Upprifjun um Atómstöðina

Halldór_Kiljan_Laxness_1955Furðulegt upphlaup varð á dögunum, þegar Halldór Guðmundsson bókmenntaskýrandi hélt því fram, að Bjarni Benediktsson og bandarísk stjórnvöld hefðu í sameiningu komið í veg fyrir, að bækur Halldórs Laxness kæmu út í Bandaríkjunum eftir 1946, en það ár birtist þar Sjálfstætt fólk og seldist bærilega, enda valbók einn mánuðinn í Mánaðarritafélaginu (Book-of-the-Month Club). Gallinn við kenninguna er, að engin gögn styðja hana.

Setjum þó svo, að skjöl fyndust um það, að hinn bandaríski útgefandi Laxness, Alfred Knopf, hefði hætt að gefa verk hans út, af því að honum hefði blöskrað eindreginn stuðningur skáldsins við stalínisma í miðju kalda stríðinu. Hann hefði auðvitað verið í sínum fulla rétti til þess. Atómstöðin, sem birtist í febrúar 1948, var heiftarleg árás á Bandaríkin og þá Íslendinga, sem töldu varnarsamstarf við þau æskilegt. Hún hefði verið lítt fallin til vinsælda í Bandaríkjunum. Ég tel þó langlíklegustu skýringin á því, að bækur Laxness hættu að koma út í Bandaríkjunum eftir 1946, almennt áhugaleysi bandarískra lesenda um þær flestar. Sjálfstætt fólk er eina verk Laxness, sem virðist hafa einhverja skírskotun til Bandaríkjamanna, sennilega af því að þeir misskilja það og telja hetjusögu Bjarts.

Hitt er annað mál, að íslenskur stjórnarerindreki talaði vissulega gegn útgáfu á verkum Laxness erlendis þessi misserin. Kristján Albertsson, sem þá starfaði í utanríkisþjónustunni, hafði spurnir af því haustið 1948, að Martin Larsen, sendikennari í Háskóla Íslands, hefði verið beðinn um að þýða Atómstöðina á dönsku. Lét Kristján í ljós vanþóknun á þeirri hugmynd, og tók Larsen verkið ekki að sér. Jakob Benediktsson og dönsk kona hans þýddu þá bókina. Fjórum árum síðar, sumarið 1952, átti Kristján erindi við forstjóra Gyldendal, sem sagði honum, að Atómstöðin væri að koma út á dönsku, og hafði Kristján þá hin verstu orð um bókina. Það breytti engu um útkomu hennar, sem þegar var ráðin. Raunar var heift Laxness svo mikil um þær mundir, að hann varaði Dani við að skila handritunum til Íslands, því að ráðamenn kynnu að selja þau til Bandaríkjanna!

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. desember 2020.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband