Kerfið er sanngjarnt

skipMannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna í Genf er enginn dómstóll, heldur getur óánægt fólk í aðildarríkjum samtakanna sent henni erindi til umsagnar. Úrskurðir nefndarinnar eru ekki bindandi og hafa ekki lagagildi. Nýleg umsögn meiri hluta nefndarinnar um íslenska kvótakerfið sýnir, að hann hefur því miður ekki kynnt sér málið nógu vel. Þessir menn komast að þeirri niðurstöðu, að upphafleg úthlutun aflaheimilda á Íslandsmiðum hafi verið ósanngjörn. Minni hluti nefndarinnar leiðir hins vegar rök að því, að í hinni upphaflegu úthlutun hafi ákvæði mannréttindasamþykktar Sameinuðu þjóðanna gegn óeðlilegri mismunun ekki verið brotin. Þess vegna telur minni hlutinn, að dómar Hæstaréttar Íslands um kvótakerfið standist.

Hvernig var upphafleg úthlutun?

Ágreiningur meiri hluta og minni hluta mannréttindanefndarinnar snýst ekki um hagfræðikenningar eða lagabókstaf, heldur siðferðileg efni. Forsagan er öllum Íslendingum kunn. Í árslok 1983 voru fiskistofnar á Íslandsmiðum að hruni komnir vegna ofveiði. Takmarka varð sókn í þá. Ýmsar fyrri tilraunir til þess höfðu mistekist. Þess vegna var að ráði fiskihagfræðinga, forystu útgerðarmanna og annarra tekinn sá kostur að takmarka sóknina við þá, sem gert höfðu út á tímabilinu frá 1. nóvember 1980 til 31. október 1983. Þeir fengu aflaheimildir í hlutfalli við afla sinn á þessu tímabili. Þetta fyrirkomulag gilti fyrst aðeins um botnfisk (þorsk og fleiri tegundir), en með löggjöf árið 1990 varð kvótakerfið altækt og gilti eftir það um alla fiskistofna á Íslandsmiðum.

Efnisleg mismunun

Takmarka varð aðganginn að miðunum, og hann var takmarkaður við þá, sem þegar höfðu nýtt sér aðganginn og fjárfest í skipum, veiðarfærum og eigin þjálfun og áhafnar sinnar. Þetta var eðlilegt. Þeir áttu allt í húfi. Hefðu þeir ekki fengið að sækja miðin áfram, þá hefði fjárfesting þeirra orðið verðlaus með einu pennastriki. Afkomuskilyrðum þeirra hefði verið stórlega raskað og að ósekju. Hinir, sem höfðu ekki nýtt sér ótakmarkaðan aðgang fyrri ára, töpuðu engu öðru en innantómum rétti til að veiða fisk, sem var á þrotum sökum ofveiði. Þetta virðist meiri hluti mannréttindanefndarinnar í Genf ekki skilja ólíkt minni hlutanum. Öll úthlutun takmarkaðra gæða felur í sér mismunun. Aðalatriðið um hina upphaflegu úthlutun aflaheimilda á Íslandsmiðum er, hvort sú mismunun hafi verið efnisleg. Ég segi hiklaust já, því að hún var fólgin í því að taka tillit til áunninna hagsmuna þeirra, sem stundað höfðu veiðar. Þeirra afkomuskilyrðum var ekki raskað um of.

Menn keyptir út eða reknir út

Til voru þó þeir, sem sögðu á sínum tíma, að sanngjarnara hefði verið að úthluta aflaheimildum í opinberu uppboði. Þeir útgerðarmenn einir hefðu þá haldið áfram veiðum, sem hefðu haft bolmagn til að kaupa aflaheimildir af ríkinu. Þetta hefði verið ósanngjarnt. Með henni hefði sá hópur, sem ekki hefði getað keypt sér aflaheimildir, horft upp á líf sitt lagt í rúst. Hitt var hyggilegra, sem einmitt var gert, að afhenda öllum, sem stunduðu veiðar, aflaheimildir ókeypis og leyfa síðan þeim, sem betri höfðu afkomuna, að kaupa smám saman út hina. Þannig undu allir við sitt. Allir græddu. Enginn skaðaðist. Menn voru þá keyptir út úr útgerð í frjálsum viðskiptum í stað þess að vera reknir út með valdboði.

Hvað um hina?

Þá vaknar auðvitað spurning, sem borin var upp við mannréttindanefndina: Hvað um þá, sem ekki höfðu stundað veiðar á upphaflega viðmiðunartímanum, en vilja nú hefja veiðar? Svarið er, að enginn bannar þeim að hefja veiðar. Þeir verða aðeins að kaupa sér aflaheimildir. Til er orðinn verðmætur réttur, einmitt vegna þess að hann er takmarkaður. Hann var áður verðlaus, af því að hann var ótakmarkaður. Það var erfiðara og ósanngjarnara að banna mönnum að halda áfram veiðum, sem þeir höfðu stundað lengi, en að banna öðrum mönnum að hefja veiðar, sem þeir höfðu aldrei stundað. Aldarfjórðungur er nú auk þess liðinn frá upphaflegri úthlutun. Aflaheimildir hafa gengið kaupum og sölum. Langflestir handhafar hafa keypt þær. Ekki verður aftur snúið. Kvótakerfið hefur reynst Íslendingum vel, hvað sem líður umsögn meiri hluta mannréttindanefndarinnar í Genf. Hann sýnir, að við þurfum að kynna kerfið betur erlendis.

Fréttablaðið 29. janúar 2008. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband