Bækur sem ég gaf út 2015

Á dögunum skrifaði ég Rannsóknarskýrslu fyrir árið 2015, sem ég þurfti að skila Háskólanum, og þá rifjaðist margt upp fyrir mér, sem ég hafði gert á síðasta ári. Meðal annars gaf ég út fjórar bækur. Ein þeirra var greinasafn eftir mig, en hinum þremur ritstýrði ég, auk þess sem ég samdi að þeim formála og með þeim skýringar.

Greinasafnið The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable er gefið út af Háskólaútgáfunni. Ég lagði fyrst til á ráðstefnu haustið 1980, að ofveiðivandinn yrði leystur með því að úthluta réttindum til að veiða fisk, og yrðu þessi réttindi varanleg og seljanleg. Var gert gys að mér í Þjóðviljanum fyrir vikið.

Greinar um kommúnisma eftir breska heimspekinginn Bertrand Russell kom út á sextíu ára afmæli Almenna bókafélagins 17. júní 2015. Greinarnar birtust í íslenskum blöðum árin 1937–1956.

Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen kom út á hundrað ára afmæli kosningarréttar kvenna 19. júní 2015. Frásagnir Lippers og Kuusinens höfðu birst í íslenskum blöðum. Bókin er gefin út af Almenna bókafélaginu.

Úr álögum eftir Jan Valtin (réttu nafni Richard Krebs) kom út í tveimur bindum 1941 og 1944. Ósköpuðust íslenskir kommúnistar svo við útgáfu fyrra bindisins, að Menningar- og fræðslusamband alþýðu áræddi ekki að gefa seinna bindið út, svo að „Nokkrir félagar“ gerðu það. Bók Valtins var metsölubók í Bandaríkjunum, þar sem seldust um milljón eintök af henni, og hér seldist fyrra bindið í fjögur þúsund eintökum. Það er að vonum, því að bókin er bráðskemmtileg og fróðleg, ekki síðri aldarspegill en Veröld sem var eftir Stefan Zweig. Hún er gefin út af Almenna bókafélaginu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband