Veruleikinn að baki myndunum

Víetnam-stríðinu lauk með því, að kommúnistar í Norður-Víetnam sviku friðarsamninga, sem þeir höfðu gert við Bandaríkjastjórn í París 1973, réðust á Suður-Víetnam og hertóku 1975, á meðan Bandaríkjaher hafðist ekki að, enda hafði þingið bannað forsetanum að veita þar frekari aðstoð. Víetnam-stríðið var undir lokin mjög umdeilt. Ein ástæðan er, hversu opin Bandaríkin eru: Fréttamenn gátu lýst hörmungum stríðsins frá annarri hliðinni, en enginn fékk að skoða það frá hinni. Tvær áhrifamiklar ljósmyndir eru jafnan birtar úr stríðinu.

nguyen_loan.jpgÖnnur myndin var frá hinni misheppnuðu Tet-sókn kommúnista í ársbyrjun 1968. Hún var af lögreglustjóranum í Saigon, Nguyen Ngoc Loan, að skjóta til bana kommúnista, Nguyen Van Lem, á götu í borginni. Lem var talinn hafa stjórnað dauðasveitum kommúnista. Ljósmyndarinn, Eddie Adams, fékk Pulitzer-verðlaunin fyrir myndina, en hafnaði þeim, því að honum fannst birting myndarinnar hafa haft óæskileg áhrif. Hann bað Loan lögreglustjóra síðar afsökunar á þeim skaða, sem hann hefði valdið honum og fjölskyldu hans. Loan flýði til Bandaríkjanna eftir hertöku Suður-Víetnams 1975 og opnaði pítsustað í úthverfi Washington-borgar. Hann rak staðinn til 1991, þegar uppskátt varð um fortíð hans. Loan andaðist 1998. Komið hefur út bók um hann og Tet-sóknina eftir James S. Robbins.

kim_phuc.jpgHin ljósmyndin var frá júní 1972. Íbúar í þorpinu Trang Bang voru á flótta undan kommúnistum þegar flugmaður í flugher Suður-Víetnams kom auga á þá, hélt, að þeir væru kommúnistar, og varpaði napalm-sprengjum á hópinn. Eldur læstist í föt níu ára stúlku, Kim Phuc, svo að hún reif sig úr þeim og hljóp skelfingu lostin, nakin og hágrátandi út í buskann ásamt öðrum börnum í þorpinu. Þá smellti ljósmyndarinn Nick Ut mynd af þeim, sem flaug á augabragði um heimsbyggðina. Eftir að Ut tók myndina aðstoðaði hann Kim við að komast á sjúkrahús. Fyrst var henni vart hugað líf, en eftir tveggja ára dvöl á sjúkrahúsinu og sautján skurðaðgerðir sneri hún heim til sín. Eftir að kommúnistar hertóku Suður-Víetnam notuðu þeir Kim óspart í áróðri. Hún hugsaði sitt. Hún fékk leyfi til að stunda nám í Havana á Kúbu, þar sem hún hitti landa sinn. Þau ákváðu að ganga í hjónaband og flugu til Moskvu 1992 í brúðkaupsferð. Á heimleiðinni var komið við í Nýfundnalandi. Þar gengu hjónin frá borði og báðu um hæli í Kanada. Þau búa nú í Ontario-fylki og eiga tvö börn. Kim hefur hitt skurðlæknana, sem björguðu lífi hennar forðum, og ljósmyndarann, sem hafði fengið Pulitzer-verðlaunin fyrir mynd sína. Komið hefur út bók um Kim Phuc eftir Denise Chong.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. nóvember 2014.)


Frænka Jörundar hundadagakonungs

10975_10152607877857420_2316408031601389334_n.jpgÁ þingi alþjóðlegs málfundafélags frjálslyndra fræðimanna, Mont Pèlerin samtakanna, í Hong Kong haustið 2014 var lokahófið föstudaginn 5. september á eyju nálægt borginni, Lamma, og sigldum við þangað. Mér var þar skipað til borðs hjá höfðinglegri, hvíthærðri konu, og við tókum tal saman. Hún var frá Sviss og heitir Annette Wagnière, fædd Perrenoud. Þegar hún heyrði, að ég væri frá Íslandi, sagði hún mér, að frændi sinn hefði rænt þar völdum árið 1809, Jørgen Jørgensen, sem við Íslendingar nefnum oftast Jörund hundadagakonung. Viðurnefni Jörundar stafar af því, að stjórnartími hans 25. júní til 22. ágúst 1809 fór að mestu leyti saman við hundadaga, 13. júlí til 23. ágúst, en hundadagar draga nafn sitt af hundastjörnunni, Canicula eða Síríus, björtustu stjörnu stjörnumerkisins Stórahunds.

Jörundur fæddist í Kaupmannahöfn 29. mars 1780, sonur konunglegs úrsmiðs, sem einnig hét Jørgen Jørgensen, og konu hans, Anna Lethe Bruun. Íslendingar þekkja ævintýri hans, meðal annars af bókum Jóns Þorkelssonar þjóðskjalavarðar og Helga P. Briems sendiherra og ritgerðum Önnu Agnarsdóttur prófessors. Eftir umhleypingasama ævi bar Jörundur beinin hinum megin á hnettinum, á eyjunni Tasmaníu 20. janúar 1841. Var hann þá kvæntur, en barnlaus.

Sessunautur minn í lokahófinu er komin af eldri bróður Jörundar, Urban Jørgensen. Hann fæddist 5. ágúst 1776 í Kaupmannahöfn og lést þar 14. maí 1830. Faðir hans sendi hann tvítugan að aldri í námsferð til Sviss. Þar kynntist hann kunnum úrsmið, Jacques-Fréderic Houriet, kvæntist dóttur hans, Sophie-Henriette, og eignuðust þau hjón tvo syni. Annar þeirra, Jules Frederik, ílentist í Sviss. Hann fæddist 27. júlí 1808, varð vellauðugur og smíðaði mjög dýr og vegleg úr, sem úrasafnarar sækjast enn eftir. Hann var góður vinur ævintýraskáldsins H. C. Andersens, sem heimsótti hann oft á herragarð hans í Sviss, Le Châtelard í Les Brenets. Jules reisti útsýnisturn við frönsku landamærin, nálægt húsi sínu í Les Brenets, og er hann kenndur við hann, Jürgensen-turninn.

Jules Jürgensen lést 17. desember 1877. Ein dóttir hans, Sophie (1840–1917), giftist úrsmiðnum Auguste Perrenoud, og getur H. C. Andersen þeirra hjóna í dagbókum sínum. Sonur þeirra var Georges Henri Perrenoud (1867–1927), sem hefur líklega haft sömu ævintýralöngun í blóðinu og frændi hans Jörundur, því að hann fluttist til Síle. Sonur hans var Claude Alphonse Maurice Perrenoud (1910–2003), sem sneri aftur til Sviss, og er Annette dóttir hans. Urban Jörundarbróðir var því langalangalangafi hennar. Hún fæddist 26. september 1941 og giftist 1962 svissneskum iðnrekanda, Daniel Wagnière, og sat hann með okkur við borðið, virðulegur öldungur með gleraugu. Eiga þau hjón fjögur börn. Þótt langt sé um liðið, varðveitir hinn svissneski leggur Jørgensen-ættarinnar minninguna um ævintýramanninn á Íslandi, bróður Urbans, ættföður þeirra.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. nóvember 2014.)


Steinólfur í Fagradal

Maður var nefndur Steinólfur Lárusson og bjó í Fagradal á Skarðsströnd í Dölum. Hann fæddist 26. júní 1928 og hóf ungur búskap þar vestra með foreldrum sínum. Steinólfur varð snemma þjóðsagnahetja í sveitum, og hefur raunar verið skrifað um hann bókarkver. Hann var mikill að vexti og burðum, orðheppinn, skrafhreyfinn og hláturmildur, og voru hlátrar hans stórir eins og maðurinn sjálfur. Kvaðst hann vera af galdramönnum kominn. Eitt sinn á sínum yngri árum var Steinólfur á ferð í Reykjavík með fleira fólki, og varð honum gengið niður Bankastræti. Þá sá hann í fyrsta skipti á ævinni dverg, sem gekk beint í flasið á honum. Steinólfur varð svo hissa, að hann þreif dverginn upp, svo að hann gæti horft í andlit honum. Fyrst varð honum orðfall, en síðan taldi hann sig þurfa að ávarpa dverginn, og hið eina, sem honum datt í hug að segja, var: „Hvað er klukkan?“ Síðan setti hann dverginn niður, og tók sá á rás út í buskann sem vonlegt var. (Minnir þetta á annað atvik, þegar maður var spurður: „Eruð þér kvæntir?“ — og hann svaraði: „Nei, en ég hef verið í Hrísey.“)

Þrátt fyrir skamma skólagöngu var Steinólfur í Fagradal prýðilega að sér og áhugamaður um umbætur í búskap. Fylgdu jörð hans dúntekja og selveiðar, og einnig hafði hann áhuga á fiskeldi, nýtingu vetnis, vindorku, jarðhita, graskögglagerð og þurrkun á þangi. Skrifaði hann ráðamönnum fræg bréf um ýmis mál. Eitt þeirra var 1984 til sýslumannsins í Dalasýslu um það, hvernig nýta mætti hið furðulega dýr trjónukrabba. Kvað hann það hafa „augu á stilkum svo sem Marsbúar hafa, og getur dýrið horft aftur fyrir sig og fram og haft yfirsýn fyrir báða sína enda jafntímis; leikur framsóknarmönnum mjög öfund til þessa hæfileika dýrsins.“ Birtist þetta bréf í Morgunblaðinu 1992. Annað bréf skrifaði Steinólfur 1990 samgönguráðherra, „gullkreistara ríkisins,“ um það, hversu brýnt væri að smíða brú yfir Gilsfjörð, og var það bréf kallað „Gilsfjarðarrollan“. Eftir að heilsan bilaði, fluttist Steinólfur árið 2004 á dvalarheimilið Silfurtún í Búðardal. Þegar hann var nýkominn þangað, ávarpaði hann einu sinni sem oftar ráðskonuna hressilega og spurði, hvað hún ætlaði nú að hafa í matinn í hádeginu. „Snitsel,“ svaraði hún. Þá sagði Steinólfur öldungis hlessa: „Snitsel? Snitsel! Ég hef étið landsel og útsel. En snitsel, — það kvikindi hef ég aldrei heyrt um, hvað þá étið.“ Steinólfur lést 15. júlí 2012.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. nóvember 2014.)


Bloggfærslur 4. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband