Hvað hef ég að segja um bankahrunið?

Svarið við þeirri spurningu er að sumu leyti í ræðu minni á málstofu, sem RNH (Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt) og Félag stjórnmálafræðinga héldu í Háskóla Íslands 14. janúar 2015 og Viðskiptablaðið tók upp:

 



Ólafur ætlar að vera áfram

Mér heyrist á ræðu Ólafs Ragnars Grímssonar við setningu Alþingis, að hann sé að undirbúa sig undir að vera áfram forseti. Hann tók fram, að hann væri að setja núverandi þing í síðasta sinn samkvæmt núverandi umboði. En það umboð má auðvitað endurnýja. Hann gerði líka mikið úr því, að verja þyrfti fullveldið. Þar liggur styrkur hans. Það má Ólafur Ragnar eiga, að hann bjargaði (ásamt mörgum öðrum) þjóðinni undan því skuldafangelsi, sem vinstri flokkarnir ætluðu að leiða hana í eftir bankahrunið í von um að geta lagt til fangelsisstjórana. Erfitt verður að fella hann.

bessastadirblys_jan_2010.jpg

 


Er ég á móti flóttafólki frá múslimaríkjum?

Menn spyrja, hvort ég sé á móti flóttafólki frá múslimaríkjum. Svarið er: Auðvitað ekki. Allir innflytjendur eiga að vera jafnir fyrir lögum um innflytjendur. Hins vegar verður ekki horft fram hjá því, að múslimar virðast sumir aðlagast vestrænni menningu verr en aðrir, og bitnar það ekki síst á mörgu ágætu fólki úr röðum múslima, sem verður þá fyrir sleggjudómum vegna trúsystkina sinna. Ef við þurfum að taka við flóttafólki, þá ættum við að taka við vel menntuðu fólki, sem getur unnið fyrir sér og vill gera það, ekki ungum, atvinnulausum, ómenntuðum og herskáum körlum, sem munda farsímann í dag, en ef til vill eitthvað verra tæki annað á morgun. Og mér finnst talan 50 vera mjög hæfileg, þótt ég skilji vel Jón Magnússon hæstaréttarlögmann, sem andmælir því með ýmsum rökum, þar á meðal skyldum okkar við eigin þjóð. Íslendingar geta ekki látið stríðan flóttamannastraum kaffæra það góða mannlíf, sem hér hefur sprottið þrátt fyrir myrkur og kulda, eld og ís. Þetta mannlíf okkar er viðkvæm jurt og þolir ekki mikinn ágang.

Barnaskapur og hermennska

varnarli_v_1936.jpg

Árið 1977 lauk Svanur Kristjánsson doktorsprófi frá Háskólanum í Illinos með ritgerð um íslensk stjórnmál 1916–1944. Hann minntist þar á þrjá Íslendinga, sem gerðust sjálfboðaliðar í spænska borgarastríðinu á vegum kommúnista, og skrifar í hrifningartón: „Þessi liðsganga hefur verið mjög óvenjuleg og borið vitni um miklar hugsjónir, þar sem Íslendingar hlutu enga hernaðarþjálfun og hermennska var þeim ókunnug með öllu.“

Barnalega er talað. Einn þessara þriggja manna, Hallgrímur Hallgrímsson, var harðskeyttur stalínisti og hafði hlotið hernaðarþjálfun í æfingabúðum Kominterns, Alþjóðasambands kommúnista, í Moskvu árin 1931–1932. Þessar búðir voru kallaðir skólar, enda voru þar kennd marxísk fræði, en einnig voru nemendurnir þjálfaðir í undirróðri, skipulagningu götuóeirða og verkfalla og vopnaburði. Alls vistuðust 23 Íslendingar í þessum æfingabúðum árin 1929–1938. Þjálfunin átti að vera strangleynileg, og var látið svo heita, að Íslendingarnir stunduðu verkamannavinnu í Moskvu. En Morgunblaðið hafði 21. júní 1938 upplýst um hernaðarþjálfun Hallgríms í Moskvu.

Hallgrímur gekk hart fram í stríðinu og hlaut sérstaka viðurkenningu ásamt nokkrum öðrum Norðurlandabúum. Útvegaði ég skjöl um það frá Moskvu og setti á handritadeild Landsbókasafnsins, þar sem þau eru varðveitt með öðrum skjölum um Alþjóðasamband kommúnista. Hallgrímur og hinir tveir sjálfboðaliðarnir úr röðum íslenskra kommúnista, Björn Guðmundsson og Aðalsteinn Þorsteinsson, voru líka í svonefndu Varnarliði verkalýðsins, sem stofnað var 1932. Það gekk einkennisklætt um götur Reykjavíkur og sveiflaði bareflum. Hitt vissu færri, að Varnarliðið stundaði æfingar, og um fimmtán liðsmenn áttu líka á laun skotvopn, sem danskur rafvirki, Henry A. Åberg, hafði haft milligöngu um að útvega.

Fleira er talað barnalegt í ritgerð Svans: Hinir tveir sjálfboðaliðarnir, Björn og Aðalsteinn, börðust aldrei í stríðinu. Þegar þeir komu til Spánar, hafði lýðveldisstjórnin ákveðið að senda alla sjálfboðaliðana heim. Björn fékk skeinu, þegar þjóðernissinnar gerðu loftárás á skála, þar sem hann sat við sýsl sitt. Björn kemur raunar fyrir í bókum bróðursonar síns, Einars Más Guðmundssonar, sem „Ragnar risi“.

Hitt er annað mál, að fjórði Íslendingurinn barðist í Spánarstríðinu, og er af honum talsvert saga. Hann var nátengdur Morgunblaðinu, og skrifa ég um hann seinna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. september 2015. Myndin er af Varnarliði verkalýðsins að þramma um Reykjavík 1. maí 1936, og stendur Hallgrímur Hallgrímsson með barefli fremst til hægri.)


Handrit ánöfnuð eldinum?

jonasgeirogforsetinn1_1269026.jpgSherlock Holmes taldi merkilegast, að hundurinn gelti ekki. Stundum á þetta líka við um bækur. Það getur verið merkilegast, að þær komi ekki út. Ég hef í grúski mínu rekist á nokkur dæmi.

Ungverski rithöfundurinn Arthur Koestler varð hetja kommúnista, eftir að hann slapp vorið 1937 úr fangelsi þjóðernissinna í spænska borgarastríðinu. Tilkynnt var, að kunnur kommúnisti, Þorvaldur Þórarinsson, væri að þýða bók hans, Eftirmæli um Spán (Spanish Testament), fyrir Mál og menningu. En þegar Koestler sneri baki við kommúnismanum, var hætt við útgáfuna.

Jón Óskar vildi þýða skáldsögu eftir rúmenska rithöfundinn Panait Istrati. Forstjóri Máls og menningar taldi það ekki koma til greina, því að Istrati væri svikari við sósíalismann.

Karl Ísfeld þýddi skáldsöguna Fontamara eftir ítalska rithöfundinn Ignazio Silone, og birtust á stríðsárunum kaflar úr henni í Vinnunni, tímariti Alþýðusambands Íslands. En Silone lýsti yfir andstöðu við kommúnismann, og eftir það vildi Mál og menning eflaust ekki gefa bókina út.

Fleiri dæmi má nefna frá liðnum tíma. Önnur eru þó nærtækari. Ég hef þegar minnst hér á bók um Jón Ásgeir Jóhannesson, The Ice Man Cometh, eftir Jonathan Edwards og Ian Griffiths, sem auglýst var á Amazon og átti að koma út haustið 2007. Af þeirri bók hefur ekkert spurst.

Og nú les ég á Wikileaks í skýrslu 2. júní 2008 eftir bandaríska sendiherrann á Íslandi, Carol van Voorst, að Ólafur Ragnar Grímsson forseti hafi ætlað að láta birta um sig ævisögu á ensku haustið 2007 til þess að auka möguleika sína á að fá alþjóðlega trúnaðarstöðu, en hann hafi hætt við útgáfuna, þegar ljóst varð, að hann næði endurkjöri 2008 án mótframboðs.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. ágúst 2015.)


Málverkin heima hjá mér

Bergsteinn Sigurðsson sagnfræðingur hafði samband við mig og bað mig um að sýna sér málverk af mér heima hjá mér fyrir sjónvarpsþátt, sem hann var að gera. Ég varð fúslega við því:
Málverkið í stofunni er eftir Pétur Gaut Svavarsson og er frá 1991, og keypti ég það af honum til að styrkja ungan og efnilegan listamann, sem síðan hefur reynst traustsins verður. Málverkið í bókastofunni er frá 2013. Það er eftir Stephen Lárus Stephen, og færðu þrír vinir mínir mér í sextugsafmælisgjöf, þeir Davíð Oddsson, Kjartan Gunnarsson og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson. Ég var svo forviða og um leið ánægður með það, þegar ég fékk það afhent í afmælisveislunni, að ég kom ekki upp orði.

(Ég þakka Láru Hönnu Einarsdóttur kærlega fyrir hugulsemina að klippa þetta sérstaklega og setja á Netið. Hún hefur gert margt heimskulegra um dagana.)


Af hverju eru Samfylkingarráðherrarnir ekki spurðir?

Fréttamenn sýna hina mestu hörku, þegar þeir spyrja forystumenn Sjálfstæðisflokksins spurninga. Við því væri ekkert að segja, sýndu þeir forystumönnum vinstri flokkanna sömu hörku. En það gera þeir ekki. Ég nefni tvö dæmi:

  1. Ein ástæðan til flóttamannavandans er hið svokallaða „arabíska vor“, sem fólst í því, að Realpolitik eða raunsæisstefna í utanríkismálum þokaði fyrir hugsjónastefnu gagnvart Arabaríkjunum. Bandaríkin sneru baki við gömlum bandamanni í Egyptalandi, og Atlantshafsbandalagið hóf loftárásir á Líbíu. Allt fór á annan endann í þessum löndum og jafnframt í Sýrlandi, þar sem upp risu vígasveitir ISIS, en ráða þarf niðurlögum þeirra af fullri einbeitni. En þau Jóhanna, Steingrímur og Össur sátu í ríkisstjórn, þegar loftárásirnar voru gerðar á Líbíu. Af hverju beittu þau ekki neitunarvaldinu innan Atlantshafsbandalagsins? Af hverju eru þau aldrei spurð út í þetta mál?
  2. Björgólfur Thor Björgólfsson kveðst í bók sinni hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því, að ráðherrar Samfylkingarinnar hafi fengið því ráðið, að Seðlabankinn veitti Kaupþingi neyðarlán í bankahruninu, en ekki Landsbankanum (eða engum). Víst er að minnsta kosti, að seðlabankastjórnin þáverandi var ekki í mjög nánum tengslum við Kaupþing, þótt auðvitað eigi efnislegar ástæður að ráða slíkum ákvörðunum. Af hverju hefur enginn fréttamaður spurt þáverandi ráðherra, til dæmis Jóhönnu, Össur og Björgvin, út í þetta? Höfðu þau enga skoðun á málinu? Létu þau eitthvað til sín taka um það? Ef frásögn Björgólfs Thors er röng, þá hljóta þau að geta vísað henni á bug.

Er Helgi Seljan aðeins orðskár og upplitsdjarfur, þegar hann þarf að eiga við sjálfstæðismenn? Breytist hann í hlýðinn og lágmæltan húskarl, þegar hann stendur andspænis vinstri mönnum? Og fer svo öðrum fréttamönnum? Hvar eru Þórður Snær og Magnús Halldórsson? Eða Ingi Freyr? Var þetta allt í nösunum á þeim?

Raunar mætti spyrja þriðju spurningarinnar, ef út í það er farið. Einhver laumaði upplýsingum í fjölmiðla fyrir kosningarnar 2009 um háa styrki útrásarfyrirtækja árið 2006 til Sjálfstæðisflokksins. Málið varð flokknum erfitt í kosningunum. Mánuði eftir kosningar birti Samfylkingin yfirlit yfir styrki frá útrásarfyrirtækjum. Samtals fékk Samfylkingin 73 milljónir frá stórfyrirtækjum árið 2006. Af hverju hefur Samfylkingin ekki heitið að endurgreiða þetta fé eins og Sjálfstæðisflokkurinn? Á Sjálfstæðisflokkurinn ekki að semja við Samfylkinguna um, að flokkarnir verði samstíga með að endurgreiða þetta fé? Af hverju eru forystumenn Samfylkingarinnar aldrei spurðir um þetta mál?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband