Leyniræðan og íslenskir kommúnistar

stali_769_nofl.jpgFyrir réttum sextíu árum urðu íslenskir kommúnistar fyrir einhverju mesta áfallinu í sögu sinni. Þá spurðist um heimsbyggðina, að aðfaranótt 25. febrúar 1956 hefði Níkíta Khrústsjov, aðalritari kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna, flutt leyniræðu á þingi flokksins um margvísleg ódæði Josífs Stalíns. Fulltrúar Sósíalistaflokksins á þinginu í Moskvu, Kristinn E. Andrésson og Eggert Þorbjarnarson, höfðu ekki fengið að vita af uppljóstrunum Khrústsjovs og lásu fyrst um þær í blöðum á leiðinni heim.

Áratugina á undan höfðu íslenskir kommúnistar lofsungið Stalín. Í Gerska æfintýrinu hafði Halldór Kiljan Laxness skrifað, að Stalín væri í hærra meðallagi, grannur og vel limaður. (Stalín var smávaxinn, bólugrafinn og digur.) Laxness hafði líka birt þýðingu sína á kvæði eftir „Kasakhaskáldið Dzhambúl“:

Stalín, elskaði vinur, þú átt ekki þinn líka,

þú ert skáld jarðar.

Stalín, þú ert söngvari þjóðvísunnar.

Jóhannes úr Kötlum hafði ort lofkvæði um Stalín:

Því þetta er fólksins hermaður, sem heldur þarna vörð,

um hugsjón hinna fátæka, um himin þeirra og jörð.

Við lát Stalíns hafði Einar Olgeirsson skrifað: „Vér minnumst mannsins Stalíns, sem hefur verið elskaður og dáður meir en flestir menn í mannkynssögunni áður og naut slíks trúnaðartrausts, sem fáir menn nokkru sinni hafa notið, – en lét sér aldrei stíga þá ást og aðdáun til höfuðs, heldur var til síðustu stundar sami góði félaginn, sem mat manngildið ofar öllu öðru.“

Nú viðurkenndi Khrústsjov, að Stalín hefði verið grimmdarseggur og látið pynda og skjóta fjölda saklausra manna. Hann las jafnvel upp úr svokallaðri „erfðaskrá Leníns“, sem íslenskir kommúnistar höfðu sagt falsaða. Það var að vonum, að í þingkosningunum 1956 bauð Sósíalistaflokkurinn ekki fram, heldur Alþýðubandalagið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. febrúar 2016. Skopteikningin eftir Halldór Pétursson er af Brynjólfi Bjarnasyni og Kristni E. Andréssyni að hjúfra sig upp að Stalín og Þórbergi Þórðarsyni og Jóhannesi úr Kötlum í fangi hans.)


60 ár frá leyniræðunni

kristinne_teikning_1956_copy.jpgÁgæt fréttaskýring var 25. febrúar 2016 eftir Guðmund Magnússon sagnfræðing í Morgunblaðinu um leyniræðu Khrústsjovs, sem flutt var yfir fulltrúum á 20. þingi kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna 25. febrúar 1956. Í því tilefni erum við hjá Almenna bókafélaginu að endurútgefa leyniræðuna í ritröðinni Safni til sögu kommúnismans, en í henni hafa áður komið út ritin Greinar um kommúnisma eftir breska heimspekinginn Bertrand Russell, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen og Úr álögum eftir Jan Valtin (Richard Krebs). Leyniræðan kom fyrst út í íslenskri þýðingu Stefáns Pjeturssonar 1957 með formála eftir Áka Jakobsson, sem verið hafði ráðherra kommúnista í Nýsköpunarstjórninni, en hafði eins og Stefán snúið baki við kommúnismanum. Leyniræðan var eitthvert mesta áfall, sem íslenskir kommúnistar höfðu orðið fyrir. Fulltrúar Sósíalistaflokksins fengu ekki einu sinni fréttir af ræðunni fyrr en þeir komu heim, eins og Spegillinn skopast að (Kristinn E. Andrésson og Eggert Þorbjarnarson). Íslenskir kommúnistar voru lengi að átta sig á, hvernig þeir ættu að bregðast við ræðunni, því að þar viðurkenndi Khrústsjov flest það, sem þeir höfðu þrætt fyrir áratugum saman. Teiknarinn hefur áreiðanlega verið Halldór Pétursson, þótt hann sé ekki nefndur.


Hugleiðingar að loknum afmælisdegi

Ég varð 63 ára hinn 19. febrúar 2016. Þetta var enginn stórafmælisdagur, en það var samt notalegt að hafa komist svo langt. Ég hef haft nóg að éta og sloppið við að vera étinn, sem er meira en segja má um flest dýr jarðarkringlunnar frá öndverðu.

Ég hélt upp á afmælisdaginn suður í löndum, en ég hef það mér til afsökunar eins og farfuglarnir, að ég kem alltaf aftur heim með vorinu. Ég er þakklátur samkennurum mínum, sem hafa rýmkað um starfstilhögun mína, svo að ég get farið að dæmi farfuglanna. Mér þykir vænt um þeirra góða hug í minn garð. Og annað má segja um fjarlægðina: Hún kennir okkur að meta Ísland. Árni Pálsson prófessor orðaði þetta vel, þegar hann sagði um sína kynslóð, sem hafði hlotið menntun sína í Danmörku: „Hvergi hefur Ísland verið elskað heitar en í Kaupmannahöfn.“

Í löngum fjarvistum fer ekki hjá því, að ég sakni vina og vandamanna heima, enda er það allt úrvalsfólk. En því ánægjulegri verða endurfundirnir. Mér finnst þó leitt, hversu snemma foreldrar mínir féllu frá, faðir minn 63 ára, móðir mín 74 ára. Þau hefðu haft gaman af að samgleðjast mér og systkinum mínum með, hversu vel allt hefur þrátt fyrir allt gengið.

Er ég hamingjusamur? Ég las á dögunum sjálfsævisögu Herberts Spencers, sem sagðist telja, að hamingjan væri æðsti mælikvarðinn á siðferðileg kerfi. En hann bætti því við, að menn ættu ekki að stefna að hamingjunni, því að þá gengi hún þeim úr greipum. Menn ættu frekar að fara eftir föstum og arfhelgum reglum, og þá fylgdi hamingjan með í eins konar kaupbæti. Ef marka má Spencer, þá er þess vegna of snemmt að svara spurningunni. Hamingjan er verðlaun að keppninni lokinni frekar en einhver innri tilfinningu. Hún er fullnægja frekar en ánægja. Hitt veit ég, að ég er sæmilega sáttur við lífið, enda við góða heilsu, í tiltölulega öruggu starfi og með prýðileg laun (að minnsta kosti laun, sem nægja mér).

Ég hef líka yndi af þeim verkefnum, sem mér hafa verið falin, jafnt kennslu og rannsóknum. Þessa dagana er ég eins og oft síðustu tvö árin að taka saman efni í skýrslu fyrir fjármálaráðuneytið um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins 2008. Margt er mjög merkilegt í þeirri sögu allri.

Þrír vinir mínir, Davíð Oddsson, Kjartan Gunnarsson og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, gáfu mér málverk á sextugsafmælinu, Hannes ófullgerður, sem átti að minna á það, að margt væri ógert. Og það er svo sannarlega rétt. Ég hef fullan hug á því að taka þeirri áskorun, sem fólst í gjöfinni. Hér er samantekt á því, sem ég gerði árið 2015.

Sé ég eftir einhverju? Auðvitað. Kvíði ég fyrir einhverju? Líklega aðallega tvennu, Elli kerlingu, sem hlýtur að leggja í glímu við mig eins og alla aðra, og hugsanlegri annarri heimskreppu, því að vestræn ríki hafa ekki leyst þann vanda, sem kom í ljós árin 2007–2008. En ég er samt sammála Ólafi Thors um, að menn eiga ekki að eyða ævinni í það að sjá eftir eða kvíða fyrir.


Lygin ljósmynduð

the-falling-soldier-big-capa.jpgKosningabaráttan eftir óvænt þingrof hér vorið 1931 var mjög hörð. Árni Pálsson prófessor var í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í einu traustasta vígi framsóknarmanna, Suður-Múlasýslu. Á kosningafundi kvað hann sitjandi forsætisráðherra, Tryggva Þórhallsson, hafa gefið skriflegt loforð um, að ríkisvaldinu yrði ekki misbeitt eftir þingrofið. Hrópaði þá þingmaður kjördæmisins, hinn hvítskeggjaði öldungur Sveinn Ólafsson í Firði: „Lygi!“ Árni sýndi fundarmönnum að bragði ljósmynd af skjalinu frá Tryggva. Sveinn lét sér hvergi bregða, heldur kallaði: „Lygi verður ekki að sannleika, þótt hún sé ljósmynduð!“

Þetta var auðvitað ekki ljósmynd af neinni lygi. Árni hafði sagt Sunnmýlingum satt. En fimm árum síðar var raunveruleg lygi ljósmynduð og varð heimsfrægur sannleikur. Ungur og metnaðargjarn ljósmyndari, sem hét upphaflega Endre Friedmann og var frá Ungverjalandi, hafði skipt um nafn, kallaðist Robert Capa og gerðist Bandaríkjamaður. Hann var róttækur í skoðunum og studdi lýðveldissinna í borgarastríðinu á Spáni, en þangað fór hann til að taka ljósmyndir. Ein kunnasta ljósmynd hans er „Banastundin“. Hún er af liðsmanni lýðveldishersins að falla eftir að hafa fengið kúlu í höfuðið. Kvaðst Capa hafa tekið myndina á vígstöðvunum í Cerro Muriano nálægt Córdoba 5. september 1936. Seinna var því bætt við, að maðurinn á myndinni hefði heitið Federico Borrell García.

Nýlegar rannsóknir sýna, að þetta er allt rangt. Myndin var ekki tekin í Cerro Muriano, heldur í Espejo, talsvert langt frá. Maðurinn á myndinni var ekki Borrell samkvæmt álitsgerð sérfræðings í réttarlæknisfræði. Lýsing og skuggar sýna, að myndin var tekin klukkan níu um morgun, ekki síðdegis, og þennan morgun geisuðu engir bardagar á svæðinu. Sannleikurinn var sá, að Capa fékk nokkra lýðveldishermenn til að leika hvern af öðrum, að þeir væru að falla fyrir byssukúlu, og þessi mynd heppnaðist best. Hefur hún oft verið talin ein áhrifamesta fréttaljósmynd 20. aldar. Hið ósvífna tilsvar Sveins í Firði átti svo sannarlega við um mynd Capa: „Lygi verður ekki að sannleika, þótt hún sé ljósmynduð!“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. febrúar 2016.)


208 milljarðarnir þeirra Svavars og Steingríms

Nú er komið í ljós, að Svavarssamningurinn í Icesave-málinu hefði kostað okkur 208 milljarða króna, sem hefðu komið til greiðslu á næstu fjórum árum. Hér er fróðlegt viðtal við Steingrím J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, í ágúst 2009, þegar Svavarssamningurinn var til meðferðar:

Það er líka hollt að hafa í huga, að sumir samkennarar mínir beittu sér af hörku með Svavarssamningnum, til dæmis Þorvaldur Gylfason og Stefán Ólafsson.


Merkilegustu fyrirlestrar mínir 2015

Á dögunum þurfti ég að skila Rannsóknarskýrslu fyrir 2015 til Háskólans, og rifjaðist þá upp fyrir mér margt, sem ég hafði gert á síðasta ári, þar á meðal bækur, sem ég hafði sent frá mér, og fyrirlestrar, sem ég flutti víða um heim.

hhg_tallinn_29_04_2015_1.jpgLíklega var virðulegasti fyrirlesturinn, sem ég flutti, í þinghúsinu í Tallinn í Eistlandi 29. apríl 2015. Þar mættu margir frammámenn á eistneska þinginu, en fyrirlesturinn var um íslensku kommúnistahreyfinguna og tengsl Eystrasaltsríkjanna og Íslands.

Fjölsóttustu fyrirlestrarnir voru á ráðstefnum European Students for Liberty í Berlín og Sofíu. Í Berlín 11. apríl  talaði ég um kynni mín af Hayek, Popper og Friedman, en í Sofíu 17. október um „Liberty in Iceland, 930–2015“.

Nokkrir fyrirlestrar mínir á Íslandi vöktu mikla athygli og þóttu fréttnæmir. Einn var á vorráðstefnu Viðskiptafræðistofnunar 21. apríl 2015, þar sem ég lagði fram útreikninga um, að samtals hefðu handvömm Más Guðmundssonar og fólska breskra stjórnvalda kostað um 200 milljarða króna. Annar var á ráðstefnu Félagsvísindastofnunar 31. október, þar sem ég rakti hugmyndir um veðsetningu, sölu, rýmingu og töku Íslands 1518–1868. Hinn þriðji var á fundi stjórnmálafræðinema 12. nóvember 2015 um Valdatíð Davíðs. Fundurinn er á Youtube, og hafa þúsundir manna hlustað þar á hann.

Um aðra fyrirlestra mína á árinu má lesa hér.


Kom Þór Saari upp um eigin trúnaðarbrot?

Ég las að morgni fimmtudagsins 11. febrúar 2016 mér til mikillar furðu fréttagrein um mig á netmiðlinum Hringbraut. Greinin hafði verið sett inn tíu mínútur eftir miðnætti. Hún var um það, að Þór Saari, fyrrverandi alþingismaður, hefði upplýst á Facebook, að ég hefði haft ríkisábyrgð á kreditkorti mínu einn allra Íslendinga. Þór hefði komist að því, þegar hann starfaði fyrir Lánasýslu ríkisins, en hann var starfsmaður hennar 2002–2007. Þetta hefði ratað í fréttir Stöðvar tvö í janúar 2004. Hringbraut segir síðan: „Hringbraut hefur sent Hannesi Hólmsteini fyrirspurn þar sem falast er eftir viðbrögðum, hvort hann staðfesti orð Þórs.“

Hringbraut hefur mér vitanlega ekki sent mér neina fyrirspurn, hvorki í tölvupósti né á skilaboðum á Facebook eða með símhringingu eða símaskilaboðum, eins og auðvelt hefði verið að gera. Netfang mitt er til dæmis í símaskránni. Ég hef einmitt sent Hringbraut fyrirspurn um, hvenær og hvernig mér hafi verið send þessi fyrirspurn. Þetta er auðvitað með afbrigðum óvönduð blaðamennska. Raunar hefðu Hringbrautarmenn ekki heldur átt að birta neina frétt, fyrr en þeir hefðu leitað til mín um viðbrögð: Lá þeim svo á, að fréttin var skrifuð og birtist laust eftir miðnætti?

Málavextir eru einfaldir, og var sagt frá þeim opinberlega á sínum tíma, eins og Þór Saari rifjar upp, þótt hann fari að vísu ekki nákvæmlega með. Ég notaði á sínum tíma kort frá American Express. Þetta fyrirtæki var þá einstaklega óþjált og erfitt í viðskiptum, og eitt af því, sem það heimtaði, var, að viðskiptabanki minn, Landsbankinn, sem þá var ríkisbanki, ábyrgðist greiðslur af korti mínu upp að 10 þúsund Bandaríkjadölum. Þar sem hentugra var sums staðar að nota American Express kortið en Visa kort, sem ég hafði líka, fékk ég bankann til að gangast í slíka ábyrð og greiddi fyrir sérstakt ábyrgðargjald árlega. 

Þegar Landsbankinn var seldur, var tekinn saman listi yfir þá aðila, sem höfðu notið ábyrgðar hjá bankanum sem ríkisbanka. Af einhverjum ástæðum var nafn mitt á þeim lista ásamt nokkrum stærstu fyrirtækjum landsins! Er það auðvitað með ólíkindum og mér algerlega óskiljanlegt. Ég vissi ekki af þessu, fyrr en Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, þáverandi fréttamaður hjá Stöð tvö, hafði samband við mig til að spyrja mig um þetta. Kom ég þá alveg af fjöllum, en gat ekki litið á þetta nema sem eitthvert gaman. Ekkert varð þá frekar úr málinu, enda var það ekkert mál, og bað starfsfólk Landsbankans mig afsökunar á þessum mistökum, sem ég tók fúslega við.

En frétt Hringbrautar af þessu segir sína sögu og þá ekki aðeins um óvandaða blaðamennsku Hringbrautarmanna. Fréttin segir líka sína sögu um Þór Saari. Hann skýrir á Facebook frá einkamálefnum mínum, sem hann komst að í starfi sínu hjá Lánasýslu ríkisins árin 2002–2007. Raunar bætir hann um betur með því að tala um „fjárhagsvanda“, sem ég hafi skapað mér!

229. grein almennra hegningarlaga hljóðar svo:

Hver, sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi, er réttlæti verknaðinn, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

230. grein laganna hljóðar svo:

Ef maður, sem hefur eða haft hefur með höndum starf, sem opinbera skipun, leyfi eða viðurkenningu þarf til að rækja, segir frá einhverjum einkamálefnum, sem leynt eiga að fara og hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári. Sömu refsingu varðar einnig sams konar verknaður þeirra manna, sem aðstoðað hafa ofangreinda menn í starfi þeirra.

Ég sé ekki betur en Þór Saari hafi brotið þessar greinar hegningarlaganna með skrifum sínum á Facebook. En það er ekki allt og sumt. Hver skyldi hafa verið heimildarmaður Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur, þáverandi fréttamanns á Stöð tvö, um málið fyrir tólf árum? Veitir Þór ekki sterka vísbendingu um eigið trúnaðarbrot með þessum Facebook-færslum?

(Hringbrautarmenn segjast hafa sent mér fyrirspurn á Facebook, en mér barst hún aldrei.)


Bækur sem ég gaf út 2015

Á dögunum skrifaði ég Rannsóknarskýrslu fyrir árið 2015, sem ég þurfti að skila Háskólanum, og þá rifjaðist margt upp fyrir mér, sem ég hafði gert á síðasta ári. Meðal annars gaf ég út fjórar bækur. Ein þeirra var greinasafn eftir mig, en hinum þremur ritstýrði ég, auk þess sem ég samdi að þeim formála og með þeim skýringar.

Greinasafnið The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable er gefið út af Háskólaútgáfunni. Ég lagði fyrst til á ráðstefnu haustið 1980, að ofveiðivandinn yrði leystur með því að úthluta réttindum til að veiða fisk, og yrðu þessi réttindi varanleg og seljanleg. Var gert gys að mér í Þjóðviljanum fyrir vikið.

Greinar um kommúnisma eftir breska heimspekinginn Bertrand Russell kom út á sextíu ára afmæli Almenna bókafélagins 17. júní 2015. Greinarnar birtust í íslenskum blöðum árin 1937–1956.

Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen kom út á hundrað ára afmæli kosningarréttar kvenna 19. júní 2015. Frásagnir Lippers og Kuusinens höfðu birst í íslenskum blöðum. Bókin er gefin út af Almenna bókafélaginu.

Úr álögum eftir Jan Valtin (réttu nafni Richard Krebs) kom út í tveimur bindum 1941 og 1944. Ósköpuðust íslenskir kommúnistar svo við útgáfu fyrra bindisins, að Menningar- og fræðslusamband alþýðu áræddi ekki að gefa seinna bindið út, svo að „Nokkrir félagar“ gerðu það. Bók Valtins var metsölubók í Bandaríkjunum, þar sem seldust um milljón eintök af henni, og hér seldist fyrra bindið í fjögur þúsund eintökum. Það er að vonum, því að bókin er bráðskemmtileg og fróðleg, ekki síðri aldarspegill en Veröld sem var eftir Stefan Zweig. Hún er gefin út af Almenna bókafélaginu.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband