Reductio ad Hitlerum

hitler_495545.jpgNýlega kom út í Bandaríkjunum greinasafn um bankahrunið íslenska, sem Gísli Pálsson og E. Paul Durrenberger ritstýrðu. Í formála víkja þeir að frægu hugtaki Hönnu Arendt, hversdagslegri mannvonsku (banality of evil), sem hún notaði í tilefni réttarhalda yfir Adolf Eichmann í Jórsölum. Síðan segja þeir: „Þó voru Eichmann og hans líkar ekki aðeins að hlýða fyrirmælum. Þeir trúðu í einlægni á þann málstað og það kerfi, sem þeir þjónuðu. Nýfrjálshyggjan er jafnhversdagsleg. Við teljum, að hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar, með rætur sínar í Bandaríkjunum og hámarki í kröfunni um hröð umskipti, hnitmiðaða og samfellda áróðursvél og framgang Chicago-skólans í hagfræði og kynningu nýfrjálshyggjunnar sem heilsteypts hugmyndakerfis, sé söguleg hliðstæða. Hún virðist eðlileg, enginn virðist ábyrgur, og allir eru aðeins að hlýða fyrirmælum.“

Þeir Gísli segja líka: „Nýfrjálshyggja sækir réttlætingu í „vísindalega“ hagfræði. Samt sem áður hefur hún haft í för með sér ólýsanlegt ofbeldi og eymd um allan heim. Frá sjónarmiði fórnarlambanna séð er þetta vissulega sambærilegt við árásir víkinga. Framkvæmd þessarar hugmyndafræði og almenn viðurkenning hennar, hvort heldur í smáu eða stóru, er skýrt dæmi um hversdagslega mannvonsku.“

Þessari samlíkingu hefur verið gefið sérstakt nafn, „Reductio ad Hitlerum“, Hitlers-aðleiðslan. Er varað við henni í rökfræði. Til dæmis getur verið, að frjálshyggjumaður trúi af sömu ástríðu á málstað sinn og nasisti. En með því er ekkert sagt um, hvort frjálshyggja sé skyld nasisma. Raunar er frjálshyggja eins langt frá nasisma og hægt er að vera, því að kjarni hennar er viðskipti frekar en valdboð. „Tilhneiging þín til að skjóta á náungann minnkar, ef þú sérð í honum væntanlegan viðskiptavin,“ sagði frjálshyggjumaður á nítjándu öld. Frjálshyggja hefur hvergi verið framkvæmd hrein og tær, en samkvæmt alþjóðlegum mælingum eru þau lönd, sem helst nálgast frjálshyggjuhugmyndir um hagstjórn, Sviss, Ástralía, Nýja-Sjáland, Bretland og Kanada. Hverjum dettur öðrum í hug en Gísla Pálssyni og E. Paul Durrenberger að bera þau saman við Hitlers-Þýskaland?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. mars 2015.)


Sömdu Svíar af sér Ísland?

i_769_sland_hvi_769_tt.jpgMeð ólíkindum er, hversu hljóðlega og átakalaust Ísland fylgdi Danmörku í Kílarfriðnum, sem saminn var 14. janúar 1814, en þá var Danmörk neydd til að láta Noreg af hendi við Svíþjóð. Með Gissurarsáttmála 1262 höfðu Íslendingar þrátt fyrir allt játast undir Noregskonung, og um skeið á fjórtándu öld var Ísland í konungssambandi við Svíþjóð eina, hvorki við Noreg né Danmörku. Þótt Íslandi væri stjórnað frá Kaupmannahafn, var landið jafnan talið ásamt Grænlandi og Færeyjum til skattlanda Noregskonungs.  

Skýringin er ótrúleg. Samningamaður Dana í Kíl var Edmund Bourke greifi, snjall maður og slægvitur. Hann hafði fengið fullt umboð Friðriks VI. Danakonungs til að láta Noreg allan af hendi. En honum tókst að setja sérstakt ákvæði inn í 4. grein samningsins, þar sem kveðið var á um, að Danakonungur afsalaði sér yfirráðum yfir Noregi öllum til Svíakonungs að Grænlandi, Færeyjum og Íslandi undanskildum. Svo virðist sem samningamaður Svía í Kíl, Gustaf af Wetterstedt, hafi ekki vitað, að þessi þrjú skattlönd voru í upphafi norsk. Þetta sést af bréfi, sem Wetterstedt skrifaði sænska utanríkisráðherranum í Stokkhólmi tveimur dögum síðar. Það er á frönsku, en kaflinn um Ísland hljóðar svo (í þýðingu úr Skírni 1888): „Þó að Ísland, Grænland og Færeyjar hafi aldrei heyrt til Noregi, þá hefur herra Bourke beðið um, að þeirra væri sérstaklega minnst í 4. grein samningsins, og mér hefur fundist, að ég ætti ekki að neita honum um það.“

Þótt vanþekking hins sænska samningamanns sé hrópleg, er hún áreiðanlega líka dæmi um áhugaleysi Svía á hinum norsku skattlöndum í Norður-Atlantshafi. Ísland þótti svo lítils virði, að hvorki Svíar né Bretar lögðu það undir sig, þótt bæði ríkin hefðu á því færi. En því má velta fyrir sér, hver framvindan hefði orðið, hefðu Svíar tekið við Noregi ásamt fornum skattlöndum þess 1814, en ekki samið þau af sér. Hefði Ísland þá orðið fullvalda ríki í konungssambandi við Noreg 1905, þegar Norðmenn sögðu upp konungssambandinu við Svía?

[Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. mars 2015. Þau Anna Agnarsdóttir prófessor og Björn Bjarnason, fyrrv. menntamálaráðherra, hafa bæði haft samband við mig til að segja, að ef til vill hafi kaupin ekki verið þessi á eyrinni: Bretar hafi ráðið því, að skattlöndin í Norður-Atlantshafi hafi gengið undir Danmörku frekar en Svíþjóð. Er von á ritgerð eftir Önnu um þetta, sem gaman verður að lesa, en fyrir mér er þetta ráðgáta. En myndin í horninu af hinu hrjóstuga landi er: Jeff Schmaltz, MODIS Land Rapid Response Team, NASA GSFC]

 


Ísland í sambandi við Svíþjóð

Eftir bankahrunið 2008 hefur oft heyrst, að Íslendingar geti ekki staðið á eigin fótum. Þeir þurfi skjól. Þeir hafi til dæmis gengist á hönd Noregskonungi 1262 til að fá skjól af Noregi. Hvað sem þeirri kenningu líður, reyndist lítið skjól í Noregi. Það land varð nánast gjaldþrota í Svartadauða um miðja fjórtándu öld. Því var um megn að halda uppi siglingum til Íslands, og varð að fela það Hansakaupmönnum. Jafnframt var alla fjórtándu öld linnulaus togstreita um völd í Noregi og öðrum norrænum konungsríkjum.

16219600_120010815683.jpgÍsland blandaðist á óvæntan hátt inn í þessa togstreitu. Magnús VII. Eiríksson Noregskonungur, sem tók við ríki 1319, varð um leið konungur Svíþjóðar. Norðmenn settu hins vegar Magnús af 1343 og tóku yngri son hans, Hákon Magnússon, til konungs. Eftir það var Magnús aðeins konungur í Svíþjóð. En hann hélt yfirráðum yfir hinum norsku skattlöndum í Norður-Atlantshafi, Grænlandi, Íslandi og Færeyjum. Svíþjóð gekk hins vegar úr greipum hans 1364. Ísland var því í tuttugu og eitt ár í konungssambandi við Svíþjóð, en ekki Noreg. Ísland lenti síðan 1380 ásamt öðrum norskum skattlöndum undir stjórn Danakonungs, þegar sonarsonur Magnúsar, Ólafur Hákonarson, erfði norsku krúnuna, en hann hafði orðið Danakonungur 1376. Hélst konungssambandið við Danmörku allt til 1944.

Magnús VII. var iðulega kallaður smek. Var það jafnan haft eftir skýringarlaust í íslenskum heimildum. Eftir nokkurt grúsk (og aðstoð Árnastofnunar) hef ég komist að því, að orðið er ekki íslenskt, heldur sænskt og merkir kjass eða flaður. Deila fræðimenn um, hvort það vísi til þess, að konungur hafi frekar verið hneigður til karla en kvenna, eins og svarinn óvinur hans, heilög Birgitta, hélt fram, eða að hann hafi verið veikur fyrir smjaðri. En eftir þessum tveimur merkingum mætti ýmist þýða viðurnefnið sem „kjassari“ eða „kjassaður“.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. febrúar 2015.)


Til hvers var Gissurarsáttmáli?

Einn samkennari minn, Baldur Þórhallsson, fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar, er umsjónarmaður rannsóknarverkefnis um „leitina að skjóli“. Hann heldur því fram, að Íslendingar hafi gert Gissurarsáttmála (eins og fræðimenn vilja kalla sáttmálann frá 1262, en Gamli sáttmáli var gerður 1302) til að hafa skjól af Noregskonungi. Þeir hafi viljað stofna framkvæmdarvald til að binda enda á langvinnt borgarastríð og einnig viljað tryggja verslun við landið.

Stenst fyrri skýringin? Árið 1262 var kominn á friður í landinu, því að Gissur jarl Þorvaldsson hafði sigrað keppinauta sína. Borgarastríðinu var lokið. Sennilegra er, að Gissur hafi viljað eignast öflugan bakhjarl í Noregskonungi. Jarlar þarfnast konunga, þótt þjóðir geti verið án þeirra. Næstu aldir var konungsvald þó mjög veikt á Íslandi. Tveir hirðstjórar konungs voru jafnvel drepnir, Jón skráveifa og Smiður Andrésson, að ógleymdum Jóni Gerrekssyni. Ekkert skjól reyndist í Noregi, sem hafði ekki einu sinni afl til að halda uppi sjálfstæðu ríki eftir Svarta dauða um miðja fjórtándu öld. Þótt konungsvald styrktist hér upp úr siðaskiptum, var Ísland áfram óvarið, eins og Tyrkjaránið 1627 og hundadagastjórn Jörundar 1809 sýndu. Ekkert skjól reyndist heldur í Danmörku, sem sneri sér inn á við eftir herfilegan ósigur fyrir Þjóðverjum 1864. „Hvad udad tabes, skal indad vindes,“ orti Hans Peter Holst. Úti fyrir tapað, inni endurskapað.

Seinni skýringin er áreiðanlega rétt. Ella hefði ekki verið ákvæði í Gissurarsáttmála um, að konungur myndi tryggja siglingu sex skipa á ári. En hvers vegna þurfti slíkt ákvæði? Framboð skapast, þar sem er eftirspurn. Ég kem auga á tvennt. Í fyrsta lagi hafi íslenskir valdamenn haldið uppi svo ströngu verðlagseftirliti á 13. öld, að norskir kaupmenn hafi ekki lengur séð sér hag í að versla við Íslendinga. Í öðru lagi hafi aðalútflutningsafurðin, vaðmál, fallið í verði, væntanlega vegna minni eftirspurnar erlendis. Fljótlega varð fiskur að vísu aðalútflutningsafurðin. En þá aðstoðaði hinn erlendi konungur innlenda stórbændur við að stöðva viðgang sjávarútvegs. Skjólið reyndist gildra.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. febrúar 2015.)

[Páll Bergþórsson veðurfræðingur gerir þá athugasemd, að kólnun hafi valdið einhverju um lítinn áhuga á siglingum til Íslands. Hann hefur áreiðanlega rétt fyrir sér um það, að loftslag og veðurfar hafa haft sitt að segja um ýmsa viðburði Íslandssögunnar, til dæmis landnámið (Ísland var miklu byggilegra þá en oft síðan) og landafundina í Vesturheimi (eflaust var gróðurfar og loftslag þar betra á hlýindaskeiðinu um 1000). En loftslagið breytir ekki því, að verð ræður mestu um vilja manna til siglinga. Menn sigla, ef það borgar sig, hvort sem kalt er eða hlýtt.]


Þorsteinn Erlingsson

images.jpgSunnudaginn 17. apríl 1921 var húsfyllir í Nýja bíói í Reykjavík. Guðmundur Friðjónsson skáld á Sandi flutti þá erindi um bolsévisma, eins og sósíalismi var þá oft nefndur, því að bolsévíkar undir forystu Vladímírs Leníns höfðu hrifsað til sín völd í Rússlandi 1917. Erindi Guðmundar birtist í greinasafninu Uppsprettulindum 1921 og er hið mergjaðasta. Var skáldið mjög andvígt sósíalisma. Eftir að Guðmundur hafði flutt erindi sitt, ruddist sósíalistinn Ólafur Friðriksson ritstjóri óboðinn upp á svið og andmælti honum. Gerðu fundarmenn hróp að Ólafi. Á meðal þeirra voru tvær ungar stúlkur, Svanhildur Þorsteinsdóttir og Ásfríður Ásgrímsdóttir.

Svanhildur var dóttir Þorsteins Erlingssonar skálds, sem látist hafði langt fyrir aldur fram 1914. Sonur hennar, dr. Þorsteinn Sæmundsson stjarnfræðingur, hefur vakið athygli mína á dagbókarbroti eftir Svanhildi frá 18. apríl 1921: „Halló, ég er orðin stjórnmálakona, Í morgun fékk ég bréf. Fyrst var skrifuð upp heil röð af kvæðum eftir pabba. Síðan stendur: „Getur það verið að dóttir Þorsteins Erlingssonar, eina byltingarmannsins í skáldskap, sé á móti þeim mönnum sem einir hafa hug og kjark til að uppfylla hugsjónir hans?“ Þessu varð ég reglulega reið, því pabbi var hægri manna sósíalisti en var dáinn þegar Bolshevisminn varð til. Hann vildi fá allt með framþróun, en ekki blóði og manndrápum.“

Ungur piltur, Stefán Pjetursson, sem aðhylltist þá kommúnisma, en hvarf síðar frá honum, mun hafa skrifað bréfið til Svanhildar. En athyglisvert er, að þessi fimmtán ára stúlka skyldi geta gert sama greinarmun og heimspekingarnir John Stuart Mill  og Robert Nozick á sjálfvöldum og valdboðnum sósíalisma. Mill taldi líklegt, að sósíalisminn myndi sigra, en þá vegna þess, að fyrirtækjum í eigu launþega myndi vegna betur en fyrirtækjum kapítalista. Og Nozick sagðist ekki vera á móti sósíalisma, ef menn völdu hann fyrir sjálfa sig og ekki aðra, og vísaði á samyrkjubúin í Ísrael: Þeir, sem vildu verða sósíalistar, fluttust þangað, en neyddu aðra ekki þangað með sér. Þessi var stjórnmálaskoðun Þorsteins Erlingssonar, ef marka má dóttur hans.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. febrúar 2015.)


Bloggfærslur 7. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband