Nú vill enginn eiga þig

Þegar ekkert tilboð barst í Íslandsverslun 1758, kastaði Eggert Ólafsson fram vísu:

Fyrr þín gæði fýsileg

fjöldi sótti þjóða,

nú vill enginn eiga þig,

ættarjörðin góða.

Skáldið hefur því miður nokkuð til síns máls. Björn Þorsteinsson prófessor gróf upp, að Danakonungar reyndu þrisvar að veðsetja eða selja landið Hinrik VIII. Bretakonungi, en hann hafði ekki áhuga, þótt bresk fiskiskip flykktust þá á fengsæl Íslandsmið. Danakonungur reyndi 1645 að veðsetja Ísland fyrir láni frá Hamborgarkaupmönnum, eins og Laxness fléttar eftirminnilega inn í Íslandsklukkuna. Þegar Svíar fengu Noreg í sárabætur fyrir Finnland 1814, hirtu þeir ekki um að krefjast Íslands með, þótt fornt norskt skattland væri. Eftir ósigur fyrir Þjóðverjum 1864 í stríði um Slésvík og Holtsetaland veltu Danir því fyrir sér um skeið að bjóða Þjóðverjum Ísland gegn því að halda hluta Slésvíkur.

Þó vildu nokkrir málsmetandi Bretar í upphafi nítjándu aldar, að Ísland yrði hluti Bretaveldis, sérstaklega Sir Joseph Banks, sem komið hafði til Íslands 1772 og var síðan einlægur Íslandsvinur, eins og Anna Agnarsdóttir prófessor hefur rakið. Sir Joseph samdi þrjár skýrslur um Ísland fyrir Bretastjórn, 1801, 1807 og 1813, þar sem hann mælti með því, að Bretar legðu undir sig landið, enda væru Íslendingar langþreyttir á dönskum einokunarkaupmönnum og áfjáðir í „að öðlast þá blessun, sem breskt frelsi veitti“ (partake of the Blessings of British liberty). Bretastjórn fór þó ekki að ráði Sir Josephs, enda vildi hún ekki styggja Dani, auk þess sem breski flotinn réð þá hvort sem er lögum og lofum á Norður-Atlantshafi. Frá Napóleonsstríðunum og fram til 1941 var Ísland á valdsvæði Breta. Eftir það og fram til 2006 var landið á valdsvæði Bandaríkjamanna. En í ljós kom í bankahruninu haustið 2008, að enginn hafði lengur áhuga á Íslandi og örlögum þess. „Nú vill enginn eiga þig, ættarjörðin góða.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. júní 2015.)


Bloggfærslur 11. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband