Lygin ljósmynduð

the-falling-soldier-big-capa.jpgKosningabaráttan eftir óvænt þingrof hér vorið 1931 var mjög hörð. Árni Pálsson prófessor var í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í einu traustasta vígi framsóknarmanna, Suður-Múlasýslu. Á kosningafundi kvað hann sitjandi forsætisráðherra, Tryggva Þórhallsson, hafa gefið skriflegt loforð um, að ríkisvaldinu yrði ekki misbeitt eftir þingrofið. Hrópaði þá þingmaður kjördæmisins, hinn hvítskeggjaði öldungur Sveinn Ólafsson í Firði: „Lygi!“ Árni sýndi fundarmönnum að bragði ljósmynd af skjalinu frá Tryggva. Sveinn lét sér hvergi bregða, heldur kallaði: „Lygi verður ekki að sannleika, þótt hún sé ljósmynduð!“

Þetta var auðvitað ekki ljósmynd af neinni lygi. Árni hafði sagt Sunnmýlingum satt. En fimm árum síðar var raunveruleg lygi ljósmynduð og varð heimsfrægur sannleikur. Ungur og metnaðargjarn ljósmyndari, sem hét upphaflega Endre Friedmann og var frá Ungverjalandi, hafði skipt um nafn, kallaðist Robert Capa og gerðist Bandaríkjamaður. Hann var róttækur í skoðunum og studdi lýðveldissinna í borgarastríðinu á Spáni, en þangað fór hann til að taka ljósmyndir. Ein kunnasta ljósmynd hans er „Banastundin“. Hún er af liðsmanni lýðveldishersins að falla eftir að hafa fengið kúlu í höfuðið. Kvaðst Capa hafa tekið myndina á vígstöðvunum í Cerro Muriano nálægt Córdoba 5. september 1936. Seinna var því bætt við, að maðurinn á myndinni hefði heitið Federico Borrell García.

Nýlegar rannsóknir sýna, að þetta er allt rangt. Myndin var ekki tekin í Cerro Muriano, heldur í Espejo, talsvert langt frá. Maðurinn á myndinni var ekki Borrell samkvæmt álitsgerð sérfræðings í réttarlæknisfræði. Lýsing og skuggar sýna, að myndin var tekin klukkan níu um morgun, ekki síðdegis, og þennan morgun geisuðu engir bardagar á svæðinu. Sannleikurinn var sá, að Capa fékk nokkra lýðveldishermenn til að leika hvern af öðrum, að þeir væru að falla fyrir byssukúlu, og þessi mynd heppnaðist best. Hefur hún oft verið talin ein áhrifamesta fréttaljósmynd 20. aldar. Hið ósvífna tilsvar Sveins í Firði átti svo sannarlega við um mynd Capa: „Lygi verður ekki að sannleika, þótt hún sé ljósmynduð!“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. febrúar 2016.)


Bloggfærslur 3. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband