Bastiat og brotna rúðan

10.1 BastiatFranski rithöfundurinn Frédéric Bastiat er einn snjallasti talsmaður viðskiptafrelsis fyrr og síðar. Ein ritgerð hans heitir „Það, sem við sjáum, og það, sem við sjáum ekki“. Þar bendir hann á, að athafnir okkar hafa margvíslegar afleiðingar. Ein er strax sýnileg, en aðrar koma síðar fram og dyljast mörgum, en aðalsmerki góðs hagfræðings er að leiða þær líka í ljós.

Bastiat segir dæmisögu máli sínu til stuðnings. Óknyttadrengur brýtur rúðu, og áhorfendur reyna að sefa reiðan föður hans: „Slys eins og þessi knýja áfram framleiðsluna. Allir verða að lifa. Hvað yrði um glerskera, ef aldrei væru brotnar rúður?“ Þessi rök eru ógild, segir Bastiat. Það er rétt, ef sex franka kostar að gera við gluggann, að þeir renna þá til glerskurðar og örva þá iðn. Þetta sjáum við. En það, sem við sjáum ekki, er, að faðir drengsins getur nú ekki notað þessa sex franka til að kaupa sér skó. Heildarniðurstaðan virðist vera, að glerskurður hafi verið örvaður um sem nemur sex frönkum, en aðrar atvinnugreinar misst af hvatningu sem nemur sömu upphæð.

En ávinningur glerskeranna bætir ekki upp tapið fyrir aðrar atvinnugreinar. Nú eyðir faðirinn sex frönkum í að gera við gluggann og nýtur hans síðan eins og hann gerði áður. En hefði slysið ekki orðið, þá hefði hann notað sex franka til að kaupa sér skó og hefði eftir það notið hvors tveggja, rúðunnar og skónna. Heildin hefur tapað því sem nemur verðmæti brotnu rúðunnar.

Í ritgerðinni notar Bastiat margar fleiri dæmisögur til að leiða í ljós, að heildin tapar alltaf á eyðileggingu verðmæta. Enn gera þó sumir þær hugsunarvillur, sem Bastiat bendir á. Nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman sagði til dæmis í bloggi sínu 14. september 2001, að hryðjuverkaárásin á tvíburaturnana nokkrum dögum áður gæti örvað atvinnulífið, „ef fólk flykkist út í búð og kaupir vatn í flöskum og niðursuðuvöru“. Og 15. mars 2011 sagði Krugman, að nýlegt kjarnorkuslys í Fukushima gæti örvað alþjóðahagkerfið, enda hefði seinni heimsstyrjöld bundið endi á heimskreppuna!

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. febrúar 2020.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband