Ný aðför að Snorra Sturlusyni

2.1 Snorri_sturluson_1930Rithöfundurinn Guðmundur Andri Thorsson skrifar 2. júlí 2020 færslu á Snjáldru, Facebook, um nýlegt myndband frá Knattspyrnusambandi Íslands: „Mér finnst nú heldur mikið í lagt í nýju KSÍ-auglýsingunni að láta líf þjóðarinnar í þúsund ár snúast um að verjast grimmum innrásarherjum, og nota til þess heilaspunann úr Snorra Sturlusyni um ófreskjur sem magnaðar voru að hans sögn upp gegn útsendara Haraldar Gormssonar, og urðu svo löngu síðar að táknmyndum landsfjórðunganna undir heitinu „landvættir“. Þetta er í grundvallaratriðum röng sýn.“

Hér toga tröllin í Brüssel rithöfundinum orð úr tungu. Sagan af landvættunum í Heimskringlu er ein haglegasta smíði Snorra og hefur djúpa merkingu. Snorri hefur sagt Hákoni konungi og Skúla jarli hana í fyrri Noregsför sinni 1218–1220, en þá varð hann að telja þá af því að senda herskip til Íslands í því skyni að hefna fyrir norska kaupmenn, sem leiknir höfðu verið grátt. Snorri gerði þetta að sið skálda, óbeint, með sögu, alveg eins og Sighvatur Þórðarson hafði (einmitt að sögn Snorra) ort Bersöglismál til að vanda um fyrir Magnúsi konungi Ólafssyni án þess að móðga hann.

Saga Snorra hefst á því, að Haraldur blátönn Danakonungur slær eign sinni á íslenskt skip, og þeir taka í lög á móti, að yrkja skuli um hann eina níðvísu fyrir hvert nef á landinu. Konungur reiðist og sendir njósnara til Íslands í því skyni að undirbúa herför. Sendiboðinn sér landvættirnar og skilar því til konungs, að landið sé lítt árennilegt. Auðvitað var Snorri að segja þeim Hákoni og Skúla tvennt: Geri þeir innrás, eins og þeir höfðu í huga, þá muni Íslendingar nota það vopn, sem þeir kunnu best að beita, orðið. Skæð sé skálda hefnd. Og erfitt væri að halda landinu gegn andstöðu íbúanna, en landvættirnar eru í sögunni fulltrúar þeirra.

Skúli og Hákon skildu það, sem Snorri var óbeint að segja þeim, og hættu við herför til Íslands. Það er hins vegar ótrúlegt að sjá íslenskan rithöfund höggva á þennan hátt til Snorra. Eigi skal höggva.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. júlí 2020.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband