Af hverju eru Samfylkingarráðherrarnir ekki spurðir?

Fréttamenn sýna hina mestu hörku, þegar þeir spyrja forystumenn Sjálfstæðisflokksins spurninga. Við því væri ekkert að segja, sýndu þeir forystumönnum vinstri flokkanna sömu hörku. En það gera þeir ekki. Ég nefni tvö dæmi:

  1. Ein ástæðan til flóttamannavandans er hið svokallaða „arabíska vor“, sem fólst í því, að Realpolitik eða raunsæisstefna í utanríkismálum þokaði fyrir hugsjónastefnu gagnvart Arabaríkjunum. Bandaríkin sneru baki við gömlum bandamanni í Egyptalandi, og Atlantshafsbandalagið hóf loftárásir á Líbíu. Allt fór á annan endann í þessum löndum og jafnframt í Sýrlandi, þar sem upp risu vígasveitir ISIS, en ráða þarf niðurlögum þeirra af fullri einbeitni. En þau Jóhanna, Steingrímur og Össur sátu í ríkisstjórn, þegar loftárásirnar voru gerðar á Líbíu. Af hverju beittu þau ekki neitunarvaldinu innan Atlantshafsbandalagsins? Af hverju eru þau aldrei spurð út í þetta mál?
  2. Björgólfur Thor Björgólfsson kveðst í bók sinni hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því, að ráðherrar Samfylkingarinnar hafi fengið því ráðið, að Seðlabankinn veitti Kaupþingi neyðarlán í bankahruninu, en ekki Landsbankanum (eða engum). Víst er að minnsta kosti, að seðlabankastjórnin þáverandi var ekki í mjög nánum tengslum við Kaupþing, þótt auðvitað eigi efnislegar ástæður að ráða slíkum ákvörðunum. Af hverju hefur enginn fréttamaður spurt þáverandi ráðherra, til dæmis Jóhönnu, Össur og Björgvin, út í þetta? Höfðu þau enga skoðun á málinu? Létu þau eitthvað til sín taka um það? Ef frásögn Björgólfs Thors er röng, þá hljóta þau að geta vísað henni á bug.

Er Helgi Seljan aðeins orðskár og upplitsdjarfur, þegar hann þarf að eiga við sjálfstæðismenn? Breytist hann í hlýðinn og lágmæltan húskarl, þegar hann stendur andspænis vinstri mönnum? Og fer svo öðrum fréttamönnum? Hvar eru Þórður Snær og Magnús Halldórsson? Eða Ingi Freyr? Var þetta allt í nösunum á þeim?

Raunar mætti spyrja þriðju spurningarinnar, ef út í það er farið. Einhver laumaði upplýsingum í fjölmiðla fyrir kosningarnar 2009 um háa styrki útrásarfyrirtækja árið 2006 til Sjálfstæðisflokksins. Málið varð flokknum erfitt í kosningunum. Mánuði eftir kosningar birti Samfylkingin yfirlit yfir styrki frá útrásarfyrirtækjum. Samtals fékk Samfylkingin 73 milljónir frá stórfyrirtækjum árið 2006. Af hverju hefur Samfylkingin ekki heitið að endurgreiða þetta fé eins og Sjálfstæðisflokkurinn? Á Sjálfstæðisflokkurinn ekki að semja við Samfylkinguna um, að flokkarnir verði samstíga með að endurgreiða þetta fé? Af hverju eru forystumenn Samfylkingarinnar aldrei spurðir um þetta mál?


Bloggfærslur 1. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband