Morgunútvarpið

Ég var gestur Freys Eyjólfssonar og Láru Ómarsdóttur í Morgunútvarpinu á Rás tvö mánudagsmorguninn 24. ágúst. Þau spurðu um kreppuna og hrunið, sem mér er kennt um ásamt nokkrum öðrum. Ég minnti á, að nú geisar alþjóðleg lánsfjárkreppa, sem ég er saklaus af. Ástæðan til, að þessi alþjóðlega kreppa kemur harðar niður á Íslendingum en mörgum öðrum, er þríþætt: 1) Kerfisgalli var í EES-samningnum, þar sem rekstrarsvæði banka var miklu stærra en baktryggingarsvæði þeirra. 2) Fautaskapur Breta með beitingu hryðjuverkalaga snarminnkaði líkurnar á að koma eignum bankanna, sem stóðu á móti skuldum, í gott verð. 3) Glannaskapur íslenskra bankamanna. Ég játaði á mig tvenn mistök (eða að minnsta kosti undrunarefni) á liðnum árum. Ég hefði haft trú á því, að Baugsfeðgar og lið þeirra væru snjallir kaupsýslumenn, þótt ófyrirleitnir væru í stjórnmálavafstri. Þetta hefði reynst rangt. Ég hefði í öðru lagi orðið hissa, þegar ég hefði séð, að Landsbankinn hefði dælt fé í Baugsfeðga. Ég kvað hins vegar fráleitt, að Íslendingar ættu að greiða skuldir óreiðumanna erlendis. Ekki hefði verið látið reyna á það fyrir dómstólum. Ætti einhver að biðja afsökunar, þá væri það Steingrímur J. Sigfússon, sem sent hefði óhæfa samningamenn til að semja um Icesave-málið.

Halldór Baldursson, hinn snjalli teiknari Morgunblaðsins, gerði gys að mér í teikningu í blaðinu daginn eftir. En ég veit, að margir eru sammála mér um það, að Íslendingar væru betur komnir, hefðu þeir hlustað á viðvaranir Davíðs Oddssonar árin 2004–2008. 25-08-09.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband