Kvótakerfið er hagkvæmt og réttlátt

Um allan heim eru fiskveiðar reknar með stórkostlegu tapi og víða með ríflegum ríkisstyrkjum. Fiskveiðifloti margra ríkja er miklu stærri en aflinn, sem hann er fær um að landa, og er því sums staðar stunduð rányrkja, veiðar umfram endurnýjunarmátt fiskistofna. Á þessu eru nokkrar undantekningar, aðallega Nýja Sjáland og Ísland, en í báðum löndunum hefur myndast kerfi einstaklingsbundinna, ótímabundinna og framseljanlegra aflakvóta. Hér eru fiskveiðar svo hagkvæmar, að lýðskrumarar vilja gera fiskveiðiarðinn upptækan í nafni þjóðarinnar. Með því myndi aðstaða íslenskra útgerðarfélaga til að keppa við ríkisstyrkt útgerðarfélög erlendis snarversna. Sjávarútvegurinn fleytti okkur yfir erfiðleika áranna eftir bankahrun, og hagsæld okkar er í húfi, haldi hann ekki áfram að vera arðbær. Hér ætla ég að gefnu tilefni að rifja upp helstu rök fyrir kvótakerfinu.

Ofveiðivandinn leystur

Kanadíski hagfræðingurinn H. Scott Gordon (og raunar danskur hagfræðingur löngu á undan honum) útskýrði ofveiðivandann árið 1954. Líkan Gordons sést á línuritinu. Bátar sækja á fiskimið. Afli þeirra og um leið aflatekjur aukast fyrst með hverjum nýjum báti, uns komið er að hámarksafla, sem er í þessu dæmi sett við tíu báta. Eftir það dregur úr aflanum og aflatekjunum við fjölgun báta, og þegar bátarnir eru orðnir sextán (þar sem línurnar skerast), eru heildaraflatekjur orðnar jafnar heildarsóknarkostnaði. Þá eru fiskveiðarnar reknar án gróða, gert út á núlli. Ef sóknin eykst enn frekar, þá er stunduð rányrkja, svo að fiskistofninn getur jafnvel horfið. Nú benti Gordon á, að við ótakmarkaða sókn fjölgaði bátum, uns allur arður af auðlindinni hafði verið étinn upp í kostnaði af sókninni. Þetta var við sextán báta markið. Af línuritinu sést vel, að sextán bátar eru að landa miklu minni afla en miklu færri bátar gætu landað. Um feikilega sóun er að ræða. Verkefnið hlýtur því að vera að fækka bátunum niður í það, sem hagkvæmast er.

li_769_nurit_hhg.jpg

Þegar ég dreg þetta línurit upp fyrir nemendur mína, spyr ég iðulega, hversu mikil sókn, eins og hún mælist í fjölda báta, væri hagkvæm. Oft, en ekki alltaf, svarar þá einhver úr hópnum, að það væri við tíu báta, þegar afli og með þeim aflatekjur eru í hámarki. En þetta er rangt svar. Samkvæmt línuritinu er hagkvæmasta sóknin við átta báta, þegar bilið á milli aflatekna og sóknarkostnaðar er mest. Þar er gróðinn, tekjuafgangurinn, mestur. Menn stunda ekki fiskveiðar til að hámarka afla, heldur til að hámarka gróða. Kvótakerfið íslenska var leið til að fækka bátunum sextán í átta. Eigendur þeirra sextán báta, sem voru að veiðum, þegar aðgangurinn að takmarkaðri auðlind var takmarkaður, eins og nauðsynlegt var, fengu framseljanlega og ótímabundna aflakvóta, sem nægðu til að gera út átta báta með gróða, en sextán báta á núlli. Engan höfuðsnilling þarf til að sjá, hvað hlaut að gerast. Eigendur þeirra átta báta, sem aflögufærastir voru eða treystu sér best til að halda áfram veiðum, keyptu kvóta af hinum handhöfunum, sem lögðu bátum sínum og héldu í land, svo að smám saman færðist sóknin í frjálsum viðskiptum niður í hið hagkvæma hámark, átta báta, og fiskveiðiarðurinn, sem áður hafði étist upp í allt of háum sóknarkostnaði, rann nú til útgerðarfélaganna.

Uppboð óhagkvæmt og óréttlátt

Hér er flókin saga einfölduð. Á áttunda og níunda áratug tuttugustu aldar voru íslensk stjórnvöld og útgerðarfélög ekki að hrinda í framkvæmd neinum fræðikenningum, heldur að þreifa sig áfram með aðferð happa og glappa, allt frá því að kvóti var fyrst settur á síld 1975. Margvísleg mistök voru gerð, og erfitt var að ná samkomulagi innan sjávarútvegsins og á Alþingi. En það tókst, og altækt kvótakerfi hefur staðið frá 1990 og reynst vel. Þeir, sem þurftu að hætta veiðum, af því að fækka þurfti bátum, voru ekki hraktir út úr greininni, heldur keyptir út úr henni. Þeir tveir íslensku hagfræðingar, sem sérhæft hafa sig í fiskihagfræði, prófessorarnir Rögnvaldur Hannesson og Ragnar Árnason, voru með í ráðum síðasta kastið og lögðu gott til. En þegar á leið, tóku til máls aðrir íslenskir hagfræðingar, sem sögðu sem svo: Vissulega var verkefnið að fækka bátunum úr sextan í átta, eins og sést á línuritinu. En það mátti gera með opinberu uppboði á leigukvótum, þar sem verðið væri svo hátt, að aðeins átta best stæðu útgerðarfélögin gætu leigt sér kvóta, en hin átta yrðu að hætta veiðum vegna vangetu sinnar til að leigja kvóta. Þannig hefði sóknin orðið hagkvæm, farið niður í átta báta, en fiskveiðiarðurinn runnið til þjóðarinnar, eins og vera ber samkvæmt lögum.

Þessi málflutningur var hagfræðilega rangur: Uppboðsleiðin hefði ekki verið Pareto-hagkvæm, sem kallað er, en Vilfredo Pareto var ítalskur hagfræðingur, sem rannsakaði stjórnmálaákvarðanir. Breytingar á kerfi eru taldar Pareto-hagkvæmar, ef enginn tapar á þeim og einhverjir og jafnvel allir græða. Auðvelt er að sjá, að kvótaleiðin — endurgjaldslaus úthlutun aflakvóta eftir aflareynslu — fullnægði þessu skilyrði. Þeir átta bátseigendur, sem héldu áfram veiðum, græddu. Það gerðu líka þeir átta bátseigendur, sem seldu þeim kvóta sinn og héldu í land. Ríkið græddi, því að skatttekjur þess hækkuðu, og almenningur græddi á arðsömum sjávarútvegi og vexti atvinnulífsins. En uppboðsleiðin fullnægir ekki þessu skilyrði. Ríkið er í raun eini aðilinn, sem þá græðir. Afkoma þeirra átta, sem leigja kvóta á hinu opinbera uppboði, er óbreytt: Þeir greiða til ríkisins svipaðar upphæðir og þeir sóuðu áður í of mikinn sóknarkostnað. Afkoma hinna átta, sem ekki geta leigt kvóta og verða að hætta veiðum, snarversnar hins vegar. Á einum degi verða fjárfestingar þeirra og fyrirætlanir um líf og starf að engu. Þeir eru flæmdir út af fiskimiðunum. Sú er skýringin á því, að víðast, þar sem kvótar hafa verið settir á veiðar, hefur það verið gert með því að úthluta í upphafi framseljanlegum aflakvótum endurgjaldslaust miðað við aflareynslu undanfarinna ára, en ekki með því að leigja þá eða selja á opinberu uppboði. Kvótaleiðin raskar síst högum þeirra, sem stunda þegar fiskveiðar, svo að þeir sætta sig við breytinguna. Ekki þarf að hafa áhyggjur af hinum, sem ekki stunda fiskveiðar, því að hagir þeirra raskast vitanlega ekki við slíka breytingu.

Eðli vandans

Málflutningur þeirra, sem vildu uppboðsleið, var hagfræðilega rangur í öðrum skilningi. Þeir sáu ekki eðli vandans. Hann er, að við ótakmarkaðan aðgang lögðu útgerðarmenn kostnað hver á annan án þess að ætla sér það. Þeir offjárfestu í bátum og gerðu þá út á núlli, svo að fiskveiðiarðurinn ást upp í óhóflegum sóknarkostnaði. Kostnaðurinn, sem eigendur bátanna lögðu hver á annan með því að flykkjast saman á miðin í því skyni að veiða sem mest hver á undan öðrum, hefur í hagfræði verið kallaður „utanaðkomandi kostnaður“ (social cost, externality). Ráðið við honum er að setja skynsamlegar leikreglur, sem koma í veg fyrir slíkan kostnað. Það var gert með kvótakerfinu íslenska. Þess vegna fengu eigendur bátanna einir úthlutað kvótum. Vandinn var þeirra: Hann var fólginn í offjárfestingu, of mörgum bátum. Aðrir aðilar, svo sem fiskvinnslustöðvar og áhafnir fiskiskipa, störfuðu á venjulegum mörkuðum. En með uppboðsleiðinni er þessi vandi ekki leystur fyrir útgerðarmennina. Þeir eru ýmist eins settir eða verr settir en áður. Þeir, sem geta leigt kvóta af ríkinu, eru eins settir: Það fé, sem áður fór í of mikinn sóknarkostnað þeirra, rennur nú í greiðslur til ríkisins. Þeir, sem ekki geta leigt kvóta af ríkinu, eru flæmdir út af miðunum. En til hvers að leysa vandann, ef hann er ekki leystur fyrir þá, sem urðu fyrir honum?

Íslandssagan geymir merkilega hliðstæðu við kvótakerfið. Landnámsmenn slógu eign sinni á jarðir í dölum. Þeir nýttu hins vegar í sameiningu sumarbeit í almenningum upp til fjalla. Þá skapaðist freisting fyrir hvern bónda til að reka of marga sauði á fjall, því að hann hirti óskiptan ávinninginn af feitari sauðum að hausti, en deildi tapinu af lakari grasnytjum almennt með öllum hinum bændunum. En ef ekki var að gert, blasti við ofbeit. Til þess að koma í veg fyrir það voru settar reglur um svokallaða ítölu: Hver bóndi mátti aðeins „telja í“ ákveðinn fjölda sauða á fjall. Þetta var dæmigert kvótakerfi. Hverri jörð fylgdi í raun beitarkvóti í almenningnum, og gekk slíkur kvóti stundum kaupum og sölum. Þráinn Eggertsson prófessor hefur leitt sterk rök að því, að þetta kerfi hafi verið tiltölulega hagkvæmt, þótt vitaskuld væri atvinnulíf þá frumstætt og landkostir ættu eftir að versna vegna kólnunar. Íslandssagan geymir líka eitt víti til varnaðar. Þegar tímamótaverk Gísla Gunnarssonar prófessors um einokunarverslunina dönsku 1602–1787 er lesið vandlega, sést, að einn megintilgangur þeirrar stofnunar var að innheimta af sjávarútvegi það, sem við myndum kalla „auðlindaskatt“. Þetta var gert með konunglegum verðskrám, þar sem fiskur var verðlagður langt undir heimsmarkaðsverði, en landbúnaðarafurðir talsvert yfir því. Þetta var með öðrum orðum millifærsla úr sjávarútvegi í landbúnað. Þetta var þó ekki hrein millifærsla, því að arður varð fyrir vikið miklu minni en ella í sjávarútvegi. Kakan stórminnkaði við endurskiptinguna, eins og oftast vill verða. Þess vegna sultu Íslendingar heilu og hálfu hungri öldum saman, þótt gjöful fiskimið væru skammt undan landi.

Réttlæti og þjóðareign

Kvótakerfið er hagkvæmt. En er það réttlátt? Þetta kerfi hlyti vitaskuld aldrei náð fyrir augum þýska heimspekingsins Karls Marx, en ein fyrsta ráðstöfunin eftir byltinguna samkvæmt Kommúnistaávarpinu átti að vera að gera allan auðlindaarð upptækan. Vesturlandamenn hafa þó frekar litið til enska heimspekingsins Johns Lockes. Hann taldi myndun séreignar í almenningum réttlætanlega, yrðu aðrir ekki verr settir við það. Þetta á við um kvótakerfið. Sumir svara því að vísu til, að aðrir hafi orðið verr settir við það, því að það feli í sér lokun fiskimiðanna, takmörkun á aðgangi. Nauðsynlegt er þá að skoða aftur línuritið og þá við sextán báta sókn. Eini rétturinn, sem er í raun tekinn af öðrum við myndun kvótakerfisins, takmörkun aðgangs, er rétturinn til að gera út á núlli, rétturinn til að senda sextánda eða sautjánda bátinn á miðin án vonar um nokkurn afrakstur. Sá réttur er einskis virði. Kvótakerfið er því réttlátt eftir hefðbundnum vestrænum réttlætissjónarmiðum. Enginn tapar, og allir græða eitthvað, að vísu misjafnlega mikið í byrjun.

Enn segja sumir, að samkvæmt lögum séu fiskistofnar á Íslandsmiðum þjóðareign. Aftur þarf að hugsa málið út í hörgul. Þetta hlýtur að merkja, að þessi auðlind er ekki ríkiseign, því að ella hefði það vitanlega verið sagt beint í lögum. Eina skynsamlega merkingin, sem má því leggja í þetta lagaákvæði, er, að fara verði með þessa auðlind með hag þjóðarinnar til langs tíma í huga. En hagur þjóðarinnar til langs tíma af fiskistofnunum er, að þeir skili sem mestum arði. Þótt þessi arður myndist fyrst í útgerðarfélögunum, dreifist hann síðan um atvinnulífið með neyslu eða fjárfestingu, auk þess sem útgerðarfélög og eigendur þeirra greiða auðvitað skatta og því hærri sem þeim gengur betur. Reyni ríkið hins vegar að gera þennan fiskveiðiarð upptækan með ofursköttum eða „fyrningarleið“, þá er hætt við, að við snúum aftur til fyrra ástands, þar sem útgerðarmenn hafa sem leiguliðar ríkisins engu meiri áhuga á hámarksarði til langs tíma af fiskistofnunum en þeir skriffinnar, sem settir yrðu yfir þá. Jafnframt myndi sá arður, sem þó tækist að gera upptækan, minnka enn í meðförum ríkisins, þegar aðsópsmiklir hagsmunahópar kepptu með ærnum tilkostnaði hver um sinn hlut af honum.

Samkeppni við erlenda útgerð

Fjörutíu ár eru liðin, frá því að kvótum var fyrst úthlutað. Þorri útgerðarmanna hefur greitt fullt verð fyrir þá kvóta, sem þeir nýta nú. Álögur á sjávarútveg umfram það, sem aðrir atvinnuvegir búa við og útgerðarfélög í öðrum löndum, væru því í senn óhagkvæmar og óréttlátar. Hið sama er að segja um „fyrningarleiðina“. Þegar lýðskrumarar vilja gera fiskveiðiarðinn upptækan, verður að minna á, að þessi arður ræðst af tilhöguninni á nýtingu fiskistofnanna. Hann skapast ekki af auðlindinni einni, eins og oft er haldið fram. Væri svo, þá hefði hann auðvitað verið mjög mikill, á meðan fiskistofnarnir voru miklu stærri en nú, á sjötta og sjöunda áratug liðinnar aldar. Fiskveiðiarðurinn skapast vegna kvótakerfisins. Frekar ætti því að styrkja þetta kerfi en veikja: Til dæmis ætti að ákveða leyfilegan hámarksafla með hámarksgróða í huga frekar en hámarksafla, og eðlilegt væri að nota veiðigjald til að standa undir kostnaði af rannsóknum og eftirliti í sjávarútvegi og veita útgerðarfélögum þar um leið aukið forræði. Ekki ætti heldur að gata kerfið með strandveiðum eða byggðapottum. Fiskistofnar á Íslandsmiðum eru vissulega almenningur, sameign þjóðarinnar. En fyrir þjóðina er hagkvæmast og réttlátast að fela aðilum, sem hafa áhuga á, reynslu af og margsannaða getu til útgerðar, að stunda hana og veita þeim framseljanleg og ótímabundin nýtingarréttindi — aflakvóta — í þessum almenningi. Það er jafnframt nauðsynlegt vegna samkeppninnar á erlendum mörkuðum. Íslendingar fundu á sínum tíma Ameríku, en týndu henni. Nú hafa þeir fundið hagkvæmasta kerfi, sem þekkist í fiskveiðum heims. Það væri sannkölluð þjóðarógæfa, ef þeir týndu því.

(Grein í Morgunblaðinu 21. maí 2015.)


Rannsóknaskýrsla mín fyrir árið 2014

Við háskólakennarar þurfum að gera rannsóknaskýrslu árlega. Hér er sú, sem ég skilaði fyrir árið 2014, og eru verkin flokkuð eftir eðli þeirra (og kerfi Háskólans). Eins og sést, var ég á ferð og flugi þetta ár, enda hef ég ákveðið að taka meiri þátt í fræðilegum umræðum á alþjóðavettvangi en ég hef löngum gert. Þá skal þess getið, að allt árið vann ég auk þess að skýrslu þeirri á ensku, sem ég er ásamt öðrum að gera fyrir fjármálaráðuneytið, og sjást hennar merki í ýmsum erindum og greinum á árinu.

 

Bókarkaflar:

The Rise and Fall and Rise of Iceland. Í Gerald Frost (ritstj.). Understanding the Crash, pp. 64–81. Budapest: Danube Institute.

Fátækt á Íslandi 1991–2004. Í Ragnar Árnason og Birgir Þór Runólfsson (ritstj.). Tekjudreifing og skattar, bls. 67–91. Reykjavík: Almenna bókafélagið.

 

Tímaritsgreinar:

The collapse of the Icelandic Banks. Cambridge Journal of Economics 38, No. 4, July 2014, pp. 987–991. doi:10.1093/cje/bet078 

Villt sagnfræði eða spillt? Þjóðmál 9, 3 (haust 2014), bls. 28–44.

Viðhorf Alistairs Darlings til Íslendinga. Þjóðmál 9, 4 (vetur 2014), bls. 14–25.

 

Greinar í ráðstefnuritum:

Alistair Darling and the Icelandic Bank Collapse. Í Silja Bára Ómarsdóttir (ritstj.). Þjóðarspegillinn 2014. Reykjavík: Félagsvísindastofnun. 

Viðskiptasiðferði og eignasala bankanna. Í Auður Hermannsdóttir, Ester Gústavsdóttir og Kári Kristinsson (ritstj.). Vorráðstefna Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands. Reykjavík: Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands.

 

Erindi á alþjóðlegum ráðstefnum:

hhg_1_joensuu_16_08_2014_int.jpgExplanations of Icelandic Collapse: Neoliberalism or Government Intervention. Association of Private Enterprise Education. Las Vegas 14 April 2014.

The Subjection of Men? Emerging Ideas in Masculinity Research. Masculinity Studies in the North. Nordic Association for Research on Men and Masculinities. 6 June 2014.

Iceland Left Out in the Cold? Workshop on International Political Theory. NOPSA, Nordic Political Science Association, Gothenburg 12 August 2014.

The Icesave Dispute. Workshop on International Courts and Domestic Politics. NOPSA, Nordic Political Science Association, Gothenburg 14 August 2014. 

The Icelandic Welfare State: Nordic or Anglo-Saxon? Workshop on The Welfare State in Transition. NOPSA, Nordic Political Science Association, Gothenburg 14 August 2014.

A Surprise Encounter. The Jewess who became an Icelander and the Nazi who became a communist. 28th Congress of Nordic Historians, Joensuu 16 August 2014.

Spontaneous Evolution: Three Icelandic examples. Economic Freedom Institute Conference, Manhattanville College, NY, 10–11 October 2014.

 

Fyrirlestrar á málþingum og fundum:

hhg_iea_27_11_2014.jpgThe Icelandic Bank Collapse. Lessons for Europe. European Students for Liberty. Berlin 15 March 2014.

The Internet: An Opportunity for Liberty, Not a Threat. Estudantes pela liberdade (Students for Liberty). Porto Alegre 25 May 2014.

The Internet: An Opportunity for Liberty, Not a Threat. Estudantes pela liberdade (Students for Liberty). Curitiba 31 May 2014.

On Thomas Piketty’s Capital. European Students for Liberty Conference. Bergen 18 October 2014.

Europe of the Victims. Erindi á ráðstefnu Platform of European Memory and Conscience, Brussels 4. nóvember 2014.

A Latter-Day Jacobin with Data: Reflections on Piketty’s Capital. European Students for Liberty. Reykjavik 15 November 2014.

Boðskapur Tómasar Pikettys í Fjármagni fyrir 21. öldina. Erindi á málstofu RNH um tekjudreifingu og skatta 24. nóvember 2014 (ásamt Corbett Grainger og Ragnari Árnasyni).

Why Was Iceland Left Out in the Cold? And Kept There? Institute of Economic Affairs, London, 27 November 2014.

 

Ritstjóri bókar

Matt Ridley. Heimur batnandi fer (The Rational Optimist). Reykjavík: Almenna bókafélagið, 2014. 360 bls.

 

Ritdómar

A Latter-Day Jacobin with a Lot of Data. Ritd. um Capital in the 21st Century eftir Thomas Piketty. The Journal of Ayn Rand Studies. Vol. 14, 2, December 2014, pp. 281–290.

Hann barðist góðu baráttunni. Ritd. um Í köldu stríði eftir Styrmi Gunnarsson. Morgunblaðið 16. desember 2014.

 

Ræður á fundum

Smallness: Problem or Opportunity? Reflections of an Icelander. Framsókn, Torshavn 22 March 2014.

Erindi um Sjálfstætt fólk eftir Halldór K. Laxness 19. nóvember 2014 á fundi Stúdentakjallarans, Torfhildar, félags bókmenntafræðinema, Menningarfélagsins, nemendafélags framhaldsnema í íslensku og Þjóðleikhússins. Ásamt Dagnýju Kristjánsdóttur prófessor, Illuga Jökulssyni rithöfundi, Símon Birgissyni dramatúrg og Þorleifi Erni Arnarsyni leikstjóra.

 

Stuttar greinar í bókum, blöðum og tímaritum

Eftirmáli. Matt Ridley, Heimur batnandi fer, The Rational Optimist. Reykjavík: Almenna bókafélagið 2014. Bls. 359–360.

Líkan Meadows hrundi, ekki heimurinn. Vísbending 32, 2 (14. janúar 2014), bls. 2–3.

Nokkrar spurningar til dr. Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur. Morgunblaðið 31. janúar 2014. 

Eru háskólakennarar í pólitískri krossferð? Morgunblaðið 11. apríl 2014.

Töpuðu Íslendingar hundrað milljörðum á skyndisölu þriggja Glitniseigna? Morgunblaðið 14. mars 2014. 

Er ójöfn tekjudreifing „stærsta mál samtímans“? Morgunblaðið 2. maí 2014.

Kúgun karla? Morgunblaðið 6. júní 2014.

Þegar ljósin slokknuðu. Morgunblaðið 28. júlí 2014.

Sögulegt gildi griðasáttmálans. Morgunblaðið 23. ágúst 2014.

Aldarfjórðungur frá falli  kommúnismans. Morgunblaðið 8. nóvember 2014.

 

Upplýsingamiðlun og álitsgjöf

Viðtal um skyndisölu Glitniseigna í Noregi og Finnlandi við Kára Finnsson í netsjónvarpi Viðskiptablaðsins 14. mars 2014.

Viðtal um skyndisölu þriggja Glitniseigna við Ríkisútvarpið 15. mars 2014.

Viðtal um jafnréttisbaráttuna við Jón Júlíus Karlsson í kvöldfréttum Stöðvar tvö 6. júní 2014.

Viðtal um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins við Hjört Hjartarson í kvöldfréttum Stöðvar tvö 8. júlí 2014.

Viðtal um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins í Morgunútvarpi Rásar tvö 9. júlí 2014.

Forganga um gjöf fágætra bóka og frumverka um kommúnismann til Þjóðarbókhlöðunnar 23. ágúst 2014.

Viðtal um innflytjendamál við Hjört Hjartarson í fréttum Stöðvar tvö 16. september 2014.

Viðtal um innflytjendamál við Magnús Geir Eyjólfsson í sjónvarpsþættinum Eyjunni á Stöð tvö 21. september 2014.

 

Fróðleiksmolar í Morgunblaðinu

Kamban, Kress og Lowrie. Morgunblaðið 4. janúar 2014.

„Þið eruð ekki þjóðin.“ Morgunblaðið 11. janúar 2014.

Hverjum Íslandsklukkan glymur. Morgunblaðið 18. janúar 2014.

Ofeldi launað með ofbeldi. Morgunblaðið 25. janúar 2014.

Viðbótarheimild um huldumann. Morgunblaðið 1. febrúar 2014.

Ættjarðarást. Morgunblaðið 8. febrúar 2014.

Um borð í Gullfossi. Morgunblaðið 15. febrúar 2014.

Darling og íslensku risaþoturnar. Morgunblaðið 22. febrúar 2014.

Darling og styrktarmenn Íhaldsflokksins. Morgunblaðið 1. mars 2014.

Jarðálfarnir í Zürich. Morgunblaðið 8. mars 2014.

Bara ef lúsin erlend er. Morgunblaðið 15. mars 2014.

Ólíkt hafast þeir að. Morgunblaðið 22. mars 2014.

Breskir dómarar skeikulir. Morgunblaðið 29. mars 2014.

Tómas og Steinn. Morgunblaðið 5. apríl 2014.

Steinn og stjórnmálin. Morgunblaðið 12. apríl 2014.

„Því voruð þið að kjafta frá?“ Morgunblaðið 19. apríl 2014.

Athugasemd frá dóttur Jóns Óskars. Morgunblaðið 26. apríl 2014.

Jón Óskar og sósíalisminn. Morgunblaðið 3. maí 2014.

Óhæft til birtingar. Morgunblaðið 10. maí 2014.

Áfengiskaup leka. Morgunblaðið 17. maí 2014.

Kúgun karla? Morgunblaðið 24. maí 2014.

Ríkur maður alltaf ljótur? Morgunblaðið 31. maí 2014.

Merkingarþrungnar minningar. Morgunblaðið 7. júní 2014.

Gleymd þjóð. Morgunblaðið 14. júní 2014.

Áttum við að stofna lýðveldi? Morgunblaðið 21. júní 2014.

Raunveruleg tímamót. Morgunblaðið 28. júní 2014.

Bandaríski draumurinn. Morgunblaðið 5. júlí 2014.

Stúlkan frá Ipanema. Morgunblaðið 12. júlí 2014.

Friðarverðlaun Nóbels. Morgunblaðið 19. júlí 2014.

Habsborgarar. Morgunblaðið 26. júlí 2014.

Nordal í stríðsbyrjun. Morgunblaðið 2. ágúst 2014.

Fyrirlestrar í Gautaborg. Morgunblaðið 9. ágúst 2014.

Krossgötur: Mörk og mót. Morgunblaðið 16. ágúst 2014.

Blómið í hóffarinu. Morgunblaðið 23. ágúst 2014.

Lagði Hong Kong undir sig Kína? Morgunblaðið 30. ágúst 2014.

Skjól eða gildra? Morgunblaðið 6. september 2014.

Stefán Ólafsson í París. Morgunblaðið 13. september 2014.

Siðferði og siðleysi. Morgunblaðið 20. september 2014.

Kúba norðursins. Morgunblaðið 27. september 2014.

Er Ísland í Evrópu? Hvaða Evrópu? Morgunblaðið 4. október 2014.

Netið gleymir engu. Morgunblaðið 11. október 2014.

Vetrarstríðið og flokkaskiptingin. Morgunblaðið 18. október 2014.

Vetrarstríðið og kinnhestur Hermanns. Morgunblaðið 25. október 2014.

Einar dansaði við Herttu. Morgunblaðið 1. nóvember 2014.

Brot úr Berlínarmúrnum. Morgunblaðið 8. nóvember 2014.

Steinólfur í Fagradal. Morgunblaðið 15. nóvember 2014.

Frænka Jörundar hundadagakonungs. Morgunblaðið 22. nóvember 2014.

Veruleikinn að baki myndunum. Morgunblaðið 29. nóvember 2014.

Russell á Íslandi. Morgunblaðið 6. desember 2014.

Ferð til Nýju Jórvíkur. Morgunblaðið 13. desember 2014.

Marx og Engels um Íslendinga. Morgunblaðið 20. desember 2014.

Nokkuð að iðja. Morgunblaðið 27. desember 2014.


Nú vill enginn eiga þig

Þegar ekkert tilboð barst í Íslandsverslun 1758, kastaði Eggert Ólafsson fram vísu:

Fyrr þín gæði fýsileg

fjöldi sótti þjóða,

nú vill enginn eiga þig,

ættarjörðin góða.

Skáldið hefur því miður nokkuð til síns máls. Björn Þorsteinsson prófessor gróf upp, að Danakonungar reyndu þrisvar að veðsetja eða selja landið Hinrik VIII. Bretakonungi, en hann hafði ekki áhuga, þótt bresk fiskiskip flykktust þá á fengsæl Íslandsmið. Danakonungur reyndi 1645 að veðsetja Ísland fyrir láni frá Hamborgarkaupmönnum, eins og Laxness fléttar eftirminnilega inn í Íslandsklukkuna. Þegar Svíar fengu Noreg í sárabætur fyrir Finnland 1814, hirtu þeir ekki um að krefjast Íslands með, þótt fornt norskt skattland væri. Eftir ósigur fyrir Þjóðverjum 1864 í stríði um Slésvík og Holtsetaland veltu Danir því fyrir sér um skeið að bjóða Þjóðverjum Ísland gegn því að halda hluta Slésvíkur.

Þó vildu nokkrir málsmetandi Bretar í upphafi nítjándu aldar, að Ísland yrði hluti Bretaveldis, sérstaklega Sir Joseph Banks, sem komið hafði til Íslands 1772 og var síðan einlægur Íslandsvinur, eins og Anna Agnarsdóttir prófessor hefur rakið. Sir Joseph samdi þrjár skýrslur um Ísland fyrir Bretastjórn, 1801, 1807 og 1813, þar sem hann mælti með því, að Bretar legðu undir sig landið, enda væru Íslendingar langþreyttir á dönskum einokunarkaupmönnum og áfjáðir í „að öðlast þá blessun, sem breskt frelsi veitti“ (partake of the Blessings of British liberty). Bretastjórn fór þó ekki að ráði Sir Josephs, enda vildi hún ekki styggja Dani, auk þess sem breski flotinn réð þá hvort sem er lögum og lofum á Norður-Atlantshafi. Frá Napóleonsstríðunum og fram til 1941 var Ísland á valdsvæði Breta. Eftir það og fram til 2006 var landið á valdsvæði Bandaríkjamanna. En í ljós kom í bankahruninu haustið 2008, að enginn hafði lengur áhuga á Íslandi og örlögum þess. „Nú vill enginn eiga þig, ættarjörðin góða.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. júní 2015.)


Vinir í raun

banksportrait.jpgÍsland er lítið land, sem flestum er sama um, en fæstir því þó fjandsamlegir. Slíku landi ríður miklu frekar á því en hinum stærri að eiga vini í háum stöðum erlendis. Þeir geta ráðið úrslitum á ögurstund, því að okkur munar vegna smæðarinnar verulega um það, sem öðrum er útlátalaust. Það ætti því að vera eitt helsta verkefni íslenskra ráðamanna að rækta vináttu við þá erlendu ráðamenn, sem áhuga hafa á Íslandi og getu til liðveislu.

Gott dæmi er til frá fyrri tíð um, hversu miklu máli vinarþel einstaklinga getur skipt Ísland. Haustið 1807 áttu Bretar í stríði við Napóleon, sem Danakonungur fylgdi að málum, og hertóku þeir þau kaupskip frá Íslandi, sem þeir náðu í. Á einu skipanna var Magnús Stephensen háyfirdómari, og komst hann síðan til Kaupmannahafnar. Magnús sá fram á ófremdarástand, einangrun landsins, skort á nauðsynjum, jafnvel hungursneyð.

Magnús mundi nú eftir breskum heldri manni, sem komið hafði til Íslands 1772 og heimsótt föður hans, en Magnús var þá aðeins tíu ára drenghnokki. Þetta var Sir Joseph Banks, forseti Breska vísindafélagsins og góðvinur margra voldugustu manna Bretaveldis. Magnús skrifaði Sir Joseph, sem kannaðist vel við bréfritarann, enda hafði hann skrifast á við föður hans eftir Íslandsförina. Brást Sir Joseph vel við og fékk Breta til að sleppa kaupskipum frá Íslandi.

Sir Joseph Banks átti líka drjúgan þátt í því, að Bretar ákváðu með konunglegri tilskipun 7. febrúar 1810 að skilgreina Ísland sem hlutlaust, vinveitt land, sem nyti verndar Bretaveldis. Líklega er þessi tilskipun einsdæmi: Ísland var hjálenda Danmerkur, sem Bretar áttu í stríði við. Á ögurstund geta vinir í háum stöðum ráðið úrslitum. Sir Joseph Banks var slíkur vinur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. maí 2015. Sú réttmæta athugasemd var gerð við pistilinn í tölvuskeyti til mín, að ekki mætti gleyma hlut Bjarna Sívertsens í að bæta úr nauð Íslendinga. Hann vann af miklum dugnaði að því að leysa vandann. En ekki má heldur gleyma sambandi Magnúsar og Sir Josephs, sem greiddi mjög fyrir málinu. Myndin er af Sir Joseph.)


Kardínálinn aftur á ferð

154px-vilhelm_sabinalaisen_sinetti.jpgÍslenska þjóðveldið er eins og svissneska samveldið merkilegt fyrir það, að það fól í sér sjálfstjórn frjálsra jafningja. Adam frá Brimum sagði fullur aðdáunar, að hjá Íslendingum væru lögin konungur. Eflaust á þessi stjórnmálahugsun rætur að rekja til sjálfstjórnar germönsku ættbálkanna, sem bjuggu norðan Rómaveldis og Tacítus lýsir stuttlega í bók sinni, Germaníu. En suður í álfu voru aðrar stjórnmálahugmyndir á kreiki. Þær voru um það, að menn væru ójafnir og skyldu skiptast í þegna og drottna. Lögin væru ekki sammæli jafningja, heldur fyrirmæli konungs og ráðgjafa hans. Þessar suðrænu hugmyndir sjást vel af ummælum eins helsta sendimanns Rómarpáfa, Vilhjálms kardínála af Sabína, sem staddur var við hirð Hákonar gamla í Noregi 1247. Þegar hann var beðinn að miðla málum á Íslandi, kvað hann ósannlegt, að „land það þjónaði ekki undir einhvern konung sem öll önnur lönd í veröldinni“.

Vilhjálmur kardínáli kom víðar við en í Noregi til að flytja svipaðan boðskap. Þegar ég var nýlega á ferð í Eistlandi, notaði ég tækifærið til að grúska í gömlum eistneskum sögubókum. Þar rakst ég á frásagnir um ferð Vilhjálms kardínála þangað í erindum páfa. (Hann var þar kallaður Vilhjálmur af Módena, en við þann stað var hann fyrst kenndur.) Var Vilhjálmur staddur í Eistlandi árið 1225-6 og átt þátt í að sætta eistneska þjóðflokka og baltneska baróna af þýskum ættum „með því að hvetja Eista til að bera ok sitt af undirgefni og drottnara þeirra til að gæta þess, að þetta ok yrði ekki of þungt“, eins og segir í gömlum kirkjusögum. Hér getur að líta hina suðrænu hugmynd um, að frjálsir jafningjar mættu ekki stjórna sér sjálfir, heldur skyldu yfir þá settir aðalsmenn og jafnvel konungar, sem stjórnuðu af Guðs náð og eftir skorðuðu stigveldi. Þegnar ættu að vera hlýðnir, en drottnar mildir. Treysta skyldi á valdið frekar en frelsið.

Íslendingar kannast við annað afbrigði af þessari hugmynd, þegar norskur hirðmaður, Loðinn leppur, reyndi að fá Jónsbók samþykkta á þingi 1281. Bændur voru tregir til og settu ýmis skilyrði, en Loðinn leppur brást þá hinn versti við og sagði búkarla gera sig digra. Þeir ættu að játa Jónsbók óbreyttri, en treysta síðan á náð konungs um einstök atriði, sem þeim þættu miður fara. Og þessar hugmyndir eru enn á kreiki. Þeir, sem vilja aðild að Evrópusambandinu, segja, að við Íslendingar verðum að gangast undir meginreglur þess um óheftan aðgang allra aðildarþjóða að auðlindum okkar, en að við getum síðan treyst því, að tekið verði tillit til svæðisbundinna hagsmuna okkar. Við eigum með öðrum orðum ekki að standa á rétti okkar, heldur treysta náðinni — eins og Vilhjálmur af Sabína og Loðinn leppur sögðu forðum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. maí 2015.)


Brandes og Cobban gera lítið úr Íslendingum

george_brandes_cph_3b29701.jpgNokkrir útlendir fræðimenn, sumir jafnvel vinsamlegir Íslendingum, hafa efast um, að þeir fái staðið undir sjálfstæðu ríki. Frægt varð viðhorf danska rithöfundarins Georgs Brandesar. Hann hafði mælt fyrir minni Íslands árið 1900 og sagt, að ekki kæmi að sök, hversu fáir þeir væru. Sauðir væru að vísu fleiri en menn á Íslandi, en svo væri einnig í Danmörku, þótt í öðrum skilningi væri. En þegar Einar Benediktsson krafðist sérstaks fána fyrir Ísland í viðtali við danskt blað 1906, sneri Brandes við blaðinu og skrifaði háðsgrein í Politiken 16. desember um, að Amager ætti að óska eftir sjálfstæði og hafa eigin fána. „Margir eru þeirrar skoðunar, að skærlit gulrót á spínatgrænum fánafleti væri einkar þekkileg.“

Ef til vill er á vitorði færra, að hinn kunni breski sagnfræðingur Alfred Cobban gerði lítið úr íslensku þjóðríki í bók, sem hann birti 1944 um sjálfsákvörðunarrétt þjóða (National Self-Determination, Oxford University Press). Cobban andmælti þar hugmyndinni um þjóðríkið, að hver þjóð ætti að mynda sjálfstætt ríki. Sérstaklega væri hún óraunhæf, þegar um smáþjóð væri að ræða (bls. 74). „Ef við tökum dæmi, er þá raunhæft að trúa því, að orðið verði eða verða ætti við sjálfstæðiskröfum íbúa Wales, Hvíta-Rússlands, Elsass eða Flandurs með viðurkenningu sérstakra ríkja þeirra? Ætti franska Kanada að mynda sérstakt ríki? Myndi Möltubúum vegna betur sem þjóð, ef þeir slitu tengslin við Breta og reyndu að stofna sjálfstætt ríki án nokkurs tillits til fyrirætlana grannríkja við Miðjarðarhaf? Hefur Ísland efni á því að vera án efnahagslegra tengsla við eitthvert stærra og auðugra ríki?“

Nú kunna ýmsir að telja Cobban óspámannlega vaxinn, því að Hvíta-Rússland og Malta eru þegar sjálfstæð ríki og öflugar aðskilnaðarhreyfingar starfa í franska Kanada (Quebec) og á Flandri. En auðvitað er Hvíta-Rússland mjög háð Rússlandi, og Malta hefur að miklu leyti afsalað sér fullveldi með aðild að Evrópusambandinu. En þegar Cobban skrifaði þessi orð, hafði Ísland verið fullvalda ríki í 26 ár. Það þurfti auðvitað eins og öll smáríki stuðning, vináttu og viðskipti við stærri þjóðir, en þetta hlaut ekki eins og Cobban virtist gera ráð fyrir að einskorðast við eitthvert eitt ríki, einn ráðríkan Stóra bróður. Jón Sigurðsson svaraði Cobban vel löngu áður í ritgerðinni „Um skóla á Íslandi“ í Nýjum félagsritum 1842 (bls. 146-7): „Þá hefir menntunin verið mest, þegar mestar hafa verið utanferðir og Íslendingar átt mest viðskipti við önnur lönd; þó ekki við eitt land, heldur mörg.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. maí 2015.)


Furðuskrif um sjálfstæðisbaráttuna

jo_769_nsigur_sson.jpgSvo virðist sem allt megi segja um Íslendinga erlendis. Kristín Loftsdóttir skrifar í nýútkomnu greinasafni um bankahrunið, Gambling Debt, bls. 6-7: „Um miðja nítjándu öld var Ísland eitt af fátækustu löndum Evrópu. Þótt það væri fjárhagsleg byrði á Danmörku, hafði það barist fyrir sjálfstæði í heila öld. Lokabaráttan hófst um miðja nítjándu öld undir áhrifum íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn, sem mótuðust af þjóðernisstefnu í Evrópu. Á þessum tíma voru miðaldabókmenntir Íslendinga (sögurnar) og tungan helstu þættirnir í því að skapa sérstaka íslenska þjóðarvitund.“

Þetta er allt rangt nema það, að Ísland var fátækt. Sjálfstæðisbaráttan hafði ekki staðið í heila öld í kringum 1850, heldur hófst hún um þetta leyti, ekki síst með „Hugvekju til Íslendinga“ eftir Jón Sigurðsson 1848.

Í öðru lagi var Ísland ekki fjárhagsleg byrði á Danmörku, þótt vissulega hafi gjöld danska ríkissjóðsins vegna Íslands verið talsvert hærri en tekjur af landinu um miðja nítjándu öld. En eins og Jón Sigurðsson reiknaði út, hafði Danmörk verið fjárhagsleg byrði á Íslandi vegna einokunarverslunarinnar og eignarnáms konungs á jörðum.

Í þriðja lagi háðu stúdentar í Kaupmannahöfn ekki sjálfstæðisbaráttuna, þótt þeir styddu hana langflestir, heldur meiri hluti Alþingis undir forystu Jóns Sigurðssonar og aðrir stuðningsmenn hans, þar á meðal Tryggvi Gunnarsson og Þorlákur Ó. Johnson.

Í fjórða lagi var sérstök íslensk þjóðarvitund ekki sköpuð á nítjándu öld, heldur hafði hún verið til frá öndverðu. Þegar Haraldur blátönn Danakonungur gerði íslenskt skip upptækt á síðari helmingi tíundu aldar, ortu Íslendingar um hann níðvísur. Þegar sænsk kona hafði orð á því við Sighvat Þórðarson 1018, að hann væri dökkeygari en gerðist í Svíþjóð, orti hann um hin íslensku augu sín. Íslendingar gerðu þegar árið 1022 sáttmála við Noregskonung um rétt sinn í Noregi. Íslendingar litu aldrei á sig sem Norðmenn og því síður Dani.

Í fimmta lagi hafði Arngrímur lærði þegar á öndverðri sautjándu öld bent á, að Íslendingar gætu verið hreyknir af bókmenntum sínum og tungu. Þetta var því ekkert nýtt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. maí 2015.)


Kílarfriður enn í gildi?

Þegar Svíar fengu Noreg í sárabætur fyrir Finnland með friðarsamningnum í Kíl 1814, fylgdu ekki með hin fornu norsku skattlönd í Norður-Atlantshafi, Ísland, Færeyjar og Grænland. Ég hef áður sagt frá skemmtilegri skýringu á því, sem er ekki beinlínis ósönn, en getur samt ekki verið allur sannleikurinn. Hún er, að sænski samningamaðurinn í Kíl, Gustaf af Wetterstedt, hafi ekki vitað, að þessi þrjú eylönd hafi verið norsk skattlönd. Það kemur fram í bréfi hans til sænska utanríkisráðherrans, sem flýtti sér hins vegar að leiðrétta hann.

Auðvitað getur vanþekking sænsks samningamanns ekki verið fullnaðarskýring. Aðalatriðið hlýtur að vera, eins og prófessor Harald Gustafsson í Lundi hefur bent á, að Svíar ásældust ekki þessi þrjú fjarlægu og fátæku eylönd í Norður-Atlantshafi. Þótt þeir gerðu engar kröfur um þau, fannst hinum slynga danska samningamanni, Edmund Bourke greifa, vissara að setja sérstakt ákvæði í friðarsamninginn um, að eylöndin þrjú fylgdu ekki Noregi.

Þess hefur verið getið til, að Bretar hafi ráðið þessum málalyktum. Þeir hafi ekki kært sig um, að voldugt ríki eins og Svíþjóð réði eylöndunum í Norður-Atlantshafi, sem breski flotinn taldi sitt yfirráðasvæði. Að vísu finnast engar heimildir um þetta, svo að ég viti, en víst er, að áhugi Breta á Íslandi hefur ætíð verið neikvæður: Þeir hafa sjálfir ekki viljað leggja Ísland undir sig, en ekki heldur kært sig um, að önnur ríki Evrópu gerðu það.

Er í Kílarfriðnum 1814 fólgin vísbending til okkar nútímamanna? Ef svo er, þá er hún, að Ísland eigi ekki að reyna að verða hluti af meginlandi Evrópu, heldur miklu frekar halda áfram að vera sérstakt eyland í Norður-Atlantshafi. Það eigi helst heima með öðrum löndum Norður-Atlantshafs, Stóra-Bretlandi, Noregi, Kanada og Bandaríkjunum að ógleymdum Færeyjum, Írlandi og Grænlandi. Var mat Svía fyrir 201 ári rétt?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. maí 2015. Hér að neðan er leiðakerfi Icelandair.)

icelandair-routemap.jpg


Mario Vargas Llosa

vargasllosa.jpgPerúski rithöfundurinn Mario Vargas Llosa, sem hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum 2010, var heiðursgestur svæðisþings Mont Pelerin samtakanna í Lima í Perú, sem ég sótti í mars 2015. Þau eru alþjóðleg samtök frjálslyndra fræðimanna, og sat ég þar í stjórn 1998–2004, auk þess sem ég skipulagði svæðisþing þeirra í Reykjavík 2005. Vargas Llosa er frábær rithöfundur, en því miður er eftirlætisbók mín eftir hann, Veisla geithafursins (La fiesta del chivo), enn ekki komin út á íslensku.

Vargas Llosa er hávaxinn maður, fríður sýnum, hvíthærður, með afbrigðum höfðinglegur í fasi. Hann er kominn fast að áttræðu, en ber aldurinn vel. Hann flutti ræðu á ráðstefnunni og tók líka þátt í dagskrá utan funda, til dæmis útreiðarferð á búgarði nálægt Lima og dansleik í ráðstefnulok, en þá bauð hispursmær honum upp fyrstum ráðstefnugesta, og lét hann sér það vel líka. Það var fróðlegt að heyra Vargas Llosa lýsa skoðanaskiptum sínum, en hann var kommúnisti ungur, en hefur síðustu fjörutíu árin verið yfirlýstur frjálshyggjumaður. Hann kvaðst hafa verið lestrarhestur alla tíð, en tvær bækur hefðu haft mest áhrif á sig.

Önnur var Úr álögum (Out of the Night) eftir Jan Valtin, öðru nafni Richard Krebs, en hún kom út á íslensku í tveimur hlutum 1941 og 1944. Er löng saga af útkomu hennar, sem ég segi í ritinu Íslenskum kommúnistum 1918–1998. Vargas Llosa sagðist hafa dáðst að söguhetjunni fyrir eldmóð í baráttunni fyrir bættum kjörum alþýðu.

Hin bókin var Opið skipulag og óvinir þess (The Open Society and Its Enemies) eftir Karl Popper, einn af stofnendum Mont Pelerin samtakanna. Vargas Llosa kvaðst hafa komist í eins konar andlega vímu, þegar hann las hana. Popper færði sterk rök gegn alræðisstefnu Marx og tilraunum til að gerbreyta þjóðskipulaginu í einu vetfangi.

Kjarni frjálshyggjunnar að sögn Vargas Llosa væri umburðarlyndið, sem sprytti af vitundinni um skeikulleika mannanna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. apríl 2015. Ég breytti hér bókartitli Vargas Llosa eftir ábendingu Arnar Ólafssonar. Þetta er auðvitað ekki geit, heldur geithafur, sem getur verið táknmynd greddu, eins og allir skilja, sem lesið hafa bókina.)

 


Sjálftaka eða þátttaka?

Þegar ég dvaldist í Perú á dögunum leitaði enn á hugann, hvers vegna sumar þjóðir eru fátækar og aðrar ríkar. Þótt Perúmönnum hafi gengið tiltölulega vel síðasta aldarfjórðung eftir miklar umbætur á öndverðum tíunda áratug tuttugustu aldar, hafa þeir löngum verið fátækir og eru enn. Eitt skynsamlegasta svarið, sem ég hef fundið við þessari spurningu, er í bókinni Þess vegna vegnar þjóðum illa (Why Nations Fail) eftir Daron Acemoglu í MIT og James Robinson í Harvard, sem út kom 2012. Í fæstum orðum er þetta svar, að gæfumun þjóða geri, hvort skipulagið einkennist af sjálftöku (extraction) eða þátttöku (inclusion).

Höfundar bera saman suður- og norðurhluta þorpsins Nogales á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkós. Norðan megin er miklu meiri velsæld. Samt eru íbúar beggja hluta af sama uppruna og steinsnar hverjir frá öðrum. Ástæðan er sú að Bandaríkin byggðust innflytjendum, sem stofnuðu ríki til að tryggja frelsi sitt og fá að stjórna sér sjálfir. Þar er skipulag þátttöku. Í Mexíkó stóð hins vegar fyrst veldi Asteka, og þegar Spánverjar hertóku landið, gerðist ekki annað en það, að gamla valdastéttin, sem hafði kúgað íbúana og arðrænt, þokaði fyrir nýrri valdastétt, sem hélt áfram að kúga íbúana og arðræna. Þar er skipulag sjálftöku. Hið sama gerðist í Perú. Þar stóð veldi Inka, og þeir drottnuðu yfir öðrum íbúum landsins, kúguðu þá og arðrændu. Síðan lögðu Spánverjar Inkaveldið undir sig, og þeir tóku sess Inkanna, reyndu að gera allan umframarð upptækan.

Acemoglu og Robinson vísa þeirri algengu skoðun á bug, að gömlum breskum nýlendum vegni almennt betur en gömlum nýlendum annarra Evrópuþjóða. Benda þeir á, að allur gangur sé á því. Þeim gömlu bresku nýlendum vegni vel, þar sem landið hafi verið að mestu leyti tómt áður, en byggst innflytjendum og búið við bresk lög, til dæmis Ástralíu, Nýja Sjálandi og Kanada. Þar myndaðist skipulag þátttöku. En öðrum breskum nýlendum vegni miður, til dæmis Indlandi, Ghana og Nígeríu, þar sem bresku nýlenduherrarnir hafi lítt hreyft við sjálftöku hefðbundinna valdastétta. En hvað er til ráða, ef greining Acemoglous og Robinsons er rétt? Það er ekki að reyna að gera hina fátæku ríkari með því að gera hina ríku fátækari, enda mistekst það alltaf, heldur að skapa skilyrði til þess, að allir geti orðið ríkari, líka hinir fátæku.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. apríl 2015.)

hhg_cusco_2015.jpg


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband