Barnaskapur og hermennska

varnarli_v_1936.jpg

Árið 1977 lauk Svanur Kristjánsson doktorsprófi frá Háskólanum í Illinos með ritgerð um íslensk stjórnmál 1916–1944. Hann minntist þar á þrjá Íslendinga, sem gerðust sjálfboðaliðar í spænska borgarastríðinu á vegum kommúnista, og skrifar í hrifningartón: „Þessi liðsganga hefur verið mjög óvenjuleg og borið vitni um miklar hugsjónir, þar sem Íslendingar hlutu enga hernaðarþjálfun og hermennska var þeim ókunnug með öllu.“

Barnalega er talað. Einn þessara þriggja manna, Hallgrímur Hallgrímsson, var harðskeyttur stalínisti og hafði hlotið hernaðarþjálfun í æfingabúðum Kominterns, Alþjóðasambands kommúnista, í Moskvu árin 1931–1932. Þessar búðir voru kallaðir skólar, enda voru þar kennd marxísk fræði, en einnig voru nemendurnir þjálfaðir í undirróðri, skipulagningu götuóeirða og verkfalla og vopnaburði. Alls vistuðust 23 Íslendingar í þessum æfingabúðum árin 1929–1938. Þjálfunin átti að vera strangleynileg, og var látið svo heita, að Íslendingarnir stunduðu verkamannavinnu í Moskvu. En Morgunblaðið hafði 21. júní 1938 upplýst um hernaðarþjálfun Hallgríms í Moskvu.

Hallgrímur gekk hart fram í stríðinu og hlaut sérstaka viðurkenningu ásamt nokkrum öðrum Norðurlandabúum. Útvegaði ég skjöl um það frá Moskvu og setti á handritadeild Landsbókasafnsins, þar sem þau eru varðveitt með öðrum skjölum um Alþjóðasamband kommúnista. Hallgrímur og hinir tveir sjálfboðaliðarnir úr röðum íslenskra kommúnista, Björn Guðmundsson og Aðalsteinn Þorsteinsson, voru líka í svonefndu Varnarliði verkalýðsins, sem stofnað var 1932. Það gekk einkennisklætt um götur Reykjavíkur og sveiflaði bareflum. Hitt vissu færri, að Varnarliðið stundaði æfingar, og um fimmtán liðsmenn áttu líka á laun skotvopn, sem danskur rafvirki, Henry A. Åberg, hafði haft milligöngu um að útvega.

Fleira er talað barnalegt í ritgerð Svans: Hinir tveir sjálfboðaliðarnir, Björn og Aðalsteinn, börðust aldrei í stríðinu. Þegar þeir komu til Spánar, hafði lýðveldisstjórnin ákveðið að senda alla sjálfboðaliðana heim. Björn fékk skeinu, þegar þjóðernissinnar gerðu loftárás á skála, þar sem hann sat við sýsl sitt. Björn kemur raunar fyrir í bókum bróðursonar síns, Einars Más Guðmundssonar, sem „Ragnar risi“.

Hitt er annað mál, að fjórði Íslendingurinn barðist í Spánarstríðinu, og er af honum talsvert saga. Hann var nátengdur Morgunblaðinu, og skrifa ég um hann seinna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. september 2015. Myndin er af Varnarliði verkalýðsins að þramma um Reykjavík 1. maí 1936, og stendur Hallgrímur Hallgrímsson með barefli fremst til hægri.)


Handrit ánöfnuð eldinum?

jonasgeirogforsetinn1_1269026.jpgSherlock Holmes taldi merkilegast, að hundurinn gelti ekki. Stundum á þetta líka við um bækur. Það getur verið merkilegast, að þær komi ekki út. Ég hef í grúski mínu rekist á nokkur dæmi.

Ungverski rithöfundurinn Arthur Koestler varð hetja kommúnista, eftir að hann slapp vorið 1937 úr fangelsi þjóðernissinna í spænska borgarastríðinu. Tilkynnt var, að kunnur kommúnisti, Þorvaldur Þórarinsson, væri að þýða bók hans, Eftirmæli um Spán (Spanish Testament), fyrir Mál og menningu. En þegar Koestler sneri baki við kommúnismanum, var hætt við útgáfuna.

Jón Óskar vildi þýða skáldsögu eftir rúmenska rithöfundinn Panait Istrati. Forstjóri Máls og menningar taldi það ekki koma til greina, því að Istrati væri svikari við sósíalismann.

Karl Ísfeld þýddi skáldsöguna Fontamara eftir ítalska rithöfundinn Ignazio Silone, og birtust á stríðsárunum kaflar úr henni í Vinnunni, tímariti Alþýðusambands Íslands. En Silone lýsti yfir andstöðu við kommúnismann, og eftir það vildi Mál og menning eflaust ekki gefa bókina út.

Fleiri dæmi má nefna frá liðnum tíma. Önnur eru þó nærtækari. Ég hef þegar minnst hér á bók um Jón Ásgeir Jóhannesson, The Ice Man Cometh, eftir Jonathan Edwards og Ian Griffiths, sem auglýst var á Amazon og átti að koma út haustið 2007. Af þeirri bók hefur ekkert spurst.

Og nú les ég á Wikileaks í skýrslu 2. júní 2008 eftir bandaríska sendiherrann á Íslandi, Carol van Voorst, að Ólafur Ragnar Grímsson forseti hafi ætlað að láta birta um sig ævisögu á ensku haustið 2007 til þess að auka möguleika sína á að fá alþjóðlega trúnaðarstöðu, en hann hafi hætt við útgáfuna, þegar ljóst varð, að hann næði endurkjöri 2008 án mótframboðs.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. ágúst 2015.)


Bloggfærslur 5. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband