Ferð til Nýju Jórvíkur

Þótt sérviska þyki á Íslandi að kalla New York Nýju Jórvík, laga margar þjóðir þetta staðarnafn að tungum sínum. Portúgalir segja til dæmis „Nova Iorque“ og Spánverjar „Nueva York“. Í öndverðum október árið 2014 átti ég einu sinni sem oftar leið um þessa borg borganna, einn 54 milljóna árlegra gesta. Borgin er stundum kölluð „stóra eplið“ (big apple), eftir að bandaríski rithöfundurinn Edward S. Martin birti bók um hana 1909. „Kansas-búar sjá gráðuga borg í Nýju Jórvík,“ skrifaði Martin þá. „Þeir telja, að stóra eplið drekki í sig óeðlilega mikið af þjóðarsafanum.“ Margir aðrir hafa haft orð á lífsgæðakapphlaupi borgarbúa, græðgi þeirra og ágirnd, til dæmis Einar Benediktsson:

Mér fannst þetta líf allt sem uppgerðarasi

og erindisleysa með dugnaðarfasi.

Þeir trúa með viti í Vesturheim.

— Viltu sjá þjón fyrir herrum tveim,

þá farðu í Fimmtutröð.

Fimmtatröð var Fifth Avenue, en herrarnir tveir Guð og mammón, hinn sýrlenski guðs auðsins. Einar vék einnig heldur óvirðulega að siðum og háttum borgarbúa:

Og jórturleðrið er jaxlað hraðar

í Jórvík nýju en annars staðar.

Raunar er miðstöð fjármálaheimsins ekki á Fimmtutröð, heldur í Garðastræti, eins og íslenskulegast væri að nefna Wall Street suðaustarlega á Manhattan-eyju. Skrifa ég stundum fyrir Garðastrætisblaðið, Wall Street Journal.

Morgunblaðið skýrði frá því 8. júlí 1939, að Fiorello La Guardia, borgarstjóri Nýju Jórvíkur 1933–1945, hafi mælt í ræðu við opnun Íslandsdeildar Heimssýningarinnar vorið 1939: „Stærsta borg heims flytur mestu þjóð heims kveðju sína.“ Eitthvað kann að vera hér ofsagt, nema ef borgarstjórinn hefur átt við það, að líklega eru Íslendingar sú þjóð heims, sem er mest þjóð, fullnægir best hefðbundnum skilyrðum fyrir því. Og vissulega er allt stórt í sniðum í Nýju Jórvík. Eggert Stefánsson söngvari spurði, þegar hann sigldi inn í hafnarmynnið og sá styttuna af frelsisgyðjunni: „Hvur er þessi stóra stelpa?“ Eftir vesturför sagði Eiríkur Ketilsson heildsali við félaga sína í kaffi á Hótel Borg: „Blessaðir verið þið, New York er alveg ómöguleg borg. Hugsið ykkur að labba niður Fifth Avenue, rekast á 300 manns og geta ekki rægt einn einasta.“ En líklega er þetta einn helsti kosturinn á Nýju Jórvík: Þar er ekki spurt, hvað maður hafi gert, heldur hvað hann geti gert.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. desember 2014.)


Russell á Íslandi

russell_teikning.jpgBreski heimspekingurinn Bertrand Russell var einn merkasti hugsuður tuttugustu aldar, stærðfræðingur, ritsnillingur, háðfugl, andófsmaður, jarl með seturétt í lávarðadeildinni, andkommúnisti, guðleysingi og friðarsinni. Hann hafði yndi af að ganga gegn viðteknum viðhorfum og sat tvisvar í breskum fangelsum, fyrst fyrir andstöðu sína við þátttöku Breta í fyrri heimsstyrjöld, sem ég tel vel ígrundaða, síðan fyrir ólöglegar mótmælaaðgerðir við kjarnorkuvopnavörnum Vesturveldanna, en þær varnir voru að flestra dómi nauðsynlegar. Þegar ég vann á dögunum að lítilli bók með greinum Russells, sem birtust í íslenskum blöðum á sínum tíma um kommúnisma, rakst ég á skemmtilega teikningu af honum, sem Halldór Pétursson hafði gert fyrir Samvinnuna. Ég tók líka eftir því, að Russell minntist einu sinni á Ísland í ritum sínum. Það var í greininni „Outline of Intellectual Rubbish“, Frumdráttum þvættings, sem birtist fyrst 1943. Þar skrifaði hann: „Haldi einhver því fram, að tveir og tveir séu samanlagt fimm eða að Ísland liggi við miðbaug, þá finnum við frekar til vorkunnsemi en reiði.“

Ég veit aðeins um einn Íslending, sem hlustað hefur á Russell sjálfan, þótt eflaust hafi þeir verið fleiri. Hann var dr. Jóhannes Nordal seðlabankastjóri. Russell var félagi á Þrenningargarði (Trinity College) í Cambridge 1944-1949, en Jóhannes stundaði um þær mundir nám í Hagfræðiskólanum í Lundúnum, LSR, sem fluttist í stríðinu til Cambridge. Þótti Jóhannesi mikið til Russells koma, eins og hann lýsti í viðtali við mig í sjónvarpsþættinum „Maður er nefndur“. Jóhannes skrifaði líka fróðlega grein um Russell í Lesbók Morgunblaðsins 1951, skömmu eftir að Russell hafði fengið Nóbelsverðlaun í bókmenntum. Þjóðviljinn var hins vegar lítt hrifinn af Russell á þeim árum vegna andkommúnisma hans og sagði í forsíðufrétt um verðlaunaveitinguna, að Russell væri boðberi „lauslætis og kjarnorkustríðs“.

Russell naut mikillar virðingar á Íslandi, og þýddi Matthías Jochumsson skáld eina fyrstu greinina, sem eftir hann birtist í íslensku tímariti, í Eimreiðinni 1917. Margar aðrar ritgerðir og greinar voru þýddar eftir hann og jafnvel smásaga í Vikunni. Tvær bækur Russells hafa komið út á íslensku, Uppeldið (On Education) 1937 og Þjóðfélagið og einstaklingurinn (Authority and the Individual) 1951, og tvö styttri kver, Að höndla hamingjuna (The Conquest of Happiness) 1997 og Af hverju ég er ekki kristinn (Why I am Not a Christian) 2006. Russell var raunar eitt sinn spurður, hverju hann myndi svara Guði, stæði hann andspænis honum eftir andlátið og yrði að skýra trúleysi sitt. Russell var ekki lengi að hugsa sig um: „Ónóg gögn.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. desember 2014. Nú hef ég raunar komist að því í grúski mínu, að séra Sigurður Einarsson, sem oftast er kenndur við Holt, hlýddi á fyrirlestur Russells í Kaupmannahöfn 1936, og varð mjög hrifinn.)


Bloggfærslur 5. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband