Merkilegustu fyrirlestrar mínir 2015

Á dögunum þurfti ég að skila Rannsóknarskýrslu fyrir 2015 til Háskólans, og rifjaðist þá upp fyrir mér margt, sem ég hafði gert á síðasta ári, þar á meðal bækur, sem ég hafði sent frá mér, og fyrirlestrar, sem ég flutti víða um heim.

hhg_tallinn_29_04_2015_1.jpgLíklega var virðulegasti fyrirlesturinn, sem ég flutti, í þinghúsinu í Tallinn í Eistlandi 29. apríl 2015. Þar mættu margir frammámenn á eistneska þinginu, en fyrirlesturinn var um íslensku kommúnistahreyfinguna og tengsl Eystrasaltsríkjanna og Íslands.

Fjölsóttustu fyrirlestrarnir voru á ráðstefnum European Students for Liberty í Berlín og Sofíu. Í Berlín 11. apríl  talaði ég um kynni mín af Hayek, Popper og Friedman, en í Sofíu 17. október um „Liberty in Iceland, 930–2015“.

Nokkrir fyrirlestrar mínir á Íslandi vöktu mikla athygli og þóttu fréttnæmir. Einn var á vorráðstefnu Viðskiptafræðistofnunar 21. apríl 2015, þar sem ég lagði fram útreikninga um, að samtals hefðu handvömm Más Guðmundssonar og fólska breskra stjórnvalda kostað um 200 milljarða króna. Annar var á ráðstefnu Félagsvísindastofnunar 31. október, þar sem ég rakti hugmyndir um veðsetningu, sölu, rýmingu og töku Íslands 1518–1868. Hinn þriðji var á fundi stjórnmálafræðinema 12. nóvember 2015 um Valdatíð Davíðs. Fundurinn er á Youtube, og hafa þúsundir manna hlustað þar á hann.

Um aðra fyrirlestra mína á árinu má lesa hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband