Kaldar kveðjur

Í Íslendinga sögum eru þrír löðrungar sögulegir. Auður Vésteinsdóttir tók fé það, sem reynt var að bera á hana, til að hún segði til manns síns, og rak í nasir Eyjólfs hins gráa. „Skaltu það muna, vesall maður, meðan þú lifir að kona hefur barið þig.“ Þorvaldi Halldórssyni, fyrsta manni Guðrúnar Ósvífursdóttur, sinnaðist svo við hana sakir eyðslusemi hennar, að hann rak henni kinnhest. „Nú gafstu mér það er oss konum þykir miklu skipta að vér eigum vel að gert en það er litaraft gott,“ sagði hún. Gunnar á Hlíðarenda missti eitt sinn stjórn á sér, eftir að kona hans, Hallgerður Langbrók, hafði látið stela mat, og löðrungaði hana. Þegar hann löngu síðar bað um lokk úr hári hennar til að nota í bogastreng, þá er óvinir hans sóttu að honum, sagði hún: „Þá skal ég nú muna þér kinnhestinn og hirði eg aldrei hvort þú verð þig lengur eða skemur.“

Frægasti löðrungurinn eftir það var sá, sem Hermann Jónasson forsætisráðherra veitti Brynjólfi Bjarnasyni, foringja íslenskra kommúnista, í ráðherraherberginu í Alþingishúsinu 14. mars 1940, eftir að þeim hafði orðið sundurorða um vetrarstríðið finnska, en Stalín hafði ráðist á Finna nokkrum mánuðum áður, og studdi Brynjólfur Stalín ólíkt flestum Íslendingum. Svo sem við var að búast, hafði Þjóðviljinn, málgagn kommúnista (sem nú kölluðu sig sósíalista) hin verstu orð um Hermann.

Í nýútkominni bók Kjartans Ólafssonar um íslensku sósíalistahreyfinguna er rifjað upp, að á flokksþingi Sósíalistaflokksins í nóvember 1966 var hart deilt um, hvort leggja ætti flokkinn niður og gera Alþýðubandalagið (sem verið hafði kosningabandalag) að stjórnmálaflokki. Brynjólfur Bjarnason var því andvígur, en varð undir. Kjartan hafði haft forystu um málið, en hann segir í bókinni, að hann hafi verið á leið út í lok þingsins, þegar Brynjólfur hafi gengið upp að honum og rekið honum löðrung (bls. 455). Raunar bætir Kjartan því við, að hann hafi tvisvar séð hinn aðalforingja íslenskra sósíalista, Einar Olgeirsson, slá til manna, þegar hann reiddist. Við hin hljótum að þakka okkar sæla fyrir að hafa aldrei verið í flokki með þessum mönnum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. september 2020.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband