Leyniræðan og íslenskir kommúnistar

stali_769_nofl.jpgFyrir réttum sextíu árum urðu íslenskir kommúnistar fyrir einhverju mesta áfallinu í sögu sinni. Þá spurðist um heimsbyggðina, að aðfaranótt 25. febrúar 1956 hefði Níkíta Khrústsjov, aðalritari kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna, flutt leyniræðu á þingi flokksins um margvísleg ódæði Josífs Stalíns. Fulltrúar Sósíalistaflokksins á þinginu í Moskvu, Kristinn E. Andrésson og Eggert Þorbjarnarson, höfðu ekki fengið að vita af uppljóstrunum Khrústsjovs og lásu fyrst um þær í blöðum á leiðinni heim.

Áratugina á undan höfðu íslenskir kommúnistar lofsungið Stalín. Í Gerska æfintýrinu hafði Halldór Kiljan Laxness skrifað, að Stalín væri í hærra meðallagi, grannur og vel limaður. (Stalín var smávaxinn, bólugrafinn og digur.) Laxness hafði líka birt þýðingu sína á kvæði eftir „Kasakhaskáldið Dzhambúl“:

Stalín, elskaði vinur, þú átt ekki þinn líka,

þú ert skáld jarðar.

Stalín, þú ert söngvari þjóðvísunnar.

Jóhannes úr Kötlum hafði ort lofkvæði um Stalín:

Því þetta er fólksins hermaður, sem heldur þarna vörð,

um hugsjón hinna fátæka, um himin þeirra og jörð.

Við lát Stalíns hafði Einar Olgeirsson skrifað: „Vér minnumst mannsins Stalíns, sem hefur verið elskaður og dáður meir en flestir menn í mannkynssögunni áður og naut slíks trúnaðartrausts, sem fáir menn nokkru sinni hafa notið, – en lét sér aldrei stíga þá ást og aðdáun til höfuðs, heldur var til síðustu stundar sami góði félaginn, sem mat manngildið ofar öllu öðru.“

Nú viðurkenndi Khrústsjov, að Stalín hefði verið grimmdarseggur og látið pynda og skjóta fjölda saklausra manna. Hann las jafnvel upp úr svokallaðri „erfðaskrá Leníns“, sem íslenskir kommúnistar höfðu sagt falsaða. Það var að vonum, að í þingkosningunum 1956 bauð Sósíalistaflokkurinn ekki fram, heldur Alþýðubandalagið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. febrúar 2016. Skopteikningin eftir Halldór Pétursson er af Brynjólfi Bjarnasyni og Kristni E. Andréssyni að hjúfra sig upp að Stalín og Þórbergi Þórðarsyni og Jóhannesi úr Kötlum í fangi hans.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband