Vörn gegn veiru

Svo virðist sem veirufaraldrinum sé hér að linna, þótt hann geisi enn víða erlendis. Hvað situr eftir? Ég hef áður leitt rök að því, að frelsisunnendur hljóta að sætta sig við þá skerðingu á frelsi, sem nauðsynleg er til að minnka smit. Frelsið er ekki frelsi til að bera smit, hvorki egypsku augnveikina haustið 1921 (svo að hið fræga drengsmál sé rifjað upp) né veirusýkinguna á útmánuðum 2020. Frelsisunnendur hljóta líka að samþykkja, að ríkið noti fé skattgreiðenda til að hlaupa undir bagga með þeim, sem harðast verða úti sökum faraldursins. Það er almennt samkomulag á Íslandi um að aðstoða fórnarlömb náttúruhamfara, eldgosa, jarðskjálfta og snjóflóða, og sama máli gegnir um veirufaraldurinn.

En á sama hátt og ekki ber að gera lítið úr vandanum, má ekki heldur mikla hann fyrir sér. Í þessum rituðu orðum hafa 3,6 milljónir manna smitast í heiminum og um 250 þúsund manns látist af faraldrinum. Til samanburðar má nefna, að 1,5 milljón manna látast úr berklum ár hvert, 770 þúsund úr eyðni og 405 þúsund úr mýraköldu (malaríu), aðallega í fátækum löndum í suðri. Raunar hafði nærri því tekist að útrýma mýraköldu upp úr 1960, þegar umhverfisöfgamönnum tókst að leggja bann við því að nota mikilvirkasta tækið gegn henni, sem er skordýraeitrið DDT, en það er hættulaust mönnum og dýrum líka, sé það notað í hófi.

Lífið á dögum veirufaraldursins minnti á lífið við sósíalismann austan tjalds: auðar götur, allir heima hjá sér, enginn að skemmta sér, fátt í búðum nema brýnustu nauðsynjar. Því skýtur skökku við, ef menn reyna að nota faraldurinn til að auka ríkisafskipti. Raunar breyttist staðbundin drepsótt í heimsfaraldur vegna mistaka stjórnvalda í sósíalistaríkinu Kína. Hefðu þau strax lokað landinu, þá hefði veiran ekki breitt eins úr sér annars staðar og raun ber vitni. Besta vörnin gegn veiru eru upplýsingar, og þær fást við frelsi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. maí 2020.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband