Hvers vegna varð byltingin?

7.4 AttackonBastilleEðlismunur var á byltingunni dýrlegu í Bretlandi 1688 og byltingunni í Frakklandi 1789, eins og breski stjórnskörungurinn Edmund Burke benti á í stórmerku riti, sem kom út þegar árið 1790. Hin breska var gerð til að varðveita arfhelg réttindi Breta og stöðva konung, Jakob II., sem vildi taka sér einræðisvald að fyrirmynd starfsbróðurs síns handan Ermarsunds, Lúðvíks XIV. Hin franska var gerð í landi, þar sem konungur hafði um langt skeið haft einræðisvald, en nú ætluðu óreyndir málskrafsmenn að skipta honum út fyrir Lýðinn, Almannaviljann.

Íslendingar þekkja aðallega skoðanir marxista á frönsku byltingunni, en árin 1972–1973 kom út tveggja binda verk Alberts Mathiez um hana í þýðingu Lofts Guttormssonar. Mathiez hélt því fram eins og aðrir marxistar, að franska byltingin hefði verið barátta tveggja stétta, aðals og borgara. Hún hefði verið umbreyting alls skipulagsins. Mathiez gerði lítið úr ógnarstjórninni 1793–1794, þegar konungur og drottning ásamt mörgum öðrum voru leidd á höggstokkinn, en aðrir létu lífið í götuóeirðum eða uppreisnum úti á landsbyggðinni. Sumum var jafnvel drekkt í Leiru, Loire-fljóti. Að dómi Mathiez var hetja byltingarinnar jakobíninn Maximilien Robespierre, en konungsfjölskyldan hefði hlotið makleg málagjöld fyrir ráðabrugg með óvinum Frakklands.

Nýrri rannsóknir sagnfræðinganna Alfreds Cobbans, François Furets og Simons Schama sýna, að skoðun Burkes var miklu nær lagi. Byltingin var ekki umbreyting alls skipulagsins, enda var Frakkland árið 1830 furðulíkt Frakklandi árið 1789. Hún var tilfærsla valds, stjórnarbylting, ekki stéttabarátta. Talsverður hreyfanleiki hafði verið fyrir hana milli aðals og borgara, og raunar voru fæstir þeirra, sem sátu í málstofu borgara eða „þriðju stéttar“, framkvæmdamenn eða fjármagnseigendur. Byltingarmennirnir voru innblásnir af óraunhæfum hugmyndum um beina stjórn Lýðsins og síður en svo fulltrúar einnar stéttar. Þeir ætluðu að fylla upp í það tómarúm, sem einræðisvald konungs hafði skilið eftir, en studdust ekki við reynsluvit kynslóðanna eins og breskir umbótamenn gátu gert. Ógnarstjórnin var afleiðing af reynsluleysi þeirra og ranghugmyndum, ekki eðlilegt viðbragð við hættu að utan.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. janúar 2020.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband