi beinlínis verið skylt að halda EKKI ráðherrafundi um yfirvofandi bankahrun. Þann sama dag og hann hefði gert það, hefðu bankarnir hrunið. Þegar öðrum forsætisráðherra var tilkynnt vorið 2003, að varnarliðið væri á förum, var vandlega um það þagað og reynt í kyrrþey að leysa málið, og tókst það um skeið.

Geir var ranglega dreginn fyrir Landsdóm. Nær hefði verið að hrósa honum sem fjármálaráðherra 1998–2005 fyrir traustan fjárhag ríkissjóðs og fyrir að hafa ásamt seðlabankastjórunum þremur og eftirmanni sínum í embætti fjármálaráðherra með neyðarlögunum 2008 lágmarkað fjárskuldbindingar ríkissjóðs.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. júlí 2020.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband