Nicosia, mars 2024

HHG2.Nicosia.29.03.2024Ég hélt upphafsfyrirlestur í menningarvikulokum evrópskra íhaldsflokka í Nicosíu á Kýpur 31. mars 2024. Þar ræddi ég um, hvaða erindi tveir merkir hugsuðir, danska skáldið og heimspekingurinn Nikolaj F. S. Grundtvig og ítalski hagfræðingurinn Luigi Einaudi, ættu við okkur nútímamenn. Grundtvig lagði áherslu á þjóðerniskennd og samtakamátt alþýðu. Hann vildi kenna fólki að verða góðir borgarar í lýðræðisríki, og búa Danir enn að arfi hans. Einaudi var stuðningsmaður frjálsra viðskipta og taldi, að nauðsynlegt væri að stofna öflugri samtök en Þjóðabandalagið reyndist vera til að verja frelsi og lýðræði Evrópuþjóða. Hann var þess vegna eindreginn talsmaður Evrópusambandsins, sem í upphafi hét Efnahagsbandalag Evrópu.

Ég hélt því fram, að Evrópusambandið ætti að vera samband þjóðríkja, og þar gætu Evrópumenn lært af þjóðerniskennd Grundtvigs, sem hefði ekki verið herská og yfirgangssöm, heldur friðsöm og sáttfús. Dönsk þjóðmenning væri til fyrirmyndar. Evrópusambandið hefði fyrstu fimmtíu árin fetað rétta braut, þegar það jók viðskiptafrelsi og auðveldaði samkeppni á Evrópumarkaði. Sú var hugsjón Einaudis. Efnahagslegur samruni er æskilegur. En síðan hefur Evrópusambandið lent á villigötum. Stjórnmálalegur samruni er óæskilegur. Skriffinnarnir í Brüssel, sem enginn hefur kosið og hvergi þurfa að leggja verk sín í dóm annarra, stefna markvisst, hægt og örugglega, að voldugu, evrópsku sambandsríki, þar sem rödd þeirra mun heyrast sem hróp, en rödd þjóðanna sem hvísl.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. apríl 2024.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband