Léttúðartal Egils Helgasonar

Viðskiptabann Dags Bergþórusonar Eggertssonar og félaga hans í borgarstjórn á Ísrael hefur vakið mikla athygli. Virðist það vera ólöglegt, enda eru skýr ákvæði um það í lögum, að bannað sé að mismuna mönnum eftir þjóðerni, kyni, kynþætti, trú eða öðrum óefnislegum atriðum. Sveitarfélög hafa ekki heldur vald til að gera ýmislegt það, sem ríkið hefur vald til að gera. Egill Helgason bloggaði hins vegar, að menn yrði að vanda orðaval sitt í umræðum um þetta mál. Rangt væri að nota stór orð eins og „gyðingahatur“ um viðskiptabannið.

Börkur Gunnarsson skrifaði athugasemd við blogg hans:

Eitt sem hefur lengi böggað mig er Hamas. Ef þessi punktur á ekki við að þá bara leiðréttið þið mig. Þegar maður fylgist með ástandinu á Gaza að þá kemst maður ekki undan þeirri tilfinningu að Hamas stjórni þar einsog mafía. Þeir komust til valda með lýðræðislegum kosningum árið 2006. Síðan þá, í níu ár, hefur Hamas passað uppá að halda engar kosningar en halda öllum völdum með reglulegum opinberum aftökum án dóms og laga. Fyrir vikið reyni ég að hafa sem minnsta skoðun á þessum átökum. Þótt ekki sé annað hægt en að finna til samúðar með fjölskyldunum á Gaza og með þeim börnum sem þurfa að alast upp við þessar ömurlegu aðstæður.

 

Þá svaraði Egill fyrir vikið:

Hamas er mafía. Sprengjum bara alla aftur á steinöld.

Mér fannst þessi athugasemd Egils svo einkennileg, einkum vegna þess að hann hafði sérstaklega verið að kvarta undan léttúðartali um alvarlegt mál, að ég hélt fyrst, að einhver hefði brotist inn á síðu hans (eins og kom fyrir annan aðsópsmikinn álitsgjafa, Gylfa Ægisson). Velti ég þessu fyrir mér á Snjáldru (Facebook). Þá skrifaði Ingvar Smári Birgisson þar athugasemd:

Pælingin hjá Agli er að þótt Hamas sé mafía þá sé framferði Ísraels ólíðandi. Tók mig smá tíma að lesa í þetta, en er nokkuð viss um að þetta sé meining Egils.

Börkur Gunnarsson skrifaði athugasemd:

Þetta er ábyggilega rétt lesið hjá þér Ingvar Smári. En afhverju sagði hann þá það ekki? Í svona hrópum eru mörg skilaboð, ein af skilaboðunum eru: þú skalt ekkert vera að brydda uppá öðru sjónarhorni en passar inní umræðuna sem ég vil búa til! Annars færðu yfir þig reiði mína! Ég kann ekki við svona. Sérstaklega ekki frá svona valdamiklu fólki.

Líklega er niðurstaðan því gamalkunn: Dagskrárvald spillir, en ótakmarkað dagskrárvald spillir ótakmarkað. Munurinn á sjónvarpsþáttum þeim á Ríkisútvarpinu, þar sem Egill Helgason sest í öllu sínu veldi í dómarasæti, og efni í öðrum fjölmiðlum er, að við getum ekki sagt upp áskrift að Ríkisútvarpinu.


Bloggfærslur 18. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband