Furðuskrif um sjálfstæðisbaráttuna

jo_769_nsigur_sson.jpgSvo virðist sem allt megi segja um Íslendinga erlendis. Kristín Loftsdóttir skrifar í nýútkomnu greinasafni um bankahrunið, Gambling Debt, bls. 6-7: „Um miðja nítjándu öld var Ísland eitt af fátækustu löndum Evrópu. Þótt það væri fjárhagsleg byrði á Danmörku, hafði það barist fyrir sjálfstæði í heila öld. Lokabaráttan hófst um miðja nítjándu öld undir áhrifum íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn, sem mótuðust af þjóðernisstefnu í Evrópu. Á þessum tíma voru miðaldabókmenntir Íslendinga (sögurnar) og tungan helstu þættirnir í því að skapa sérstaka íslenska þjóðarvitund.“

Þetta er allt rangt nema það, að Ísland var fátækt. Sjálfstæðisbaráttan hafði ekki staðið í heila öld í kringum 1850, heldur hófst hún um þetta leyti, ekki síst með „Hugvekju til Íslendinga“ eftir Jón Sigurðsson 1848.

Í öðru lagi var Ísland ekki fjárhagsleg byrði á Danmörku, þótt vissulega hafi gjöld danska ríkissjóðsins vegna Íslands verið talsvert hærri en tekjur af landinu um miðja nítjándu öld. En eins og Jón Sigurðsson reiknaði út, hafði Danmörk verið fjárhagsleg byrði á Íslandi vegna einokunarverslunarinnar og eignarnáms konungs á jörðum.

Í þriðja lagi háðu stúdentar í Kaupmannahöfn ekki sjálfstæðisbaráttuna, þótt þeir styddu hana langflestir, heldur meiri hluti Alþingis undir forystu Jóns Sigurðssonar og aðrir stuðningsmenn hans, þar á meðal Tryggvi Gunnarsson og Þorlákur Ó. Johnson.

Í fjórða lagi var sérstök íslensk þjóðarvitund ekki sköpuð á nítjándu öld, heldur hafði hún verið til frá öndverðu. Þegar Haraldur blátönn Danakonungur gerði íslenskt skip upptækt á síðari helmingi tíundu aldar, ortu Íslendingar um hann níðvísur. Þegar sænsk kona hafði orð á því við Sighvat Þórðarson 1018, að hann væri dökkeygari en gerðist í Svíþjóð, orti hann um hin íslensku augu sín. Íslendingar gerðu þegar árið 1022 sáttmála við Noregskonung um rétt sinn í Noregi. Íslendingar litu aldrei á sig sem Norðmenn og því síður Dani.

Í fimmta lagi hafði Arngrímur lærði þegar á öndverðri sautjándu öld bent á, að Íslendingar gætu verið hreyknir af bókmenntum sínum og tungu. Þetta var því ekkert nýtt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. maí 2015.)


Kílarfriður enn í gildi?

Þegar Svíar fengu Noreg í sárabætur fyrir Finnland með friðarsamningnum í Kíl 1814, fylgdu ekki með hin fornu norsku skattlönd í Norður-Atlantshafi, Ísland, Færeyjar og Grænland. Ég hef áður sagt frá skemmtilegri skýringu á því, sem er ekki beinlínis ósönn, en getur samt ekki verið allur sannleikurinn. Hún er, að sænski samningamaðurinn í Kíl, Gustaf af Wetterstedt, hafi ekki vitað, að þessi þrjú eylönd hafi verið norsk skattlönd. Það kemur fram í bréfi hans til sænska utanríkisráðherrans, sem flýtti sér hins vegar að leiðrétta hann.

Auðvitað getur vanþekking sænsks samningamanns ekki verið fullnaðarskýring. Aðalatriðið hlýtur að vera, eins og prófessor Harald Gustafsson í Lundi hefur bent á, að Svíar ásældust ekki þessi þrjú fjarlægu og fátæku eylönd í Norður-Atlantshafi. Þótt þeir gerðu engar kröfur um þau, fannst hinum slynga danska samningamanni, Edmund Bourke greifa, vissara að setja sérstakt ákvæði í friðarsamninginn um, að eylöndin þrjú fylgdu ekki Noregi.

Þess hefur verið getið til, að Bretar hafi ráðið þessum málalyktum. Þeir hafi ekki kært sig um, að voldugt ríki eins og Svíþjóð réði eylöndunum í Norður-Atlantshafi, sem breski flotinn taldi sitt yfirráðasvæði. Að vísu finnast engar heimildir um þetta, svo að ég viti, en víst er, að áhugi Breta á Íslandi hefur ætíð verið neikvæður: Þeir hafa sjálfir ekki viljað leggja Ísland undir sig, en ekki heldur kært sig um, að önnur ríki Evrópu gerðu það.

Er í Kílarfriðnum 1814 fólgin vísbending til okkar nútímamanna? Ef svo er, þá er hún, að Ísland eigi ekki að reyna að verða hluti af meginlandi Evrópu, heldur miklu frekar halda áfram að vera sérstakt eyland í Norður-Atlantshafi. Það eigi helst heima með öðrum löndum Norður-Atlantshafs, Stóra-Bretlandi, Noregi, Kanada og Bandaríkjunum að ógleymdum Færeyjum, Írlandi og Grænlandi. Var mat Svía fyrir 201 ári rétt?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. maí 2015. Hér að neðan er leiðakerfi Icelandair.)

icelandair-routemap.jpg


Mario Vargas Llosa

vargasllosa.jpgPerúski rithöfundurinn Mario Vargas Llosa, sem hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum 2010, var heiðursgestur svæðisþings Mont Pelerin samtakanna í Lima í Perú, sem ég sótti í mars 2015. Þau eru alþjóðleg samtök frjálslyndra fræðimanna, og sat ég þar í stjórn 1998–2004, auk þess sem ég skipulagði svæðisþing þeirra í Reykjavík 2005. Vargas Llosa er frábær rithöfundur, en því miður er eftirlætisbók mín eftir hann, Veisla geithafursins (La fiesta del chivo), enn ekki komin út á íslensku.

Vargas Llosa er hávaxinn maður, fríður sýnum, hvíthærður, með afbrigðum höfðinglegur í fasi. Hann er kominn fast að áttræðu, en ber aldurinn vel. Hann flutti ræðu á ráðstefnunni og tók líka þátt í dagskrá utan funda, til dæmis útreiðarferð á búgarði nálægt Lima og dansleik í ráðstefnulok, en þá bauð hispursmær honum upp fyrstum ráðstefnugesta, og lét hann sér það vel líka. Það var fróðlegt að heyra Vargas Llosa lýsa skoðanaskiptum sínum, en hann var kommúnisti ungur, en hefur síðustu fjörutíu árin verið yfirlýstur frjálshyggjumaður. Hann kvaðst hafa verið lestrarhestur alla tíð, en tvær bækur hefðu haft mest áhrif á sig.

Önnur var Úr álögum (Out of the Night) eftir Jan Valtin, öðru nafni Richard Krebs, en hún kom út á íslensku í tveimur hlutum 1941 og 1944. Er löng saga af útkomu hennar, sem ég segi í ritinu Íslenskum kommúnistum 1918–1998. Vargas Llosa sagðist hafa dáðst að söguhetjunni fyrir eldmóð í baráttunni fyrir bættum kjörum alþýðu.

Hin bókin var Opið skipulag og óvinir þess (The Open Society and Its Enemies) eftir Karl Popper, einn af stofnendum Mont Pelerin samtakanna. Vargas Llosa kvaðst hafa komist í eins konar andlega vímu, þegar hann las hana. Popper færði sterk rök gegn alræðisstefnu Marx og tilraunum til að gerbreyta þjóðskipulaginu í einu vetfangi.

Kjarni frjálshyggjunnar að sögn Vargas Llosa væri umburðarlyndið, sem sprytti af vitundinni um skeikulleika mannanna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. apríl 2015. Ég breytti hér bókartitli Vargas Llosa eftir ábendingu Arnar Ólafssonar. Þetta er auðvitað ekki geit, heldur geithafur, sem getur verið táknmynd greddu, eins og allir skilja, sem lesið hafa bókina.)

 


Bloggfærslur 9. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband