Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
24.3.2009 | 09:23
Mikil mistök
Eins og virtir lögfræðingar benda á, braut Jóhanna Sigurðardóttir sennilega stjórnarskrána, þegar hún setti norskan stjórnmálamann í embætti seðlabankastjóra. Skýrt er kveðið á um það í stjórnarskránni, að embættismenn skuli vera íslenskir ríkisborgarar. Þeir eiga að gæta íslenskra hagsmuna, ekki erlendra. Þótt Norðmaðurinn sé settur, en ekki skipaður, gilda við venjulegar aðstæður sömu hæfisskilyrði um setningu og skipun. En sé þessi maður ólöglega settur, þá kunna ýmis embættisverk hans að vera ólögleg.
Maður þessi kvaðst aðspurður ekki muna, hvenær hann var beðinn að taka að sér embættið. Sé hann tekinn trúanlegur um það, þá hefur hann varla gáfur til að sinna starfinu. Nýlega var hann á fundi í Seðlabankanum. Þá barst í tal cad-hlutfall fjármálastofnana (eiginfjárhlutfall samkvæmt stöðlum Evrópusambandsins). Maðurinn kom af fjöllum. Hann vissi ekki, hvað þetta var. Hann hefur einnig reynst ákvörðunarfælinn og taugaóstyrkur.
Maðurinn af fjöllunum þorði ekki að liðsinna Straumi, Spron og Sparisjóðabankanum, þegar þessi fyrirtæki lentu í fyrirsjáanlegum, en tímabundnum erfiðleikum. Það var Seðlabankanum ekki um megn að koma þeim til hjálpar, ólíkt því er viðskiptabankarnir þrír féllu um koll síðastliðið haust. Forráðamenn fyrirtækjanna höfðu unnið af framúrskarandi dugnaði að því að tryggja framtíð þeirra. Þessi bráðabirgðaseðlabankastjóri minnihlutastjórnar veldur því með ákvörðunarfælni sinni og taugaóstyrk, að mörg hundruð manns missa hér atvinnuna, traust á Íslandi minnkar enn erlendis og lánalínur lokast.
Margt hefur verið gert af illri nauðsyn síðustu mánuði. En það voru mikil mistök að knýja þessi fyrirtæki í þrot og bæta þannig gráu ofan á svart. Ógeðfelldur blær er á allri framgöngu ráðamanna í málinu. Sennilega er þetta embættisverk hins norska stjórnmálamanns ólöglegt, eins og hann sjálfur. En þótt sjálfsagt sé að láta á það reyna fyrir dómstólum, er tjónið orðið og verður ekki bætt. Og hrægammarnir sveima yfir sviðinni jörð.
Morgunblaðið 24. mars 2009.
21.3.2009 | 09:46
Bankastjórahneykslið
Jóhanna Sigurðardóttir heldur því fram, að hún sé heiðarlegur stjórnmálamaður. Hún ætti því að vera sjálfri sér samkvæm. En þótt hún hefði fullyrt, að brýnt væri að ganga í Evrópusambandið, skipti hún um skoðun, strax og hún gat myndað stjórn með vinstri grænum. Þótt hún hefði sagt fyrr á árum, að seðlabankastjórar skyldu njóta sjálfstæðis, hóf hún forsætisráðherraferil sinn á því að reka Davíð Oddsson, sem einn ráðamanna varaði við bankahruninu, þar á meðal á ríkisstjórnarfundum með Jóhönnu. Og þótt Jóhanna hefði margsagt, að seðlabankastjóra yrði að ráða faglega, setti hún norskan Verkamannaflokksmann í embættið.
Setning Norðmannsins er sennilega stjórnarskrárbrot, eins og Sigurður Líndal lagaprófessor bendir á. Í stjórnarskránni er bannað að skipa mann með erlendan ríkisborgararétt í embætti. Munur á setningu og skipun hefur minnkað stórlega hin síðari ár, eftir að æviráðning embættismanna var afnumin. Þótt lögspekingar bendi á, að hugsanlega megi setja erlenda ríkisborgara til bráðabirgða í embætti, þar sem þörf er sérkunnáttu og ekki völ á henni á Íslandi, á það ekki við hér. Þessi norski stjórnmálamaður býr ekki yfir neinni sérkunnáttu umfram marga íslenska ríkisborgara.
Öðru nær. Öðru nær! Maður þessi kveðst ekki muna, hvenær hann var beðinn um að taka að sér embættið. Sá, sem man þetta ekki, hefur varla andlega burði til að gegna embætti seðlabankastjóra. Svo virðist líka sem þessi maður hafi ekki næga þekkingu til starfsins. Á fundi í seðlabankanum á dögunum barst í tal cad-hlutfall fjármálastofnana (eiginfjárhlutfall samkvæmt stöðlum Evrópusambandsins). Norðmaðurinn kom af fjöllum. Hann vissi ekki, hvað cad-hlutfall er.
Kunnugir herma, að þessi fjallamaður sé taugaóstyrkur og ákvarðanafælinn. Eitt dæmi er, hvernig Straumur komst nýlega í þrot. Það fyrirtæki hafði sýnt lofsverða viðleitni til að bjarga sér út úr vandræðum hinnar alþjóðlegu lánsfjárkreppu, og seðlabankanum var ekki um megn að liðsinna því. En bráðabirgðabankastjórinn þorði ekki að rétta hjálparhönd. Þrot Straums kann enn að rýra lánstraust Íslendinga erlendis, sem ekki var mikið fyrir, auk þess sem veruleg verðmæti fara í súginn.
Ef þessi norski stjórnmálamaður er ólöglega settur í embætti, eins og ýmis rök hníga að, kunna ýmsar embættisathafnir hans, sem íþyngja öðrum, að vera ólöglegar líka, til dæmis að stefna Straumi í þrot. Eflaust verður látið reyna á einhver slík mál fyrir dómstólum. Hugsanlega verður þá seðlabankinn (og um leið íslenskur almenningur) skaðabótaskyldur vegna afglapa þessa fjallamanns. Fyrsta verk hans var að halda einkafund í seðlabankanum með landa sínum, leiðtoga norska Verkamannaflokksins. Mun hann líka krefjast þess, að íslenska verði ekki lengur töluð á bankaráðsfundum?
Skiljanlegt er í ljósi aðstæðna, að Framsóknarflokkurinn stefni í vinstri stjórn. En hann átti að sýna stjórnarflokkunum, að taka yrði tillit til hans. Hinn fráleiti brottrekstur Davíðs Oddssonar og ólögleg ráðning mannsins af fjöllunum var kjörið tækifæri. En í seðlabankamálinu fundu stjórnarflokkarnir, að þeir þurftu hvergi að skeyta um framsóknarmenn. Frá þeim heyrist því miður aðeins dauft bergmál, ekki rómsterk rödd.
Fréttablaðið 21. mars 2009.
19.3.2009 | 14:50
Eftirlætisbókin
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook
8.3.2009 | 16:27
Fyrirlestur í Nýju Jórvík

Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.3.2009 kl. 07:12 | Slóð | Facebook
6.3.2009 | 11:38
Rammpólitískur og kolólöglegur
Fyrir skömmu var Jóhanna Sigurðardóttir dæmd fyrir valdníðslu í félagsmálaráðherratíð sinni. Hún hafði rekið mann ólöglega úr trúnaðarstöðu vegna stjórnmálaskoðana hans. Þessi frétt vakti furðulitla athygli í fjölmiðlum, sem höfðu þó jafnan sýnt gagnrýni á aðra ráðherra áhuga. Jóhanna notaði síðan fyrstu dagana í minnihlutastjórn, sem var mynduð í því skyni einu að sjá um kosningar, til að reka Davíð Oddsson seðlabankastjóra. Með því braut hún þá reglu, sem hún hafði sjálf mælt með áður, að Seðlabankinn skyldi vera sjálfstæður. Flausturslegt og vanhugsað seðlabankafrumvarp var keyrt í gegnum þingið.
Norski stjórnmálamaðurinn, sem Jóhanna setti í stöðu seðlabankastjóra, byrjar ekki vel. Hann segist ekki muna, hvenær hann var beðinn að taka starfið að sér! Annaðhvort er hann þá óhæfur sökum greindarskorts eða fer með ósannindi. Þessi maður hefur meðal annars gegnt stöðu aðstoðarfjármálaráðherra fyrir norska Verkamannaflokkinn, systurflokk Samfylkingarinnar. Með setningu hans gleypti Jóhanna ofan í sig öll fyrri orð um ópólitískan fagmann í bankann. Maðurinn er rammpólitískur, þótt hann hafi háskólapróf í hagfræði. Flokksbróðir þeirra Jóhönnu, Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, óskaði Íslendingum til hamingju með rauðu stjórnina.
Eins og Sigurður Líndal lagaprófessor bendir á, hefur Jóhanna sennilega brotið stjórnarskrána. Í 20. grein segir þar svart á hvítu: Engan má skipa embættismann, nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt. Jóhanna svarar því til ásamt launuðum ráðgjöfum sínum, að munur sé á að setja mann og skipa. En sá munur er ekki á hæfisskilyrðum, nema sérstaklega standi á, heldur liggur hann í því, að minni kröfur eru gerðar til rökstuðnings ráðherra við setningu, þar eð hún er aðeins til bráðabirgða. Raunar dró mjög úr muninum á setningu og skipun, þegar hætt var að æviráða embættismenn.
Í Stjórnskipun Íslands segir Ólafur Jóhannesson, að hugsanlega megi þrátt fyrir stjórnarskrárákvæðið setja erlendan ríkisborgara tímabundið í embætti, þegar þörf er sérkunnáttu. Dæmi um þetta gæti verið, þegar yfirdýralæknir forfallast skyndilega, brýn þörf er á manni með sérkunnáttu hans í stöðuna og ekki völ í bili á Íslendingum. En fjöldi íslenskra ríkisborgara hefur menntun og reynslu á við hinn nýsetta Norðmann. Alþingi féll einmitt frá að binda það skilyrði í lög, að seðlabankabankastjóri skyldi vera með háskólapróf í hagfræði. Þess vegna á ekki við, að hér hafi verið þörf sérkunnáttu.
Margar athafnir seðlabankastjóra varða mikilvæga hagsmuni jafnt einstaklinga og fyrirtækja, til dæmis ákvarðanir dráttarvaxta og uppsagnir starfsmanna. Ef hann er settur ólöglega, þá kunna dómstólar að ógilda slíkar embættisathafnir hans. Úr þessu atriði verður ekki skorið með álitsgerðum, heldur aðeins með dómi. Stjórnarskrárákvæðið um, að embættismenn skuli vera íslenskir ríkisborgarar, var til að tryggja, að þeir gættu íslenskra hagsmuna. Fyrsti gestur hins nýja seðlabankastjóra var landi hans, Stoltenberg, og sátu þeir tveir einir fund í Seðlabankanum. Var þar lagt á ráðin um, hvernig best yrði gætt íslenskra hagsmuna?
Fréttablaðið 6. mars 2009
20.2.2009 | 13:14
Óframbærilegt fólk
Íslands óhamingju verður allt að vopni. Á þessum örlagatímum eru forseti landsins og forsætisráðherra bersýnilega hvorugt starfi sínu vaxin. Eins og til forsetaembættisins var stofnað, skyldi þjóðhöfðinginn vera sameiningartákn, án ábyrgðar á stjórnarathöfnum og því jafnframt án valda. Fyrri forsetar virtu þetta. Enginn þeirra gekk gegn vilja Alþingis. Ólafur Ragnar Grímsson brá út af þeirri venju og synjaði fjölmiðlalögunum 2004 staðfestingar, en þau áttu að koma í veg fyrir, að einstakir auðjöfrar réðu öllum fjölmiðlum. Ólafur Ragnar var nátengdur Baugsfeðgum, sem helst tóku lögin til sín: Dóttir hans gegndi yfirmannsstarfi hjá Baugi, og kosningastjóri hans 1996 var forstjóri Baugsmiðils.
Átökin um fjölmiðlalögin 2004 mörkuðu tímamót. Eftir þetta töldu auðjöfrar sér alla vegi færa. Þeir eignuðust flesta fjölmiðla. Forsetinn gerðist klappstýra þeirra og veislustjóri. Allir vita, hvernig þeirri ferð lauk. En Ólafur Ragnar Grímsson kann ekki að skammast sín, heldur talar ógætilega á erlendum vettvangi. Kunnir framsóknarmenn halda því síðan fram opinberlega, að hann hafi beitt sér fyrir myndun minnihlutastjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í stað þess að leyfa stjórnmálaforingjum að reyna til þrautar myndun meirihlutastjórnar, eins og eðlilegt hefði verið. Sérstaklega hafi hann brýnt forystumenn Framsóknarflokksins til stuðnings við stjórnina. Ef rétt er, þá sýndi Ólafur Ragnar enn, að hann er ekki forseti þjóðarinnar allrar, heldur aðeins sumra vinstri manna að Baugsfeðgum ógleymdum.
Hinn nýi forsætisráðherra hlaut nýlega dóm fyrir valdníðslu. Hún hafði sem félagsmálaráðherra rekið mann úr trúnaðarstöðu vegna stjórnmálaskoðana hans. Sjálf gerði Jóhanna Sigurðardóttir að sérgrein sinni á árum áður að deila hart á ráðherra, ef fram kom einhver skýrsla eða álitsgerð um það, að þeir hefðu ekki þrætt lagabókstaf eða gætt meðalhófs. Nú virðist hún ekki hafa á öðru meiri áhuga en hrekja Davíð Oddsson seðlabankastjóra úr starfi, en hann er eini maðurinn í ábyrgðarstöðu á Íslandi, sem varaði við ofurvaldi auðjöfra og skuldasöfnun bankanna erlendis. Jóhanna Sigurðardóttir var ráðherra í hálft annað ár, áður en bankarnir hrundu. Hún bar fulla stjórnmálaábyrgð eins og aðrir ráðherrar. Hún hlustaði á viðvaranir Davíðs, en hafðist ekki að.
Eins og Einar K. Guðfinnsson bendir á, snýst seðlabankafrumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur ekki um stjórn peningamála, heldur brottrekstur Davíðs Oddssonar, án þess að hann hafi neitt til saka unnið. Við afgreiðslu seðlabankalaganna 2001 var Jóhanna þeirrar skoðunar eins og flestir aðrir, að tryggja yrði sjálfstæði bankans. Þess vegna vildi hún ekki, að forsætisráðherra réði seðlabankastjóra. Hún sagði þá: Þetta getur varla þýtt annað á mæltu máli en að ef bankastjórinn fer ekki í einu og öllu að því sem forsætisráðherra segir þá eigi hann það á hættu að vera látinn fjúka. Eðlilegri stjórnsýsluhættir væri að bankaráðið réði sjálft einn bankastjóra sem ábyrgð bæri gagnvart bankaráði, sem gæti þá látið hann fara ef hann væri ekki starfinu vaxinn, frekar en að hann sé háður duttlungum og geðþóttaákvörðun ráðherra á hverjum tíma. Aumlegt er nú að sjá til hennar.
Fréttablaðið 20. febrúar 2009.
7.2.2009 | 09:51
Ofbeldi og valdníðsla
Heimspekikennarar mínir í Háskóla Íslands héldu því forðum fram, að í mannlífinu stæði valið um skynsemi og ofbeldi. Skynsemin var sögð felast í frjálsri rannsókn og rökræðu, virðingu fyrir réttindum einstaklinga og hlýðni við lögin. Ofbeldið var hins vegar talið, þegar hnefum væri beitt í stað raka og níðst á fólki. Í janúar 2009 sáu Íslendingar, hversu stutt getur verið í ofbeldið. Æstur múgur réðst á Alþingishúsið, braut rúður, kveikti elda og veittist að lögregluþjónum. Kunnur Baugspenni sat ásamt öðrum óeirðaseggjum fyrir Geir H. Haarde, þá forsætisráðherra, barði bíl hans utan og ógnaði honum, afmyndaður af bræði. Er menningin aðeins þunn skán ofan á villimanninum, sem hverfur, þegar honum er klórað?
Samfylkingin hafði ekki siðferðilegt þrek til að rísa gegn ofbeldinu, heldur lét undan og rauf stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn, þótt hún kostaði því raunar til, að helsta baráttumálið, umsókn um Evrópusambandsaðild, væri tekið af dagskrá. Það kemur þó ekki eins á óvart og hitt, að ofan úr Háskóla Íslands skuli fáir sem engir verða til að gagnrýna ástandið. Öðru nær. Háskólamenn virðast sumir fagna því, að ríkisstjórn skuli hrakin frá völdum með ofbeldi, og hefur einn þeirra jafnvel tekið sæti í minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.
Hefndarþorsti fremur en umbótavilji virðist vera leiðarljós nýju stjórnarinnar. Fyrsta verkið á að vera að reka Davíð Oddsson seðlabankastjóra fyrir engar sakir. Vissulega hefur verið deilt um peningastefnuna. En hún var mörkuð í samráði við ríkisstjórn hverju sinni, þar á meðal þá, sem Jóhanna Sigurðardóttir sat í. Kaup ríkisins í Glitni í október 2008 hafa einnig verið gagnrýnd. En þau voru gerð með samþykki þáverandi ríkisstjórnar, þar sem Jóhanna var ráðherra.
Á meðan Jóhanna Sigurðardóttir steinþagði, varaði Davíð Oddsson oft við örum vexti bankanna, jafnt í einkasamtölum við ráðamenn og opinberlega. Hann sagði til dæmis á fundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007: Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis. Á sama tíma og íslenska ríkið hefur greitt skuldir sínar hratt niður og innlendar og erlendar eignir Seðlabankans hafa aukist verulega, þá hafa aðrar erlendar skuldbindingar þjóðarbúsins aukist svo mikið, að þetta tvennt sem ég áðan nefndi er smáræði í samanburði við það. Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma.
Davíð fékk hins vegar lítt að gert, vegna þess að með lagabreytingu 1998 var Fjármálaeftirlitið fært undan Seðlabankanum. Heimildir og skyldur til að fylgjast með viðskiptabönkunum hurfu nær allar. Eftir urðu smáverkefni eins og lausafjárskýrslur og gengisjafnaðarreglur.
Lýðskrumarar reyna að nýta sér, að þjóðin er ráðvillt eftir bankahrunið. Þeir eiga volduga bandamenn í þeim auðjöfrum, sem ráða flestum fjölmiðlum á Íslandi og hafa ásamt leigupennum sínum haldið uppi rógsherferð gegn Davíð í mörg ár, af því að hann vildi setja þeim eðlilegar skorður. En brottrekstur Davíðs væri fullkomin valdníðsla. Hugmyndin með sjálfstæðum seðlabanka er, að seðlabankastjórar fylgi rökstuddri sannfæringu fremur en geðþótta valdsmanna. Skynsemin á að ráða, ekki ofbeldið.
Morgunblaðið 7. febrúar 2009. (Mynd: Óli G. Þorsteinsson)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:41 | Slóð | Facebook
3.2.2009 | 10:21
Vinstrisveifla á Íslandi
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.8.2009 kl. 13:15 | Slóð | Facebook
23.1.2009 | 09:02
Tvær borgir
Fróðlegt var að bera saman svipmyndir frá Washington og Reykjavík þriðjudaginn 20. janúar 2009. Enn sýndu Bandaríkjamenn, hversu sterkum rótum lýðræði hefur þar skotið. George W. Bush rétti Barack H. Obama valdataumana, og forsetarnir tveir sýndu hvor öðrum virðingu. Allt fór vel fram. Obama býður af sér góðan þokka, og mikið hlýtur að vera spunnið í mann, sem nánast einn síns liðs sigraði tvær öflugustu kosningavélar heims, fyrst Clinton-hjónanna, síðan Lýðveldisflokksins, Repúblikana. Athygli vekur, hversu rólegur Obama virðist vera og varfærinn. Ánægjulegt er og, að þessi volduga þjóð skuli í fyrsta skipti hafa valið sér þeldökkan forseta.
Bush hverfur ekki úr forsetaembættinu með glæsibrag. En líklega fær hann betri eftirmæli síðar. Sjálfsagt var að stöðva starfsemi hryðjuverkamanna frá Afganistan. Enginn vafi er heldur á því, að Bush var í góðri trú (ef það er heppilegasta orðið), þegar hann mælti fyrir um innrás í Írak: Hann taldi eins og forsvarsmenn Sameinuðu þjóðanna, að Saddam Hussein réði yfir gereyðingarvopnum, enda hafði Hussein áður orðið ber að því að beita slíkum vopnum í árásum á grannríki. Þetta reyndist ekki rétt, en bót er í máli, að við innrásina fækkaði um einn grimman einræðisherra í heiminum. Festa Bush í baráttunni við hryðjuverkamenn hefur líka skilað árangri. Þeir eru nú einangraðir.
Bandaríkin eru ekki gallalaus, en margt hefur tekist þar vel. Þetta er samband fimmtíu ríkja. Verðmætasköpun er miklu meiri en í Evrópusambandinu, sem er samband 27 ríkja. Í tveimur Bandaríkjanna, Delaware og Connecticut, er landsframleiðsla á mann svipuð og í langríkasta Evrópusambandsríkinu, Lúxemborg. Gengi Svíþjóð úr Evrópusambandinu og í Bandaríkin, þá yrði ríkið eitt hið fátækasta þar vestra, ásamt Arkansas og Mississippi. Mörg Evrópusambandsríki eru síðan miklu fátækari. Evrópubúar ættu enn fremur að muna Bandaríkjamönnum, að þeir stöðvuðu tvö Evrópustríð á tuttugustu öld og tryggðu frið í álfunni, þegar veldi Kremverja var sem öflugast.
Þegar litið var til Reykjavíkur þriðjudaginn 20. janúar, blasti við dapurlegri mynd. Fámennur hópur grímuklæddra óspektarmanna beitir þessar vikurnar ofbeldi í því skyni að knýja löglega kjörna ríkisstjórn frá völdum. Þessi hópur kom í veg fyrir, að umræður stjórnmálaleiðtoga gætu farið eðlilega fram á gamlárskvöld, skemmdi tæki fyrir fjölmiðlum og veittist að starfsfólki þeirra jafnt og stjórnmálamönnum. Sami hópur notaði tækifærið nú á þriðjudaginn til að ráðast á Alþingishúsið, grýta lögregluþjóna, brjóta rúður og kveikja elda. Á meðan sátu ráðherrar í húsinu og gátu sig hvergi hreyft.
Þetta ástand er óþolandi. Lýðræði er ekki ofríki fámenns minni hluta og því síður ofbeldi slíks hóps. Stjórnmálamenn verða að geta tekið ákvarðanir sínar óáreittir. Umræður eiga að fara eðlilega fram, en ekki undir steyttum hnefum ofbeldisseggja. Hrun bankanna og hinir stórkostlegu efnahagserfiðleikar eftir það breyta vitanlega miklu í íslenskum stjórnmálum. En ríkið hefur samið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um viðreisnaráætlun, og bankahrunið sætir nákvæmri rannsókn. Kosningar eru ekki tímabærar, fyrr en þessu tvennu er lokið. Lýðræði er ekki skrílræði.
Fréttablaðið 23. janúar 2009.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:15 | Slóð | Facebook
9.1.2009 | 10:28
Spilling í Brüssel
Fræg er sagan af rómverska keisaranum, sem skyldi dæma milli tveggja söngvara. Eftir að hann hafði heyrt hinn fyrri syngja, rétti hann hinum síðari verðlaunin: Verr gæti hann ekki sungið. Þetta er óskynsamlegt. Verið getur, að einn kostur sé ófullkominn, en annar verri. Fara menn ekki stundum úr öskunni í eldinn? Keisarinn átti vitaskuld að hlusta á báða söngvarana og dæma síðan. Um þessar mundir vantreystir íslenska þjóðin forystumönnum sínum og stofnunum. Þess vegna hafa sumir snúið sér að Evrópusambandinu: Ríkisvaldið geti ekki verið verr komið í Brüssel en Reykjavík. Fer þeim ekki eins og rómverska keisaranum?
ESB ber verulega ábyrgð á óförum Íslendinga. Þegar við gengum inn á Evrópska efnahagssvæðið, var hugmyndin sú, að fyrirtæki gætu starfað þar hvar sem væri óháð skráningarstað. Þetta nýttu íslensku bankarnir sér í góðri trú og færðu út kvíar. Þeir urðu svo stórir, að íslenski seðlabankinn gat ekki óstuddur verið þrautavaralánveitandi þeirra. Þá hefði mátt búast við, að aðrir seðlabankar á EES hlypu undir bagga, þegar á þyrfti að halda. Það gerðu þeir ekki. Íslensku bankarnir urðu ekki gjaldþrota, heldur hrundu vegna lausafjárskorts.
Engin stoð reyndist í aðild að EES. Hvers vegna ætti að vera meiri stoð í aðild að ESB? Ríkisstjórn breskra jafnaðarmanna átti síðan sinn hlut að hruni íslensku bankanna. Hún fékk aðstoð ESB við að neyða íslenska ríkið til að taka á sig skuldbindingar vegna Icesave-reikninga Landsbankans, sem það hafði ekki stofnað til og bar að lögum og samkvæmt alþjóðasamningum enga ábyrgð á. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta er sjálfseignarstofnun, sem starfar eftir reglum EES og ber ábyrgð á öllum slíkum skuldbindingum, ekki ríkissjóður Íslands. ESB gerðist með öðrum orðum handrukkari fyrir Breta.
Hin alþjóðlega lánsfjárkreppa bitnaði harðar á Íslendingum en öðrum þjóðum af tveimur meginástæðum: Seðlabankar á EES-svæðinu brugðust Íslendingum, og Bretland með ESB að bakhjarli beittu okkur ofríki. Er helsta röksemdin fyrir ESB-aðild eftir þessa reynslu, að heiðra skuli skálkinn, svo að hann skaði þig ekki?
Ég er að vísu ekki þeirrar skoðunar, að það jafngildi heimsendi að ganga í ESB. Þrjár norrænar frændþjóðir una hag sínum þar sæmilega. En teikn eru á lofti um, að ESB sé frekar að þróast í átt að lokuðu, miðstýrðu ríki en opnum, dreifstýrðum markaði. Einn gallinn á ESB, sem áróðursmenn fyrir aðild loka augunum fyrir, er víðtæk spilling. Fyrir röskum níu árum ljóstraði einn endurskoðandi ESB, Paul van Buitenen, upp um margvíslega misnotkun almannafjár í framkvæmdastjórn sambandsins. Hann var óðar rekinn, en eftir rannsókn málsins neyddist öll framkvæmdastjórnin til að segja af sér. Þremur árum síðar, 2002, var aðalendurskoðanda ESB, Mörtu Andreasen, vikið úr starfi, eftir að hún gagnrýndi opinberlega fjármálaóreiðu sambandsins.
Valdi verður að fylgja aðhald. Því miður virðist slíkt aðhald vera enn minna í Brüssel en Reykjavík. Við eigum ekki frekar en rómverski keisarinn forðum að veita ESB verðlaunin í söngkeppninni án þess að hafa hlustað á það. Er Ísland ekki skárri kostur en ESB?
Fréttablaðið 9. janúar 2009.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:40 | Slóð | Facebook