Það sem ég reiknaði út 2015

Á dögunum skilaði ég Rannsóknarskýrslu fyrir 2015 til Háskólans, eins og okkur háskólakennurum ber að gera. Þá rifjaðist margt upp fyrir mér, sem ég hafði gert á síðasta ári. Meðal annars lagðist ég í útreikninga á ýmsu:

Hvað var Rússagullið mikið? Samkvæmt útreikningum mínum, þegar fjárhæðirnar, sem vitað er um, hafa verið skattvirtar (þær voru leynilegar og því skattfrjálsar) og núvirtar, var það um hálfur milljarður króna, aðallega árin 1955–1970.

Hvert rann Rússagullið? Samkvæmt útreikningum mínum nemur heildarvirði þeirra fasteigna, sem Sósíalistaflokkurinn lét eftir sig, um 1,2 milljörðum króna að núvirði (Skólavörðustígur 19, Þingholtsstræti 27, Laugavegur 18 og Tjarnargata 20). Félagar í flokknum voru um 1.400 á sjötta áratug. 

Hvað reyndi Danakóngur að selja Ísland fyrir mikið fé? Samkvæmt útreikningum mínum reyndi hann 1518 að selja það Hinrik VIII. Englandskóngi fyrir 50 þúsund flórínur eða 6,5 milljónir dala eða um 800 milljónir íslenskra króna. Hann reyndi að selja það Hamborgarkaupmönnum fyrir 500 þúsund silfurdali 1645 eða 6,4 milljónir dala, nánast sömu upphæð og röskri öld áður. Árið 1868 veltu Bandaríkjamenn fyrir sér að kaupa Ísland. Hefðu þeir greitt sömu upphæð á hvern ferkílómetra og fyrir Alaska, þá hefði kaupverðið verið 8,7 milljónir dala, nokkru hærra, en þó ekki mjög, og árin 1518 og 1645.

Hvað kostuðu handvömm Más seðlabankastjóra Guðmundssonar, þegar hann seldi FIH banka, og fólska breskra ráðamanna, þegar þeir lokuðu KSF og Heritable Bank? Samkvæmt útreikningum mínum nemur tapið af þessu þrennu samtals eitthvað um 200 milljörðum króna.

Ég er ekki óskeikull, og hugsanlega hef ég misreiknað eitthvað. Ég fékk eina skarplega athugasemd við útreikninga mína (frá Herði Guðmundssyni) og leiðrétti að bragði það, sem hann benti mér á. En ég hef ekki fengið neinar aðrar athugasemdir.


Það sem ég kom upp um 2015

Ég var að skila Rannsóknarskýrslu minni fyrir árið 2015 til Háskólans og renndi þá augum yfir Fróðleiksmolana, sem ég skrifa vikulega í Morgunblaðið. Ég sé, að ég hef á síðasta ári tekið eftir og vakið athygli á ýmsum skekkjum, yfirsjónum og missögnum sumra samkennara minna. Hér eru hinar helstu:

Í B.A. ritgerð, sem Ragnheiður Kristjánsdóttir hafði umsjón með, er ráðist á Þór Whitehead prófessor fyrir að hafa farið rangt með eitt ákvæðið í inntökuskilyrðum í Alþjóðasamband kommúnista, Komintern. Kommúnistar hafi ekki verið skyldaðir til að stofna ólögleg hliðarsamtök nema í löndum, þar sem kommúnistaflokkar voru ólöglegir. Ég komst að því með því að fara í þýsku frumheimildina, að þetta er alrangt. Þetta ákvæði (3. inntökuskilyrðið af þeim 21, sem samþykkt voru í Moskvu 1920) var almennt og átti við jafnt þar sem kommúnistaflokkar voru leyfðir og bannaðir. Nú kunna sumir að segja, að Ragnheiður beri ekki ábyrgð á villum, sem nemendur hennar gera í ritgerðum, og er það eðlilegt sjónarmið. En hafa verður þó tvennt í huga. Hún á að heita sérfræðingur í kommúnisma og veit þetta samt ekki eða lætur þetta fram hjá sér fara! Og þetta var gagnrýni á einn samkennara hennar, virtan sagnfræðiprófessor, sem getið hefur sér orð fyrir sérlega vönduð vinnubrögð, og hefði hún því átt að skoða málið sérstaklega. (Skýringin á villunni er eflaust, að nemandinn — og Ragnheiður líka — hefur ekki nennt að leita uppi frumheimildina, heldur googlað þetta og fundið enska þýðingu á Wikipediu, en sú þýðing er einmitt ónákvæm.)

Í bók Jóns Ólafssonar um Veru Hertzch, Appelsínur frá Abkasíu, morar allt í villum um mál, sem ég þekki. Hér eru nokkrar:

  • Bls. 173. Þar rekur Jón bréfaskipti Veru og Benjamíns. Síðasta bréf Veru til Benjamíns var dagsett 8. desember 1937. Þar skrifaði hún: „Greve hefur líka verið handtekin [svo]“. Jón segir, að ekki sé „ljóst hver Greve var“. Það er hins vegar öllum kunnáttumönnum ljóst: Richard Greve (stundum stafsett Grewe) var ritstjóri Deutsche Zentral-Zeitung, þar sem Vera Hertzsch hafði verið blaðamaður. Hann fæddist í Hamborg 1894, gekk í Kommúnistaflokk Þýskalands 1920 og fluttist til Rússlands 1924. Hann var handtekinn 14. nóvember 1937 og skotinn 25. desember sama ár.
  • Bls. 251: „Árið 1949 kom út bókin 11 ár í sovéskum fangabúðum eftir Elinor Lipper. Lipper kom til Moskvu 27 ára gömul árið 1937 í stutta heimsókn.“ Þrjár villur eru hér. Bók Lippers kom fyrst út á þýsku snemma árs 1950 og í enskri þýðingu á Bretlandi það ár, en í Bandaríkjunum árið eftir. Í öðru lagi var Lipper að verða 25 ára, þegar hún kom til Moskvu vorið 1937. Hún var fædd í júlí 1912. Í þriðja lagi fór Lipper ekki til Moskvu í stutta heimsókn, heldur til að vinna í þágu byltingarinnar. Hún bjó á Hotel Lux með manni sínum og starfaði í bókaútgáfu erlendra bóka undir dulnefninu Ruth Zander.
  • Bls. 285. Um Vetrarstríðið: „Það var stríð Rússa við Finna en þeir fyrrnefndu réðust yfir landamærin haustið 1939 til að ná af Finnum þeim hluta Karelíu sem hafði fallið þeim í skaut 1918 þegar Finnland varð sjálfstætt ríki.“ Tvær meinlegar villur eru hér. Finnland varð í fyrsta lagi ekki sjálfstætt 1918, heldur 6. desember 1917, og viðurkenndu Kremlverjar sjálfstæði þess strax 18. desember það ár. Borgarastríð var háð í landinu á útmánuðum 1918, en í Tartu 1920 sömdu Finnar við Kremlverja um landamæri ríkjanna. Engin rússnesk svæði (önnur en Petsamo við Íshaf) höfðu í öðru lagi fallið í skaut Finna við fullt sjálfstæði. Kremlverjar viðurkenndu í Tartu-samningnum 1920 að langmestu leyti landamærin frá 1809, þegar Finnland gekk undan Svíum og varð stórhertogadæmi, sem laut Rússakeisara. Rússar höfðu þá skilað Finnlandi aftur svæðum í Kirjálalandi (Karelíu), sem þeir höfðu unnið á öndverðri átjándu öld eftir stríð við Svía. Þessi svæði voru byggð Finnum og hluti af Finnlandi nema tímabilið 1721–1809.

Ég velti því fyrir mér, hvort svipaðar villur séu í þessu riti Jóns um mál, sem ég hef engin skilyrði til að meta, til dæmis í úrvinnslu heimilda á rússnesku.


Það sem ég uppgötvaði í grúski 2015

Ég setti á dögunum hér inn á bloggið Rannsóknarskýrslu mína fyrir árið 2015, sem ég skilaði Háskólanum 1. febrúar, ásamt tenglum og nokkrum myndum. Þegar ég renndi yfir Fróðleiksmolana, sem ég skrifaði vikulega í Morgunblaðið og birti síðan jafnan á blogginu, sá ég ýmislegt. Eitt var það, hvað ég hefði uppgötvað í grúski mínu á síðasta ári. Það var ýmislegt, en upp úr stendur ef til vill þetta:

Ég komst að því, hvað Gunnar Gunnarsson hefði sagt við Hitler á fundi þeirra vorið 1940, en það hefur verið óljóst fram að þessu. Það fór fram hjá ævisöguriturum Gunnars, að Jón Krabbe sagði frá því í endurminningum sínum, að Gunnar hefði vakið máls á illu hlutskipti Finna við Hitler, en Hitler þá hvæst, að hann hefði boðið þeim griðasáttmála og þeir ekki þegið hann.

Ég komst að því, að Karl Kroner, sem var flóttamaður á Íslandi, þekkti til sjúkdómsgreiningar á Adolf Hitler í lok fyrri heimsstyrjaldar. Hann gaf bandarískum leyniþjónustumönnum skýrslu um það 1943. Hitler hafði að sögn Kroners fengið taugaáfall, en ekki orðið fyrir sinnepsgasárás, eins og hann hélt sjálfur fram.

Ég komst að því, hvaða brellu Nixon Bandaríkjaforseti hefði beitt til að losna við kvabb úr Lúðvík Jósepssyni í veislu á Bessastöðum 1973.

Ég komst að því, sem er ekki á vitorði margra, þótt sagnfræðingum sé það sumum kunnugt, að Danakóngur reyndi þrisvar að selja Englendingum landið og einu sinni Þjóðverjum, að breskir frammámenn lögðu til á öndverðri 19. öld, að landið væri tekið, og að bandarískir frammámenn veltu fyrir sér að kaupa landið 1868.

Ég hef verið að grúska í sögu Íslands, sérstaklega samskiptum landsins við stórveldin, vegna skýrslu, sem ég er að skrifa fyrir fjármálaráðuneytið um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins 2008.


Guernica! Guernica!

Ómar Ragnarsson, sem allir þekkja og segist vera áhugamaður um hernaðarsögu, andmælir í Morgunblaðinu 11. febrúar fróðleiksmola, sem ég birti á dögunum um loftárásina á baskneska bæinn Guernica í miðju spænska borgarastríðinu, 26. apríl 1937. Sá hængur er á, að Ómar andmælir aðeins einni athugasemd minni, en lætur sér nægja að reka upp hneykslunaróp um aðrar (þótt hann hafi raunar að eigin sögn sett hljóðan við að lesa skrif mín).

Athugasemd Ómars er um þá fullyrðingu mína, að árásin hafi verið liður í aðgerðum hers þjóðernissinna, en ekkert sérstakt uppátæki þýskra eða ítalskra hermanna. Kveður Ómar mig reyna að breiða yfir þá staðreynd, að „Hitler sendi sérstaka þýska flugsveit til Spánar [til] þess að æfa sig fyrir komandi styrjöld og árásin á Guernica hefur hingað til verið talin byrjunin á því sem síðar gerðist, þegar þýski flugherinn hafði yfirburði í leifturstríðum sínum“. En nýjar rannsóknir sýna einmitt, þótt þýskar og ítalskar flugsveitir framkvæmdu árásina, að hún var liður í hernaðaraðgerðum þjóðernissinna, þótt þeim hentaði að halda því leyndu, þegar í ljós kom, hversu miklum usla hún olli. Ég minntist í pistli mínum á sagnfræðiprófessorinn Stanley Payne, sem gaf 2012 út bókina The Spanish Civil War (sjá sérstaklega bls. 211–212), en ég bendi einnig Ómari sem áhugamanni um hernaðarsögu á ritgerð eftir hernaðarfræðinginn J. S. Corum, „The Persistent Myth of Guernica,“ sem birtist í Military History Quarterly 2010.

Ómar andmælir mér ekki um það, að Guernica hafi haft hernaðargildi, svo að árásin hafi verið hernaðaraðgerð frekar en hryðjuverk, eins og haldið hefur verið fram. Hann andmælir mér ekki heldur um það, að í fyrstu fréttum af árásinni hafi fjöldi fórnarlambanna verið ýktur. Hann kveður mig hins vegar leitast við að réttlæta loftárásina. Auðvitað dettur mér ekkert slíkt í hug. Skýringar þurfa ekki að vera réttlætingar. En er ekki rétt að endurskrifa söguna, ef fyrstu uppköstin að henni reynast ónákvæm? Er það ekki kjarninn í boðorði Ara fróða um að hafa það jafnan, sem sannara reynist?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. febrúar 2016.)


Guernica

Fyrsta fórnarlamb stríðs er jafnan sannleikurinn, sagði bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Hiram Warren Johnson þurrlega árið 1917. Þetta átti við í spænska borgarastríðinu 1936–1939, sem orkaði sterkt á vestræna menntamenn. Þeir höfðu flestir ríka samúð með lýðveldissinnum, sem börðust við þjóðernissinna Franciscos Francos.  Þeir töldu stríðið standa milli vestræns lýðræðis og fasisma Francos, þótt sönnu nær sé að segja, að það hafi staðið milli alræðis Stalíns og einræðis Francos, því að kommúnistar náðu brátt undirtökum í lýðveldishernum, tóku andstæðinga sína af lífi eða héldu yfir þeim sýndarréttarhöld og hnepptu í fangelsi.

de00050_0.jpgEinn táknrænasti viðburður stríðsins var í smábænum Guernica í Baskahéraðinu. Hinn 26. apríl 1937 gerðu þýskar og ítalskar flugsveitir árás á hann. Féll þar fjöldi fólks, og mestur hluti bæjarins brann til kaldra kola. Áróðursmenn lýðveldissinna héldu því strax fram, að bærinn hefði ekki haft neitt hernaðargildi og að árásin hefði verið á markaðsdegi, þegar bærinn hefði verið fullur af fólki. Þetta hefði verið hryðjuverk, ekki hernaðaraðgerð. „Óvíggirt og gersamlega varnarlaus borg er jöfnuð við jörðu. Eitt þúsund drepnir. Tíu þúsund heimilislausir,“ sagði í Iðunni 1937. Ekki spillti fyrir, að Pablo  Picasso kallaði frægt málverk eftir bænum.

Sannleikurinn er öllu flóknari, eins og bandaríski sagnfræðingurinn Stanley Payne hefur sýnt fram á. Guernica hafði ótvírætt hernaðargildi, þar sem bærinn var áfangi á leið hers þjóðernissinna til Bilbao, aðalborgar Baskahéraðsins. Í bænum var nokkurt herlið, og í útjaðrinum voru vopnasmiðjur. Héraðsstjórn Baska hafði bannað markaðsdaga vegna ófriðarins, svo að bærinn var sennilega ekki fullur af fólki. Líklega hafa nokkur hundruð manns fallið vegna loftárásinnar frekar en eitt þúsund, en bæjarbúar voru þá alls um fimm þúsund. Mestur hluti bæjarins brann, af því að flest hús voru úr tré. Loftárásin var liður í aðgerðum hers þjóðernissinna, en ekkert sérstakt uppátæki þýskra eða ítalskra hermanna, og féll bærinn í hendur Francosinna þremur dögum síðar.

Þegar loftárásin var gerð, hafði Picasso þegar byrjað á málverki sínu, en ákvað að bragði að kalla það eftir bænum. Skiptar skoðanir eru um, hversu gott listaverk það sé. En enginn ágreiningur getur verið um, að áróðursbragðið reyndist snjallt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. febrúar 2016.)


Lánsfé og lystisnekkjur

snekkja_jaj_utan.jpgEitt sinn sagði bandaríski rithöfundurinn F. Scott Fitzgerald við landa sinn og starfsbróður, Ernest Hemingway: „Ríkt fólk er ólíkt mér og þér.“ Hemingway svaraði þurrlega: „Já, það á meira fé.“ Hefði Hemingway verið staddur á Íslandi árin 2004-2008, eftir að klíkukapítalismi tók við af markaðskapítalisma áranna 1991-2004, þá hefði hann getað orðað þetta öðru vísi: „Já, það getur fengið meira fé að láni.“

Mér datt þetta í hug, þegar ég rakst á grein í mánaðarritinu Boat International frá árinu 2008. Louisa Beckett skrifaði hana, en Mark Lloyd tók ljósmyndir. Hún var um lystisnekkju af gerðinni Heesen 4400 sem þau Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Pálmadóttir höfðu fengið afhenta í nóvember 2007. Bar hin 45 m langa snekkja heitið 101. Því er lýst hvernig snekkjan var löguð að þörfum og smekk eigendanna. Einnig kemur fram í greininni að þau hjón eigi einkaþotu með sama nafni og séu að reisa skíðaskála með sama nafni í frönsku Ölpunum.

Þau Jón Ásgeir og Ingibjörg höfðu áður átt 29 m langa snekkju af gerðinni Ferretti, en hún nægði þeim ekki svo að þau sendu skipstjóra sinn í leit að heppilegum farkosti á höfunum. Hollenska fyrirtækið Heesen varð fyrir valinu og hófst smíði snekkjunnar í ágúst 2005. Ingibjörg vann með Perry van Hirtum, aðalhönnuði Heesen, og flaug hann oft til Lundúna næstu tvö árin til að ráðgast við hana. Aðallitirnir á gripnum voru svart, hvítt, silfurgrátt og blágrátt. „Ég held að ég hafi orðið fyrir áhrifum af andrúmsloftinu á Íslandi, af íslenskri náttúru,“ sagði Ingibjörg við tímaritið.

Snekkjan var þó ekki skráð á Íslandi, heldur á Cayman-eyjum, og lánaði Kaupþing í Lúxemborg fyrir henni gegn veði í henni. Árið 2009 leysti þrotabú Kaupþings síðan snekkjuna til sín og seldi, en söluverðið nægði ekki fyrir öllu láninu. Samkvæmt upplýsingum frá Jóni Ásgeiri, sem birtust á visir.is 5. janúar 2008, kostaði snekkjan „nær milljarði en tveimur“. Eitthvað er þar málum blandið því að þá var söluverð slíkrar snekkju á alþjóðlegum markaði nálægt 35 milljónum dala, en tveir milljarðar króna voru þá 32 milljónir dala. Sama snekkja, sem nefnist nú „Bliss“, er til sölu fyrir um 25 milljónir dala eða röska þrjá milljarða króna.

Ríkt fólk er ólíkt mér og þér: Það getur fengið meira fé að láni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. janúar 2015. Myndin eru af lystisnekkjunni, sem keypt var fyrir lánsfé.)


Rannsóknarskýrsla mín fyrir 2015

Við háskólakennarar þurfum að skila rannsóknarskýrslu á hverju ári. Hér er skýrsla mín fyrir árið 2015, og er notast við flokkun verka skv. leiðbeiningum rannsóknasviðs Háskóla Íslands. Ég gaf út eina bók, ritstýrði þremur bókum, birti sjö greinar, þar af eina í erlendu tímariti, flutti 13 fyrirlestra um allan heim, skrifaði eina áfangaskýrslu, birti þrjá ritdóma, þar af einn í erlendu tímariti, og fjölda blaðagreina, aðallega fróðleiksmola handa almenningi.

 

A2.2 - Alþjóðleg ritrýnd útgáfa og innlend ritrýnd útgáfa með alþjóðlega skírskotun

The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable. Reykjavik: Háskólaútgáfan, 2015. (Bók gefin út á pappír, en einnig á Netinu.)

 

A3.3 - Bókarkaflar: Íslensk eða erlend ritrýnd útgáfa sem einkum miðast við staðbundið fræðasamfélag

Proposals to Sell, Annex or Evacuate Iceland, 1518–1868. Þjóðarspegillinn 2015. Rannsóknir í félagsvísindum XVI: Stjórnmálafræðideild.

 

A4.2 - Aðrar greinar í ISI tímaritum, greinar í B-flokki skv. ERIH eða greinar sem fá 1. einkunn í könnun fyrir tímarit

Þrír erlendir bankar í eigu Íslendinga: Hvað gerðist? Þjóðmál 11 (3), haust 2015. 69–80.

 

A4.4 - Greinar birtar í tímaritum sem fá 3. einkunn í könnun fyrir tímarit

Hvers virði var Rússagullið? Vísbending 33 (29), 2015. 3–4.

Ísland verðlagt. Vísbending 33 (39), 2015. 3.

Ísland veðsett, selt, rýmt eða tekið. Hugmyndir útlendinga um ráðstöfun Íslands 1518–1868. Vísbending 33 (50), jólablað, 18–21.

The 2008 Icelandic Bank Collapse: What Happened? Cayman Financial Review, No. 38, 20 January 2015. 68–70.

Varð dramb Íslendingum að falli? Íslenska leiðin, blað stjórnmálafræðinema í Háskóla Íslands, 2015. 26–30.

 

A6.2 - Opinber boðsfyrirlestur við erlendan háskóla

The Icelandic Communist Movement, 1918–1998. Fyrirlestur í Háskólanum í Tartu 28. apríl 2015.

 

A6.3 - Erindi á alþjóðlegri ráðstefnu

Three Modern Masters: F. A. von Hayek, K. Popper and M. Friedman. Fyrirlestur á ársþingi European Students for Liberty í Humboldt-háskólanum í Berlín 11. apríl 2015.

Liberty in Iceland, 930–2015. Fyrirlestur á ráðstefnu European Students for Liberty í Sofia í Búlgaríu 17. október 2015.

 

A6.4 - Erindi á innlendri ráðstefnu

Nýjar heimildir um bankahrunið 2008. Fyrirlestur á ráðstefnu Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt og Félags stjórnmálafræðinga 14. janúar 2015. Hinn fyrirlesarinn var dr. Guðni Jóhannesson. 

Meðferð eigna íslensku bankanna eftir bankahrunið 2008. Fyrirlestur á vorráðstefnu Viðskiptafræðistofnunar 21. apríl 2015.

Hugmyndir um sölu Íslands, veðsetningu, rýmingu eða töku 1518–1868. Fyrirlestur á Þjóðarspeglinum, ráðstefnu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, 31. október 2015.

Valdatíð Davíðs. Erindi á ráðstefnu Politica, félags stjórnmálafræðinema í Háskóla Íslands, 12. nóvember 2015. Aðrir fyrirlesarar voru Ögmundur Jónasson, fyrrv. ráðherra, og dr. Vilhjálmur Egilsson, rektor í Bifröst. Fundurinn er á Youtube, og hafa þúsundir manna hlustað þar á hann.

 

A6.5 - Erindi á fræðilegu málþingi, málstofu eða fundi fyrir faghópa

Sweden, Iceland and the 2008 Bank Collapse. Erindi á morgunverðarfundi Ratio Institute í Stokkhólmi 9. apríl 2015.

Iceland, the Baltic Countries and International Communism. Fyrirlestur í þinghúsinu í Tallinn 29. apríl 2015.

Piketty’s Challenge. Fyrirlestur í Verslunarháskólanum í Tallinn 30. apríl 2015.

History of Iceland: A Summary. Erindi á pólsk-íslenskri málstofu pólska rannsóknarsetursins Pamięć i PrzyszÅ‚ość í Reykjavík 19. ágúst 2015.

Sköpunargleði í stað sníkjulífs. Erindi á fundi Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála og Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt 5. nóvember 2015.

Evrópa fórnarlambanna. Skýrsla um samstarfsverkefni um endurútgáfu bóka til varnar lýðræði á ársfundi European Platform of Memory and Conscience í Wroclaw í Póllandi 18. nóvember 2015.

 

A7.2 - Ritstjóri bókar

Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell. Reykjavík: Almenna bókafélagið, 17. júní 2015. Með formála og skýringum eftir ritstjóra. Bókin kemur bæði út á pappír og í netútgáfu, m. a. á Google Books.

Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen. Reykjavík: Almenna bókafélagið, 19. júní 2015. Með formála og skýringum eftir ritstjóra. Bókin kemur bæði út á pappír og í netútgáfu, m. a. á Google Books.

Úr álögum eftir Jan Valtin (Richard Krebs). Reykjavík: Almenna bókafélagið, 23. ágúst 2015. Með formála og skýringum eftir ritstjóra. Bókin kemur bæði út á pappír og í netútgáfu, m. a. á Google Books.

 

A8.1 - Skýrslur 

Foreign Factors in the 2008 Icelandic Bank Collapse. Áfangaskýrsla frá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir fjármálaráðuneytið.

 

A8.2 - Ritdómar

Two Interpretations of the Icelandic Bank Collapse. European Political Science 2015. Ritdómur um bækur Guðrúnar Johnsens og Eiríks Bergmanns um bankahrunið. doi: 10.1057/eps.2015.36

Tvær gallaðar bækur um bankahrunið. Ritdómur um Hamskiptin eftir Inga Frey Vilhjálmsson og Í skugga sólkonungs eftir Ólaf Arnarson. Þjóðmál 11 (4), 79–90.

Umhverfisvernd: Skynsemi í stað ofstækis. Ritdómur um Ecofundamentalism eftir Rögnvald Hannesson. Þjóðmál 11 (4), 94–96.

 

D3 - Seta í nefndum eða stjórnum

Seta í rannsóknarráði Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt.

D6 - Fræðsluefni fyrir almenning — Blaðagreinar

Reiðilestur í stað rannsóknar. Morgunblaðið 30. janúar 2015.

Kvótakerfið er hagkvæmt og réttlátt. Morgunblaðið 21. maí 2015. 

270 milljarða króna tap af handvömm og fólsku? Morgunblaðið 21. apríl 2015.

Már geri hreint fyrir sínum dyrum. Morgunblaðið 24. apríl 2015.

Útgerðarmenn þjóðhetjur, ekki þjóðníðingar. DV 25. ágúst 2015.

Umhverfisvernd: Skynsemi eða ofstæki. Morgunblaðið 8. október 2015.

 

D6 - Fræðsluefni fyrir almenning — Fróðleiksmolar

Lánsfé og lystisnekkjur. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 3. janúar 2015.

Nýjar heimildir?
Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 10. janúar 2015.

Skjöl sem heimildir. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 17. janúar 2015.

Bandarísk leyniskjöl um Íslendinga. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 24. janúar 2015. 

Málstaður Íslendinga. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 31. janúar 2015.

Ártíð Ólafs Thors. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 7. febrúar 2015.

Þorsteinn Erlingsson. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 14. febrúar 2015.

Til hvers var Gissurarsáttmáli? Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 21. febrúar 2015.

Ísland í sambandi við Svíþjóð. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 28. febrúar 2015.

Sömdu Svíar af sér Ísland? Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 7. mars 2015.

Reductio ad Hitlerum. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 14. mars 2015. 

Þorvaldur: Íslendingahrellir. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 21. mars 2015.

Var Jón Sigurðsson óbilgjarn? Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 28. mars 2015.

Hugleiðingar í Machu Picchu. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 4. apríl 2015.

Hinn stígurinn. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 11. apríl 2015.

Sjálftaka eða þátttaka? Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 18. apríl 2015.

Með Vargas Llosa í Lima. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 25. apríl 2015. 

Kílarfriður enn í gildi? Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 2. maí 2015.

Furðuskrif um sjálfstæðisbaráttuna. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 9. maí 2015.

Brandes og Cobban gera lítið úr Íslendingum. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 16. maí 2015.

Kardínálinn aftur á ferð. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 23. maí 2015.

Vinir í raun. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 30. maí 2015.

„Nú vill enginn eiga þig.“ Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 6. júní 2015.

Því hertóku Bretar ekki Ísland? Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 13. júní 2015.

Drengskapur tveggja Breta. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 20. júní 2015.

Þrisvar boðið Ísland. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 27. júní 2015.

Vildi kaupa Ísland. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 4. júlí 2015.

Dularfulli ræðismaðurinn. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 11. júlí 2015.

Hæpin notkun úrfellingarmerkisins. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 18. júlí 2015.

Tvær sögufalsanir á Wikipediu. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 1. ágúst 2015.

Óhlýðnuðust íslenskir kommúnistar Stalín? Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 8. ágúst 2015.

Skýringar og sakfellingar. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 15. ágúst 2015.

Churchill, de Gaulle og íslenskir kommúnistar. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 25. júlí 2015.

Skýringin á velgengni kommúnista. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 22. ágúst 2015.

Handrit ánöfnuð eldinum? Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 29. ágúst 2015.

Barnaskapur og hermennska. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 5. september 2015.

Fjórði sjálfboðaliðinn. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 12. september 2015.

Hvað sagði Gunnar við Hitler? Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 19. september 2015.

Sögðu Billinn og Sillinn ósatt? Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 26. september 2015.

Hvernig skiptust skáld milli flokka? Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 3. október 2015.

Brella Nixons á Bessastöðum. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 10. október 2015.

Ólafur Thors og Macmillan. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 17. október 2015.

Kroner og Hitler. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 24. október 2015.

Kynþáttaandúð eða útlendingahræðsla. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 31. október 2015.

Hverjir leyndust á bak við nöfnin? Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 7. nóvember 2015.

Hvað varð um Rússagullið? Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 14. nóvember 2015.

Ámælisverð iðjusemi. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 21. nóvember 2015.

Finnagaldur Jóns Ólafssonar. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 28. nóvember 2015.

Glámskyggni Bandaríkjamanna á Lúðvík. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 5. desember 2015.

Hverjir hittu harðstjórana? Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 12. desember 2015.

Rússneska ráðgátan. Fróðleiksmolar, Morgunblaðið 19. desember 2015.

 


Upptaka frá Lima í Perú

Ég flutti á dögunum tvo fyrirlestra í Lima í Perú, annan hjá Landssambandi perúskra útvegsmanna 22. janúar, hinn í atvinnumálaráðuneyti Perú 25. janúar. Hér er upptaka af fyrri fyrirlestrinum, en talið er frá spænska túlkinum:

Þjóð berst við eld og ís

Saga íslensku þjóðarinnar var fyrstu þúsund árin saga um baráttu við eld og ís. Næst var þjóðin því að tapa stríðinu í Skaftáreldum 1783–1784, þegar eldsumbrot voru svo stórkostleg hér á landi, að öll Norðurálfan fann fyrir þeim, en hafís lá að ströndum fram eftir vorum. Féll um fimmtungur þjóðarinnar, tíu þúsund manns, í Móðuharðindunum, sem nefnd voru eftir hinum eitraða mekki yfir landinu. Í bókinni Mannfækkun af hallærum, sem Hannes Finnsson Skálholtsbiskup samdi skömmu síðar til að sýna, að landið væri þrátt fyrir allt byggilegt, nefndi hann, að árið 1784 hefðu Danir velt því fyrir sér í alvöru að flytja allt fólk af landinu. Magnúsi Stephensen dómara sagðist eins frá síðar, og Jón Sigurðsson forseti bætti því við, að ætlunin hefði verið að flytja Íslendinga á Jótlandsheiðar.

Þessi fróðleikur var tekinn upp í íslenskar kennslubækur, uns Þorkell Jóhannesson prófessor taldi sig hafa hrakið hann. Hafði hann rannsakað danskar heimildir og fundið það eitt þessu til staðfestingar, að rætt hefði verið 1785 um að flytja þurfamenn til Danmerkur. Var niðurstaða Þorkels, að sagan um einhverja hugmynd eftir Móðuharðindin um brottflutning allra Íslendinga væri þjóðsaga. Hvarf sá fróðleikur við svo búið úr kennslubókum.

Í Skírni 1971 andmælti Sigurður Líndal prófessor að vísu skoðun Þorkels með þeim rökum, að ekki yrði gengið fram hjá jafnáreiðanlegum heimildarmanni og Hannesi Finnssyni. Þá hafði þó engin sjálfstæð heimild fundist, er treysti eða staðfesti frásögn Hannesar.

Anna Agnarsdóttir prófessor fann hins vegar slíka heimild snemma á tíunda áratug. Var hún að skoða skjöl í Þjóðskjalasafni Breta, og leið að lokunartíma. Þá rak Anna skyndilega augun í skýrslu frá breska sendiráðinu í Kaupmannahöfn frá 22. nóvember 1785, og hafði skýrslan verið send á dulmáli og það síðan verið ráðið. Þar skrifaði skýrsluhöfundur, James Johnstone: „Mér skilst, að nýlega hafi verið til umræðu að flytja íslensku þjóðina til ýmissa yfirráðasvæða Dana.“ Ber þessari heimild saman við það, sem Hannes Finnsson skrifaði, eins og Anna benti á í Nýrri sögu 1993. Þetta þarf auðvitað ekki að rekast á hitt, sem Þorkell Jóhannesson fann gögn um, að 1785 hefði einnig verið rætt um takmarkaðri aðgerð, að flytja þurfamenn af landinu.
Sagan um, að Danir hafi um skeið velt því fyrir sér í fúlustu alvöru að flytja þjóðina burt af landinu, er því ekki þjóðsaga, heldur styðst við traustar heimildir, hvort sem Jótlandsheiðar voru fyrirhugaður leiðarendi eða ekki. Litlu mátti muna í baráttunni við eld og ís. En þjóðin hafði betur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. janúar 2016.)


Ertu á leið til Lima?

Fræðimenn, sem taka starf sitt alvarlega, verða oft að leysa verkefni, sem aðrir geta yppt öxlum yfir. Í fyrirlestraferð minni til Perú 21.–26. janúar, þar sem ég talaði um framseljanlega aflakvóta í Landssamtökum útvegsmanna, Sociedad Nacional de Pesquaría, og í Atvinnumálaráðuneytinu, Ministerio de la Produccíon, varð ég auðvitað að kynna mér, hvernig Perúmenn vinna úr sjávarréttum. Ég fékk mikinn sælkera, kunningja minn, Roberto Paravagna, sem er á níræðisaldri, en í fullu fjöri, til að aðstoða mig við þessar nauðsynlegu rannsóknir. Við fórum á nokkra kunnustu veitingastaðina í Lima, en einnig var mér tvisvar boðið út af öðrum. Skemmst er frá því að segja, að þar syðra er boðið upp á jafngóða sjávarrétti og í Reykjavík, og er þá langt til jafnað. Sjávarfangið er sérlega ferskt og ótrúleg tilbreytni í eldunaraðferðum, kryddi og sósum. Lima hefur þrjú ár í röð verið valin mesta sælkeraborg í heimi og á þann titil alveg skilið. En fyrir þá, sem leggja leið sína þangað, eru hér stuttar umsagnir um veitingastaðina, sem ég sótti heim:

Rafael var langbesti staðurinn að mínum dómi. Hann var þægilegur og ekki aðeins fyrir kaupsýslumenn með risnu. Verðið var um 8 þús. kr. á mann, en þar voru meðtaldir að minnsta kosti tveir Pisco sour (þjóðardrykkur Perúmanna, en stofninn er sterkur líkjör). Besti rétturinn og sá, sem staðurinn er frægastur fyrir, er humar, mjög bragðgóður. Mér fannst léttur forréttur úr önd líka mjög gómsætur.

Central var miklu dýrari staður, í rauninni fáránlega dýr, en samt var erfitt að fá borð þar. Verðið var um 15 þús. kr. á mann. Jafnan er um viku biðlisti þar, og staðurinn fær mjög góða dóma, sem ég er ekki viss um, að séu verðskuldaðir. Við fengum borðið á  síðustu stundu. Farið var í eins konar hringferð um Perú með ellefu léttum réttum. Þeir voru bornir fram með miklum og löngum skýringum þjónanna. En mér fannst enginn réttur sérstakur. „Interesting experience, but not to be repeated,“ sagði borðnautur minn Roberto.

Hinir staðirnir voru allir ódýrari. Rosa Náutica er skemmtilegur staður, liggur úti í sjó og göngubrú að honum frá ströndinni. Hann sérhæfir sig að vonum í sjávarréttum. Einn bragðbesti þjóðarréttur Perúmanna er ceviche, sem er sítrónuleginn fiskur. Hvort tveggja er, að sítrónulögurinn er sterkari en við eigum að venjast og hráefnið jafnan gott og ferskt, svo að óhætt er að mæla með honum.

Makoto sushi bar lætur ekki mikið yfir sér, en bauð upp á mjög gott sushi og sashimi. Sumir sushi-hnoðrarnir voru fylltir með ceviche, og þeir voru mjög ljúffengir. Íslenskur kaupsýslumaður, sem býr í Lima, bauð mér á þennan stað, og hann segir, að hann sé besti japanski staðurinn í borginni. Ég hef ekki samanburð, en ég get vel trúað því. Allt var þar mjög bragðgott. Laxasneiðarnar í sashimi réttunum voru miklu þykkar skornar en á Íslandi, og ég er ekki frá því, að þær bragðist betur við það. Fisktegundirnar í sashimi réttunum voru líka ferskar og smökkuðust vel, en ég kann engin frekari skil á þeim, og bíður það frekari rannsókna.

Panchita merkir litla grillhúsið, og þar eru kjötréttir aðallega á boðstólum. Staðurinn er fjörugur og hávær og talsvert þar af ungu fólki. Við næsta borð voru nokkrir listdansarar, karlar og konur, og gæddu sér af bestu lyst á ýmsum réttum, svo að líklega þykir maturinn þar hollur. Þjónustufólkið var kátt og vingjarnlegt, eins og raunar Perúmenn allir, sem ég hafði tal af. Maturinn var prýðilegur og alls ekki eins þungur og oft gerist á steikhúsum.

Museo Larco er í senn safn og veitingastaður. Safnið hefur að geyma minjar um ýmsar þjóðir, sem byggðu Perú, áður en Inkarnir náðu völdum, en þeir höfðu aðeins ríkt í eina öld, þegar Spánverja bar að garði. Það er merkilegt að skoða þessar minjar, þar á meðal gullbúnar skikkjur. En margir siðir þessara þjóða voru mjög grimmúðlegir. Í einum hliðarsal er munúðargripir (erotic art) frá því fyrir daga Inkanna! Veitingastaðurinn er prýðilegur, að mestu leyti úti við, og fer þar vel um gesti. Eini gallinn við þennan stað er, að hann er dálítið langt frá þeim hverfum, þar sem flest gistihús standa, San Isidro (þar sem ég bjó) og Miraflores (þar sem Roberto bjó). Umferðin í Lima er líka mjög þung.

Golfklúbburinn í Lima er eins og sprottinn upp úr skáldsögu eftir W. Somerset Maugham. Þar sitja rosknar hefðarkonur ásamt öðrum gestum að snæðingi í kyrrlátu og virðulegu umhverfi. Vítt er til veggja, og fjölmennt þjónalið hvítklætt gengur um beina. Úti við teygja grænar grundir úr sér, og þar má sjá menn leika golf af ákafa. Ég sat þar hádegisverð með perúskum félögum í Mont Pelerin samtökunum, en þar var ég í stjórn 1998–2004. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband