Farsóttir og samábyrgð

Eitt frægasta málverk Rembrandts er Næturverðirnir. Það sýnir nokkra næturverði ganga fylktu liði um hollenska borg. Þetta málverk er táknrænt um eðlilegt hlutverk ríkisins. Það á eins og næturverðir Rembrandts að vernda okkur gegn ofbeldisseggjum, sem læðast að okkur í skjóli myrkurs, hvort sem þeir koma frá öðrum löndum eins og innrásarherir eða úr okkar eigin röðum eins og innbrotsþjófar. Að vísu reyndu sósíalistar nítjándu aldar að gera lágmarksríki frjálshyggjumanna hlægilegt með því að kalla það næturvarðarríkið. En það er sómi að því heiti, ekki skömm.

Merkir það, að eina hlutverk ríkisins sé að halda uppi landvörnum og löggæslu? Þótt þetta hlutverk sé vissulega mikilvægt, er svarið neitandi. Kjarni málsins er, hvers vegna við erum sammála um, að ríkið skuli vernda okkur fyrir innrásarherjum og innbrotsþjófum. Það er vegna þess, að þessar boðflennur birtast óvænt og raska högum okkar stórkostlega. Þær ógna frelsi okkar og öryggi. Hið sama er að segja um náttúruhamfarir eins og eldgos, jarðskjálfta og snjóflóð og líka um drepsóttir eins og veirufaraldurinn nú á útmánuðum 2020.

Við hljótum sjálf að bera ábyrgð á gerðum okkar. Ef við hegðum okkur skynsamlega, þá græðum við. Ef við hegðum okkur óskynsamlega, þá töpum við. Við þurfum jafnframt að sætta okkur við, að sumt í lífinu er ekki komið undir hegðun okkar sjálfra, heldur undirorpið tilviljun. Ef við viljum njóta heppninnar, þá þurfum við líka að gjalda óheppninnar. Ólán er ekki nauðsynlega óréttlæti, og það þarf ekki undir venjulegum kringumstæðum að vera hlutverk ríkisins að bæta okkur upp ólán. En náttúruhamfarir og drepsóttir eru ekki aðeins óheppni, heldur stórkostleg áföll, sem öll þjóðin verður fyrir. Hér á hugtakið samábyrgð við.

Þetta endurspeglaðist í Þjóðveldinu, sem sett var saman úr tveimur einingum, goðorðinu og hreppnum. Menn sóttu vernd gegn hugsanlegum óvinum til goðanna og gátu valið um þá, en þeim var skylt að vera í hreppnum, en hann var til þess að stjórna samnýtingu beitar á fjöllum og hlaupa undir bagga með einstökum bændum, ef fé þeirra féll eða hús þeirra brann. Og ekkert er eðlilegra en að ríkið í umboði þjóðarinnar hlaupi nú undir bagga með þeim, sem veirufaraldurinn hefur leikið grátt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. apríl 2020.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband