Handrit ánöfnuð eldinum?

jonasgeirogforsetinn1_1269026.jpgSherlock Holmes taldi merkilegast, að hundurinn gelti ekki. Stundum á þetta líka við um bækur. Það getur verið merkilegast, að þær komi ekki út. Ég hef í grúski mínu rekist á nokkur dæmi.

Ungverski rithöfundurinn Arthur Koestler varð hetja kommúnista, eftir að hann slapp vorið 1937 úr fangelsi þjóðernissinna í spænska borgarastríðinu. Tilkynnt var, að kunnur kommúnisti, Þorvaldur Þórarinsson, væri að þýða bók hans, Eftirmæli um Spán (Spanish Testament), fyrir Mál og menningu. En þegar Koestler sneri baki við kommúnismanum, var hætt við útgáfuna.

Jón Óskar vildi þýða skáldsögu eftir rúmenska rithöfundinn Panait Istrati. Forstjóri Máls og menningar taldi það ekki koma til greina, því að Istrati væri svikari við sósíalismann.

Karl Ísfeld þýddi skáldsöguna Fontamara eftir ítalska rithöfundinn Ignazio Silone, og birtust á stríðsárunum kaflar úr henni í Vinnunni, tímariti Alþýðusambands Íslands. En Silone lýsti yfir andstöðu við kommúnismann, og eftir það vildi Mál og menning eflaust ekki gefa bókina út.

Fleiri dæmi má nefna frá liðnum tíma. Önnur eru þó nærtækari. Ég hef þegar minnst hér á bók um Jón Ásgeir Jóhannesson, The Ice Man Cometh, eftir Jonathan Edwards og Ian Griffiths, sem auglýst var á Amazon og átti að koma út haustið 2007. Af þeirri bók hefur ekkert spurst.

Og nú les ég á Wikileaks í skýrslu 2. júní 2008 eftir bandaríska sendiherrann á Íslandi, Carol van Voorst, að Ólafur Ragnar Grímsson forseti hafi ætlað að láta birta um sig ævisögu á ensku haustið 2007 til þess að auka möguleika sína á að fá alþjóðlega trúnaðarstöðu, en hann hafi hætt við útgáfuna, þegar ljóst varð, að hann næði endurkjöri 2008 án mótframboðs.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. ágúst 2015.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband