Hvað skýrir rithöfundarferil Snorra?

2.1 Snorri_sturluson_1930Eftir því sem ég skoða betur rithöfundarferil Snorra Sturlusonar, myndast skýrar tilgáta um hann í mínum huga. Hún er þessi: Snorri semur Eddu, áður en hann fer á fund Noregskonungs, í því skyni að endurvekja skáldskaparlistina, hefðbundna aðferð Íslendinga til að afla sér fjár og frama í konungsgarði. Þegar hann kemur til Noregs 1218, eru þeir Hákon konungur og Skúli jarl ævareiðir Íslendingum fyrir átök við norska kaupmenn. Hafa þeir við orð að senda her til Íslands. Snorri verður þess áskynja, að þeir ætli raunar að ganga lengra og leggja undir sig Ísland. Hann vill sjálfur, að Íslendingar séu vinir konungs, ekki þegnar. Nærtækt er því að friða konung með blíðmælum, en setjast við það, þegar heim kemur 1220, að semja sögu þess konungs, sem áður hafði árangurslaust seilst til mannaforráða á Íslandi, Ólafs digra, núverandi konungi til eftirbreytni.

Snorri semur þessa sögu, Ólafs sögu helga, fyrst allra konungasagna, og er ris hennar, þegar Einar Þveræingur flytur ræðu sína á Alþingi 1024 og minnir á, að konungar séu misjafnir, sumir góðir og aðrir vondir, og sé því best að hafa engan konung. Í henni er líka ræða Þórgnýs lögmanns til Svíakonungs 1018 um, að hann skuli settur af, haldi hann ekki frið og lög við bændur. Snorri hefur frjálsari hendur um að bera Svíakonungi illa söguna en Ólafi digra, dýrlingi norsku kirkjunnar.

Síðan ákveður Snorri að teygja verkið í báðar áttir, skrifa heildarsögu Noregskonunga, Heimskringlu. Hann gerir þar greinarmun á hinum góðu konungum, sem héldu sköttum í hófi og virtu hin fornu lög, og hinum vondu, sem voru ágjarnir og ófriðsamir. Framarlega í Heimskringlu setur hann sögu, sem hann hefur eflaust samið sjálfur eins og ræður Einars og Þórgnýs. Hún er um landvættirnar, sem verja Ísland, en með henni er Snorri að segja Noregskonungi, að erfiðara kunni að vera að leggja Ísland undir sig með hervaldi en hann haldi. Snorri er eins og Sighvatur Þórðarson á undan honum hinn fullkomni hirðmaður. Hann segir konungi óbeint hug sinn í ræðum Einars og Þórgnýs og sögunni um landvættirnar. Heimskringla er Bersöglismál í óbundnu máli.

Jafnframt er Heimskringla í raun um árekstur tveggja stjórnmálahugmynda, hinnar fornu germönsku hugmyndar um Genossenschaft, lýðvald, jafningjasamband, eins og var á Íslandi, og hinnar nýju hugmyndar, sem kemur frá Róm, um Herrschaft, drottinvald, konungsstjórn, eins og hafði myndast í Noregi, en um þann árekstur mætti segja margt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. ágúst 2020.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband