Mældu rétt! Mæltu rétt!

Þegar Skúli Magnússon var búðardrengur hjá einokunarkaupmanninum danska og mældi út vöru, kallaði kaupmaður jafnan: Mældu rétt, strákur! Hann átti við hið öfuga, að Skúli skyldi halla á viðskiptavinina, ekki mæla rétt.

Þeir, sem nota vildarorð í umræðum, fara að ráði danska kaupmannsins. Þeir útvega sér forgjöf. Þeir neita að mæla rétt. Þeir reyna að halla á viðmælendur sína.

Eitt vildarorðið er „gjafakvóti“, sem þeir auðlindaskattsmenn hafa um aflaheimildir á Íslandsmiðum. Orðið er ranglega hugsað. Gjöf er verðmætur hlutur, sem skiptir um hendur. Slík gjöf fer frá einum til annars. Kvótinn er hins vegar réttur til að veiða, og þegar sýnt varð um 1980, að takmarka þyrfti tölu þeirra, sem nýtt gátu takmörkuð gæði hafsins, var eðlilegast að fá þeim, sem þegar voru að veiðum, þennan rétt. Þeim var ekki fengið annað en þeir höfðu þegar notið. Sú regla var hins vegar tekin upp um aðra, að þeir yrðu að kaupa sér kvóta til að geta stundað veiðar.

Annað vildarorð er „ójöfnuður“ um ójafna tekjudreifingu. Orðið „ójöfnuður“ hefur verið til í íslenskri tungu frá öndverðu og merkt rangsleitni og yfirgang. Menn voru ójafnaðarmenn, ef þeir neyttu aflsmunar. Orðið hefur því neikvæða merkingu. Þegar Stefán Ólafsson, Sigrún Ólafsdóttir og aðrir spekingar uppi í háskóla nota þetta vildarorð, eru þau að útvega sér forgjöf, lauma kröfunni um tekjujöfnun inn í umræður. Menn sætta sig illa við ójöfnuð, en þeir viðurkenna margir, að ójöfn tekjudreifing sé eðlileg afleiðing af frjálsum markaðsviðskiptum.

Við þá auðlindaskattsmenn og þau Stefán og Sigrúnu ætti því að segja: „Mæltu rétt!“ Því er við að bæta, að þriðja orðið er stundum notað sem vildarorð, til að stimpla menn, „nýfrjálshyggja.“ En í raun og veru er enginn neikvæður blær á orðinu sjálfu, og því ættu frjálshyggjumenn að taka það upp. Í frjálshyggju Hayeks og Friedmans er vissulega margt nýtt og ferskt, brakandi ferskt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. júní 2020.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband