Spádómsgáfa Tocquevilles

Einn kunnasti hugsuður frjálshyggjunnar er franski rithöfundurinn og aðalsmaðurinn Alexis de Tocqueville. Spádómsgáfu hans er við brugðið. Tocqueville sat í fulltrúadeild franska þingsins og kvaddi sér hljóðs í janúar 1848. Lýsti hann megnri óánægju almennings: „Ég hygg, að við séum nú í fastasvefni uppi á eldfjalli.“ Fjórum vikum síðar gerði Parísarmúgurinn byltingu. Í seinna bindi hins mikla riti síns, Lýðræðis í Vesturheimi, sem kom út árið 1840, sagði Tocqueville, að eina hættan á byltingu í Bandaríkjunum væri vegna hinna þeldökku þræla þar í landi. Tuttugu og einu ári síðar skall þar á borgarastríð.

Tocqueville sá einnig Kalda stríðið fyrir í fyrra bindinu árið 1835: „Á okkar dögum stefna tvær stórþjóðir að sama marki, þótt þær komi úr ólíkum áttum: Rússar og Bandaríkjamenn. Báðar uxu úr grasi í kyrrþey. Á meðan menn höfðu um annað að sýsla, birtust þær skyndilega á fremsta bekk, og heimurinn fékk að vita af upphafi þeirra og afli nánast á sama tíma. Aðrar þjóðir virðast hafa náð þeim mörkum, sem náttúran setur þeim, en þessar tvær þjóðir eru að færa út kvíar.“

Enn sagði Tocqueville: „Bandaríkjamenn glíma við þær hindranir, sem náttúran setur þeim, Rússar við menn. Önnur þjóðin reynir að ná tökum á óbyggðum og villimennsku, hin á siðmenningu. Því er það, að Bandaríkjamenn vinna land með plógi bóndans, en Rússar með sverði hermannsins. Til að ná árangri treystir önnur þjóðin á eiginhagsmuni og nýtir sér atorku og skynsemi einstaklinganna án þess þó að stjórna þeim. Hin safnar öllu valdi saman á hendi eins manns. Önnur hefur frelsi að leiðarljósi, hin ánauð. Þær hefja ferð sína á ólíkum stöðum og feta ólíkar slóðir. Eigi að síður virðist hvor um sig hafa verið kjörin til þess af sjálfri forsjóninni að ráða örlögum síns helmings heimsins.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. mars 2020.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband