Ólíkt höfðust prófessorarnir að

Erlendur.Barzani

Fyrir nokkrum dögum bar ég til grafar dr. Erlend Haraldsson sálfræðiprófessor. Ungur hafði hann farið í svaðilför til Kúrdistan, en því svæði er skipt upp milli fjögurra ríkja, Tyrklands, Íraks, Írans og Sýrlands. Kúrdar eru sérstök þjóð, sem talar kúrdísku, en hún er skyld persnesku. Sæta þeir síharðnandi ofsóknum í Tyrklandi. Erlendur samdi árið 1964 ágæta bók um för sína, Með uppreisnarmönnum í Kúrdistan. Þar lýsti hann af samúð og skilningi þessari hálfgleymdu og aðþrengdu þjóð án ríkis.

Þá rifjaðist upp fyrir mér, að í september síðast liðnum fór fyrrverandi lagaprófessor, Róbert Spanó, sem nú er fulltrúi Íslands í Mannréttindadómstól Evrópu og raunar forseti dómsins, til Tyrklands í boði dómsmálaráðuneytis landsins. Í förinni hitti hann Erdogan, forseta Tyrklands, sem tekið hefur sér einræðisvald, og lét smella af sér mynd með honum. Spanó þáði heiðursdoktorstitil við Háskólann í Istanbul, en þar og í öðrum háskólum Tyrklands hafa þúsundir manna verið flæmdar úr störfum sakir ætlaðrar andstöðu við stjórn Erdogans. Aðrar þúsundir dómara og saksóknara hafa líka verið sviptar embættum. Tyrkland hefur smám saman verið að breytast í einræðis- og jafnvel alræðisríki. Fangelsi eru þar troðfull.

Spanó lét sér þetta ekki nægja, heldur fór með tyrkneskri vinkonu sinni, fulltrúa Tyrklands í dómstólnum, Saadet Yüksel, í skóla í Mardin í Suðaustur-Tyrklandi. Fjölskylda Yüksels kostar skólann, en þar er nemendum innrættur íslamskur rétttrúnaður. Vandamenn Yüksels gegna trúnaðarstörfum í stjórn Erdogans. Jafnframt hitti Spanó að máli borgarstjórann í Mardin, Mahmut Demirtas, en Erdogan setti hann í embætti, eftir að hann hafði rekið hinn löglega kjörna borgarstjóra úr röðum Kúrda. Um helmingur íbúanna í héraðinu eru Kúrdar. Með augljósu skeytingarleysi sínu um kúgunina í Tyrklandi og undirokun Kúrda hefur Spanó sett blett á Mannréttindadómstólinn, eins og Ingibjörg Sólrún GísladóttirÖgmundur Jónasson og fleiri hafa bent á.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. desember 2020.)

Erdogan.Spano


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband