Ræða Davíðs

Egill Helgason bloggaði svo:

Davíð flutti söguskýringu í ræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. (Maður hefur líka séð henni bregða fyrir í greinum eftir Hannes.) Hún er sú að upphaf ógæfunnar og hrunsins sé í fjölmiðlalögunum sem ekki voru samþykkt á sínum tíma. Þannig sé þetta í raun allt Samfylkingunni og Baugi að kenna. Ekki til dæmis í einkavæðingu bankanna sem var handstýrt í hendurnar á sérvöldum vildarvinum stjórnarflokka þess tíma. Eða í því hvernig bankarnir fengu síðan að blása út nánast eftirlitslaust – án þess að nokkur virðist hafa skilið almennilega hvað var að gerast. Því í raun má segja að fjármálamennirnir hafi nánast alfarið tekið yfir stjórn landsins á fyrstu árum aldarinnar og þeir héldu þeim þar til allt hrundi í október. Stjórnmálamennirnir gáfu völdin eftir – þeir gátu yljað sér við hugmyndina um að hér yrði fjármálaparadís eins og mátti lesa um í bókum Hannesar og í skýrslu sem var gerð fyrir Halldór Ásgrímsson. Þetta var tíminn þegar Ísland var ólígarkí. Eins og ég hef áður sagt er hugsanlegt að það hafi á síðustu metrunum breyst í kleptrókratí. Vissulega hefðum við þurft beittari fjölmiðla. Ég veit ekki hvað viðskiptaritstjórar útrásartímans fengu að launum fyrir gagnrýnisleysið; kannski var nóg fyrir þá að hafa símanúmer víkinganna í minninu hjá sér. Það gæti hafa verið næg umbun. Sumir virðast hafa fengið eitthvað meira. En þá má líka geta þess að Þjóðhagsstofnun hafði verið lögð niður. Eftir það vorum við upp á náð og miskunn greiningardeilda bankanna komin með upplýsingar um hagkerfið. Það reyndist afar illa.

Ég gerði eftirfarandi athugasemd (og er auðvitað nokkur talmálsblær á henni):

Egill! Ég veit, að þú ert ekki maður illgjarn að eðlisfari. En mér finnst þú reyna að misskilja og jafnvel rangfæra boðskap Davíðs. Auðvitað eiga hvorki heimskreppan né bankahrunið hér upptök í baráttunni um fjölmiðlafrumvarpið vorið 2004. En þá gerðist annað. Golíat sigraði Davíð. Bessastaðavaldið, Baugsfeðgarnir og höfundar Borgarnesræðunnar sigruðu í sameiningu Davíð Oddsson. Ólafur Ragnar Grímsson var klappstýra útrásarinnar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir efaðist um heilindi lögreglunnar í rannsóknum á auðfyrirtækjum (eins og lögreglumenn mótmæltu við hana eftir flutning Borgarnesræðunnar). Baugsfeðgar keyptu upp alla fjölmiðla og siguðu þeim eins og hundum á Davíð. Eftir það skorti tilfinnanlega á aðhald að auðjöfrunum, sem þeir þurftu svo sannarlega til að gera gagn (eins og auðjöfrar geta gert við eðlilegar aðstæður og leikreglur). Þetta olli því meðal annars, að bankarnir uxu hraðar en þeim var hollt, og eins kann að vera, að þeim hafi orðið eitthvað á í óðagotinu, þótt einnig sé margt gott um ýmsa bankamenn. Dómstólar sendu í Baugsmálinu líka röng skilaboð til auðjöfra um það, hvað teldust eðlileg viðskipti og hvað ekki. Ég veit ekki, hvort þetta var úrslitaatriði um það, hvernig fór, en það er tvímælalaust, að valdajafnvægið á Íslandi raskaðist auðjöfrunum í vil eftir sigur Golíats yfir Davíð 2004. Eini ráðamaðurinn, sem gagnrýndi auðjöfrana, var Davíð Oddsson. Allir aðrir þögðu ýmist eða klöppuðu fyrir þeim (og ég er sjálfur ekki alveg saklaus í því efni, þótt ég hafi ekki orðið skilyrðislaus aðdáandi Baugsfeðga eins og til dæmis Þorvaldur Gylfason prófessor, sem skrifaði vikulega nánast sömu greinina í Baugsmiðlana með Baugi gegn Davíð, en stundum bergmálar þú skoðanir hans, þótt hitt sé rétt, að þú hafir aldrei viljandi gengið erinda auðjöfranna). Mér finnst þú ekki sýna sanngirni, þegar þú gefur Davíð ekki einu sinni það, að hann gagnrýndi fákeppni hér (á meðan Gylfi Magnússon, núverandi viðskiptaráðherra, gerði ekkert sem formaður Samkeppnisráðs frá 2005 til að minnka fákeppni). Þú gefur Davíð ekki heldur, að hann gagnrýndi ofurlaun og peningadýrkun, á meðan Ingibjörg Sólrún flutti Borgarnesræðuna. Þú gefur Davíð ekki heldur, að hann vildi á sínum tíma dreifðara eignarhald á bönkunum, þótt hann yrði undir í því máli (og er sú saga að miklu leyti ósögð). Þú gefur honum ekki heldur, að hann varaði hvað eftir annað við ofvexti bankanna og hugsanlegu bankahruni á sex fundum með Geir og Ingibjörgu Sólrúnu 2007-2008, og var Jóhanna Sigurðardóttir á einum fundinum (en auðvitað var ekki hægt að hafa Össur og Björgvin á þeim fundum, því að þeir láku jafnharðan öllu í fjölmiðla).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband