Lögmál eiginhagsmunanna

Einn skarpskyggnasti stjórnmálarýnandi Vesturlanda var franski aðalsmaðurinn Alexis de Tocqueville. Í frönsku byltingunni hafði langafi hans lent undir fallöxinni og foreldrar hans naumlega sloppið lifandi. Tocqueville taldi, að ekki yrði vikist undan því jafnræði, sem byltingarmennirnir boðuðu, en það yrði að vera jafnræðis frelsis, ekki ánauðar. Þess vegna ferðaðist hann árin 1831–1832 um Bandaríkin til að kynna sér skipulag, þar sem jafnræði virtist vera verulegt, án þess að frelsinu væri fórnað. Bandaríkjamenn kepptu ótrauðir að eiginhagsmunum, en virtust þó vera vel siðaðir. Vegna verkefnis, sem ég hef tekist á hendur, hefur ég verið að endurlesa bók hans, Lýðræði í Vesturheimi, sem hann gaf út í tveimur bindum 1835 og 1840. Orð hans þar um eiginhagsmuni eiga enn erindi við okkur, en þau þýddi dr. Jóhannes Nordal í Nýju Helgafelli árið 1956.

„Lögmál eiginhagsmunanna, sé það rétt skilið, er ekki háleitt, en það er ljóst og öruggt. Það setur sér ekki stórfengleg stefnumið, en nær áreynslulítið þeim áföngum, sem það hefur sett sér. Allir geta lært það og munað, því að það er ekki ofvaxið skilningi nokkurs manns. Það nær auðveldlega miklu áhrifavaldi yfir mönnunum vegna þess, hve dásamlega það samræmist veikleikum þeirra. Og vald þess er ekki hverfult, því að það skákar hagsmunum einstaklinganna hvers gegn öðrum, en beitir sömu meðulum til að stjórna ástríðunum og æsa þær. Lögmál eiginhagsmunanna hvetur menn ekki til stórkostlegrar sjálfsafneitunar, en það bendir þeim daglega á smáa hluti, sem þeir geta neitað sér um. Eitt sér gerir það menn ekki dygðuga, en það þjálfar fjölda manna í reglusemi, hófsemi, forsjálni og sjálfstjórn; og þótt það beini vilja manna ef til vill ekki beint á dygðarinnar veg, dregur það þá þangað samt smám saman með valdi vanans. Ef lögmál eiginhagsmunanna væri alls ráðandi í heimi siðferðisins, mundu framúrskarandi dygðum vafalaust fækka, en hins vegar mundi hin lægsta spilling einnig verða sjaldgæfari. Lögmál eiginhagsmunanna kemur ef til vill í veg fyrir, að menn rísi hátt yfir meðbræður sína, en það stöðvar og heldur í skefjum fjölda annarra manna, sem ella mundu sökkva djúpt niður. Lítum á nokkra hina allra bestu menn, þeim fer aftur vegna áhrifa þess, en lítum á allt mannkyn, því fer fram.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. mars 2020.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband