Ritstjórinn Matthías Johannessen

Matthías Johannessen160Með Matthíasi Johannessen er genginn einn merkasti blaðamaður tuttugustu aldar á Íslandi. Hann var aðeins 29 ára, þegar hann varð ritstjóri Morgunblaðsins árið 1959, og gegndi því starfi í 41 ár, til sjötugs. Ég kynntist honum á seinni hluta áttunda áratugar. Útvarpsþættir, sem ég hafði séð um, Orðabelgur, höfðu vakið athygli, og Matthías bað mig að skrifa fastan dálk í Morgunblaðið, sem ég gerði í nokkur ár. Var fróðlegt að fylgjast með ritstjórunum, honum og Styrmi Gunnarssyni. Undir öflugri ritstjórn Valtýs Stefánssonar hafði Morgunblaðið orðið stórveldi. Bjarni Benediktsson styrkti blaðið enn í ritstjóratíð sinni árin 1956–1959, og þeim Matthíasi og Styrmi tókst að varðveita ítök blaðsins og jafnvel auka, ekki síst eftir að vinstri blöð tíndu tölu.    

Matthías vissi margt, sem aðrir vissu ekki. Hann sagði mér til dæmis, að á bak við dulnefnið Jón Reykvíking, sem skrifaði alræmt níð um Kristmann Guðmundsson í Mánudagsblaðið árið 1961, hefði leynst Einar Ásmundsson lögfræðingur. Hafði Einar reiðst ólofsamlegum ritdómi Kristmanns um ljóðabók eftir sig. Í dagbók sinni á Netinu sagði Matthías enn fremur frá því, að Stefán Ólafsson, þá forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, hefði laumað að þeim Styrmi úrslitum skoðanakönnunar, sem Félagsvísindastofnun var fengin til að gera í trúnaði um fylgi manna í forsetakjöri 1996. Brást Háskólinn aldrei við þessu trúnaðarbroti Stefáns.

Matthías var góðvinur tveggja snjöllustu skálda samtíðarinnar, þeirra Steins Steinarrs og Tómasar Guðmundssonar, en sagði mér, að hann hefði ekki getið verið það í einu. Tómas hafði gert gys að lausamálsljóðum Steins í hláturleik (revíu), en Steinn hefnt sín með vísu um, að sál Tómasar hefði gránað fyrr en hárin. Þeir Tómas urðu ekki vinir fyrr en eftir lát Steins. Jafnframt kynntist Matthías vel hinum svipmiklu stjórnmálamönnum Ólafi Thors og Bjarna Benediktssyni. Ég fékk hann til að segja frá þessum fjórum mönnum í óbirtum sjónvarpsþætti, sem nú þyrfti að búa til sýningar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. mars 2024.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband