Solsénitsyn allur

SolzhenitsynGeorge Orwell óttaðist, að alræðisherrum tuttugustu aldar tækist að leggja undir sig mannssálina. Þeir vildu ekki aðeins ráða því, hvað þegnar þeirra gerðu, heldur líka, hvað þeir hugsuðu. Hrollvekju Orwells, Nítján hundruð áttatíu og fjögur, lauk á því, að söguhetjan elskaði Stóra bróður. Margir þeir, sem bjuggu við kommúnistastjórn fram að falli Berlínarmúrsins 1989, halda því fram, að Orwell hafi farið ótrúlega nærri um eðli og aðferðir alræðisherranna. En um eitt reyndist hann ekki sannspár. Kommúnistum tókst ekki að leggja undir sig sál þegna sinna. Þótt flestir hlýddu þeim og endurtækju jafnvel opinberlega einhverjar af stórlygum þeirra, voru til þeir, sem buguðust ekki. 

Einn þeirra var rússneski rithöfundurinn Aleksandr Solsénitsyn, sem lést 3. ágúst 2008 og átti þá aðeins fjóra mánuði í nírætt. Hann barðist í Rauða hernum í heimsstyrjöldinni síðari, en var dæmdur í átta ára fangabúðavist og síðan langa útlegð fyrir ógætileg ummæli um Stalín í einkabréfi. Eftir að hann var látinn laus, notaði hann allar tómstundir til að safna upplýsingum og skrifa um fangabúðakerfi ráðstjórnarinnar, Gúlagið. Uppgjör forystumanna kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna við Stalín 1956 leiddi til tímabundinnar „hláku“ í menningarlífi, og þá var hin snjalla skáldsaga hans, Dagur í lífi Ívans Denisovitsj, gefin út með opinberu leyfi. Hún gerist á einum degi í fangabúðum í Kasakstan.

Hlákunni lauk, og Solsénitsyn fékk ekki leyfi Rithöfundasambands Ráðstjórnarríkjanna til að gefa út fleiri bækur, auk þess sem leyniþjónustan KGB hafði á honum gætur. Naut hann þá ómetanlegrar aðstoðar hins heimskunna sellóleikara Mstislav Rostropóvitsj, sem kom tvisvar hingað til lands og átti hér vini. Solsénitsyn tókst að smygla stórvirki sínu, Gúlageyjunum, úr landi, en þar lýsir frábær sögumaður fangabúðakerfinu í smáatriðum. Lesandinn stígur með Solsénitsyn niður í víti. Þegar Solsénitsyn hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1970, fékk hann ekki að taka á móti þeim í Stokkhólmi, en hann var loks rekinn úr landi og sviptur ríkisborgararétti 1974. Hann bjó síðan lengst í Bandaríkjunum, en sneri heim til Rússlands 1994.

Gúlageyjarnar höfðu mikil áhrif á mig, en ég las þær snemma á áttunda áratug. Ég strengdi þess heit að leggja mitt lóð á vogarskálina með andstæðingum Kremlverja. Ég gerði útvarpsþátt um Solsénitsyn og verk hans 4. júlí 1976 og fékk þá til mín Indriða G. Þorsteinsson, sem var ómyrkur í máli um kommúnisma. Þættinum var illa tekið í Þjóðviljanum. Árni Bergmann hneykslaðist á því 11. júlí, að okkur Indriða væri hleypt í útvarp. Ólafur Ragnar Grímsson, sem skrifaði pistla í blaðið undir dulnefninu „A“, kvað 20. júlí merka rússneska rithöfunda telja Solsénitsyn stríðsæsingamann og bætti við frá eigin brjósti: „Kaldastríðsmaskínan þarf sitt reglulega hráefni, og árásarstefna Solsénitsyns hefur reynst henni hreinn hvalreki á þrengingartímum.“

Sem betur fer hlustaði Ronald Reagan Bandaríkjaforseti frekar á Solsénitsyn en úrtölumenn og sigraði þess vegna í kalda stríðinu. Í Gúlageyjunum sagði Solsénitsyn sögu af fólki, sem rússneskir kommúnistar tóku af lífi með því að setja það á pramma, sem siglt var út á stöðuvatn og sökkt. Fólkið hvarf sjónum okkar. En það má ekki hverfa sjónum sögunnar. Solsénitsyn bjargaði því og öðrum fórnarlömbum kommúnismans frá gleymsku.

Fréttablaðið 7. ágúst 2008. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband