Búdapest, Reykjavík og Akureyri, 1956

bu_769_dapest.jpgÍ tölvubréfi andmælir Jóhann Páll Árnason heimspekingur mér svofelldum orðum: „Svo segir þú að ekki eitt einasta dæmi sé um það að Sósíalistaflokkurinn hafi gagnrýnt orð eða gerðir Sovétríkjanna. Þetta er auðvitað skrifað gegn betri vitund. Innrásin í Ungverjaland 1956 var fordæmd í leiðara Þjóðviljans, sem þá var flokksmálgagn Sósíalistaflokksins. Þess utan fordæmdi Alþýðubandalagið innrásina, og sem hluti af Alþýðubandalaginu verður Sósíalistaflokkurinn að teljast aðili að þeirri fordæmingu.“

Þjóðviljinn skrifaði í leiðara 6. nóvember 1956, að Rauði herinn hefði „öll ráð í Ungverjalandi í sínar hendur“. Síðan sagði blaðið: „Þetta eru aðfarir sem hver sósíalisti hlýtur að líta mjög alvarlegum augum, með þeim eru þverbrotnar sósíalistískar meginreglur um réttindi þjóða. Hver þjóð heims á að hafa rétt til að búa í landi sínu ein og frjáls án erlendrar íhlutunar.“ Blaðið bætti því við, að innrásin í Ungverjaland væri ekki síst vestrænum ríkjum að kenna. „Landvinningamenn og stríðssinnar auðvaldsríkjanna bera sína þungu ábyrgð á örlögum Ungverjalands, og ekkert er viðurstyggilegra en að sjá talsmenn þeirra fella krókódílatár yfir Ungverjum.“

brynjo_769_lfur_1956.jpgÞjóðviljinn skrifaði næstu vikur fátt um Ungverjaland, en þeim mun fleira um mótmæli fyrir utan sendiráð Ráðstjórnarríkjanna í Reykjavík 7. nóvember 1956, en þá gengu forystumenn Sósíalistaflokksins þangað til veislu, Einar Olgeirsson, Lúðvík Jósepsson og Brynjólfur Bjarnason. Valdi blaðið mótmælendum hin hraklegustu orð.

Sósíalistaflokkurinn sjálfur ályktaði ekkert um innrásina í Ungverjalandi. Á flokksstjórnarfundi 25.–30. nóvember 1956 samþykkti flokkurinn eftir harðar deilur að leyfa einstökum félagsmönnum að mótmæla innrásinni, þótt flokkurinn gerði það ekki sjálfur. Ég veit ekki til þess, að flokksmenn hafi notfært sér þetta „leyfi“. Í ályktun ungra sósíalista við nám austan tjalds sagði hins vegar: „Það er skoðun okkar, að íhlutun sovéthersins hafi verið ill nauðsyn til þess að hindra stofnun fasistaríkis í Ungverjalandi, sem hefði margfaldað hættuna á nýrri heimsstyrjöld.“ Nokkrir menntaskólanemar á Akureyri tóku sömu afstöðu.

Ég stend því við fullyrðingu mína: Þess eru engin dæmi allt til 1968, að Sósíalistaflokkurinn hafi gagnrýnt orð eða gerðir ráðstjórnarinnar rússnesku.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. mars 2016. Efri myndin er frá Búdapest, hin neðri frá mótmælum fyrir framan sendiráð Ráðstjórnarríkjanna í Reykjavík 7. nóvember 1956. Lögreglan verndar Brynjólf Bjarnason og konu hans fyrir mótmælendum, eins og hún hafði orðið að vernda ýmsa andstæðinga kommúnista gegn þeim fyrr á árum.)


Ótrúleg fávísi Höskulds Kára Schrams

Frétt birtist um málstofu á ráðstefnu í Háskólanum á Akureyri, sem ég tók þátt í. Höskuldur Kári Schram, fréttamaður á Stöð tvö, skrifaði á Facebook um hana:

Nú hef ég bara fréttina til að styðjast við en ekki rannsóknina sjálfa. En stundum hafa Íslendingar verið aðeins of duglegir í að leita að sökudólgum í útlöndum. Þá vill stundum gleymast að við komum okkur sjálf í þessa stöðu. Bretar voru fyrir hrun búnir að lýsa yfir áhyggjum af stöðu bankanna. Þáverandi Seðlabankastjóri reyndi að gera lítið úr þeim áhyggjum á fundum erlendis. Sérfræðingi Danske bank sem lýsti yfir áhyggjum var bent á að fara í endurmenntun. Landsbankinn fékk grænt ljós á stofnun icesave reikninga í Hollandi bara nokkrum mánuðum fyrir hrun. Þá var það ekkert leyndarmál að bankinn var með þessum reikningum að bregðast við lausafjárskorti í erlendum gjaldeyri. Vaxtaálag á íslensku bankana byrjaði að hækka amk tveimur árum fyrir hrun. Það sáu allir í hvað stefndi en engin brást við. Mervin King bauðst til að hjálpa en því bréfi var bara alls ekki svarað. Stjórnvöld lýstu því yfir að þetta væri allt blessað og gott og ekkert vandamál og fóru í sérstaka PR herferð. Seðlabankinn lýsti því yfir í erlendum fjölmiðlum að það væri ekkert mál að koma bönkunum til bjargar. Svo hrundi allt með látum og það fyrsta sem við gerðum var að skilja útlendingana eftir á köldum klaka.

Ég svaraði honum í  nokkrum liðum:

  • „Þáverandi Seðlabankastjóri reyndi að gera lítið úr þeim áhyggjum á fundum erlendis.“ Hvað átti hann að gera annað? Átti hann að fella bankana með ógætilegum orðum? En hefurðu ekki lesið skýrslu RNA, þar sem fram koma ótal viðvaranir hans í ræðum og á einkafundum með bankamönnum og ráðherrum, ekki aðeins 6. nóvember 2007 og 7. febrúar 2008, heldur miklu oftar?
  • „Landsbankinn fékk grænt ljós á stofnun icesave reikninga í Hollandi bara nokkrum mánuðum fyrir hrun. Þá var það ekkert leyndarmál að bankinn var með þessum reikningum að bregðast við lausafjárskorti í erlendum gjaldeyri.“ Fékk grænt ljós? Hann hafði blátt áfram heimild til að gera þetta samkvæmt reglum um Evrópska efnahagssvæðið. Auðvitað var það ekkert leyndarmál, að bankinn var að bregðast við lausafjárskorti. En almennt hefur verið talið heppilegra, að bankar fjármagni sig með innlánum en lántökum.
  • „Mervin King bauðst til að hjálpa en því bréfi var bara alls ekki svarað.“ Hann heitir Mervyn King. Bréfið, sem ekki var svarað, var frá Seðlabankanum til Kings. Og til hvers bauðst King? Að hjálpa til við að minnka bankakerfið. Hvað merkti það? Að aðstoða við brunaútsölu á eignum íslensku bankanna til breskra banka. Það gat á þessum tíma ekki merkt neitt annað.
  • „Svo hrundi allt með látum og það fyrsta sem við gerðum var að skilja útlendingana eftir á köldum klaka.“ Skilja útlendingana eftir á köldum klaka? Hvers konar rugl er þetta? Með hryðjuverkalögunum og lokun breskra banka í eigu Íslendinga voru Íslendingar skildir eftir úti á köldum klaka. Útlendingarnir, sem veittu íslenskum bönkum lán, gerðu það á eigin ábyrgð, en ekki íslenskra skattgreiðenda.

Höskuldur Kári minnist ekkert á þátt Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í hinni hóflausu skuldasöfnun bankanna. Eins og fram kom í skýrslu RNA (Rannsóknarnefndar Alþingis), safnaði Baugsklíkan langmestum skuldum árin fyrir hrun. Einkennilegt er, að Höskuldur Kári skuli gleyma Jóni Ásgeiri, því að hæg eru heimatökin: Þeir eru systrasynir.


Bloggfærslur 22. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband