Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
24.8.2009 | 08:28
Morgunútvarpið
Ég var gestur Freys Eyjólfssonar og Láru Ómarsdóttur í Morgunútvarpinu á Rás tvö mánudagsmorguninn 24. ágúst. Þau spurðu um kreppuna og hrunið, sem mér er kennt um ásamt nokkrum öðrum. Ég minnti á, að nú geisar alþjóðleg lánsfjárkreppa, sem ég er saklaus af. Ástæðan til, að þessi alþjóðlega kreppa kemur harðar niður á Íslendingum en mörgum öðrum, er þríþætt: 1) Kerfisgalli var í EES-samningnum, þar sem rekstrarsvæði banka var miklu stærra en baktryggingarsvæði þeirra. 2) Fautaskapur Breta með beitingu hryðjuverkalaga snarminnkaði líkurnar á að koma eignum bankanna, sem stóðu á móti skuldum, í gott verð. 3) Glannaskapur íslenskra bankamanna. Ég játaði á mig tvenn mistök (eða að minnsta kosti undrunarefni) á liðnum árum. Ég hefði haft trú á því, að Baugsfeðgar og lið þeirra væru snjallir kaupsýslumenn, þótt ófyrirleitnir væru í stjórnmálavafstri. Þetta hefði reynst rangt. Ég hefði í öðru lagi orðið hissa, þegar ég hefði séð, að Landsbankinn hefði dælt fé í Baugsfeðga. Ég kvað hins vegar fráleitt, að Íslendingar ættu að greiða skuldir óreiðumanna erlendis. Ekki hefði verið látið reyna á það fyrir dómstólum. Ætti einhver að biðja afsökunar, þá væri það Steingrímur J. Sigfússon, sem sent hefði óhæfa samningamenn til að semja um Icesave-málið.
Halldór Baldursson, hinn snjalli teiknari Morgunblaðsins, gerði gys að mér í teikningu í blaðinu daginn eftir. En ég veit, að margir eru sammála mér um það, að Íslendingar væru betur komnir, hefðu þeir hlustað á viðvaranir Davíðs Oddssonar árin 20042008.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.8.2009 kl. 13:21 | Slóð | Facebook
23.8.2009 | 13:41
Bréf til stjórnar Sagnfræðingafélagsins 20. ágúst 2009
Ágæta stjórn,
þið auglýstuð í sumar eftir hugmyndum um erindi í fundaröð Sagnfræðingafélagsins um efnið: Hvað er kreppa? nú á vetri komanda. Ljóst var af umræðum á Netinu um val fundarefnisins, að ekki var síst haft í huga bankahrunið íslenska haustið 2008. Ég tek eftir því, að margir hafa dregið mitt nafn inn í umræður um hrunið. Einn þeirra er Páll Björnsson, sem lengi var ritstjóri Sögu. Hann sagði í pistli, sem hann sendi inn á Gammabrekku, umræðusvæði sagnfræðinga, 26. janúar 2009:
Þar að auki mun þurfa að setja fram margar hlutaskýringar sem beinast að ýmsum meðvirkandi þáttum. Einn af þeim er hlutur fræðimanna. Ég þykist vita að fjölmargir Gammabrekkungar hafi kynnt sér eftirfarandi orð (sjá http://hannesgi.blog.is/blog/hannesgi/entry/587992/ og http://vefmidlar.visir.is/sources/4b8342d2-6d57-4144-8b62-3d3067588513.asx).
Örugglega má finna dæmi um (marga?) aðra fræðimenn sem talað hafa á svipuðum nótum. Samtekt og greining á þeirra orðum verður fróðleg. Það var auðvitað nauðsynlegt að hið opinbera skipaði rannsóknarnefnd, en mikilvægast er þó að fræðimenn, vonandi margir sagnfræðingar, eigi eftir að vera áberandi í öguðum rökræðum um þessi mál á næstunni.Þessir tveir hlekkir Páls Björnssonar voru á greinar og viðtöl við mig. Margir fleiri hafa látið þá skoðun í ljós opinberlega, að ég eigi einhverja aðild að bankahruninu, beina eða óbeina, meðal annars Einar Már Guðmundsson, sem nýlega hefur gefið út greinasafn um málið. Þá má nefna Einar Má Jónsson, sem skrifaði í Fréttablaðið 19. ágúst, að ábyrgðin á bankahruninu lægi ekki síst hjá hugmyndasmiðum frjálshyggjunnar. Ótal önnur sambærileg dæmi má nefna allt frá haustinu 2008 til dagsins í dag.
Í ljósi allra þessara sjónarmiða taldi ég siðferðilega skyldu mína, hvort sem ljúft væri eða leitt, að gera grein fyrir því, hvernig ég lít á bankahrunið íslenska. Mitt sjónarhorn skipti máli, hvort sem það væri rétt eða ekki. Þess vegna sendi ég ykkur hugmynd um erindi, og var útdrátturinn svohljóðandi:
Hverju breyta kreppur um stjórnmálaviðhorf?
Í erindinu verður rætt um heimskreppuna, sem hófst 1929, og lánsfjárkreppuna, sem enn stendur og hófst 2007. Spurt verður, hvernig fólk skýrði þessar kreppur og hvaða áhrif þær höfðu á stjórnmálaskoðanir þess. Í fyrra dæminu er svarið tiltölulega ljóst. Hugmyndin um sjálfstýrt hagkerfi beið mikinn hnekki, og áætlunarbúskapur var víða tekinn upp, misjafnlega mikill. Kommúnismi og fasismi efldust. Í seinna dæminu er erfiðara að svara spurningunum, enda sú kreppa nálægt okkur í sögu og enn geisandi, en sá munur er á, að kommúnismi þykir ekki eins fýsilegur kostur 2007 og hann var mörgum 1929. Er þess vegna líklegt, að einhvers konar fasismi eflist við núverandi lánsfjárkreppu? Er hún kreppa lausbeislaðs kapítalisma eins og margir halda fram eða til marks um misviturleg ríkisafskipti? Eða hvort tveggja og þá aðallega vitnisburður um takmarkaða möguleika mannsandans á að stjórna rás viðburða?
Í bréfi frá formanni Sagnfræðingafélagsins til mín, dags. 10. ágúst, kemur hins vegar fram, að stjórn félagsins hefur hafnað tilboði mínu um erindi, jafnframt því sem tilboðum ýmissa annarra (fimm manns, að því er mér skildist) um erindi um þetta efni hefur verið tekið.
Ég er í aðra röndina feginn, en um leið þykir mér þetta miður í ljósi þess, sem þegar hefur verið stuttlega rakið, að háværar kröfur hafa verið gerðar um það af sagnfræðingum og öðrum, að ég skýri sjónarmið mín um bankahrunið, svo að ég taldi mér beinlínis skylt að gera það eftir bestu samvisku. En var hugsunin þá sú, að ég mætti ekki tala úr ræðustól, heldur aðeins af sakamannabekk? Þess má síðan geta, að erlend stórblöð eins og Wall Street Journal hafa fengið mig til að skrifa greinar um bankahrunið, og hafa stofnanir í Bandaríkjunum jafnframt beðið mig um að skrifa bók á ensku um það, og hef ég þegar gert samning við eina þeirra um slíkt rit, þótt ég ætli ekki að birta það fyrr en niðurstöður rannsóknanefnda um hrunið liggja fyrir. Þessir erlendu aðilar hafa eflaust ekki frétt neitt af Sagnfræðingafélagi Íslands.
Bestu kveðjur,
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:37 | Slóð | Facebook
22.8.2009 | 15:33
Góð grein Kjartans Gunnarssonar
EINN dapurlegasti kaflinn í sögubókum framtíðarinnar verður vafalaust sá sem fjallar um Icesave-málið svokallaða og þá 700 milljarða króna skuld sem ríkisstjórnin hefur nú nánast tryggt að lendi að miklu leyti á íslensku þjóðinni.
Sagan hefst á því að vegna Evróputilskipunar var Íslandi gert að koma á fót innlánatryggingakerfi og stofna sérstakan sjóð í því skyni, sem meðal annars yrði notaður til að greiða þeim til baka sem eiga sparnaðarreikninga í íslenskum banka ef hann skyldi fara í þrot.
Margt er enn óljóst eða óupplýst hvað varðar fundi, bréf og samtöl íslenskra ráðherra og embættismanna sem kann að hafa haft áhrif á að Bretar beittu hryðjuverkalögum á íslenska banka. Eins og lögfræðingar hafa bent á var hlutverk innlánatryggingakerfa samkvæmt reglum ESB/EES- svæðisins aldrei að takast á við allsherjar bankahrun, heldur aðeins fall einstakra banka. Sama sjónarmið kemur fram í skýrslum og yfirlýsingum frá Seðlabaka Evrópu og framkvæmdastjórn ESB. Veigamikil rök hnigu því strax frá upphafi að því að íslenska ríkið bæri ekki ábyrgð á skuldum vegna Icesave-reikninganna umfram þá upphæð sem var til staðar í Tryggingasjóði innistæðueigenda.
Með því að falla fyrst frá því að fá úr því skorið hver raunveruleg ábyrgð Íslands er og nú síðast með því að heykjast á því að annaðhvort ríkið eða Landsbankinn, eða báðir aðilar, höfði mál vegna ákvörðunar breska fjármálaráðuneytisins að beita hryðjuverkalögum á Íslendinga hefur ríkisstjórnin í reynd afsalað Íslendingum öllum lagalegum og réttarfarslegum möguleikum í málinu.
Þó má segja að enn sé örlítil vonarglæta eftir í málinu því enn á Tryggingasjóður innstæðueigenda eftir að taka við skuldunum og tryggingarupphæðirnar eru því formlega séð enn á ábyrgð viðkomandi ríkja. Eins og undirritaður lýsti yfir við atkvæðagreiðslu um málið í þinginu 5. desember síðastliðinn(2008) lítur þingflokkur Vinstri grænna á samninginn sem riftanlegan eða ógildanlegan nauðungarsamning. Undir þetta sjónarmið hafa nú tekið þeir Stefán Már Stefánsson lagaprófessor og Lárus L. Blöndal hæstaréttarlögmaður með þeim rökum að samningurinn sé til kominn vegna þvingana frá ESB, sem hafi sett það sem skilyrði fyrir lántöku hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Enn er hægt að afstýra stórslysi fyrir íslenska þjóð. Taki tryggingasjóðurinn hins vegar við skuldunum er ljóst að þá verður ekki aftur snúið: Þá hefur þjóðin endanlega verið skuldsett á grundvelli pólitískra þvingunarskilmála sem ríkisstjórnin hafði ekki dug í sér til að standa gegn...
Þessi texti er ekki eftir mig né er þetta úr grein minni um Icesave-saminginn í þessu blaði sl. föstudag, 14. þ.m. Höfundurinn er ráðherrann, sem kaus að senda mér tóninn úr kór Hóladómkirkju sl. sunnudag, 16. þ.m., fyrir að halda fram sömu sjónarmiðum og hann gerði sjálfur svo skelegglega snemma á þessu ári. Þegar Steingrímur J. Sigfússon skrifaði þetta í janúar 2009 voru hann og nánustu félagar hans að leggja á ráðin um myndun núverandi ríkisstjórnar og söguleg svik Samfylkingarinnar við samstjórnarflokk sinn þá, Sjálfstæðisflokkinn. Aðgöngumiðarnir að því stjórnarsamstarfi voru tveir, báðir á kostnað þjóðarinnar. Annars vegar umsókn um ESB-aðild og hins vegar já og amen við öllum kröfum ESB, Breta og Hollendinga í Icesave-málinu, enda myndi auðmýkt þar bæta stöðuna í aðildarviðræðum. Hvort tveggja þessara skilyrða hefur nú Steingrímur samviskusamlega efnt.
Þegar ég leyfi mér að benda á sömu rök fyrir málstað Íslendinga og Steingrímur gerði í blaðagrein í janúar 2009 fer Jón Baldvin Hannibalsson af hjörunum í Morgunblaðinu miðvikudaginn 19. þ.m. Í janúar var ég í meginatriðum sammála Steingrími og er það enn að frádregnum pólitískum upphrópunum hans, sem ég hirði ekki um að endurbirta. Steingrímur taldi þá, að ekki væri ríkisábyrgð á tryggingasjóðnum og því enn síður á Landsbankanum. Þá vildi Steingrímur að Íslendingar færu dómstólaleiðina til þess að fá skorið úr um skyldur sínar í málinu og hann taldi væntanlegan samning riftanlegan eða ógildanlegan nauðungarsamning. Nú er Steingrímur leiðtogi fyrstu hreinu vinstristjórnarinnar og þá er hans fyrsta verk að gera allt í Icesave-málinu þveröfugt við það sem hann sagði í janúar. Og ekkert skaðabótamál hefur verið höfðað gegn Bretum. Hver skuldar hverjum skýringar?
Ég er ekki reiðubúinn til þess að fallast á að Íslendingar gangist í ábyrgð fyrir hundruðum milljarða, án þess að tilraun sé gerð til þess að fá skorið úr réttarágreiningi um skylduna. Rétt er að minna á að nær allir sem taka til máls um greiðsluskylduna, fræðimenn innlendir sem erlendir, draga hana í efa og helstu blöð Bretlands taka nú undir þau sjónarmið. Hvað er það sem raunverulega knýr stjórnvöld til þess að ganga þessa óheillagöngu? Fullyrðingar Jóns B. Hannibalssonar um aðra þætti Icesave-málsins leiði ég hjá mér. Ég vona að öll gögn málsins komi fram, ekki síst að leynd verði létt af öllum gögnum í Bretlandi um samskiptin við Ísland árið 2008 og þau verði ófölsuð. Að lokum ítreka ég að mér vitanlega var ávallt fylgt réttum lögum varðandi margnefnda innlánsreikninga.
Birtist í Morgunblaðinu 21. ágúst 2009. (Ég vona, að ég brjóti engan höfundarrétt með því að setja þessa ágætu grein Kjartans á bloggsíðu mína. Ég get tekið undir hvert einasta orð í henni.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:36 | Slóð | Facebook
21.8.2009 | 11:16
Hvar er Karl Th. Birgisson?
18.8.2009 | 11:04
Erum við réttlaus gagnvart bloggurum?
Árni Snævarr, sagnfræðingur og blaðamaður, bloggar um kvöld og nætur á eyjan.is. Hann helgaði mér pistil 20. apríl 2009. Þar sagði hann meðal annars:
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor og einn umtalaðasti "sérfræðingur" þjóðarinnar í Halldóri Laxness heldur því líka fram að jörðin sé ekki að hlýna og raunar væri það bara gaman að geta stundað sjóböð á íslenskum ströndum þótt svo kynni að fara að aðrir jarðarbúar stiknuðu. Ekki er vitað hvort prófessorinn telur líka að jörðin sé flöt, en það skal ekki útilokað.
Margt annað var missagt í pistlinum, og leiðréttu sumir það ágætlega í athugasemdunum. Ég gerði aðeins eina athugasemd. Hvar átti ég að hafa sagt, að jörðin væri ekki að hlýna? Árni svaraði mér ekki, og hann breytti ekki færslu sinni.
Ég hef margoft vikið að hlýnun jarðar opinberlega. Til dæmis sagði ég í grein í Fréttablaðinu 18. apríl 2008:
Sjálfur efast ég ekki um þær niðurstöður vísindaheimsins, að jörðin hafi hlýnað um tæpt eitt stig síðustu 100 árin, að koltvísýringur í andrúmslofti hafi aukist um 30% á sama tímabili og að eitthvert samband sé á milli þessa. En heimsendir er ekki í nánd. Þegar sannleikurinn missir stjórn á sér, verður hann að ýkjum. Á það ekki við um boðskap Als Gores? Aðalatriðið er, hvað skynsamlegast er að gera. Það er háskalegur misskilningur, að við getum stjórnað veðurfari. Við mennirnir búum hins vegar yfir mikilli aðlögunarhæfni. Þess vegna eigum við að laga okkur að nýjum aðstæðum, ekki gerbreyta lífsháttum okkar eða reyna að endurskapa heiminn.
Ég sagði í ritdeilu við Guðna Elísson í Lesbók Morgunblaðins 18. desember 2007:
Ég hafði bent á fyrri loftslagsbreytingar, hlýnun og kólnun á víxl. Guðni viðurkennir, að þær breytingar hafi ekki verið af mannavöldum. En leita þurfi að minnsta kosti 1200 ár aftur í tímann til að finna jafnmikla hlýnun og nú. Hætta sé því á ferð. Ég er hér ekki sannfærður eins og Guðni. Jafnvel þótt hlýnunin nú sé að einhverju leyti af mannavöldum (sem kann vel að vera), sé ekki af henni bráð vá.
Eitt tilefnið til deilu okkar Guðna var grein í Lesbók Morgunblaðsins 27. október 2007, þar sem ég sagði: Sjálfur hallast ég helst að því, að eitthvað sé að hlýna á jörðinni og það geti að einhverju leyti verið af mannavöldum, en að allt of mikið hafi verið gert úr því, auk þess sem vart borgi sig að gera neitt við því.
Það er auðvitað ekkert stórmál, hvað Árni Snævarr bloggar á kvöldin og næturnar. En hann er þó aðsópsmikill í umræðum og einn af föstum höfundum á eyjan.is. Það er þess vegna meira mark á honum tekið en nafnleysingjum, sem hella úr skálum reiði sinnar á Netinu. Enn spyr ég: Hvaða úrræði hef ég? Geta bloggarar endalaust rangfært það, sem ég segi, og hunsað leiðréttingar?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:53 | Slóð | Facebook
17.8.2009 | 07:35
Tilraun til leiðréttingar
Fyrir skömmu sendi Karl Th. Birgisson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, pistil ótilkvaddur á amx.is. Þar sagði meðal annars:
Árum saman fullyrti Hannes Hólmsteinn Gissurarson við hvern sem heyra vildi, að Baugur héldi Samfylkingunni uppi fjárhagslega. Þetta löptu alls kyns lærisveinar upp eftir meistara sínum og þessi þvæla varð að einhvers konar möntru íhaldsmanna í kosningabaráttunni 2003. Þessu trúðu margir og trúa kannske sumir enn. Það er jafnvel hugsanlegt að Hannes hafi trúað bullinu í sér sjálfur. Ég vissi betur sem framkvæmdastjóri flokksins á árunum 2002-2005. Við fengum ekki krónu frá Baugi, hvorki helvízkar né öðruvísi. Í greininni minni litlu (herdubreid.is/?p=394) rifjaði ég þetta einfaldlega upp, að gefnu rækilegu tilefni. Ég hélt að vísu viðbrögðin yrðu önnur. Mér finnst nefnilega liggja beint við að spyrja Hannes Hólmstein af hverju hann gekk um í öll þessi ár, þvaðrandi og skrökvandi um hluti sem hann vissi ekkert um -- og hvort þetta sé ekki áreiðanlega eina dæmið um slíkt. Ég er þess fullviss að DV og smáfuglarnir leita svara við því.
Ég sendi Karli Th. Birgissyni tölvuskeyti af þessu tilefni 10. júní 2009:
Mér er ljúft og skylt að svara spurningu þinni. En gæti ég fengið upplýsingar um það, hvar ég á að hafa haldið þessu fram (að Baugur héldi Samfylkingunni uppi fjárhagslega)? Ég vildi gjarnan fá svar innan tíu daga, ella hlýt ég að líta svo á, að þú getir ekki fundið orðum þínum stað. Til hægðarauka sendi ég lögmanni mínum afrit af þessu skeyti.
Karl Th. Birgisson svaraði daginn eftir, 11. júní 2009:
Hafðu þakkir fyrir bréfið, með svona líka fallegum gæsalöppum. Ég verð því miður að valda þér vonbrigðum. Það er margra manna verk að safna saman lygaþvælu þinni um Samfylkinguna og Baug, svo ekki sé fleira nefnt til sögu. Hitt þykir mér verra, ef þú manst svo illa þín eigin ummæli og skrif, þó þetta nýleg. Er ekki nokkuð alvörumál fyrir virðulegan háskólaprófessor að þannig sé fyrir honum komið?
Ég svaraði samdægurs:
Kæri Karl, ef ég hef sagt þetta svo oft og svo víða sem þú segir, þá getur ekki verið neitt mál fyrir þig að benda mér að minnsta kosti á eitt dæmi. Ég vil gjarnan, að þú gerir það.
Karl svaraði að bragði:
Langt síðan ég hef eignazt pennavin. Ég get samt ekki litið á það sem hlutverk mitt að uppfylla óskir þínar og langanir. Flestir fræðimenn sem ég þekki halda nokkuð nákvæmar skrár um það sem þeir segja og gera á opinberum vettvangi. Nema náttúrlega þeir vilji ekki kannast við þau, sem er sjaldgæft. Ég þekki að vísu ekki til aðstæðna hjá þér.
Ég skrifaði Karli aftur tölvuskeyti 15. júní 2009:
Kæri Karl, ég hef engan áhuga á að íþyngja þér með óskum mínum og löngunum, enda beinast þær ekki beinlínis að þér. En í ljósi þess, að þú fullyrðir ýmislegt um mig og mín skrif, hlýt ég að hafa rétt á því að biðja þig um dæmi. Mig rekur ekki minni til þess að hafa fullyrt, að Baugur héldi Samfylkingunni uppi fjárhagslega, eins og þú hefur eftir mér. Ég veit ekki til þess, að ég hafi sagt neitt í líkingu við þetta. Hvers vegna vilt þú ekki benda mér á dæmi um þetta, ef ég hef gert þetta? Ég vil gjarnan gefa þér kost á því að finna þessum ummælum þínum einhvern stað, ef þú getur, því að ég get það ekki sjálfur. Ef ekki, og þetta reynast vera hugarórar þínir og uppspuni, þá að biðjast afsökunar í góðu.
Karl svaraði sama dag:
Ósköp ertu elskulegur, Hannes. Og gaman að fá frá þér öll þessi bréf. En ólíkt því sem þú kynnir að halda -- og það þótt ég sé einlægur aðdáandi þinn -- þá hef ég ekki dundað við það síðustu áratugi að klippa út úr blöðunum það sem þú hefur látið frá þér fara um mann og annan. Áhugann hef ég vitaskuld ærinn, en tíminn hefur einhvern veginn ekki náð að tengja sig við okkur tvo. Forláttu þótt ég segi það: Í eigingirni minni tími ég ekki að eyða dýrmætum sumardögum á Landsbókasafninu í þessa annars ágætu hugmynd þína, að fletta þér upp í lesefni landsmanna. Ég hygg raunar að fleiri en lesa og heyra vildu hafi orðið vitni að málflutningi þínum um Samfylkinguna og Baug á umræddum árum. Og skil vel af hverju þú kýst að gleyma því öllu sem rækilegast og það hratt. Hitt hlýtur þér líka að vera ljóst, að ég get ekki beðið þig afsökunar á þínum eigin heilagraut, hvorki í góðu né illu. En það er óvænt ánægja að fá svona skemmtileg bréf. Þau eru fágæt í nútíðinni. Hlakka til að heyra frá þér aftur.
Í ritnefnd tímaritsins Herðubreiðar, þar sem ásakanir Karls birtust fyrst, sitja nokkrir menn. Ég sneri mér til þeirra í því skyni að koma leiðréttingu minni á framfæri. Einn þeirra var Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur, en hann hefur tekið að sér í vikulegum pistlum árum saman að siðbæta þjóðina, svo að ég hélt, að hann væri ekki fráhverfur því að siðbæta sjálfan sig. Ég sendi honum eftirfarandi tölvuskeyti 23. júní:
Kæri Guðmundur Andri, þú situr í ritnefnd veftímaritsins Herðubreiðar. Þar birtist pistill, merktur ritstjóra tímaritsins, Karli Th. Birgissyni, undir heitinu Leiguþý og baugsdindlar II 21. mars 2009, þar sem sagði: Hannes Hólmsteinn sérhæfði sig í því í nokkur misseri að halda því fram að Baugur héldi Samfylkingunni uppi fjárhagslega. Ljóst er af samhenginu, að hann á við þau ár, er hann var framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, sem mun hafa verið 2002-2005. Ég kannast ekki við að hafa haldið þessu fram, hvorki þá né fyrr né síðar, og er það mál alveg óskylt því, sem nýlega hefur komið fram um fjárhagsleg tengsl Baugs og Samfylkingarinnar. Þar sem ég fann ekkert í fórum mínum um þetta, en gat auðvitað ekki treyst minni mínu að fullu, sendi ég Karli skeyti og bað hann að benda mér á þá staði, þar sem ég hefði haft þessi ummæli. Hann hefur svarað skætingi einum, sem hann hefur raunar birt á Herðubreið, en ekki bent á nein dæmi. Nú skora ég á þig og aðra ritnefndarmenn, sem berið auðvitað einhverja ábyrgð með ritstjóranum í krafti stöðu ykkar sem ritnefndarmanna og sem hljótið líka að vilja hafa það, sem sannara reynist, að leggja að ritstjóranum annaðhvort að finna orðum sínum stað eða leiðrétta þau á sama stað og þau birtust. Mér finnst eðlilegt að reyna til þrautar að ljúka þessu í góðu, en ég veit, að þið ritnefndarmennirnir eruð sammála mér um það, að menn hljóta að eiga siðferðilegan og lagalegan rétt á því, að ekki sé vísvitandi sagt ósatt um þá, og megi leita þess réttar síns. Ég hygg líka, að þið séuð sammála mér um, að ritstjórar og ritnefndarmenn hljóti að bera einhverja ábyrgð á orðum, sem birtast í tímaritum þeirra, jafnvel þótt þau séu veftímarit.
Guðmundur Andri svaraði stuttaralega sama dag:
Þið verðið að útkljá ykkar deilur án mín. Þær eru mér með öllu óskiljanlegar.
Ég svaraði honum samdægurs:
Kæri Guðmundur Andri, málið er einfalt. Þú ert ritnefndarmaður í Herðubreið. Með því lýsir þú yfir almennum stuðningi við tímaritið, en auðvitað ekki við allt, sem í því birtist, enda ætlast enginn til þess. Í þessu tímariti birtist fullyrðing um mig eftir ritstjórann, sett fram í árásarskyni. Ég bið hann að finna þessari fullyrðingu sinni stað. Hann svarar skætingi einum og neitar að gera þetta. Er ekki eðlilegt, að ritnefndarmaðurinn hlutist til um, að ritstjórinn finni annaðhvort fullyrðingu sinni stað eða leiðrétti hana? Er það eitthvað óskiljanlegt? Ég tel, að það sé í senn skiljanlegt og eðlilegt. Maður með sómatilfinningu eins og þú á að hlutast til um í tímariti, sem hann er í ritnefnd hjá, að haft sé það, sem sannara reynist. Ég ætla að reyna til þrautar að leysa þetta mál í góðu, enda er það í hag tímaritinu Herðubreið.
Guðmundur Andri svaraði mér að bragði:
Ég skil ekki hvers vegna þú neitar því svo ákaft að hafa haldið fram fjárhagslegum tengslum Samfylkingar og Baugs. Sú bjargfasta skoðun þín var á allra vitorði - ég hélt raunar að þú værir stoltur af henni. Má vera að þú hafir látið þér nægja opinberlega að dylgja um þetta eða eftirláta lærisveinum að halda því fram. Ég bara veit það ekki og læt mér það raunar í léttu rúmi liggja. Ég skil ekki æsing þinn yfir því að Karl skuli hafa haft orð á þessu. Og standirðu í þeirri trú að ummæli Karls hafi á einhvern máta breytt einhverju um mannorð þitt þá held ég að ég geti næstum fullyrt að það er misskilningur. Séu þessi orð Karls röng - geturðu ekki bara leiðrétt þau? Satt að segja lít ég ekki svo á að ritnefndarsetu minni í Herðubreið fylgi boðvald yfir Karli Th Birgissyni. Ég get [ekki] með nokkru móti farið að segja honum fyrir verkum. Hann myndi fyrir það fyrsta aldrei hlýða mér - ekki frekar en hann hlýðir þér. Karl er alveg sérlega óhlýðinn og mér liggur við að segja baldinn einstaklingur. Sem er einmitt sá eiginleiki í fari hans sem mér þykir ágætastur. Alls konar fólk er að klaga hann fyrir mér, ýmis misjafnlega glannaleg skrif hans sem mér koma ekkert við og er oftast hjartanlega ósammála, eins og ég segi líka þessum klöguskjóðum. Hvað á ég að gera? Slá á puttana á honum? Lesa honum fyrir greinar? Minn hlutur að þessum vettvangi hefur einungis verið sá að vera þarna einhvers staðar til að ráðgast við (sem hann hefði mátt gera oftar!), einhvern tímann prófarkalas ég eitthvað og skrifaði svolítinn pistil um daglegt mál. En það er ekki eins og maður sé einhver bankaráðsmaður.
Ég svaraði:
Kæri Guðmundur Andri, þú lætur eins og þú vitir ekki, um hvað málið snýst, en auðvitað gerir jafnglöggur maður og þú sér alveg grein fyrir því. Í tímariti, sem þú ert í ritnefnd hjá, er haldið fram ákveðinni fullyrðingu. Ég spyr, hvernig unnt sé að finna henni stað. Ég fæ ekkert nema skæting fyrir. Hvers vegna getur tíimaritið ekki annaðhvort fundið þessu stað eða leiðrétt það? Ég er ekkert ákafur í þessu máli, og það er auðvitað fullkomið smámál. En einmitt vegna þess að það er smámál, skil ég ekki, hvers vegna Herðubreið getur ekki gert annað af tvennu, fundið orðum sínum stað eða leiðrétt þetta. Hvert er málið? Hver er vandinn? Eru ekki allir sammála um að hafa það, sem sannara reynist? Það er allt annað mál, hvaða skoðun ég kann að hafa haft á einhverju máli (til dæmis fjárhagslegum tengslum Baugs og Samfylkingarinnar) og hvort sú skoðun hefur verið staðfest með nýjum upplýsingum. Málið snýst ekki um það, heldur um eitt afmarkað atriði: Hvar eru gögnin um það, að ég hafi haldið þessu fram, sem Herðubreiðarritstjórinn sagði, að ég hefði haldið fram (og ekki aðeins einu sinni, heldur gert það ásamt öðrum að einhverju aðalmáli íslenskra stjórnmála)? Ég man ekki til að hafa gert það neins staðar, en get ekki verið viss. Ef ritstjóri Herðubreiðar er að bera á mig eitthvað, sem hann getur ekki staðið við, hlýtur að vera lágmarkskrafa, að hann leiðrétti það. Er það ekki?
Guðmundur Andri svaraði þá:
Af hverju erum við að skrifast á um þetta? Við gætum skrifast á um æskuljóð Jónasar, losta Gunnars á Hlíðarenda, ofsa Guðrúnar Gjúkadóttur, mildi Freyju, þunglyndi Gröndals. Þú gætir borið undir mig hugmyndir þínar um sálarstríð Bjarna Benediktssonar, ræðusnilld Benedikts Sveinssonar, ættjarðarást Huldu, drenglyndi Bergþóru, alþjóðahyggju Jóns Sigurðssonar. Um kommúnisma, Sókrates, Newton, hvalveiðar við Ísland, tunglið í íslenskum skáldskap, prjónaskap, Nixon, snilli Jóns Þorlákssonar, skyr. Um sumarkvöldin í Flatey, goluna í Ásbyrgi, Tinna, Bítlana, Edith Piaf og André Breton. Við gætum talað saman og skipst á hugsunum og lífsreynslu. Það er jafnvel ekki óhugsandi að við gætum orðið einhverju nær um eitthvað á því. En þú spyrð mig - þú þráspyrð mig - um eitthvað sem Karl Th Birgisson segir að þú hafir sagt - og sendir einhverjum Heimi hjá Lex öll bréfin eins og ég sé allt í einu mættur sem vitni í sakamáli. Og þegar ég nenni ekki að taka þátt í þessari vitleysu sakarðu mig um að láta sem ég viti ekki um hvað málið snýst. Ég veit að minnsta kosti í hvað ég nenni að eyða mínum tíma. Og nú þarf ég að fara að vinna.
Guðmundur og Karl birtu tölvuskeyti sín (og mín líka) fram að þessu á herdubreid.is. Þótt þeir hefðu ekki fyrir því að fá leyfi mitt til þess, geri ég enga athugasemd við það. En af einhverjum ástæðum birtu þeir ekki svar mitt næsta dag:
Kæri Guðmundur Andri, ég þakka þér mælskubrögðin. Þau eru fimlega af hendi leyst, eins og þín var von og vísa. Ég veit, að þetta er lítið mál, en þú kýst enn að misskilja það. Enginn ætlast til þess, að þú ritskoðir efni frá ritstjóranum eða sért honum jafnvel sammála um eitt eða neitt. En ég get ekki skilið þig öðru vísi en svo, að þú vijir ekki sem ritnefndarmaður hlutast til um það, að tímaritið annaðhvort finni orðum sínum um mig stað eða leiðrétti þau. En er það ekki sjálfsögð krafa, sem gera á til allra tímarita og sem ritnefndarmenn ættu sérstaklega að gera til þeirra tímarita, sem þeir taka að sér að vera í ritnefnd hjá?
Guðmundur Andri svaraði:
Þetta eru ekki mælskubrögð Hannes. Vonandi muntu átta þig á því einhvern tímann. Með frómum óskum.
Aðrir ritnefndarmenn svöruðu í svipuðum dúr og Guðmundur Andri, en með minni tilþrifum. Lauk þessum orðaskiptum á síðasta skeyti Guðmundar Andra. Höfðu ýmsir skemmtun af, þótt kjarni málsins virðist hafa farið fram hjá þeim: Eftir stendur og er fullreynt, að Karl Th. Birgisson og lið hans treystir sér ekki til að finna fullyrðingum sínum stað (þótt það sendi ótilkvatt árásir á mig á netsíður). Samt vill þetta lið ekki leiðrétta fullyrðingar sínar, heldur svarar skætingi og mælskubrögðum einum til, þegar rætt er kurteislega við það. Hvaða úrræði á ég?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:37 | Slóð | Facebook
11.6.2009 | 00:57
Tveir menn við múrinn

Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:23 | Slóð | Facebook
30.5.2009 | 03:12
Fyrirlestur í Santiago de Chile


Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:39 | Slóð | Facebook
8.4.2009 | 12:33
Rannsóknaskýrsla 2008
Háskólaprófessorar þurfa að skila rannsóknarskýrslu um hvert ár, og gekk ég fyrir nokkru frá minni skýrslu. Hér er yfirlit mitt 2008 til fróðleiks. Margt af þessu efni er aðgengilegt á Netinu.
Greinar í fræðiritum
Alþingi götunnar og krossfestingar. Þjóðmál 4. árg. 2. hefti (vor 2008). Bls. 40-43.
Ósigur frjálshyggjunnar? Skírnir, 182. árg. 2. hefti (haust 2008). Bls. 181-188.
Í þjálfunarbúðum byltingarmanna. Þjóðmál, 4. árg. 4. hefti (vetur 2008). Bls. 70-86.
Leiðin út úr erfiðleikunum. Vísbending, 26. árg. 30. tbl., 15. ágúst 2008.
Eigum við að kasta krónunni? Vísbending, 26. árg. 40. tbl., 24. október 2008.
Greinar í ráðstefnuritum
The Politics of Property Rights. Advances in Rights Based Fishing. Ritstj. Ragnar Árnason og Birgir Þór Runólfsson. RSE, Reykjavík 2008. Bls. 171-188.
Erindrekar Kominterns á Íslandi. Rannsóknir í félagsvísindum. IX. Ritstj. Gunnar Þór Jóhannesson og Helga Björnsdóttir. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík 2008. Bls. 647-658.
Erindi á vísindaráðstefnu
Erindrekar Kominterns á Íslandi. Þjóðarspegillinn, IX. ráðstefna um rannsóknir í félagsvísindum 7. desember 2008.
Fræðileg erindi
Hugleiðingar um hnattvæðingu. Sumarskóli RSE (Rannsóknamiðstöðvar í samfélags- og efnahagsmálum) 14. júní 2008.
The Strange Death of Liberal Iceland. Ráðstefna Economic Freedom Network í Rio de Janeiro 14. nóvember 2008.
Fátækt á Íslandi. Málstofa um hagsögu. Umsjónarmenn Guðmundur Jónsson og Sveinn Agnarsson. 26. nóvember 2008.
Kennsla
Prófessor í stjórnmálafræði í stjórnmálafræðideild félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Kenndi þrjú námskeið, Stjórnmálaheimspeki, Stjórnmálahagfræði og Málstofu.
Skipulagning alþjóðlegrar vísindaráðstefnu
Ráðstefna í Reykjavík með prófessor Richard Teather um skattasamkeppni 9. janúar 2008.
Ráðstefna í Reykjavík með rithöfundinum Henri Lepage um kapítalisma á okkar dögum (höfundi Demain, capitalisme og einum aðalblórabögglinum í riti Einars Más Jónssonar, Bréfi til Maríu) 2. október 2008.
Bækur fyrir almenning
Davíð Oddsson í myndum og máli. SUS, Reykjavík. 240 bls. (Val mynda og allur texti.)
Erindi fyrir almenning
Fátækt og ójöfnuður. Stjórnmálaskóli Sjálfstæðisflokksins 11. mars 2008.
Greinar í erlendum blöðum
Iceland Isnt Melting. Wall Street Journal Europe 2. apríl 2008.
Iceland Abandoned. Wall Street Journal Europe 18. nóvember 2008.
Greinar í tímaritum
Draumar Jóns Trausta. Lesbók Morgunblaðsins 29. mars 2008.
Um hvað stóð kalda stríðið? Mannlíf (júlí 2008).
Þeir gengu af trúnni. Mannlíf (ágúst 2008).
Söguleg seinheppni. Mannlíf (september 2008).
Beittustu pennarnir. Mannlíf (desember 2008).
Hrun bankanna er ekki hrun Íslands. Menntaskólatíðindi, 3. tbl. 2008.
Blaðagreinar
Boðskapur Teathers. Fréttablaðið 11. janúar 2008.
Kerfið er sanngjarnt. Fréttablaðið 29. janúar 2008.
Vinnusemi og skattar. Fréttablaðið 8. febrúar 2008.
Harðstjóri kvaddur. Fréttablaðið 22. febrúar 2008.
Á öfugum enda. Fréttablaðið 9. mars 2008.
Nýir brennuvargar. Fréttablaðið 25. mars 2008.
Engan bölmóð! Fréttablaðið 4. apríl 2008.
Gore-áhrifin. Fréttablaðið 18. april 2008.
Jón S. Guðmundsson (minningargrein). Morgunblaðið 20. apríl 2008.
Leiðtogi sem ekki brást. Fréttablaðið 2. maí 2008.
Skattalækkun skynsamleg. Fréttablaðið 16. maí 2008.
Hverjir biðjist afsökunar? Fréttablaðið 30. maí 2008.
Sabína-rökvillan. Fréttablaðið 13. júní 2008.
Fleiri virkjanir. Fréttablaðið 27. júní 2008.
Nýr Blefken. Fréttablaðið 11. júlí 2008.
Af andfætlingum. Fréttablaðið 1. ágúst 2008.
Solsénitsyn allur. Fréttablaðið 7. ágúst 2008.
Hvaða nauður? Fréttablaðið 22. ágúst 2008.
Réttur smáþjóða. Fréttablaðið 19. september 2008.
Kreppan og krónan. Fréttablaðið 3. október 2008.
Hvað gerðist? Fréttablaðið 17. október 2008.
Jafnvægið raskaðist. Fréttablaðið 31. október 2008.
Fjölmiðlafrumvarpið 2004. Viðskiptablaðið 5. nóvember 2008.
Ísland skilið eftir. Morgunblaðið 20. nóvember 2008 (einnig í Wall Street Journal).
Ísland grátt leikið. Morgunblaðið 21. nóvember 2008.
Úrræði í peningamálum. Fréttablaðið 28. nóvember 2008.
Sökudólgar og blórabögglar. Fréttablaðið 12. desember 2008.
Umræðuþættir í útvarpi og sjónvarpi
Síðdegisútvarp Rásar tvö 8. apríl 2008 (ásamt Halldóri Björnssyni).
Sprengisandur, Bylgjan 28. september 2008 (ásamt Ögmundi Jónassyni).
Sprengisandur, Bylgjan 23. nóvember 2008 (ásamt Merði Árnasyni).
Viðtöl og svör í fjölmiðlum
Mannamál, Stöð tvö 13. janúar 2008.
Kiljan, Sjónvarpið 16. janúar 2008.
Ísland í dag, Stöð tvö 21. janúar 2008.
Kastljós, Sjónvarpið 3. apríl 2008.
Markaðurinn, Stöð tvö. 4. apríl 2008.
Þykir leitt hvernig til tókst. 24 stundir 5. apríl 2008.
Viðtal. INN sjónvarpsstöð 8. apríl 2008.
Miðjan, Útvarp Saga 11. og 18. júní 2008.
Svör við athugasemdum bloggara. 24 stundir 28. júní 2008.
Áhrifamestu Íslendingarnir. Mannlíf (júní 2008).
Kapítalismi er ekki það sama og kapítalistar. Morgunblaðið 4. október 2008.
Seta í nefndum eða stjórnum
Bankaráð Seðlabanka Íslands. Allt árið.
Umsjón alþjóðlegs rannsóknarverkefnis fyrir Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og RSE (Rannsóknamiðstöð um samfélags- og efnahagsmál) um skatta og velferð. Allt árið.
Umsjón alþjóðlegs rannsóknarverkefnis um umhverfisvernd, eignaréttindi og auðlindanýtingu í samstarfi Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og þriggja stofnana í Brasilíu. Hófst haustið 2008.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.4.2009 kl. 10:54 | Slóð | Facebook
28.3.2009 | 19:33
Ræða Davíðs
Egill Helgason bloggaði svo:
Davíð flutti söguskýringu í ræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. (Maður hefur líka séð henni bregða fyrir í greinum eftir Hannes.) Hún er sú að upphaf ógæfunnar og hrunsins sé í fjölmiðlalögunum sem ekki voru samþykkt á sínum tíma. Þannig sé þetta í raun allt Samfylkingunni og Baugi að kenna. Ekki til dæmis í einkavæðingu bankanna sem var handstýrt í hendurnar á sérvöldum vildarvinum stjórnarflokka þess tíma. Eða í því hvernig bankarnir fengu síðan að blása út nánast eftirlitslaust án þess að nokkur virðist hafa skilið almennilega hvað var að gerast. Því í raun má segja að fjármálamennirnir hafi nánast alfarið tekið yfir stjórn landsins á fyrstu árum aldarinnar og þeir héldu þeim þar til allt hrundi í október. Stjórnmálamennirnir gáfu völdin eftir þeir gátu yljað sér við hugmyndina um að hér yrði fjármálaparadís eins og mátti lesa um í bókum Hannesar og í skýrslu sem var gerð fyrir Halldór Ásgrímsson. Þetta var tíminn þegar Ísland var ólígarkí. Eins og ég hef áður sagt er hugsanlegt að það hafi á síðustu metrunum breyst í kleptrókratí. Vissulega hefðum við þurft beittari fjölmiðla. Ég veit ekki hvað viðskiptaritstjórar útrásartímans fengu að launum fyrir gagnrýnisleysið; kannski var nóg fyrir þá að hafa símanúmer víkinganna í minninu hjá sér. Það gæti hafa verið næg umbun. Sumir virðast hafa fengið eitthvað meira. En þá má líka geta þess að Þjóðhagsstofnun hafði verið lögð niður. Eftir það vorum við upp á náð og miskunn greiningardeilda bankanna komin með upplýsingar um hagkerfið. Það reyndist afar illa.
Ég gerði eftirfarandi athugasemd (og er auðvitað nokkur talmálsblær á henni):
Egill! Ég veit, að þú ert ekki maður illgjarn að eðlisfari. En mér finnst þú reyna að misskilja og jafnvel rangfæra boðskap Davíðs. Auðvitað eiga hvorki heimskreppan né bankahrunið hér upptök í baráttunni um fjölmiðlafrumvarpið vorið 2004. En þá gerðist annað. Golíat sigraði Davíð. Bessastaðavaldið, Baugsfeðgarnir og höfundar Borgarnesræðunnar sigruðu í sameiningu Davíð Oddsson. Ólafur Ragnar Grímsson var klappstýra útrásarinnar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir efaðist um heilindi lögreglunnar í rannsóknum á auðfyrirtækjum (eins og lögreglumenn mótmæltu við hana eftir flutning Borgarnesræðunnar). Baugsfeðgar keyptu upp alla fjölmiðla og siguðu þeim eins og hundum á Davíð. Eftir það skorti tilfinnanlega á aðhald að auðjöfrunum, sem þeir þurftu svo sannarlega til að gera gagn (eins og auðjöfrar geta gert við eðlilegar aðstæður og leikreglur). Þetta olli því meðal annars, að bankarnir uxu hraðar en þeim var hollt, og eins kann að vera, að þeim hafi orðið eitthvað á í óðagotinu, þótt einnig sé margt gott um ýmsa bankamenn. Dómstólar sendu í Baugsmálinu líka röng skilaboð til auðjöfra um það, hvað teldust eðlileg viðskipti og hvað ekki. Ég veit ekki, hvort þetta var úrslitaatriði um það, hvernig fór, en það er tvímælalaust, að valdajafnvægið á Íslandi raskaðist auðjöfrunum í vil eftir sigur Golíats yfir Davíð 2004. Eini ráðamaðurinn, sem gagnrýndi auðjöfrana, var Davíð Oddsson. Allir aðrir þögðu ýmist eða klöppuðu fyrir þeim (og ég er sjálfur ekki alveg saklaus í því efni, þótt ég hafi ekki orðið skilyrðislaus aðdáandi Baugsfeðga eins og til dæmis Þorvaldur Gylfason prófessor, sem skrifaði vikulega nánast sömu greinina í Baugsmiðlana með Baugi gegn Davíð, en stundum bergmálar þú skoðanir hans, þótt hitt sé rétt, að þú hafir aldrei viljandi gengið erinda auðjöfranna). Mér finnst þú ekki sýna sanngirni, þegar þú gefur Davíð ekki einu sinni það, að hann gagnrýndi fákeppni hér (á meðan Gylfi Magnússon, núverandi viðskiptaráðherra, gerði ekkert sem formaður Samkeppnisráðs frá 2005 til að minnka fákeppni). Þú gefur Davíð ekki heldur, að hann gagnrýndi ofurlaun og peningadýrkun, á meðan Ingibjörg Sólrún flutti Borgarnesræðuna. Þú gefur Davíð ekki heldur, að hann vildi á sínum tíma dreifðara eignarhald á bönkunum, þótt hann yrði undir í því máli (og er sú saga að miklu leyti ósögð). Þú gefur honum ekki heldur, að hann varaði hvað eftir annað við ofvexti bankanna og hugsanlegu bankahruni á sex fundum með Geir og Ingibjörgu Sólrúnu 2007-2008, og var Jóhanna Sigurðardóttir á einum fundinum (en auðvitað var ekki hægt að hafa Össur og Björgvin á þeim fundum, því að þeir láku jafnharðan öllu í fjölmiðla).