Skýringin á velgengni íslenskra kommúnista

einarolgeirssonulbricht_copy.jpgSkafti Ingimarsson er eini vinstri sinnaði sagnfræðingurinn, sem gagnrýnt hefur málefnalega bók mína um Íslenska kommúnista 1918–1998, þótt sú gagnrýni sé aðallega fólgin í því að tilkynna mér, að ég hefði átt að skrifa bók um það, hvers vegna íslenskum kommúnistum vegnaði betur í kosningum en skoðanasystkinum þeirra í grannríkjunum, en ekki um hitt, að þeir hefðu verið nátengdir ofbeldisstjórnum kommúnistaríkja. En vissulega er ráðgáta, að íslenska kommúnistahreyfingin varð miklu öflugri en hliðstæðar hreyfingar á Bretlandi og í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Ég hygg ekki, að verkalýðsbarátta íslenskra kommúnista sé skýringin, því að jafnaðarmenn ekki síður en kommúnistar stunduðu verkalýðsbaráttu í öllum þessum löndum. Þjóðfrelsisbarátta íslenskra kommúnista er ekki heldur skýringin á sókn þeirra 1937–1942, því að þá stunduðu þeir ekki slíka þjóðfrelsisbaráttu að ráði, þótt ef til vill hafi áköf andstaða þeirra við Bandaríkjamenn í Kalda stríðinu auðveldað þeim að halda þá velli þrátt fyrir fylgispektina við Kremlverja.

Eðlilegasti samanburðurinn er ekki við Bretland eða skandinavísku löndin þrjú, heldur við Finnland. Þar nutu kommúnistar eftir stríð svipaðs fylgis og á Íslandi, um 20% atkvæða, og þar bauð ekki fram sérstakur kommúnistaflokkur, heldur Lýðræðisbandalag, þar sem kommúnistar höfðu tögl og hagldir. Og hvað var líkt með Íslandi og Finnlandi og ólíkt með þessum löndum og hinum fjórum, Bretlandi, Danmörku, Svíþjóð og Noregi? Aðallega þrennt: Ísland og Finnland höfðu löngum verið undir yfirráðum annarra ríkja, hagkerfi þessara tveggja landa var í upphafi nútímastjórnmála skemmra á veg komið en á Bretlandi og í Skandinavíu og borgaralegt skipulag veikara. Með borgaralegu skipulagi á ég við hið þéttriðna net siða og venju, sem myndast á löngum tíma, kynslóð fram af kynslóð. Bretar og skandinavísku þjóðirnar þrjár stóðu á gömlum merg. Löghlýðni var þar rótgróin. Þar hafði almenningi smám saman lærst að stjórna sér sjálfum.

Byltingarseggir geta vænst miklu betri árangurs í tiltölulega nýjum ríkjum, þar sem örar breytingar hafa orðið og los er á fólki. Þessi skýringartilgáta styrkist af því að skoða önnur lönd Vestur-Evrópu, þar sem kommúnistar hafa notið verulegs fylgis, til dæmis Þýskaland milli stríða og Ítalíu eftir stríð. Þetta voru ný ríki með takmarkaða sjálfstjórnarhefð, eins og Ísland og Finnland. Frakkland kynni að þykja undantekning, en skýringin á talsverðu fylgi kommúnista þar er líklega svipaðs eðlis: vegna stjórnarbyltingarinnar 1789 höfðu stjórnmál þar aldrei komist í sömu föstu skorður og á Bretlandi og í skandínavísku löndunum þremur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. ágúst 2015. Myndin efst er af formanni Sósíalistaflokksins, Einari Olgeirssyni (lengst t. v. í öftustu röð), syngja Nallann með öðrum kommúnistaforingjum í Berlín 1957. Níkíta Khrústsjov er 2. frá v. í fremstu röð og Walter Ulbricht 3. frá v. Erich Mielke, forstöðumaður Stasi, hins illræmda öryggismálaráðuneytis Austur-Þýskalands, stendur lengst t. h. í þriðju röð. Frá Bundesarchiv 183 57000 0183.)


Útgerðarmenn: Þjóðhetjur, ekki þjóðníðingar

skaftareldar_stor_310113.jpgFyrstu þúsund ár Íslandssögunnar voru stríð við eld og ís. Þjóðin varð að lifa af kostarýru landi, og í hverju eldgosi lögðust einhverjar byggðir í eyði. Hafís rak iðulega að landi með vorinu, kældi andrúmsloft, teppti siglingar og lokaði miðum. Fámenn landeigendastétt réð lögum og lofum: Um 90% jarða voru setnar fátækum leiguliðum í lok sautjándu aldar. Hinn erlendi konungur hafði sammælst um það við landeigendastéttina að halda sjávarútvegi niðri. Þetta var gert með ýmsum ráðum. Allt frá 1490 var útlendingum bannað að hafa hér vetursetu, en það kom í veg fyrir erlenda fjárfestingu í fiskveiðum og myndun sjávarþorpa. Með vistarbandinu var verkafólki meinað að fara úr sveitum. Einokunarverslunin danska 1602–1787 var eins konar innheimtustofnun fyrir auðlindaskatt, sem lagður var á sjávarútveg og færður til landbúnaðar: Í verðskrám konungs um íslenskan varning voru sjávarafurðir verðlagðar langt undir heimsmarkaðsverði, en landbúnaðarafurðir langt yfir því, en það jafngilti auðvitað millifærslu frá sjávarútvegi.

Í Móðuharðindunum 1783–1785 hrundi þetta óhagkvæma skipulag. Einokunarverslunin var lögð niður, þótt fullt verslunarfrelsi fengist ekki fyrr en 1855. Smám saman efldist sjávarútvegur. Árið 1876 var síðasta árið, þegar meira var flutt út af landbúnaðarafurðum en sjávarafurðum. Tíu árum síðar var Landsbankinn stofnaður, og fjármagn tók að hlaðast upp í landinu. Skútuöld gekk í garð, en áður höfðu Íslendingar sótt sjóinn á opnum árabátum. Sjávarþorp mynduðust, og framtakssamir einstaklingar eins og Ásgeir Ásgeirsson á Ísafirði og Pétur Thorsteinsson á Bíldudal veittu fjölda manns vinnu. Áður hafði fátækt fólk fallið úr hungri.

thorjensen.jpgFramfarir urðu enn örari á fyrstu áratugum tuttugustu aldar, þegar vélbátar og togarar komu til sögu. Thor Jensen, sem fluttist hingað frá Danmörku, kvæntist íslenskri konu, skaut hér rótum og hefur verið kallaður síðasti landnámsmaðurinn, stofnaði 1912 togarafélagið Kveldúlf, sem var lengi eitt myndarlegasta fyrirtæki landsins. Þegar samningur, sem Danir höfðu gert við Breta um þriggja mílna landhelgi, rann út 1951, beitti sonur Thors Jensens, Ólafur Thors, sem þá var sjávarútvegsráðherra, sér fyrir fyrstu útfærslu landhelginnar. Fengu Íslendingar að lokum 200 mílna efnahagslögsögu viðurkennda. Nú þurftu Íslendingar ekki lengur að heyja stríð við eld og ís, heldur sóttu gull í greipar Ægis.

Eftir að Íslendingar öðluðust full yfirráð yfir Íslandsmiðum, rákust þeir hins vegar á þá staðreynd, að ótakmarkaður aðgangur að takmarkaðri auðlind leiðir til sóunar. Þeir voru reynslunni ríkari, eftir að síldin brást vegna ofveiði árin 1967–1968. Þegar síldveiðar hófust aftur 1975, var kvótum úthlutað, og þeir urðu framseljanlegir fjórum áður síðar. Sambærilegt kerfi var tekið upp í botnfiskveiðum 1984, og var kvótum í upphafi úthlutað eftir aflareynslu til að raska sem minnst högum þeirra, sem þegar stunduðu veiðar. Með frjálsu framsali hafa þeir lent í höndum þeirra, sem best kunna með þá að fara. Íslenskir útgerðarmenn reyndust vandanum vaxnir. Hér eru fiskveiðar arðbærar, en víðast annars staðar reknar með tapi. Nú reynir fámenn menntamannastétt að níða niður sjávarútveg eins og fámenn landeigendastétt fyrri alda gerði. En útgerðarmenn eru ekki þjóðníðingar, eins og háværir öfundarmenn halda fram, heldur þjóðhetjur. Allir græða á því, að þeir græði.

kvotakerfid.jpg

(Kjallari í DV 25. ágúst 2015. Aðalheimildir: Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland (Örn og Örlygur, Reykjavík 1987; Þráinn Eggertsson: Hvers vegna sultu Íslendingar? í Háskalegum hagkerfum (Hið ísl. bókmennafélag, Reykjavík 2007); Hannes H. Gissurarson: Overfishing: The Icelandic Solution (Institute of Economic Affairs, London, 2000. Myndin af Skaftáreldum eftir Ásgrím Jónsson, myndin af skuttogara af vef Lagastofnunar Háskóla Íslands.)


Skýringar og sakfellingar

Á Söguþingi 2012 gagnrýndi Skafti Ingimarsson sagnfræðingur bók mína um Íslenska kommúnista 1918–1998, en erindi hans er aðgengilegt á skemman.is. Hann benti að vísu ekki á neinar villur í henni, sem er fagnaðarefni, en hann kvað vænlegra til skilnings á kommúnistahreyfingunni íslensku að skoða, hvers vegna hún naut mikils fylgis, en að reyna að sakfella hana fyrir óeðlileg tengsl við valdhafana í Kreml.

Skafti hefur bæði rangt og rétt fyrir sér. Hann hefur rangt fyrir sér: ég ætlaði ekki að skrifa almenna sögu kommúnistahreyfingarinnar íslensku, heldur einmitt skoða sérstaklega, að hve miklu leyti íslenskir kommúnistar væru kommúnistar, en þar skildi með kommúnistum og lýðræðisjafnaðarmönnum, að kommúnistar vildu ekki hafna með öllu ofbeldi í stjórnmálabaráttu lýðræðisríkja ólíkt jafnaðarmönnum. Ég rannsakaði því sérstaklega ofbeldisverk og ofbeldishugmyndir íslenskra kommúnista, tengsl þeirra við ofbeldisstjórnir og vörn þeirra fyrir slíkar stjórnir. Ég gengst fúslega við því, að ég skrifaði aðra bók en þá, sem Skafti vildi, að yrði skrifuð.

Skafti hefur líka rétt fyrir sér: íslenska kommúnistahreyfingin naut miklu meira fylgis en hreyfingar kommúnista í engilsaxneskum og norrænum grannríkjum okkar. Þetta þarf að skýra. Sjálfur nefnir Skafti, að íslenskum kommúnistum hafi tekist að virkja hina sterku þjóðerniskennd Íslendinga, sem spratt upp úr sjálfstæðisbaráttunni. Einnig hafi margir alþýðumenn stutt þá vegna baráttu þeirrar fyrir hagsmunum íslensks verkalýðs. Þeir hafi því sprottið upp úr íslenskum jarðvegi, ekki verið sendisveinar frá Rússlandi.

Eitthvað er til í þessum skýringum, en þær hrökkva samt ekki til. Kommúnistar fóru til dæmis fram úr jafnaðarmönnum í kosningunum 1942, en árin á undan höfðu þeir ekki beitt þjóðernisrökum, svo að heitið gæti. Þeir gripu til slíkra raka, svo að um munaði, eftir að Ísland komst á áhrifasvæði Bandaríkjamanna í Kalda stríðinu. Þá varð „stéttabaráttan“ að „þjóðfrelsisbaráttu“. Þetta skýrir því ekki góðan árangur þeirra í kosningunum 1937 og 1942. Og á Íslandi stóðu alþýðumenn frammi fyrir sama vali og í grannríkjunum milli kommúnista og jafnaðarmanna, sem hvorir tveggja sögðust berjast fyrir hagsmunum verkalýðs. Af hverju völdu tiltölulega fleiri alþýðumenn hér á landi kommúnista? Þetta þarf að skýra.  

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. ágúst 2015.)


Jón Steinsson: mistækur ráðgjafi

Jón Steinsson hagfræðingur ræðst þessa dagana af miklu offorsi á sjávarútveginn. Menn klípa sig forviða í handlegginn: Er árið 1920 runnið upp aftur? Á þeirri tíð var ráðist af ótrúlegri heift á sjávarútveginn, þótt vöxtur hans og viðgangur hefði tryggt, að Ísland gæti orðið fullvalda þjóð, fyrst með þilskipaútgerðinni, síðan vélbátum og togurum. Þar var — og er — undirstaðan.

Jón Steinsson krefst auðlindaskatts á sjávarútveg. Slíkur auðlindaskattur var í raun innheimtur á dögum einokunarverslunarinnar dönsku 1602–1787, eins og Gísli Gunnarsson prófessor hefur sýnt manna gleggst: Konungur gaf út verðskrár, þar sem fiskur var vanmetinn og kjöt og ull ofmetin. Í raun var þetta millifærsla frá sjávarútvegi til landbúnaðar, auðlindaskattur. Gallinn var sá, að þetta lamaði framtak í landinu. Sporin hræða.

Jón Steinsson er mistækur ráðgjafi. Í úrskurði Landsdóms í máli Geirs H. Haardes kemur fram, að Jón hafi 20. mars 2008 sent Geir (sem hann tengdist sem fjölskylduvinur) tölvubréf, þar sem hann hafi varpað því fram, „hvort ríkið og Seðlabankinn eigi að bjóða bönkunum upp á einhverja fjármögnunarkosti í erlendri mynt áður en málin komast á það stig að einhver bankanna verður kominn í veruleg vandræði“. Jón vildi með öðrum orðum ausa gjaldeyrisforðanum í bankana!

Þegar bankahrunið var síðan að skella á í októberbyrjun 2008, skrifaði hann Geir H. Haarde annað tölvubréf, þar sem hann sagði „bráðnauðsynlegt að ríkið og Seðlabankinn ykju aðgang bankanna að lausu fé í krónum með því að víkka veðheimildir í Seðlabankanum“ (Skýrsla RNA, 20.3.7). Jón vildi með öðrum orðum prenta krónur til að halda bönkunum á floti!

Jón gerðist síðan forsprakki sérstaks starfshóps, sem sinnti einhvers konar sjálfboðastarfi til hliðar við Seðlabankann (og jafnvel á móti honum). Leiðarljós hópsins var, að dæla þyrfti fé í bankana, en ekki gera þá upp. Skoðun Seðlabankans var hins vegar, að aðalatriðið væri að bjarga íslenska ríkinu frá greiðslufalli og síðan að róa innstæðueigendur til að koma í veg fyrir áhlaup á banka og upplausnarástand. Þess vegna þyrfti að slá varnarhring um Ísland (ring-fencing), en láta erlenda kröfuhafa um að innheimta skuldir sínar hjá búum bankanna. (Auðvitað hefði verið æskilegt að bæta úr lausafjárskorti bankanna, en það var ekki hægt að gera án erlendrar aðstoðar, og Íslandi var neitað um hana. Þetta skildi Jón Steinsson bersýnilega ekki.)

Í heila viku í október var tekist á um þetta í stað þess að framkvæma strax tillögu Seðlabankans. Ráðherrar Samfylkingarinnar og minni spámenn eins og Jón Steinsson voru blindaðir af hatri á þáverandi stjórnendum Seðlabankans. Loks varð Seðlabankinn að fá hinn snjalla og þaulreynda enska fjármálasérfræðing Michael Ridley hjá J. P. Morgan við þriðja mann til að sannfæra ríkisstjórnina um, að bjarga yrði ríkinu og tryggja hag sparifjáreigenda. Bankarnir væru fallnir vegna lausafjárskorts.

Jón Steinsson átti sinn þátt í, að nauðsynlegar björgunaraðgerðir töfðust um viku með ómældum kostnaði. Hann var í algeru uppnámi þessa daga. Síðan hafði hann hin verstu orð um Geir H. Haarde við rannsóknarnefnd Alþingis. Hann kvað Geir hafa verið „á barmi taugaáfalls“, eins og segir í skýrslu nefndarinnar. Sannleikurinn er sá, að þessi orð lýsa Jóni sjálfum best, eins og hann flumbraðist um á þessum örlagatímum. En það hefur hingað til ekki verið talið drengilegt að snúa baki við velgjörðarmanni og fjölskylduvini eins og Jón gerði gagnvart Geir H. Haarde í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefnd Alþingis.

Þótt Jón Steinsson hafi lokað þeim netsíðum, sem til voru um málflutning hans fyrir og í bankahruninu, getur hann ekki lokað heimasíðum Rannsóknarnefndar Alþingis eða Landsdóms. Hann ætti hins vegar að muna ráð Hannesar Hafsteins: „Strikum yfir stóru orðin, — standa við þau minni reynum.“


Draumar fortíðar og draugar samtíðar

Ég skrifaði svohljóðandi athugasemd á Facebook í gær:

Ég hitti Atla Harðarson heimspeking á Þjóðarbókhlöðunni. Hann hafði það eftir Bjarna bróður sínum, að flokkaskiptingin íslenska ætti rætur aftur í Þjóðveldið. Ég svaraði: Enginn vafi. Þórarinn Nefjólfsson, sem vildi koma okkur undir erlent vald, var Samfylkingarmaður. Einnig Guðmundur biskup, sem var góður fyrir annarra manna fé og skildi allt eftir í óreiðu á Hólum. Dæmigerður Samfylkingarmaður. Snorri Sturluson var hins vegar sjálfstæðismaður. Sá maður, sem skrifaði ræðu Einars Þveræings (gegn ofursköttum og misvitrum valdsmönnum), var auðvitað sjálfstæðismaður.

Margt var sagt um þessa færslu, og er hér aðeins sumt greint. Úlfar Hauksson, sem er lærisveinn Baldurs Þórhallssonar ESB-trúboða og hefur kennt í stjórnmálafræðideild, skrifaði:

Var Snorri Sturluson ekki fyrst og fremst heimsborgari og menntamaður sem mundaði stílvopnið og beitti orðræðu frekar en hnúum og bareflum? Hugsjónir hans hölluðust því fremur að umræðustjórnmálum en átakatstjórnmálum og leikjafræði realista. Var hinn mjúki af ætt Sturlunga. Sem sagt alls ekki dæmigerður sjálfstæðismaður dagsins í dag.

 

Ég svaraði:

Hann var dæmigerður sjálfstæðismaður, af því að hann tortryggði valdið, sérstaklega konungsvaldið, eins og sjá má af ræðu Einars Þveræings. Hann var í hjarta sínu á móti því, að við gengjum Noregskonungi á hönd. Öll Heimskringla er viðvörun við konungsvaldinu. Sturla Þórðarson var hins vegar konungsvaldssinni. Heimsmenn eru einmitt þeir, sem geta verið alþjóðlegir og þjóðlegir í senn, sameinað andstæðurnar í sjálfum sér, vaxið upp úr þeim. Dæmi um þetta eru Jón Sigurðsson og Hannes Hafstein. Heimsmenn eru ekki þeir, sem gera lítið úr landi sínu og þjóð og lepja kaffi eða rauðvínsgutl á vinstri bakka Signu (með fé að láni á lágum vöxtum frá íslenskum almenningi). Heimsmenn eru ekki þeir, sem kikna í hnjáliðum, þegar þeir heyra erlenda tungu talaða.

 

Viktor Orri Valgarðsson, sem stundar framhaldsnám í stjórnmálafræði í Bretlandi og hefur aldrei gert athugasemdir, svo að ég viti, við ESB-trúboðið á Íslandi, skrifaði:

Þetta er eitthvað allra dásamlegasta dæmið um svarthvíta pólitíska hugsun sem ég hef séð lengi - og þá er nú mikið sagt. 

Ég svaraði:

Samfylkingin hugsaði ekki um neitt annað síðustu vikuna fyrir bankahrunið og í því miðju en að reyna að hrekja úr embætti eina manninn, sem hafði næstu tvö ár á undan reynt að vara við útþenslu bankanna, Davíð Oddssyni. Síðan gerði hún samninga um Icesave, sem engin stoð var fyrir í lögum eða siðferðisvitund okkar, en hefðu brennimerkt Sjálfstæðisflokkinn. Eftir þetta hefur hún gerst einsmálsflokkur, sem trúir á Evrópusambandið af sama ákafa og Þórarinn Nefjólfsson þjónaði Ólaf digra. Hún er flokkur þeirra, sem skammast sín fyrir að vera Íslendingar. Taugar hennar eru ekki til fortíðarinnar, Egils Skallagrímssonar, Snorra Sturlusonar, Jóns Sigurðssonar, Hannesar Hafsteins, heldur til skriffinnanna í Brüssel. Ég hætti að sækja deildarfundi í minni deild, eftir að farið var að tala ensku á deildarfundum — í háskóla, sem var stofnaður á hundrað ára afmæli Jóns Sigurðssonar, svo að við gætum lesið íslensk lög, íslenska sögu, íslenskrar bókmenntir, ekki dönsk lög, danska sögu, danskar bókmenntir (og því síður ensk lög, enska sögu, enskar bókmenntir).

 

Einn okkar ágætasti rithöfundur, Guðmundur Andri Thorsson, dálkahöfundur í blaði Jóns Ásgeirs og Ingibjargar (sem búsett eru erlendis eins og selstöðukaupmenn), skrifaði:

Sennilega alveg rétt hjá þér Hannes. Snorri veðjaði á rangan hest í Noregi og hafði eins og þið oftrú á eigin dómgreind og "samböndum", þegar þið klúðruðuð sambandi Íslands við Bandaríkin um aldur og ævi fyrir brottför hersins. Snorri studdi Skúla jarl til metorða í Noregi og hélt að hann myndi gera sig að jarli yfir Íslandi. Það fór eins og það fór. Snorri var fjáraflamaður eins og þið, valdaplottari eins og þið og fremur illa liðinn eins og þið. En ólíkt ykkur var hann snjall rithöfundur, eða kannski bara snjall í að láta búa til bækur fyrir sig. Ræða Einars þveræings er hins vegar skrifuð af einhverjum VG-manni. Kannski nafnlaus munkur eða nunna. 

Ég svaraði:

Líklega er Guðmundur Andri Thorsson fyrsti Íslendingurinn, sem reynir að mæla aðförinni að Snorra 1241 bót eða skýra hana sérstaklega honum til niðrunar. En ræða Einars Þveræings hefur hins vegar verið misskilin áður: Hún er ekki ræða gegn bandaríska varnarliðinu á Miðnesheiði, heldur gegn ofursköttum konunga. Íslendingar voru vissulega ekki tregir til að játast Noregskonungi 1262 vegna þjóðernisstefnu, sem kom síðar til sögu, heldur vegna ótta um ofsköttun. Þeir töldu, að konungar væru vísir til að leggja á þá of þunga skatta og skyldur. Þetta var auðvitað alveg rétt hjá bændunum, enda hneyksluðust þeir Vilhjálmur af Sabína og Loðinn Leppur yfir þeim, eins og þú núna yfir okkur. 

Guðjón Friðriksson sagnfræðingur, sem hefur skrifað prýðilegar bækur um Hannes Hafstein og Jón Sigurðsson og varð sem betur fer ekki ósnortinn af þeim hetjum, skrifaði:

Voru kannski Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson flokksmenn Þórarins Nefjólfssonar þegar þeir komu okkur undir EES?

Ég svaraði:

EES var ekki afsal á fullveldi. Það var svipað samningnum, sem Íslendingar gerðu 1022 við Noregskonung um gagnkvæman rétt Íslendinga og Norðmanna í löndunum tveimur. ESB er hins vegar hliðstætt samningnum, sem Íslendingar gerðu nauðugir 1262, af því að þeir óttuðust einangrun landsins. Hins vegar er rétt, að Jón Baldvin er flokksbróðir Þórarins Nefjólfssonar.

Guðjón svaraði:

Góður ertu Hannes. Auðvitað var EES afsal á fullveldi. Við höfum engin áhrif á setningu þeirrar löggjafar sem Alþingi verður að gangast undir í stórum stíl frá ESB. Annars er svona samanburður við þjóðveldis- og Sturlungaöld í besta falli hlægilegur nú til dags. Þetta var iðkað mjög í sjálfstæðisbaráttunni og ekki síst í sambandi við hersetu Íslands. Á kaldastríðsárunum var Þórarinn Nefjólfsson oftast Sjálfstæðismaður. Samkvæmt þér hefur hann sem sagt skipt um flokk.

Ég svaraði:

Nú, svo að Jón Baldvin var að segja ósatt, þegar hann fullyrti á þingi (og fékk stuðning mikilsvirtra lögfræðinga), að EES samningurinn væri ekki afsal á fullveldi? Og það er ekkert hlægilegt við það að vísa til forfeðra okkar: Við njótum þeirra sérréttinda að skilja tungu þeirra og geta lesið bækur þeirra. Þeir eiga sálufélag með okkur. Það eiga herrarnir í Brüssel ekki. Rök Snorra Sturlusonar gegn konungsvaldi eru jafngild nú og þau voru fyrir nær átta hundrað árum.
 

 


Gott hljóð í Bjarna Benediktssyni

Morgunblaðið birti 20. ágúst 2015 langt og rækilegt viðtal við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra. Það er mikið fagnaðarefni, sem Bjarni sagði, að við skulum nú vera að gera upp skuldir okkar og verða laus allra mála við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og aðra aðila. Þetta eru tímamót og gott hljóð að vonum í Bjarna. Raunar skildi ég aldrei, hvers vegna tekið var lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, því að það stóð aðeins óhreyft inni á reikningi í New York, en bar stórfé í vexti.

Bjarni hefur staðið sig vel sem fjármálaráðherra. Það, sem hann segir um Rússlandsviðskiptin, er allt mjög skynsamlegt líka. Auðvitað eru Íslendingar ekki að breyta um neina stefnu í utanríkismálum, eins og mælskugarpar vinstri manna segja, af því að þeim hentar það. Ísland er í sveit vestrænna ríkja. En það er fámennt ríki og veikt og þarf á öllu sínu að halda. Þess vegna hefur það verið meginatriði í stefnu þess alla tíð að einbeita sér að því að selja fisk, ekki að hinu að láta á sér bera.

Nafni Bjarna og frændi, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, sagði eitt sinn, að virðing smáþjóða á alþjóðavettvangi stæði í öfugu hlutfalli við mælgi þeirra á alþjóðaráðstefnum. Eru þeir, sem telja, að Ísland eigi að láta á sér bera á alþjóðaráðstefnum og helst að bjarga heiminum með hátíðlegum orðum, af því að þeir halda, að þessi orð séu ódýr, ekki hliðstæðir útrásarvíkingunum, sem töldu sig öllum öðrum snjallari í fjárfestingum, en hugsuðu lítt um áhættuna?


Gray on Hayek

My old supervisor at Oxford University, John Gray, writes an interesting piece on Hayek in the New Statesman.

Gray’s piece is cleverly written and right on one major point: While Hayek could scientifically refute socialism, showing it to be an intellectual error (seeking to accomplish that which cannot be accomplished), he could not scientifically prove liberalism.

Gray’s criticism of Hayek’s account of spontaneous evolution is less convincing, because the liberal knows that freedom may lose out to totalitarianism (it was a near miss in the 1940s), but such a liberal (or libertarian) is simply pointing out that there is a possibility of non-coercive coordination of individual aims. This is an important insight. How can we achieve so much in a free society, and yet know so little? The answer is: Because we avail ourselves of the price mechanism and other coordinating structures, such as traditions, and thus we utilise much more knowledge than we individually possess. This does not mean that those structures will survive. They have to be defended, and perhaps sometimes guided.

Again, pace Gray, of course classical liberalism is not an ideology (i. e. a system serving the needs of a particular class of people). Classical liberalism is the theoretical insights that 1) socialism is wrong and 2) liberty is possible.


Yfirborðsleg greining Egils Helgasonar

Egill Helgason skrifar um Rússlandsviðskiptin á Eyjunni. Ég gerði eftirfarandi athugasemd:

Greining umræðustjóra Ríkisútvarpsins er mjög yfirborðsleg. Eitt meginatriðið í utanríkisstefnu Íslendinga hefur alla tuttugustu öldina verið að skilja að stjórnmálasjónarmið og viðskiptahagsmuni. Þess vegna léttum við af áfengisbanninu að kröfu Spánverja 1922, héldum áfram að selja Ítölum fisk þrátt fyrir refsiaðgerðir Þjóðabandalagsins vegna innrásarinnar í Eþíópíu 1935 og ákváðum að selja Kremlverjum fisk eftir löndunarbann Breta í fiskveiðideilunni 1952. Með þátttöku í tilraunum Evrópusambandsins til að beita Pútín efnahagsþvingunum (sem eru dæmdar til að mistakast) var í raun horfið frá þeirri stefnu. Það kemur því ekkert við, að við hljótum að fordæma stórhættulega útþenslustefnu Pútíns, þar á meðal hertöku Krímskaga og vopnaskak hans gagnvart Eystrasaltsríkjunum og Póllandi. Það kemur því einnig harla lítið við, að líklega eru Rússar að bregðast við þessum þvingunum með viðskiptabanni sínu, af því að þeir geta ekki greitt fyrir vöru að vestan vegna olíuverðlækkunar. Og þetta mál kemur ekkert við vestrænu samstarfi. Það fer fram innan Atlantshafsbandalagsins, ekki Evrópusambandsins. Stuðningsmenn ESB láta eins og Ísland sé í ESB, en það er ekki þar og hyggst ekki vera þar. Okkar staður er með Norður-Atlantshafsþjóðunum, Bretlandi, Kanada, Noregi og Bandaríkjunum. Annars var ég nú staddur í ávölu skrifstofunni í Hvíta húsinu þennan dag (6. júlí 2004) og söng fyrir Bush. Colin Powell stóð næstur mér, sneri sér að mér og sagði brosandi: „Þetta er nú meiri söngurinn hjá okkur!“


Hugleiðing Baldurs Þórhallssonar

Baldur Þórhallsson birtir hugleiðingu um utanríkismál á Facebook síðu sinni. Ýmsar athugasemdir má gera við hana. Hér nefni ég fimm:

1. „Það að vax­andi hóp­ur áhrifa­manna í Sjálf­stæðis­flokkn­um – stærsta og áhrifa­mesta stjórn­mála­flokki lands­ins – krefj­ist þess að mörkuð verði ný ut­an­rík­is­stefna verður að taka al­var­lega því að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur markað ut­an­rík­is­stefnu lands­manna allt frá lok­um síðari heims­styrj­ald­ar.“ Hér talar ekki óhlutdrægur fræðimaður, heldur fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar og talsmaður Evrópusambandsins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki breytt um stefnu. Hún er fólgin í vestrænu samstarfi. En vestrænt samstarf fer ekki fram innan Evrópusambandsins, heldur Atlantshafsbandalagsins. Engir ráðamenn Sjálfstæðisflokksins hafa reynt að breyta utanríkisstefnunni. Það er áróðursbrella Samfylkingarinnar og Evrópusambandssinna, sem hafa staðið höllum fæti, allt frá því að Grikklandsmálið kom til sögunnar. En Íslendingar eiga að einbeita sér að því að selja fisk.

2. „Þessi fram­ganga rúss­neskra ráðamanna er ein stærsta ógn­in sem smærri ríki Evr­ópu hafa staðið frammi fyr­ir frá lok­um síðari heims­styrj­ald­ar.“ Ég er sammála honum um þetta. En Evrópusambandið er pappírstígur, og við eigum ekki að flækja okkur inn í aðgerðir þess. Ef einhverjir geta mætt rússneskum ráðamönnum, þá eru það Bandaríkjamenn, sem bera Atlantshafsbandalagið uppi.

3. „Íslensk stjórn­völd hafa allt frá því að við feng­um stjórn ut­an­rík­is­mála í okk­ar hend­ur 1. des­em­ber 1918 lagt mesta áherslu á sam­vinnu við lýðræðis­ríki og alþjóðalög og hefðir sem styrkja sjálf­stæði lít­illa ríkja. Þetta var raun­in bæði meðan að landið var ,,hlut­laust’’ og eft­ir að það gerði her­vernd­ar­samn­ing við Banda­rík­in árið 1941.“ Þetta er rangt (og þá á ég ekki við málvilluna „meðan að“). Íslendingar fengu ekki forræði utanríkismála 1918 nema að takmörkuðu leyti. Danir fóru með utanríkismál í umboði Íslendinga allt til 1940. Ísland gat verið hlutlaust, af því að það var í skjóli breska flotans, eins og Jónas Jónsson frá Hriflu útskýrði þá best og skildi. Og Íslendingar lögðu mesta áherslu á að selja fisk, eins og ég hef rakið ýmis dæmi um.

4. „Lít­il ríki eiga mjög erfitt með að fá stór ríki til að fara að kröf­um þeirra en geta í krafti ákvæða um sam­eig­in­lega ákv­arðana­töku haft áhrif inn­an svæða- og alþjóðastofn­ana.“ Hann á væntanlega við Kýpur og Grikkland? Það hefur heldur betur komið í ljós síðustu misserin, hversu mikið tillit er tekið til þeirra í Evrópusambandinu. 

5. „Ísland varð sjálf­stætt og gat stækkað land­helg­ina vegna þess að stærri ríki féllust á það - og alþjóðalög og hefðir styrktu kröf­ur Íslend­inga.“ Þetta er rangt. Hefðir styrktu ekki kröfur Íslendinga (Bretar höfðu veitt hér frá 1412), en alþjóðalög voru að þróast í sömu átt og Íslendingar vildu. Og Íslendingar gátu stækkað landhelgina, af því að grannþjóðirnar vildu að lokum ekki beita okkur svo miklu valdi, að Ísland færi úr Atlantshafsbandalaginu. Bandaríkjamenn (og Norðmenn) neyddu Breta til að viðurkenna landhelgina. Það var hernaðarlegt mikilvægi Íslands, sem réð úrslitum (þótt við hefðum að lokum fengið 200 mílna landhelgi, en miklu síðar og ef til vill of seint).


Engin stefnubreyting Sjálfstæðisflokksins

Margt er sagt af fullkominni fáfræði og barnaskap þessa dagana um utanríkismál. Það hefur alltaf verið stefna íslenskra stjórnvalda að selja fisk fremur en að reyna að bjarga heiminum, enda er hið síðarnefnda ekki á okkar færi.

  • Árið 1922 beygðu Íslendingar sig fyrir Spánverjum, sem vildu ekki kaupa fisk af okkur, nema við felldum áfengisbannið úr gildi. Þetta var auðvitað skerðing á nýfengnu fullveldi.
  • Íslendingar tóku ekki þátt í refsiaðgerðum gegn Ítölum vegna innrásar Mússólínis í Eþíópu, því að þeir vildu selja fisk til Ítalíu.
  • Árið 1939 beygðu Íslendingar sig fyrir kröfum þýsku stjórnarinnar og bönnuðu bók eftir Wolfgang Langhoff um fangabúðir nasista í Þýskalandi, af því að þeir vildu ekki styggja voldugan viðskiptavin, heldur halda áfram að selja fisk til Þýskalands. (Hermann Jónasson lét gera bókina upptæka, en eftir hernám Breta var hún þegjandi og hljóðalaust sett á markað.)
  • Eftir að Bretar settu löndunarbann á íslenskan fisk eftir útfærslu landhelginnar í fjórar mílur 1952, sneru Íslendingar (undir forystu Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra og Ólafs Thors sjávarútvegsráðherra) sér að Ráðstjórnarríkjunum, sem hófu mikil fiskkaup. Fór um 30% útflutningsins til þeirra um nokkurt skeið.

Eflaust hafa Íslendingar gengið of langt stundum í að vernda hagsmuni sína á kostnað hugsjóna, til dæmis þegar Hermann Jónasson bannaði útgáfu bókar Wolfgangs Langhoffs 1939. En það breytir því ekki, að skyldur okkar eru umfram allt við Íslendinga sjálfa. Við þurfum að komast af í hörðum heimi, og þar er ekkert sjálfgefið.

Síðan höfum við auðvitað skyldur við bandamenn okkar í Atlantshafsbandalaginu (og þeir við okkur). En við höfum engar sérstakar skyldur við Evrópusambandið af þeirri einföldu ástæðu, að við erum ekki í því og ætlum ekki í það. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband