Fjölmiðlafrumvarpið 2004

Í Sölku Völku lýsir Halldór Laxness Óseyri við Axlarfjörð, þar sem Bogesen kaupmaður ræður lögum og lofum. Hann lánar Beinteini á Króknum fyrir tréfæti, en þegar Beinteinn birtir gagnrýni á kaupmanninn í sunnanblöðin, er fóturinn skrúfaður af honum. Beinteinn fær fótinn aftur, þegar hann skrifar lof um Bogesen. Menn, sem eru háðir öðrum um afkomu sína, hafa sjaldnast sjálfstæðar skoðanir.

Fyrir 1991 skiptist hagvald á Íslandi á þrjá aðila, ríki, samvinnufélög og einkaaðila. Þegar samvinnuhreyfingin hrundi, komust einstaklingar yfir eignir hennar, og hagvald í höndum ríkisins var einnig fært einkaaðilum. En Ísland er lítið land, og um 2004 var svo komið, að þrír hópar auðmanna, í kringum Bakkavararbræður, Björgólfsfeðga og Baugsfeðga, höfðu mestallt hagvald í landinu. Þessir menn voru allir snjallir og létu margt gott af sér leiða, sérstaklega Björgólfur Guðmundsson. En sumir þeirra ofmetnuðust og vildu stjórna skoðanamyndun í landinu.

Davíð Oddsson, sem þá var forsætisráðherra, skynjaði hættuna og lagði fram fjölmiðlafrumvarp, þar sem stórfyrirtækjum var bannað að eiga fjölmiðla. Baugsfeðgar beittu sér af offorsi gegn honum. Forstjóri eins fjölmiðlafyrirtækis þeirra, Sigurður G. Guðjónsson, hafði verið kosningastjóri Ólafs Ragnars Grímssonar í forsetakjöri 1996, og ein dóttir Ólafs Ragnars var í hálaunastarfi hjá Baugi. Eftir að Alþingi samþykkti fjölmiðlafrumvarpið, synjaði Ólafur Ragnar því staðfestingar. Í fyrsta skipti gekk forseti gegn þinginu.

1435369_hh_719624.jpgJafnvægið raskaðist. Í kringum gullkálfinn hófst trylltur dans, sem Ólafur Ragnar steig harðast. Þegar Bandaríkjakonan Martha Stewart, sem setið hafði í fangelsi fyrir fjárglæfra, kom til Íslands, hélt forseti henni veislu á Bessastöðum, og sátu hana Jón Ásgeir Jóhannesson og Pálmi Haraldsson, sem báðir höfðu fengið dóma fyrir efnahagsbrot. Tveir kunnir rithöfundar, Einar Kárason og Hallgrímur Helgason, gerðust hirðskáld auðmanna.

Fjölmiðlar komust allir í eigu auðmannahópanna þriggja nema Ríkisútvarpið, en starfslið þess var meðvirkt með öðru fjölmiðlafólki, enda aldrei að vita, hvenær það þyrfti að sækja um störf annars staðar. Fjölmiðlar auðmannanna héldu ekki uppi gagnrýni á eigendur sína, eins og dæmin sýna.

Þegar Inga Jóna Þórðardóttir, eiginkona Geirs Haarde fjármálaráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, sagði sig í júlí 2005 úr stjórn FL Group í mótmælaskyni við vinnubrögð mannanna í kringum Baugsfeðga, hafði það engin eftirmál.

Þegar Lífeyrissjóður verslunarmanna vildi ekki hlýða öllum fyrirmælum Baugsfeðga í júlí 2006, hótuðu þeir að stofna sérstakan lífeyrissjóð fyrir starfsfólk Baugs og FL Group, mörg þúsund manns. Þessi yfirgangur vakti engin viðbrögð.

Þegar sex borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins komu í september 2007 í veg fyrir, að mennirnir í kringum Baugsfeðga fengju eignir Orkuveitu Reykjavíkur afhentar, snerust flestir fjölmiðlar af hörku gegn borgarfulltrúunum.

Full þörf var á fjölmiðlafrumvarpi Davíðs Oddssonar. Engum er hollt að hafa of mikið vald, ekki heldur auðmönnum. Bogesen á ekki að ráða öllu á Óseyri og því síður að stjórna sunnanblöðunum líka. Ein skýringin á, hversu verr fór hér en víða annars staðar haustið 2008, var aðhaldsleysi fjölmiðla.

Viðskiptablaðið 5. nóvember 2008.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband