Vinir í raun

banksportrait.jpgÍsland er lítið land, sem flestum er sama um, en fæstir því þó fjandsamlegir. Slíku landi ríður miklu frekar á því en hinum stærri að eiga vini í háum stöðum erlendis. Þeir geta ráðið úrslitum á ögurstund, því að okkur munar vegna smæðarinnar verulega um það, sem öðrum er útlátalaust. Það ætti því að vera eitt helsta verkefni íslenskra ráðamanna að rækta vináttu við þá erlendu ráðamenn, sem áhuga hafa á Íslandi og getu til liðveislu.

Gott dæmi er til frá fyrri tíð um, hversu miklu máli vinarþel einstaklinga getur skipt Ísland. Haustið 1807 áttu Bretar í stríði við Napóleon, sem Danakonungur fylgdi að málum, og hertóku þeir þau kaupskip frá Íslandi, sem þeir náðu í. Á einu skipanna var Magnús Stephensen háyfirdómari, og komst hann síðan til Kaupmannahafnar. Magnús sá fram á ófremdarástand, einangrun landsins, skort á nauðsynjum, jafnvel hungursneyð.

Magnús mundi nú eftir breskum heldri manni, sem komið hafði til Íslands 1772 og heimsótt föður hans, en Magnús var þá aðeins tíu ára drenghnokki. Þetta var Sir Joseph Banks, forseti Breska vísindafélagsins og góðvinur margra voldugustu manna Bretaveldis. Magnús skrifaði Sir Joseph, sem kannaðist vel við bréfritarann, enda hafði hann skrifast á við föður hans eftir Íslandsförina. Brást Sir Joseph vel við og fékk Breta til að sleppa kaupskipum frá Íslandi.

Sir Joseph Banks átti líka drjúgan þátt í því, að Bretar ákváðu með konunglegri tilskipun 7. febrúar 1810 að skilgreina Ísland sem hlutlaust, vinveitt land, sem nyti verndar Bretaveldis. Líklega er þessi tilskipun einsdæmi: Ísland var hjálenda Danmerkur, sem Bretar áttu í stríði við. Á ögurstund geta vinir í háum stöðum ráðið úrslitum. Sir Joseph Banks var slíkur vinur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. maí 2015. Sú réttmæta athugasemd var gerð við pistilinn í tölvuskeyti til mín, að ekki mætti gleyma hlut Bjarna Sívertsens í að bæta úr nauð Íslendinga. Hann vann af miklum dugnaði að því að leysa vandann. En ekki má heldur gleyma sambandi Magnúsar og Sir Josephs, sem greiddi mjög fyrir málinu. Myndin er af Sir Joseph.)


Kardínálinn aftur á ferð

154px-vilhelm_sabinalaisen_sinetti.jpgÍslenska þjóðveldið er eins og svissneska samveldið merkilegt fyrir það, að það fól í sér sjálfstjórn frjálsra jafningja. Adam frá Brimum sagði fullur aðdáunar, að hjá Íslendingum væru lögin konungur. Eflaust á þessi stjórnmálahugsun rætur að rekja til sjálfstjórnar germönsku ættbálkanna, sem bjuggu norðan Rómaveldis og Tacítus lýsir stuttlega í bók sinni, Germaníu. En suður í álfu voru aðrar stjórnmálahugmyndir á kreiki. Þær voru um það, að menn væru ójafnir og skyldu skiptast í þegna og drottna. Lögin væru ekki sammæli jafningja, heldur fyrirmæli konungs og ráðgjafa hans. Þessar suðrænu hugmyndir sjást vel af ummælum eins helsta sendimanns Rómarpáfa, Vilhjálms kardínála af Sabína, sem staddur var við hirð Hákonar gamla í Noregi 1247. Þegar hann var beðinn að miðla málum á Íslandi, kvað hann ósannlegt, að „land það þjónaði ekki undir einhvern konung sem öll önnur lönd í veröldinni“.

Vilhjálmur kardínáli kom víðar við en í Noregi til að flytja svipaðan boðskap. Þegar ég var nýlega á ferð í Eistlandi, notaði ég tækifærið til að grúska í gömlum eistneskum sögubókum. Þar rakst ég á frásagnir um ferð Vilhjálms kardínála þangað í erindum páfa. (Hann var þar kallaður Vilhjálmur af Módena, en við þann stað var hann fyrst kenndur.) Var Vilhjálmur staddur í Eistlandi árið 1225-6 og átt þátt í að sætta eistneska þjóðflokka og baltneska baróna af þýskum ættum „með því að hvetja Eista til að bera ok sitt af undirgefni og drottnara þeirra til að gæta þess, að þetta ok yrði ekki of þungt“, eins og segir í gömlum kirkjusögum. Hér getur að líta hina suðrænu hugmynd um, að frjálsir jafningjar mættu ekki stjórna sér sjálfir, heldur skyldu yfir þá settir aðalsmenn og jafnvel konungar, sem stjórnuðu af Guðs náð og eftir skorðuðu stigveldi. Þegnar ættu að vera hlýðnir, en drottnar mildir. Treysta skyldi á valdið frekar en frelsið.

Íslendingar kannast við annað afbrigði af þessari hugmynd, þegar norskur hirðmaður, Loðinn leppur, reyndi að fá Jónsbók samþykkta á þingi 1281. Bændur voru tregir til og settu ýmis skilyrði, en Loðinn leppur brást þá hinn versti við og sagði búkarla gera sig digra. Þeir ættu að játa Jónsbók óbreyttri, en treysta síðan á náð konungs um einstök atriði, sem þeim þættu miður fara. Og þessar hugmyndir eru enn á kreiki. Þeir, sem vilja aðild að Evrópusambandinu, segja, að við Íslendingar verðum að gangast undir meginreglur þess um óheftan aðgang allra aðildarþjóða að auðlindum okkar, en að við getum síðan treyst því, að tekið verði tillit til svæðisbundinna hagsmuna okkar. Við eigum með öðrum orðum ekki að standa á rétti okkar, heldur treysta náðinni — eins og Vilhjálmur af Sabína og Loðinn leppur sögðu forðum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. maí 2015.)


Brandes og Cobban gera lítið úr Íslendingum

george_brandes_cph_3b29701.jpgNokkrir útlendir fræðimenn, sumir jafnvel vinsamlegir Íslendingum, hafa efast um, að þeir fái staðið undir sjálfstæðu ríki. Frægt varð viðhorf danska rithöfundarins Georgs Brandesar. Hann hafði mælt fyrir minni Íslands árið 1900 og sagt, að ekki kæmi að sök, hversu fáir þeir væru. Sauðir væru að vísu fleiri en menn á Íslandi, en svo væri einnig í Danmörku, þótt í öðrum skilningi væri. En þegar Einar Benediktsson krafðist sérstaks fána fyrir Ísland í viðtali við danskt blað 1906, sneri Brandes við blaðinu og skrifaði háðsgrein í Politiken 16. desember um, að Amager ætti að óska eftir sjálfstæði og hafa eigin fána. „Margir eru þeirrar skoðunar, að skærlit gulrót á spínatgrænum fánafleti væri einkar þekkileg.“

Ef til vill er á vitorði færra, að hinn kunni breski sagnfræðingur Alfred Cobban gerði lítið úr íslensku þjóðríki í bók, sem hann birti 1944 um sjálfsákvörðunarrétt þjóða (National Self-Determination, Oxford University Press). Cobban andmælti þar hugmyndinni um þjóðríkið, að hver þjóð ætti að mynda sjálfstætt ríki. Sérstaklega væri hún óraunhæf, þegar um smáþjóð væri að ræða (bls. 74). „Ef við tökum dæmi, er þá raunhæft að trúa því, að orðið verði eða verða ætti við sjálfstæðiskröfum íbúa Wales, Hvíta-Rússlands, Elsass eða Flandurs með viðurkenningu sérstakra ríkja þeirra? Ætti franska Kanada að mynda sérstakt ríki? Myndi Möltubúum vegna betur sem þjóð, ef þeir slitu tengslin við Breta og reyndu að stofna sjálfstætt ríki án nokkurs tillits til fyrirætlana grannríkja við Miðjarðarhaf? Hefur Ísland efni á því að vera án efnahagslegra tengsla við eitthvert stærra og auðugra ríki?“

Nú kunna ýmsir að telja Cobban óspámannlega vaxinn, því að Hvíta-Rússland og Malta eru þegar sjálfstæð ríki og öflugar aðskilnaðarhreyfingar starfa í franska Kanada (Quebec) og á Flandri. En auðvitað er Hvíta-Rússland mjög háð Rússlandi, og Malta hefur að miklu leyti afsalað sér fullveldi með aðild að Evrópusambandinu. En þegar Cobban skrifaði þessi orð, hafði Ísland verið fullvalda ríki í 26 ár. Það þurfti auðvitað eins og öll smáríki stuðning, vináttu og viðskipti við stærri þjóðir, en þetta hlaut ekki eins og Cobban virtist gera ráð fyrir að einskorðast við eitthvert eitt ríki, einn ráðríkan Stóra bróður. Jón Sigurðsson svaraði Cobban vel löngu áður í ritgerðinni „Um skóla á Íslandi“ í Nýjum félagsritum 1842 (bls. 146-7): „Þá hefir menntunin verið mest, þegar mestar hafa verið utanferðir og Íslendingar átt mest viðskipti við önnur lönd; þó ekki við eitt land, heldur mörg.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. maí 2015.)


Bloggfærslur 10. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband