Churchill, de Gaulle og íslenskir kommúnistar

churchilldegaulle.jpgHaustið 2014 skrifaði Pontus Järvstad BA-ritgerð í sagnfræði (á ensku) um sagnritun okkar Þórs Whiteheads í bókum um íslensku kommúnistahreyfinguna. Dr. Ragnheiður Kristjánsdóttir var leiðbeinandi hans, og er ritgerðin aðgengileg á skemman.is. Pontus gagnrýnir þá athugasemd mína, að andstæðingar nasismans hefðu á sínum átt önnur ráð en að rjúka í fangið á Stalín, til dæmis getað gerst lýðræðissinnar og tekið sér stöðu með Churchill og de Gaulle. Um þetta segir Pontus (í íslenskun minni) á bls. 40–41: „Með þessa svarthvítu kaldastríðssýn gleymir Hannes því, að Churchill og de Gaulle voru fulltrúar tveggja elstu nýlenduvelda og kapítalistaríkja heims.“

Nú gegndu þeir Churchill og de Gaulle engum aðalhlutverkum í bók minni. Ég nefndi þá tvo til að sýna, að þá var fleiri kosta völ en Hitlers og Stalíns. En ritgerðarhöfundur hefði getað valið heppilegri mótrök. Ungur hafði Churchill vissulega hlotið ríkulegan skerf af algengum fordómum samtímans um yfirburði Vesturlandabúa, einkum þeirra þjóða, sem nytu hins engilsaxneska menningararfs. En hann var forsætisráðherra ríkis, sem bauð Indverjum sjálfstæði gegn því, að þeir styddu Bandamenn í stríðinu við Hitler. Þótt leiðtogar Þjóðarflokks Gandhis höfnuðu boðinu, var því tekið í reynd: 2,5 milljónir Indverja börðust í her Bandamanna, og eftir stríð hlutu Indverjar sjálfstæði.

Aðdáun de Gaulles á hinum franska menningararfi var áreiðanlega eins áköf og Churchills á hinum engilsaxneska. En eftir að de Gaulle tók við völdum í Frakklandi 1958, veitti hann Alsír sjálfstæði gegn harðvítugri andstöðu. Vegna þess var oft reynt að ráða hann af dögum. Rifja verður líka upp, að Bretar og Frakkar leystu upp nýlenduveldi sín um og eftir 1960.

Yngsta nýlenduveldið var hins vegar undir stjórn Stalíns. Þeir Hitler sömdu í ágúst 1939 um að skipta Mið- og Austur-Evrópu á milli sín. Stalín átti að fá Finnland, Eystrasaltsríkin og austurhluta Póllands, en Hitler vesturhluta Póllands og fleiri svæði. Eftir stríð hélt Stalín sínu, og við veldi hans bættust ýmis leppríki. Leystist þetta veldi ekki upp fyrr en árin 1989–1991. Og þau lönd kapítalismans, sem best hefur vegnað, hafa ekki verið nýlenduveldi, til dæmis Sviss, og sum eru jafnvel fyrrverandi nýlendur, svo sem Hong Kong. 

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. júlí 2015.)


Árás Sigrúnar á Ridley

Breski metsölurithöfundurinn Matt Ridley, sem var um skeið vísindaritstjóri Economist og hefur skrifað margar bækur um vísindi, einkum erfðafræði og þróunarkenningu Darwins, birti mánudaginn 20. júlí skemmtilega grein um Ísland í Lundúnablaðinu Times, sem hann skrifar reglulega í, en Ridley hefur oft dvalist hér á landi, haldið fyrirlestra og veitt lax. Útdráttur úr grein hans, sem er annars aðeins aðgengileg í lokaðri áskrift á Times, er hér á Eyjunni.

Ég sendi Speglinum á Ríkisútvarpinu greinina í heild sinni á ensku til fróðleiks. En í stað þess að segja frá henni var kallað á Sigrúnu Davíðsdóttur íslenskufræðing, sem flutti gegn henni pistil miðvikudaginn 23. júlí. Þar hóf hún mál sitt á að ráðast á Matt Ridley, sem er af ætt kunnra vísindamanna og frumkvöðla og fimmti vísigreifinn af Ridley. Rifjaði hún upp, að hann hefði tekið sæti föður síns í stjórn bankans Northern Rock, sem var fyrsti breski bankinn til að lenda í lausafjárþurrð árið 2007, og var á henni að skilja, að Ridley ætti þess vegna sem fæst að segja um hina alþjóðlegu lánsfjárkreppu.

Ætti ég með sömu rökum jafnan að nefna það, þegar Sigrún Davíðsdóttir er kynnt til sögunnar, að hún hefur sent frá sér tvær misheppnaðar skáldsögur, sem veldur henni bersýnilega beiskju, og að hún reyndi hvað eftir annað fyrir hrun að fá verkefni hjá sömu íslensku bankastjórunum og hún hefur síðan ráðist heiftarlega á? Ætti ég að leggja áherslu á það, þegar hún deilir á ríkisstjórn Davíðs Oddssonar fyrir einkavæðingu bankanna, eins og hún hefur margsinnis gert, að bróðir hennar var formaður einkavæðingarnefndar? Um Northern Rock er það að segja, að vandi hans var í engu frábrugðinn vanda þeirra banka, sem síðar var bjargað með stórkostlegum fjárútlágum. Munurinn var aðeins sá, að hann varð fyrstur til að lenda í erfiðleikum og sætti þess vegna ómildari meðferð en aðrir breskir bankar.

Sigrún reyndi af veikum mætti að hrekja það, sem Matt Ridley sagði, með tali um, að hann bæri það saman, sem ósambærilegt væri, og gæfi sér rangar forsendur. Ég sá ekkert slíkt í grein hans. Það, sem hann sagði, var einfalt: Íslendingar voru grátt leiknir af Bretum í bankahruninu, meðal annars vegna þess að forkólfar Verkamannaflokksins lokuðu breskum bönkum í eigu Íslendinga að tilhæfulausu og reyndu að neyða Íslendinga til að greiða skuldir, sem þeir skulduðu ekki. Er þetta rangt? Hann sagði líka: Munurinn á Íslendingum og Grikkjum er, að Íslendingar gátu fellt gjaldmiðil sinn og þannig örvað útflutningsatvinnuvegina, en Grikkir verða til aðlögunar að treysta á kostnaðarlækkanir innanlands, sem óvíst er, að gangi eftir. Er þetta rangt?

Nei, hvort tveggja þetta er rétt hjá Ridley og blasir raunar við öllum, sem vilja kynna sér málið. Ég skora á Sigrúnu Davíðsdóttur að hrekja grein Ridleys á einhvern annan hátt en þann að koma ein í útvarp og tala óljóst, en af ótrúlegu oflæti, um rangar forsendur. Ég skora líka á Spegilinn að bjóða mér í þáttinn til þess að ræða þetta mál, helst beint við Sigrúnu (en annars væri mér svo sem sama, við hvern það væri, og jafnvel þótt ég fengi að tala einn). Spegillinn á að endurspegla, ekki afskræma.

Hér ræðir Ridley (lengst t. h.) við Sigríði Snævarr sendiherra og Þorstein Friðrik Halldórsson hagfræðinema, formann Frjálshyggjufélagsins, í útgáfuhófi 2014 vegna þýðingar á bók Ridleys, Heimur batnandi fer.

ridley_sigridur_thorsteinn_30_10_2014.jpg


Óvandvirkur rannsóknarblaðamaður

Maður að nafni Atli Þór Fanndal hefur gert sér títt um mína hagi síðustu misserin. Hann kynnir sig sem rannsóknarblaðamann. Það er auðvitað vafamál, hversu miklum tíma á að verja í að svara slíkum mönnum og leiðrétta villur þeirra og missagnir, en ég sé, að tveir prófessorar í Háskóla Íslands, þeir Þorvaldur Gylfason og Svanur Kristjánsson, hafa framsent til vina sinna á Snjáldru (Facebook) grein eftir Atla Þór, sem er aðallega um mig. Ég ætla því að gera nokkrar stuttar athugasemdir í von um, að missagnir Atla Þórs öðlist ekki sjálfstætt líf og fari á flug:

1. Atli Þór hafði ekki samband við mig við samningu greinar sinnar, og er það alvarlegur galli á vinnubrögðum hans.

2. Atli Þór ræðir um lektorsmálið 1988, þegar mér var veitt lektorsstaða í stjórnmálafræði. Þar kemur ekki fram, að ég var eini umsækjandinn með doktorspróf í stjórnmálafræði, og var það frá félagsvísindadeild Oxford-háskóla 1985. Hinir umsækjendurnir tveir, sem nutu stuðnings, höfðu hvorugur þá lokið doktorsprófi, þótt þeir gerðu það báðir síðar (annar frá Essex, hinn frá LSE). Þegar af þeirri ástæðu þótti dómnefndarálitið, sem Svanur Kristjánsson var í forsvari fyrir, undarlegt.

2. Atli Þór ræðir það ekki, að hinir umsækjendurnir tveir, sem nutu stuðnings, kærðu stöðuveitinguna til mín til umboðsmanns Alþingis, sem komst að þeirri niðurstöðu, að ekkert hefði verið athugavert við hana. Taldi umboðsmaður, að sjálfsagt hefði verið að leita til erlendra umsagnaraðila vegna hinnar óljósu niðurstöðu dómnefndarinnar, sem hafði talið mig hæfan til að kenna sumt í stjórnmálafræði, en ekki annað (af því að fyrsta próf mitt var ekki í stjórnmálafræði, heldur sagnfræði og heimspeki).

3. Atli Þór segir, að ég hafi 2008 verið dæmdur fyrir ritstuld vegna ævisögu minnar um Halldór Laxness. Það er ekki rétt, eins og margoft hefur komið fram. Ég var dæmdur fyrir brot á höfundarrétti. Ég reyndi auðvitað hvergi að leyna því, að ég nýtti mér ýmsar lýsingar Laxness á æsku sinni mjög rækilega. Hæstiréttur taldi, að ég hefði farið of nærri textum skáldsins, og verður að virða þá niðurstöðu, um leið og benda má á, að sjálft fór skáldið mjög nærri textum annarra, til dæmis Magnúsar Hjaltasonar í Heimsljósi og Ralphs Fox í smásögu um Temúdsjín.

4. Atli Þór segir, að fyrirtækið Líf og sál hafi unnið skýrslu um samskiptavanda innan stjórnmálafræðideildar Háskólans og ég verið leystur undan stjórnunarskyldu við deildina eftir það. Ég veit ekki, hvað kom fram í þessari skýrslu, enda var ég erlendis, þegar hún var kynnt á kennarafundi. En þar sem ég hef aldrei verið yfir aðra settur í deildinni, hef ég aldrei haft getu til yfirgangs við samkennara mína og auðvitað því síður vilja til þess. Af sjálfu leiðir, að ég kem því ekki til greina í neinum hugsanlegum aðfinnslum um yfirgang eða misbeitingu valds. Ég hafði hins vegar áhuga á að þurfa ekki að sitja deildarfundi (þótt ég hafi rétt til þess) vegna þess, að mér blöskraði, að þar var töluð enska. Mér fannst það vart við hæfi í Háskóla, sem stofnaður var á 100 ára afmæli Jóns Sigurðssonar, svo að íslenskir stúdentar gætu lært íslensk lög, ekki dönsk, íslenska sögu, ekki danska, íslenskar bókmenntir, ekki danskar.

Ég gæti gert margar fleiri athugasemdir við þessa „fréttaskýringu“ Atla Þórs, en læt þetta duga.


Gjöf frá Seðlabankanum

Einhver skemmtilegasta gjöfin, sem ég fékk á sextugsafmælinu var frá Seðlabankanum (en þar sat ég í bankaráði 2001–2009). Hún var bók með ljóðaþýðingum eftir Bernard Scudder, og færði Már Guðmundsson mér hana. Ég hef verið niðursokkinn í þetta rit. Það er gaman að sjá, hvernig Scudder leysti ýmsar þýðingarþrautir.


Þorvaldur: Taglhnýtingur auðsins

Þorvaldur Gylfason prófessor er bersýnilega ekki ánægður með, að fleiri skuli ekki hlusta á hann, svo að hann grípur til stóryrða. Í nýjustu grein sinni í Fréttablaðinu, „Taglhnýtingar valdsins,“ ræðst hann með óbótaskömmum á fjóra háskólaprófessora án þess þó að nefna nöfn þeirra, og eru þau þó auðrekjanleg: Björg Thorarensen, Gunnar Helgi Kristinsson, Sigurður Líndal og Þráinn Eggertsson.

Hvers vegna getur Þorvaldur ekki nefnt nöfn þessara prófessora í stað þess að kalla þá aðeins A, B, C og D? Ég er ekki sammála þessum fjórum prófessorum um allt, en fráleitt er hins vegar að halda því fram, að þeir séu allir „taglhnýtingar valdsins“, af því að þeir hafi gagnrýnt stjórnarskrárhugmyndir Þorvaldar. Þau fjögur eru með ólíkar skoðanir á mörgu og óþarfi að gera þeim upp annarlegar hvatir.

Sjálfur talar Þorvaldur eins og hann hafi fengið umboð þjóðarinnar. Hann var óánægður með undirtektir Alþingis við stjórnarskrárhugmyndir sínar, svo að hann bauð fram flokk í síðustu kosningum. Sá flokkur hlaut 2,45% atkvæða. Hvernig getur Þorvaldur talað í nafni þjóðarinnar, þegar að baki honum stendur aðeins brotabrot úr henni?

Þótt prófessorarnir fjórir, sem Þorvaldur ræðst á, séu engir taglhnýtingar valdsins, er Þorvaldur sjálfur taglhnýtingur auðsins. Fyrir bankahrun var hann fastur pistlahöfundur fyrir Jón Ásgeir Jóhannesson, þáverandi skuldakóng Íslands. Þá hélt hann því fram, að lögreglurannsókn á starfsemi Jóns Ásgeirs væri runnin undan rifjum stjórnmálamanna (þótt upphaf hennar væri í kæru eins samstarfsmanns hans), og andmælti þeirri hugmynd, að setja ætti með lögum skorður við fjölmiðlaeign auðjöfra.

Þorvaldur fékk vel greitt fyrir greinar sínar, eina milljón á ári. Hér sést, hvernig húsbóndi hans á Fréttablaðinu, Jón Ásgeir Jóhannesson í Baugi, var í sérflokki um skuldasöfnun fyrir bankahrun, en tölurnar eru teknar úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (2. bindi, 8. kafla).

baugsbo_769_la_jog_1265794.jpg


Myndir af mér í Séð og heyrt

hhgfjo_776_gurra_a_769_ra.jpgNokkrar myndir eru af mér í nýjasta hefti Séð og heyrt frá því, áður en ég lauk stúdentsprófi. Hér er ein, sem birtist á Facebook-síðu tímaritsins af mér fjögurra ára, þegar ég bjó á Óðinsgötu 25. Faðir minn hafði unnið á Keflavíkurflugvelli, en hann var rekinn þaðan, af því að hann var kommúnisti! Þetta þætti mörgum ef til vill einkennilegt núna, en þessir tímar voru öðru vísi. Eftir það útvegaði tengdafaðir hans, afi minn og nafni (Hannes Pálsson frá Undirfelli), honum starf við eftirlit með sérleyfishöfum. Þar vann hann með Vilhjálmi Heiðdal, sem var eindreginn sjálfstæðismaður og, ef ég hef tekið rétt eftir, faðir hins harðskeytta og ofstækisfulla kommúnista Hjálmtýs Heiðdals. Afi minn, Kristinn Guðbjartsson, átti allt húsið. Hann var vélstjóri og hafði efnast vel, meðal annars fyrir tilstilli Jóns Þorlákssonar borgarstjóra, sem vildi efla smábátaútgerð í Reykjavík. Ég man, að á Keflavíkurflugvelli keypti faðir minn rauðan bíl handa mér, sem ég ók um og knúði áfram á fótstigi, pedölum, á meðan ég talaði við sjálfan mig, trallaði og söng hástöfum. Ég bjó við afar gott atlæti í bernsku. Móðir mín var kennari að mennt, hafði nægan tíma til að sinna mér og gerði það svo sannarlega af miklu ástríki. Ég varð snemma fróðleiksfús, spurull og gagnrýninn og vildi komast að eigin niðurstöðu um mál. En stundum var ég gabbaður. Þegar mér fannst maturinn vondur hjá móður minni, fór ég yfir til Maju, fósturmóður minnar, sem bjó í hinni íbúðinni á ganginum á annarri hæð á Óðinsgötu (Maríu Haraldsdóttur). Stundum laumaðist móðir mín þá með matinn hjá sér yfir og Maja setti hann á diskinn minn, án þess að ég vissi, og ég hámaði hann í mig af bestu lyst. Þessar tvær elskulegu konur vissu, að maturinn hjá Maju væri í mínum huga alltaf betri en maturinn heima. Þessar tvær konur voru einstakar. Það er ekki þeim að kenna, hversu illa hefur ræst úr mér miðað við alla Icesave-spekingana, samkennara mína.


Íslandsgrein Matts Ridleys

ridley_ka_769_pa_1265727.jpgHinn kunni breski metsöluhöfundur, Matt Ridley, sem situr raunar líka í lávarðadeild þingsins, skrifar reglulega í Lundúnablaðið Times, eitt virtasta dagblað heims. Hann var hér á Íslandi (að veiða lax) fyrir nokkrum dögum og ræðir í nýbirtri og fjörlegri grein um ólíkt hlutskipti Íslands og Grikklands, sem bæði biðu mikinn hnekki í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu. En Ísland var aldrei gjaldþrota, þótt leiðtogi breska Verkamannaflokksins (systurflokks Samfylkingarinnar), Gordon Brown, héldi því fram. Stoðir íslenska hagkerfisins voru og eru traustar, fiskur, orka, ferðamenn og mannauður. Og Ísland gat ólíkt Grikklandi leyst vandann af of miklum innlendum kostnaði miðað við erlendar tekjur með því að fella gengi gjaldmiðilsins. Því er að bæta við, að Ridley hélt fyrirlestur á fundi RNH, Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt, sumarið 2012. Bók Ridleys, Heimur batnandi fer, kom út hjá Almenna bókafélaginu fyrir ári. Hér er frétt í Ríkisútvarpinu um grein Ridleys í Times. Hér er frétt á Eyjunni um hana.


Líkfundur í Strassborg

struthof.pngJórsalapósturinn, Jerusalem Post, skýrði frá því 19. júlí 2015, að 86 lík gyðinga hefðu fyrir nokkrum dögum fundist í Strassborg. Þetta voru fórnarlömb tilrauna, sem nasistalæknirinn August Hirt hafði gert fyrir „rannsóknarstofnun“ SS, svartliða, Ahnenerbe. Fóru tilraunirnar fram í Natzweiler-Struthof-útrýmingarbúðunum, sem mynd er af hér við hliðina. Málið tengist Íslandi, því að einn gyðingurinn var Siegbert Rosenthal, bróðir Henny Goldstein-Ottósson, en hún var þýsk flóttakona, sem giftist Hendrik Ottóssyni fréttamanni og gerðist íslenskur ríkisborgari. Fyrri eiginmaður Hennyar, mágkona hennar og bróðursonur létu lífið í Auschwitz-fangabúðunum. Í ritgerð í Þjóðmálum segi ég frá því, hvernig örlagaþræðir Hennyar og þýsks nasista, sem bjó um skeið á Íslandi, fléttuðust saman.

Hæpin notkun úrfellingarmerkisins

Haustið 2014 skrifaði Pontus Järvstad BA-ritgerð í sagnfræði (á ensku) um sagnritun okkar Þórs Whiteheads í bókum um íslensku kommúnistahreyfinguna. Dr. Ragnheiður Kristjánsdóttir var leiðbeinandi hans, og er ritgerðin aðgengileg á skemman.is. Ritgerðarhöfundur kveður Þór hafa oftúlkað eitt af inntökuskilyrðunum 21, sem kommúnistaflokkum voru sett samkvæmt ályktun Alþjóðasambands kommúnista í Moskvu 1920. Þetta var þriðja skilyrðið, og vitnar Pontus svo í það (í íslenskun minni) á bls. 29:

Í nær öllum löndum Evrópu og Ameríku er stéttabaráttan að breytast í borgarastríð. Við þær aðstæður geta kommúnistar ekki treyst borgaralegum lögum. ... Í löndum, þar sem umsátursástand eða neyðarlög svipta kommúnista kostinum á að halda allri starfsemi sinni áfram löglega, er samtenging löglegrar og ólöglegrar starfsemi bráðnauðsynleg.

Pontus segir síðan, að þetta hafi átt við, þar sem kommúnistaflokkar hafi verið ólöglegir. Þess vegna villi Þór Whitehead um fyrir lesendum sínum með því að segja, að bardagalið, sem kommúnistar stofnuðu hér 1932, hafi verið í samræmi við þetta skilyrði Kominterns frá 1920.

Hvaða texta skyldi úrfellingarmerki Pontusar Järvstads fela í sér? Hann er þessi (skáletrun mín): „Þeir skuldbinda sig til að mynda alls staðar ólögleg hliðarsamtök, sem geta á úrslitastund aðstoðað flokkinn við að gera skyldu sína gagnvart byltingunni.“ Hér er beinlínis kveðið á um baráttusamtök, sem starfa skuli „alls staðar“. Bersýnilega átti þetta inntökuskilyrði því ekki aðeins við í þeim löndum, þar sem kommúnistaflokkar voru ólöglegir. Síðasta setningin í þriðja inntökuskilyrðinu er hins vegar um þau lönd. Hefði leiðbeinandinn, Ragnheiður Kristjánsdóttir, ekki átt að vara hinn unga og óreynda ritgerðarhöfund við þessari hæpnu notkun eða jafnvel misnotkun úrfellingarmerkisins? Eða var henni ekki kunnugt um inntökuskilyrðin í Alþjóðasamband kommúnista?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. júlí 2015.)

Hér eru klausurnar úr BA-ritgerðinni og úr inntökuskilyrðum Kominterns:

bathesis_1265625.jpg

komintern_these3.jpg

 


Dularfulli ræðismaðurinn

Á meðan Ísland var á bresku valdsvæði 1807–1941, vildu Bretar ekki stjórna landinu beint, nema sérstaklega stæði á. Þetta kom í ljós í Norðurálfuófriðnum mikla 1914–1918. Strax 12. september 1914 var breskur ræðismaður kominn til Reykjavíkur, Eric Grant Cable. Hann fæddist 1887 og hafði verið í bresku utanríkisþjónustunni frá 1904, í Helsinki, Hamborg og Rotterdam. Aðspurður kvaðst hann vera hingað kominn, því að svo marga starfsmenn utanríkisþjónustunnar vantaði verkefni, eftir að stríð skall á og þeir urðu að fara frá óvinaríkjum. Þetta þótti yfirmönnum hans í Lundúnum snjallt svar, en Cable var í raun sendur hingað að ósk breska flotans til að fylgjast með ferðum þýskra óvinaskipa í Norðurhöfum og hugsanlegum umsvifum Þjóðverja á landinu.

Cable settist strax í íslenskutíma hjá Einari H. Kvaran rithöfundi og talaði málið reiprennandi eftir nokkra mánuði. Hann komst fljótt að því, að Íslendingar væru hlynntir Bretum og samstarfsfúsir. Hann fékk til dæmis Íslending til að laumast um borð í þýskt skip og lýsa öllum búnaði fyrir sér. Einnig fékk hann starfsmann loftskeytastöðvarinnar til að afhenda sér skeyti milli þýska kjörræðismannsins í Reykjavík og Þýskalands. En eftir 1915 var aðalverkefni Cables að reyna að koma í veg fyrir, að íslenskar afurðir bærust til Þýskalands um Danmörku. Greip hann til ýmissa ráða í því skyni, eins og Sólrún B. Jensdóttir lýsir í fróðlegu riti um þessi ár. Cable lét einnig reka nokkra opinbera starfsmenn, sem taldir voru Þjóðverjahollir. Hótaði hann ella að stöðva kolasölu til landsins. Cable ritskoðaði enn fremur loftskeyti og millilandapóst.  

Cable var vinsæll á Íslandi, þótt hann þætti harður í horn að taka. Hann hvarf héðan 1919 og gegndi síðan víða störfum. Á meðan Cable var ræðismaður í Kaupmannahöfn, 1933–1939, kom hann oft til Íslands og endurnýjaði samband við vini og kunningja. Eftir það varð hann ræðismaður í Köln og Rotterdam um skamma hríð, en síðast í Zürich 1942–1947. Í Sviss tók hann þátt í leynilegum viðræðum við þýska áhrifamenn, sem vildu binda enda á stríðið, þótt ekkert yrði úr. Hefur talsvert verið um það skrifað. Sá grunur lék á, að Cable ynni fyrir bresku leyniþjónustuna, MI6. Hann lést 1970.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. júlí 2015.)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband