Hin hliðin á sigrinum

Eitt af því, sem menn læra í grúski um söguna, er, að fleiri hliðar eru á henni en okkur voru kenndar í skólum. Enginn sagði okkur til dæmis frá því, að í lok seinna stríðs voru á milli tíu og fjórtán milljónir manna af þýskum ættum reknar til Þýskalands frá heimkynnum sínum í Austur-Prússlandi, Póllandi og Tékkóslóvakíu, þar sem fólkið hafði búið mann fram af manni. Talið er, að hátt í milljón manns hafi látist í þessum flutningum.

Miskunnarleysi þýskra nasista í Mið- og Austur-Evrópu í stríðinu afsakar ekki miskunnarleysi sigurvegaranna í seinna stríði gagnvart fólki af þýsku bergi brotnu, að minnsta kosti ekki að dómi þeirra okkar, sem hafna hugmyndinni um samsekt þjóða, en trúa á ábyrgð einstaklinga á eigin gerðum og ekki neina sök þeirra á fæðingarstað sínum.

Það var eitt af kyrrlátum afrekum Þjóðverja eftir stríð, að þeir gátu tekið við öllu þessu fólki, án þess að allt færi úr skorðum. Þetta voru mestu fólksflutningar mannkynssögunnar. Skýringin á því, hversu ótrúlega vel tókst til, var tvíþætt: Þeir Konrad Adenauer og Ludwig Erhard höfðu komið á atvinnufrelsi í Vestur-Þýskalandi, svo að atvinnulífið óx hratt og örugglega og allt þetta aðkomufólk fékk störf. Og í öðru lagi var tiltölulega auðvelt fyrir hina nauðugu innflytjendur að laga sig að aðstæðum, því að þeir deildu tungu og menningu með þeim, sem fyrir voru. Öðrum þræði gátu þeir verið fegnir að lenda ekki undir oki kommúnista.

Adenauer var líka kænn stjórnmálamaður. Þótt hann væri viss um, að Þjóðverjar myndu aldrei endurheimta þau svæði, sem af þeim höfðu verið tekin, datt honum ekki í hug að segja það opinberlega. Hann leysti brýnan vanda fljótt og vel, en leyfði tímanum og þögninni að græða sár sögunnar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. ágúst 2020.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband