Selurinn Snorri

Þegar ég var barn að aldri fyrir röskum sextíu árum, gleypti ég í mig söguna um Selinn Snorra eftir norska teiknarann og rithöfundinn Friðþjóf (Frithjof) Sælen. Það fór þá auðvitað fram hjá mér, að ritið er ekki aðeins skemmtileg myndasaga handa börnum, heldur líka snjöll dæmisaga um hernám Noregs. Snorri er saklaus kópur í Íshafinu, sem veit ekki af neinum háska, en er trúgjarn og óvarfærinn. Vinir hans eru aðrir selir og rostungurinn Skeggi frændi. En hann á líka óvini. Honum stafar hætta af ísbirninum Voða, sem er tákn rússneskra kommúnista, en Hitler og Stalín voru í bandalagi frá 1939 til 1941 og hrundu saman af stað seinni heimsstyrjöld. Mávahjónin Sultur og Svöng eru á sveimi í kringum selina, en þau eru fulltrúar norsku kvislinganna. Þau eru með glampa í gulum augunum og rauð merki yfir þeim. „Það var eins og þau væru alltaf að bíða eftir einhverju.“ Snorri er ginntur í hættuferð á ísjaka, en í kringum hann er háhyrningurinn Glefsir á sveimi og hyggur á illt. Hvalurinn er tákn þýskra nasista. Sögunni lýkur vel, því að saman leiða Snorri og Skeggi frændi Glefsi í gildru, og vinnur Skeggi, sem er tákn bresku þjóðarinnar, á Glefsi.

Friðþjófur notar dýrasögu til að koma boðskap sínum á framfæri eins og George Orwell í Dýrabæ, en sú saga er um sorgleg endalok rússnesku byltingarinnar. Sjálfur er Friðþjófur aðallega í list sinni undir áhrifum frá bandaríska teiknimyndahöfundinum Walt Disney. Bókin kom út á norsku haustið 1941, rösku ári eftir að nasistar hernámu Noreg, og var hún bönnuð innan mánaðar, en útgefandinn hafði verið varaður við, og var bókin þá uppseld frá honum. Höfundurinn barðist í andspyrnuhreyfingunni norsku og flýði til Bretlands árið 1944, en sneri heim í stríðslok. Rit hans er fjörlega skrifuð barnabók með vel gerðum myndum, sem lesa má sem sjálfstætt ævintýri um dýralíf í Íshafinu, og kom hún út á sænsku 1946 og á ensku og íslensku 1950. Sagan hefur notið fádæma vinsælda hér á landi og komið út í sex útgáfum, en einnig verið sett upp í Leikbrúðulandi. Snorri selur er auðvitað fulltrúi norsku þjóðarinnar, og það er engin tilviljun, að Friðþjófur teiknari velur honum nafn hins íslenska sagnritara, sem skráði sögu Norðmanna frá öndverðu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. september 2020.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband